Sjómannadagur

Til hamingju með daginn ykkar íslensku sjómenn!

Líklega er óvenju miklu skrökvað að íslensku þjóðinni á þessum hátíðardegi sjómanna sem nú er haldinn í áttugasta sinn.

Og mestu er skrökvað þar sem síst skyldi - í hátíðaræðum framámanna þjóðarinnar, að ógleymdum ræðum prestanna sem segja oftast það sem til er ætlast af þeim.

Það er nefnilega ósatt sem einlægt er haldið fram, að pólitísk nýtingarstefna (verndarstefna) undir stjórn Hafrannsóknarstofnunar hafi virkað af snilld og skapað okkur þann ábata sem til var ætlast. Framfarir í sjávarútvegi og framfarir í nýtingu og meðferð hráefnis hafa orðið verulegar og hafa tengst þeirri þekkingu og tæknibyltingu sem orðið hefur í flestum eða öllum atvinnugreinum.

Glæpavæðing útgerðar og sjómennsku er svo sjálfstæður glæpur sem alfarið er á pólitískri ábyrgð stjórnvalda okkar um áratugi.

Síðan má ekki gleyma því tjóni sem orsakast hefur af vísindalegri ráðgjöf þeirrar stofnunar sem falið var að greina ástand og nytjaþol fiskistofnanna.
Afleiðingarnar eru skelfilegur byggðaflótti svo að til landauðnar horfir á stórum svæðum við strendur landsins.

Lokaorðin eru tekin úr formála bókarinnar Fiskleysisguðinn sem gefin var út af Nýja Bókafélaginu ehf árið 2001 og er samantekt blaðagreina úr Morgunblaðinu sem Ásgeir heitinn Jakobsson rith. og blaðamaður skrifaði um mistök fiskifræðinganna hjá Hafró.
Umræddur formáli 
sem er snilld - er ritaður af Jakobi F. Ásgeirssyni sem er sonur höfundar.

Skylt er að biðja höfund afsökunar þegar texti er slitinn úr samhengi.

,,Faðir minn kvað Hafrannsókn engan lærdóm vilja draga af fiskveiðisögunni sem sýndi hvað íslenzk fiskislóð væri viðkvæm fyrir of stórum stofni. Hann benti á skrif erlendra fiskifræðinga sem héldu því fram að mesta hindrunin í verndun fiskistofns væri ekki sóknin heldur fiskurinn sjálfur og að of lítil sókn gæti ekki síður verið fiskistofni skaðleg en of mikil.

Tilraun Hafrannsóknar hefði mislukkast vegna þess að að hrygningarstofninn 1971 var stór og fiskislóðin þoldi ekki hvort tveggja, stóran stofn af ætisfrekum stórfiski og of mikla nýliðum vegna of mikillar verndunar ungfisks.

   Í skrifum sínum lagði faðir minn áherslu á að fiskifræðingar gætu engu spáð um aflabrögð og sagði:

Það leiðir af sjálfu sér að fiskifræðingum okkar gangi illa að ná upp fiskistofni miðað við þá þekkingu, sem þá vantar til þess. Þeir geta í engu bætt sjávarhagana fyrir fiskinn, engin áhrif haft þar á æti, ekki verndað fisk fyrir hitabreytingum sem örva eða tefja vöxt, engu ráðið um göngur fisks, að eða frá landinu, engu ráðið um fisksjúkdóma, engu ráðið um áhrif eins fiskistofns á annan, engin áhrif haft á hvað selur og hvalur og súla étur af fiski og átu.

Af þessu getuleysi í undirstöðuþáttum og vanþekkingu á öðrum þáttum geta þeir ekki sagt með neinni vissu hvort á þessu eða hinu tímaskeiðinu sé fremur rétt að grisja á slóðinni með aukinni sókn eða reyna að auka ásetninginn með minnkun sóknar, og stofnmælingar þeirra þykja ótraustar og hafa reynst það."

Þessi endursögn Jakobs F. Ásgeirssonar á fáeinum ályktunum föður hans segir margfalt meira um fáviskuna sem þessari þjóð hefur verið seld af hennar mikilvægustu visindamönnum en margar ræður innblásnar af oflæti og vanþekkingu.

Í stjórnlausri sókn árin 1962 - 1971 veiddum við að meðaltali á ári 403 þúsund tonn af þorski.

Árin 1972 - 1975 veiddum við undir takmarkaðri stjórn 380 tonn til jafnaðar á ári.

Það voru kostnaðasöm mannréttindabrot þegar stjórnmálamönnum hugkvæmdist að hygla sjálfum sér og nánustu vinum og fjölskyldum með því að glæpavæða sinn elsta atvinnuveg.

Og afleiðingarnar eru skelfilegar.

Þrátt fyrir að fáeinar moldríkar fjölskyldur græði á tá og fingri á skortstöðu og vannýtingu.
En að baki þeim ábata er engin snilld.


Bloggfærslur 11. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband