Fundur á föstudag um nýtingu fiskistofnanna

Lokabaráttan um Ísland er hafin. Hún snýst um lögverndaðan forgang örfárra fjölskyldna að verðmætustu auðlind þjóðarinnar í boði tæplega helmings kosningabærra Íslendinga.

Áttið ykkur á þessu ágætu lesendur.
Fjórir einstaklingar hafa um nokkurra mánaða skeið reynt að vekja á þessu athygli og þrýsta alþingismönnum og fréttastofum til þeirra lýðræðislegu vinnubragða að taka stjórnun fiskveiða og árangur vísindamanna Hafró við styrkingu nytjastofnanna til opinnar umræðu, en án árangurs.

Nú - í byrjun haustþings - er gerð tilraun í þá veru að rjúfa þessa grafarþögn um það mál sem öll efnahagsleg uppbygging og sameiginleg velferð þjóðarinnar hefur grundvallast á um langa sögu.

Opinn fundur á Cafe Catalínu í Kópavogi n.k. föstudag, 12. sept. kl 17.
Frummælendur:

Brynjar Níelsson alþingismaður

Jón Kristjánsson fiskifræðingur

Grétar Mar Jónsson skipstjóri

Síðan verður opin umræða undir stjórn Sigurjóns Þórðarsonar fyrrv. alþingismanns. 

 


Eldgos í nánd nema því aðeins að ekki verði eldgos

Líklega eru fáar þjóðir ólíklegri til að láta fregnir af yfirvofandi eldgosum raska ró sinni en við.

Þess vegna varð mörgum á að brosa þegar hinn reyndi og ágæti fréttamaður St. 2, KMU missti sálarjafnvægið í eltingarleiknum við Magnús Tuma, nýkominn úr yfirlitsflugi núna á dögunum.

Alveg þangað til, ef Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur lýsir yfir að hann telji ekki lengur líkur á gosi, mun ég trúa því að úr þessu verði gos. 


mbl.is Skjálfti upp á 5,1 í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES eða heimasmíðað?

Það er líklega innbyggt í eðlið að láta þeim mun meira fara fyrir sér sem tilefnið er einfaldara.
Embættismaður sem veit að hann er ekki til mikils líklegur hefur gjarnan þá áráttu að belgja sig út með spekingssvip ef til hans er leitað með ómerkilegt erindi.

Þessi tilhneiging virðist teygja sig æ lengra inn á vettvang löggjafans. 

Margir gefast upp á reglugerðafarganinu þótt um sé að ræða umsóknir um einfalda starfsemi.

 


mbl.is Skeldýrarækt nánast bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandveiðar: Dulræð vísindatilraun eða atvinnuvegur jafngamall búsetu?

Arthur Bogason fyrrverandi formaður baráttusamtaka fyrir réttindum smábátasjómanna ritar í dag grein í Morgunblaðið þar sem hann gerir úttekt á strandveiðunum svonefndu. Þetta er ítarleg samantekt og niðurstaðan gefur greinarhöfundi ekki tilefni til bjartsýni á þennan útgerðarflokk við óbreytt rekstrarumhverfi. Reyndar er sú ályktun upphaf greinar Arthurs og eiginlega eina pólitíska niðurstaðan eftir lesturinn.

Vonandi.

Kannski hefur mér tekist að misskilja minn gamla góðkunningja en ég kem bara ekki auga á að þessi grein eigi annað erindi við lesendur en það að renna stoðum undir þær ályktanir náhirðar LÍÚ að strandveiðar séu gagnslaust fimbulfamb því fisk eigi ekki aðrir að veiða en tæknivæddar útgerðir.

Það er nefnilega hárrétt athugað að við óbreytt umhverfi laga og reglugerðar verða þeir ekki margir sem geta haft strandveiðar að fullu starfi.

Og ég hefði kosið að greinarhöfundur gerði þá ályktun að aðalatriði og þrýsti á stjórnvöld að aflétta glæpavæðingunni sem þau hafa vafið utan um þennan elsta bjargræðisveg þjóðarinnar allt frá landnámi. Og að hann hefði gert þær kröfur að strandveiðar mætti stunda minnst 20 daga í hverjum mánuði með handfærum og án hámarksafla. 

Af því að strandveiðar eru tiltölulega nýtt orð í tungumálinu og stór hluti þjóðarinnar er greinilega orðinn aftengdur sjávarútvegi er rétt að koma því til skila að þarna er ekki um að ræða nýja tilraun í anda pólitískrar snilldarlausnar. Þetta er ekki dulræð- og áður óþekkt vísindatilraun.

Þetta er einfaldlega klaufaleg endurvakning á bjargræðisvegi forfeðra okkar sem stundaður hefur verið við Ísland í meira en þúsund ár. Strandveiðarnar, eins og þeim er stýrt, eru eru klúðursleg tilraun við að skila íbúum sjávarþorpanna sjálfsögðum mannréttindum - réttinum til að fiska úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og með frumstæðustu veiðarfærunum.

Stjórnvöld hafa skipað fyrir um að nartað skuli í þessa auðlind með einhverjum vísindalega útreiknuðum taugaveiklunarbrag svo að tryggt verði að engum standi til boða sá ábati að hann verði öðrum hvatning.  
Það er svo sem eftir öðru hjá fjórflokknum margumrædda sem með hverjum degi sannar betur en áður að hann er handbendi og heimilishjálp útgerðar og bankastofnana.


Landsfundur sjálfstæðismanna, Molbúi og blóðmörsspýta

Flestir af minni kynslóð muna líklega eftir Molbúasögunum. Fátt kann ég að segja af því umrædda fólki en Molbúasögur las ég sem krakki og hafði af þeim dágóða skemmtan án þess að velta fyrir mér uppruna sögupersónanna.

 Þessar sögur koma stundum upp í hugann í tengslum við pólitíska umræðu á Íslandi og þó sérstaklega ein þeirra sem er dæmigerð fyrir það klúður sem stundum verður þegar ráðherrar fara að hafa tilburði við að slá í gegn með gildishlöðnum yfirlýsingum.

Molbúasagan umrædda segir frá því er Molbúi reri einsamall til fiskjar á báti sínum. Þetta var áður en það varð glæpur að veiða fisk nema að fengnu leyfi frá Fiskistofu. Ekki segir af aflabrögðum en skyndilega hvessti og karli leist ekki á blikuna þar sem hann barðist gegn rokinu og sóttist seint róðurinn. Datt honum þá í hug að áheit hefðu mörgum úr háska bjargað og fór að velta því fyrir sér hverju hann ætti að heita. Hann mundi að kona hans hafði verið að elda slátur þegar hann fór að heiman og engan mat visssi hann betri en heitan blóðmör. Og hann tók þá erfiðu ákvörðun að heita því að bragða aldrei framar blóðmör ef honum auðnaðist að sleppa lifandi úr þessum háska. 
Ekki er að orðlengja að eins og hendi væri veifað lægði vind og gerði koppalogn.
Molbúinn rölti til bæjar eftir að hafa ráðið skipi sínu til hlunns og á móti honum tók eiginkonan himinglöð og slengdi hrokafullu fati af rjúkandi blóðmör á borðið. Molbúinn horfði hungruðum angistaraugum á blóðmörinn minnugur hins ægilega fyrirheits sem hann sá í sviphending að myndi fylgja honum til æviloka og ræna þessari dýrmætu ánægju.
Skyndilega datt honum snjallræði í hug. Og það fólst í því að heitið teldist uppfyllt þótt hann borðaði blóðmörinn ef hann borðaði ekki vömbina utan af keppnum. Hann tók glaður til matar síns og innan skamms hafði hann lokið við blóðmörskeppinn. Vömbin lá á diskinum ilmandi og það rifjaðist upp hversu mikið lostæti nýsoðin vömb væri.

Hann sá í hendi sér að einhvern veginn yrði hann að snúa ofan af þessari kvöð. Keppnum hafði eiginkonan lokað með því að þræða opið saman með mjórri spýtu. Og nú sagði hann við sjálfan sig að það væri áreiðanlega allt í lagi að éta blóðmörinn og vömbina með ef hann snerti ekki blóðmörsspýtuna. Og svo át hann vömbina með góðri lyst og enn betri samvisku.

Sjálfstæðismenn keppast við að sannfæra hver annan með því að landsfundur Flokksins sé æðri loforðum formannsins. Landsfundurinn hafi kveðið skýrt á um að ekki yrði haldið áfram með umsókn í ESB. Þess vegna skipti þau orð Bjarna formanns að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa fjandans umsókn engu máli. Landsfundurinn leyfi ekki atkvæðagreiðslu.


Þessi dýrmæta lausn bjargaði geðheilsu margra góðra Flokksmanna og málið er dautt.

Eða, eiginlega dautt, semsagt, eða þannig sko! 

Landsfundarsamþykkt sjálfstæðismanna er ígildi blóðmörssspýtu Molbúans.    


Hvað er þessi maður að segja okkur um sjávarútveg?

Er Hörður Arnarson búinn að fá aukavinnu sem áróðursfulltrúi LÍÚ með skorttöku í aflaheimildum sem aðalverkefni?

Ber að skilja hann svo að virðisauki á einingu muni skerðast ef veiðar verði auknar?

Líklega hef ég misskilið manninn en sé ekki opinberunina sem á að tengjast því að veiða minna en auðlind okkar í fiskistofnum býður upp á.

Kannski þarf að segja forstjóranum frá því að það hefur orðið þróun í matvælaiðnaði og meðferð afla um allan heim á síðustu 30 árum?  


mbl.is Trúir á tvöföldun í orkuiðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nefnist heilkennið?

Maniskur ótti og hatur á öllum sköttum og gjöldum til samfélagsins er glöggt einkenni á öllum efnahagslegum ákvörðunum sjálfstæðismanna.

Þetta er bundið við þá þinglýstu hugmyndafræði stjónmálasamtakanna (hagsmunasamtakanna) að enginn skuli bera ábyrgð á öðrum en sjálfum sér, en lítill vegur þó að menn láti eitthvað gott af sér leiða ef þeir verða ofurölvi af peningum sínum og fái timburmenn. Þá sé voðalega hollt fyrir sálartetrið að láta nokkra brauðmola detta á gólfið handa því bágindafólki sem ekki hafi nennt að bjarga sér.

Þetta er að vísu málað nokkuð dökkum litum og vissulega er þorri sjálfstæðismanna mikið afbragsfólk sem tekur fullan þátt í samfélagslegum verkefnum.

En svona efnahagsaðgerðir eru barnalegar og eiginlega hlægilegar fremur en hitt.

Það munar engan einstakling um þessar lækkanir en á það skal minnt að velferðarkerfi okkar er vanburða á mörgum sviðum vegna féleysis og ýmsar öryggisstofnanir eru lamaðar að hluta af sömu orsök.

Og þess vegna eru þessar lækkanir bara aðför að því velferðarkerfi sem svo margir þurfa á að halda en gera engum manni hið minnsta gagn enda einungis byggðar á trúarbragðakenningu. 

Þetta slær þó enn fastar þegar þess er gætt að auðlindaráðherra ríkisstjórnarinnar neitar að auka veiðiheimildir í ýsu þó flest grunnmið krapi af fádæma ýsugengd.

Þar eru líklega milljarðar í húfi ásamt afdrifum atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. 

Ríkisstjórn LÍÚ er ríkisstjórn hægri manna og forréttindahópa sem slær- ekki pólitískar keilur populismans heldur - pólitísk sinustrá.

Og sennilega svínvirkar þetta vegna þess að sjálfstæðismenn trúa yfirleitt því sem þeim er sagt að þeir eigi að trúa að sé samkvæmt ritúali kapitaliskra Fræðisetninga.

Og framsóknarmenn halda sínum vana sem er að huxa voða lítið en mæta bara á kjörstað.      


mbl.is Vill lækka bensín- og áfengisgjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þessi þögn?

Norðmenn og Rússar veiða í ár í Barentshafinu 1 milljón tonn af þorski.

Máttu veiða 110 þús. árið 2000 en veiddu margfalt.

Norðmenn eru búnir að gefa bátum að 11 metrum fullt frelsi til veiða, ótakmarkað frelsi!

Hvar er frétt Morgunblaðsins um þetta stórmál fyrir strandbyggðir grannþjóðar og frændþjóðar?

Er þetta feimnismál?

Er það feimnismál vegna þess að íslenskir sjómenn geta ekki stungið niður færi eða lagt línustubb til að veiða upp í þorskkvótann því grunnslóðin krapar af ýsu sem þeir eiga ekki kvóta fyrir?

Og þegar beðið er um 5000 tonn af ýsukvóta í viðbót segir Hafró/auðlindaráðherrann Sigurður Ingi: Nei!

Verður nokkuð erfitt að skýra út fyrir þjóðinni af hverju besta fiskveiðkerfi í heimi skilar eftir 30 ár afrakstri sem bindur okkar nýja og fullkomna rannsóknarskip vegna þess að við höfum ekki efni á að gera það út?

Verður ekki erfitt að útskýra neitt?

Útskýra skorttökuna í aflaheimildum sem skilar leiguverði hærra en afurðaverði?

Útskýra af hverju útgerðir geta ekki greitt til ríkisins fáeinar krónur en leigt nýliðum fyrir okurverð? 

Útskýra þögnina um veiðar Norðmanna og frelsi smábátanna?

Útskýra ákafa "samninganefndarinnar um makrílinn", ákafann í að fá að FÓÐRA STÆRRI SKERF af ránfiski í lögsögu okkar heldur en Norðmenn leggja til?

Útskýra af hverju enginn - sem ber ábyrgð á þessu sem hér er rakið - gengur fram fyrir þjóð sína; biðst afsökunar og lýsir yfir að hann hundskammist sín? 

Og er þó býsna margt hér enn ótalið sem ætti að vera refsivert. 


Áramót

Sendi öllum bloggvinum sem öðru góðu fólki mínar bestu óskir um gæfuríkt ár.

Þakka líka öll vinsamleg samskipti ársins 2013.

Vonum að nýja árið verði ekki ár mikilla pólitískra ákvarðana. 

Lifið heil!  


Hver hefur lekið þessari frétt?

Nú er engu að treysta lengur. Nú getum við búist við því að einhverjir ábyrgðarlausir afglapar fari að krefjast þess að aflétt verði glæpavæðingu fiskveiða á Íslandi.

Eins og við vitum þá gilda ströng viðurlög ef menn láta sér verða að veiða fisk nema með leyfi frá LÍÚ og framsóknarmönnum.

Nú dugar ekki annað en fundur hjá þingflokki Framsóknarflokks með fulltrúum frá LÍÚ.

En það er auðvitað grundvallaratriði að hann verði "leyndó".

 


mbl.is Aflabrögð með besta móti í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband