Stöðugleikasáttmálinn rofinn!

Eiginlega er það orðið stórmerkilegt hversu mikla trú menn hafa á þessum leik með orðskrúð. Og undarlegt að jafn ágætur maður og Vilhjálmur Egilsson skuli láta sér verða að hanga ennþá á þessu skelfing leiðinlega bulli. Það skiptir engu þótt ódýr og marklaus fullyrðing sé dúðuð í einhvern búning þungavigtarmálfars, hún verður aldrei marktæk nema því aðeins að hún standist rök.

Ríkisstjórninni ber að gæta jafnræðis þegar auðlindum þjóðarinnar er ráðstafað, þ.e.a.s. ef hún á annað borð tekur það hlutverk að sér. Útgerðir hafa aldrei átt fiskimiðin en aðeins fengið nýtingarrétti úthlutað frá ári til árs. Það er engum stöðugleika útgerðarfyrirtækja ógnað með þessu frumvarpi. Skötuselur er tiltölulega ný fisktegund við Ísland í þeim mæli sem nú og er greinilega í mikilli sókn. Ástæður þess eru auðvitað breytingar í lífríkinu. Lítið er vitað um viðkomu og stofnstærð skötuselsins og ekki ástæða til taugaveiklunar eða ótta við ofveiði nema vísbendingar um það komi í ljós eftir þessa reynslu.

Hvorki þessum fiski né öðrum fisktegundum verður bægt frá veiðarfærum eins og t.d. grásleppunetum, en nú er sú vertíð að hefjast af krafti allt umhverfis land.

Ný viðbót í atvinnuveiðar er eðli sínu samkvæmt talin vera happ en á ekki að verða að vandamáli.

Orð verða ódýr ef þau eru notuð af ábyrgðarleysi eins og í tilvitnaðri yfirlýsingu Vilhjálms Egilssonar formanns Samtaka atvinnulífsins. 


mbl.is Stöðugleikasáttmálinn rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála þér, mér finnst Vilhjálmur Egilsson vera að leika leikinn sinn, sem þarf að vera í lagi, eins og hjá hundonum í sveitinni þegar þeir sýna húsbóndahollustu, alltaf fundist þessi náungi sorglegt eintak.

Robert (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 01:19

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvaða stöðugleikasáttmáli? Það er ekkert eftir af honum nema það sem að launþegum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum stendur.

Gunnar Heiðarsson, 23.3.2010 kl. 01:21

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þegar neysluverðstöluvístalan afsannaði sig og fasteignalánið mitt át allan kaupmátt síðustu 30 ára, Hrunið ? þá var minn stöðugleiki brostinn.

Áherslurnar eru greinlega aðrar í fílbeinsturnunum.

Júlíus Björnsson, 23.3.2010 kl. 02:54

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það rann mikill sannleikur upp fyrir mér í morgun þegar ég las blogg eftir l,í,ú.

Síðasta setningin var svona:

"Það er gaman að eiga bát í dag!"

Viljum við ekki að sem flestir Íslendingar geti sagt eitthvað svona- að það sé gaman að búa í eigin landi? 

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 09:53

5 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Spunameistarar & skrímsladeild Samspillingarinnar ELSKAR að kasta fram lýðskrumi eins og t.d.: "Norræna velferðastjórnin" - "Skjaldborg" - "Stöðugleikasáttmáli" - o.s.frv.  ASÍ er ekkert annað en "skúfufyrirtæki tengt Samspillingunni þar sem TRÚÐURINN Gylfi fer á kostum í neikvæðri merkingu þess orðs - hann spillar með í öllum LEIKSÝINGUM sem þessi auma & stórhættulega ríkisstjórn setur upp.  Stjórnmálamenn & ASÍ eru auðvitað rúnir trausti, því flest allir sjá sem betur fer í gegnum þeirra ömurlega LÝÐSKRUM, eða með þínum orðum: "...leik með orðskrúð."  Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð hjá skötuhjúunum Lady GaGa & SteinFREÐ skattmann - nú er mál að linni - þessi stórhættulega & vita vonlausa ríkisstjórn verður að fara frá.

Ekkert að því að gefa LÍÚ hagsmunaklíkunni einn á lúðurinn - ekkert nema væl hjá þeim þegar þeir væla út af þessum veiðum á skötusel - í raun löngu tímabært að "rannsaka & ræða af viti KVÓTASVIKAMYLLUNA" sem Halldór & Dabbi kóngur komu á hérlendis.  Kvótasvikamyllan bjó til ótrúlega AUÐ fyrri fá útvalda aðila & fjölskylkdur sem eru "innmúraðar í spillinguna - fjölskyldur eins og þá sem Halldór Ásgrímsson tilheyrir" - okkar siðblintu & spiltu stjórnmálamenn hafa í raun breyt okkar samfélagi í RÆNINGJASAMFÉLAG - og skelfilveg verkstjórn Lady GaGa mun tryggja það að í sumar þegar kosið verður þá kemst RÁNfuglinn - sorry - BÓFAflokkurinn aftur til valda - ótrúlegt samfélag - vægast sagt.

kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 23.3.2010 kl. 10:29

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jakob Þór: Þakka þér fyrir. Það eru svona "eldmessur" eins og þú settir hér inn í hita augnabliksins sem við þurfum að flytja daga og nætur til að vekja þjóðina af svefndrunganum.

Þetta land og auðlindir þess er fyrir fólkið sem hér býr en ekki fyrir einhver útvalin fyrirtæki.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 11:30

7 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sammála þér Árni eins og alltaf.

Kv. Nilli.

Níels A. Ársælsson., 23.3.2010 kl. 14:39

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ekki er vandamál að skrifa undir þetta Árni. Ekki er ósennilegt að nú hafi þeir snúið sér áar Vilhjálms, frá Víkum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.3.2010 kl. 14:55

9 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Nokkuð augljóst að SA er tilbúið að fórna miklu fyrir sérhagsmuni skjólstæðinga. SA er gjörseld gömlu stjórnarflokkunum og LÍÚ.

Andrés Kristjánsson, 23.3.2010 kl. 15:03

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér innlitið Níels. Við höfum lengi verið sammála um þetta handónýta kerfi dauðans. Afskaplega margar og ódýrar ályktanir um þetta kerfi hafa fengið að lifa og þróast óáreittar og á endanum orðið samningur um þjóðarlygi.

"Það má auðvitað ýmislegt að þessu kerfi okkar finna en við höfum bara ekki ennþá fengið neitt betra!"

Hversu oft og lengi hefur svona andskotans þvaður fengið að fljúga á vængjum heimskunnar í samfélagi okkar?

Sannleikurinn er auðvitað sá að við höfum ekki prófað neitt annað kerfi því þetta kerfi er forsenda þess að illa reknar útgerðir hafi fengið framhaldslíf á kostnað allrar þjóðarinnar. Og á kostnað flestallra hinna dreifðu byggða.

Þetta kerfi sem hyglar sponsorum spilltra stjórnmálaflokka er búið að handjárna fólkið í landinu svo átakanlega að það er orðið dofið og viljalaust verkfæri böðla sinna.

Nú er frelsisbaráttan byrjuð og nú má enginn draga sig í hlé við að velta þessu oki auðmagnsins af þjóðinni.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 15:03

11 Smámynd: Auðun Gíslason

Sérhagsmunagæslan æ og sí!  Og kreppan dýpkar og dýpkar!  Og lengist og lengist!  Hvernig í ósköpunum á þessi þjóð að leysa málin?  Hér er hver höndin uppi á móti annarri?  Tillaga um að þingmenn vinni saman að málum, sem þeir geta verið sammála um,  þykir undur og stórmerki, og Birgitta Jónsdóttir, flytjandi tillögunar og fyrrverandi hippi og atvinnumótmælandi, mesta mannvitsbrekkan á Alþingi!

Og hefur svo sérhagsmunagæslan, pólitísk sem fjárhagsleg, skilað okkur hvert?  Hrunflokkarnir á leið til valda, enda var það hinn duldi tilgangur alls bramboltsins í nafni þjóðarinnar.  Allt frá Icesave-málinu til stóra skötuselsmálsins.  Og hvað er svo framundan í lífi þjóðarinnar?  Áratuga kreppa undir ríkisstjórn Bjarna Ben og Sigmundar?  http://www.dv.is/blogg/svarthofdi/2010/3/23/betra-lif-med-bjarna/

Auðun Gíslason, 23.3.2010 kl. 15:08

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Axel. Víknamenn, afkomendur Önnu gömlu eru flestir karlmenni til lundar og í öllu sínu atferli. En stjórnmálaskoðanir þeirra margra eru dálítið hráslagalegar eins og þeir sjálfir sumir hverjir!

Vilhjálmur Egils er bara skemmdur af sínum akademiska lærdómi ásamt tryggðinni við Flokkinn sem hefur notað hann óspart.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 15:08

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Andrés. Ég bind miklar vonir við að endurreisn mannlífs á Íslandi og nýbylgja bjartsýni og athafna á landsbyggðinni muni rekja upphaf sitt til þess dags þegar Vilhjálmur Egilsson fyrir hönd S.A. kastaði stríðshanskanum.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 17:17

14 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ertu að meina Önnu Lilju Tómasdóttur, dóttur Höllu Guðlaugsdóttur?  Ert þú af þessum meiði Árni? Ég er svolítið ryðgaður í þessu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.3.2010 kl. 19:44

15 identicon

Góður pistill, eins og jafnan hjá þér Árni.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 20:03

16 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Algerlega sammála þér Árni, eins og alltaf. þetta verður varla betur útskýrt, en vita skaltu að það eru innvígðir og innmúraðir hérna á línunni sem ekki eru sammála, frekar en fyrri daginn.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 23.3.2010 kl. 20:10

17 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Mér datt í hug að kanna hvaða stefnu Sjálfstæðismenn hafa í auðlindamálum Íslendinga og kíkti á vef þeirra www.xd.is

Þar segir;  Verja sjálfstæði þjóðarinnar og  tryggja yfirráð yfir auðlindum Íslands.  

Það stendur bara ekki HVERJUM á að tryggja yfirráðin. 

Þeir geta kannski svarað því ?

Anna Einarsdóttir, 23.3.2010 kl. 20:12

18 identicon

Segi eins og aðrir hér, að pistill Árna er góður, eins og þeir hans aðrir. 

Þar sem við Árni þekkjum báðir til Króksins og einnig til ætta Villa, þá finnst mér allt vera orðið svo andhælis og öfugsnúið hjá honum blessuðum.  Fyrir honum hefur farið eins og mörgum af þeirri kynslóð sjálfstæðismanna, sem mest barðist fyrir "bákninu burt" og fyrir "frelsi einstaklingsins", að þeir mökuðu hvað mest krókinn á "bákninu" og eru nú helstu varðliðar sérhagsmuna-gæslunnar.  Gildir í þessu tilviki hið fornkveðna:  "Það sem varast vann, varð þó að koma yfir hann"...ef hann græddi á því.

Hagsmunagæsla SA í auðlindamálum -með Villa í stafni- minnir mig helst á Sovétríkin þar sem sumir voru svo miklu jafnari en aðrir eins og Georg Orwell orðaði það svo vel, en mig langar til að bæta við að í hugskoti Villa og Co. virðast sumir líka vera svo miklu frjálsari en aðrir.  Því spyr maður hvort Villi og Co. sjái ekki lengur bjálka-bákn sitt, sér í lagi svona í ljósi frelsis vaðals þeirra á tyllidögum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 21:22

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Axel. Ég finn nú ekkert um þessa kerlingu en mann þekkti ég vel sem taldi að þetta stríða lunderni Víknamanna væri arfur frá henni. En þessu brá ég nú reyndar inn í umræðuna að gamni mínu enda á ætterni manna lítil erindi inn í pólitiska umræðu öðru jöfnu.

Ekki skyldur þessu ágæta fólki, nei.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 22:15

21 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Misskyldi afsvar þitt í 19 Árni. 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.3.2010 kl. 22:45

22 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafsteinn. Það er hafið yfir allan vafa að það eru margir á annari skoðun en ég í þessu máli. Og vissulega klæjar mig í fingurna eftir því að þeir komi með þær skoðanir hingað og leyfi mér að gera á þeim ofurlítinn uppskurð.

Reyndar flokka ég það ekki undir skoðanir að hneggja eins og forystugraddinn eða baula eins og elsti tuddinn í fjósinu. Eins og við flest höfum séð þá er niðurstaða "besta fiskveiðistjórnunarkerfi heimsins" eftir 30 ára reynslu hreinasta skelfing í öllu tilliti. Aflinn hefur minnkað niður í þriðjung en allir firðir og flóar fullir af fiski! Sjávarbyggðirnar hrundar og fasteignaverð íbúða ámóta og söluverð beituskúranna fyrir 30 árum.

Kvótinn svonefndur er keyptur og seldu og leigður þrátt fyrir að enginn sé eigandinn. En árlega stekkur einhver spákaupmaðurinn út úr greininni með milljarða söluhagnað og skilur nýjan eiganda eftir með skuldirnar og hitt draslið.

Hvernig má það vera að 600 milljarða skuldir myndist á 30 árum í rekstri sem er svo vel stýrt sem af er látið?

Ég er ekki að amast við því þótt útgerðarmaður efnist af góðum rekstri. En mér finnst málið horfa öðruvísi við ef hann leigir frá sér stóran hluta aflaheimilda sem hann þiggur endurgjaldslaust og nýtir hagnaðinn í að kaupa fótboltafélag í Englandi.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 22:48

23 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góð færsla hjá þér Árni.

Gunnar Skúli Ármannsson, 23.3.2010 kl. 23:00

24 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gaman að þessu hliðarspori okkar Axel minn góður. Hitt vil ég að komi skýrt fram að tilgangur minn var aldrei að varpa rýrð á persónu Villa Egils sem er hinn vandaðasti maður og drengur góður eins og hann á kyn til. Pólitísk störf hans eru hinsvegar allt annar þáttur og mörg dæmi þess að vandaðir menn verði þjóð sinni til óþurftar ef þeir ganga til liðs við spillt öfl.

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 23:06

25 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það var ekki ætlan mín heldur, enda væri syndin lítil ef hún væri ekki meiri en skyldleiki við okkur aumingjana tvo.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.3.2010 kl. 23:21

26 Smámynd: Árni Gunnarsson

Anna mín Einars. Það er grátbroslegt að frjálshyggjuklerkarnir belgja sig hvað mest út þegar þeir fara að minnast á kommúnista. Inni á Alþingi eru hinsvegar fáir sjálfstæðismenn sem hafa unnið annars staðar en hjá öðrum og flestir líklega hjá ríki og sveitarfélögum. Þeir tala ósköpin öll um skelfingarnar sem fylgja forsjárhyggju kommúnista. Sjálfir hafa þeir enga stefnu í einkaframtaki sem þeir tengja sína pólitísku stefni við.! 

Ríkið á að hafa frumkvæðið og alltaf á sömu lund. Með því að hirða auðlindir þjóðarinnar og annað hvort gefa þær góðum vinum Flokksins eða þá leigja afnotim til útlendinga fyrir það verð sem býðst.

Þetta er í hnotskurn reisnin yfir pólitík Flokksins. Og þegar þessi flokkur gekk nær því af þjóðinni dauðri með póltíkskri hagstjórn sem sló öll heimsmet í heimsku þá misstu þeir völdin. Og nú grenja hýenur Flokksins við dyrnar og naga þröskuldana hungraðar í bið eftir eftir nýjum krásum frá þjóðinni.

Sjálfstæðismenn vilja að sjálfsögðu tryggja að auðlindir þjóðarinnar lúti yfirráðum Flokksins.

Skárra væri nú!

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 23:31

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðun. Ég sé ekki fyrir mér innrás sjálfstæðisfloksins í íslenska stjórnsýslu á næstu missirum. Í fyrsta lagi þá er farið að styttast verulega í síðasta boðaðan útgáfudag skýrslunnar margumræddu. Ef sú skýrsla er pappírsins virði (sem ég hef nú alltaf dregið í efa) þá mun hún verða undirrituð og lögstimpluð pólitísk aftökuskipun þar sem mörg stærstu nöfn Flokksins verða feitletruð ásamt afar glöggum portrettmyndum.

Tilhlökkun mín eftir þessari helgistund er farin að ræna mig svefni!

Árni Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 23:53

28 identicon

Þegar Villi var ungur maður, þó 3 árum eldri en ég, var hann í skólafríum innanbúðar hjá "Pippa" (Pétri með verslunina Tindastól). 

Þá var hann skiljanlega EKKI kátur með að "Pippabúð" fékk EKKI að selja mjólk vegna ofríkis kaupfélagsmanna og mjólkursamlagsins.  Mjólkin fékkst ekki heldur frá Akureyri (KEA), allt vegna hagsmunagæslu KS.  Auðvitað var þarna verið að leggja stein í götu heilbrigðrar samkeppni frá "Pippabúð".

Svona getur líf sumra orðið skrýtið...sem fer oft og iðulega eftir hagsmunum.  En þá skulum við muna að hagsmunir heildarinnar eiga alltaf að vega þyngra en blindir sérhagsmunir líðandi stunda. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 00:02

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Pétur Örn. Já ég man vel eftir Villa innanbúðar hjá nafna þínum. Pétur Helga hafði mætur á Villa og sagði hann vera mikinn stærðfræðing sem líklega hefur verið tilfellið. Pippi var sjálfur eldsnöggur að reikna og treysti aldrei kassavelinni en lagði allt saman á bréfsnifsi sem hann reif af umbúðarúllunni.

Pólitíkin á Króknum í þá daga var merkilegur kapítuli. Baráttan við Kaupfélagið var meginþemað og þar var bakarinn öflugastur og skæðastur. Ekki hefur þú nú verið ókunnugur þessu stríði því faðir þinn kom nú dálítið sterkt að þessu um tíma.

En Gutti bakari var alveg dásamlegur og í raun einstakur. Hann var sjálfstæðismaður að trúarskoðun og svo öflugur baráttumaður að það gneistaði af honum. Hann var margra manna maki að afköstum hvort sem var við pólitískan áróður eða rekstur bakarísins. Hann var snjall ræðumaður og þegar annríkið var mest þá hafði hann ekki tíma til að eyða í sannleikann ef hann var honum ekki hagfelldur. Hann bjó til annan sannleika í hvelli og var svo snöggur að enginn tók eftir því, allra síst andstæðingarnir.

En Guðjón var raungóður maður og í rauninni einn af máttarstólpum samfélagsins á meðan það var að byggjast upp. Baráttan við Kaupfélagið var honum heilög köllun.

Árni Gunnarsson, 24.3.2010 kl. 00:37

30 identicon

Sæll Árni, já, það getur verið gaman að skoða nútíðina með fortíðina í baksýnisspeglinum.  Margt var vissulega gott við KS og er svo enn hvað ýmislegt varðar enda svo samgróið skagfirsku samfélagi að varla kemst neitt á mili. 

En talandi um "stærðfræðinginn", þá held ég að Pippi hafi ofmetið stærðfræðikunnáttuna, en snöggur var og er Villi að reikna og líkast til mjög nálægt Gutta bakara í því sem þú orðar svo vel: 

"Hann bjó til annan sannleika í hvelli og var svo snöggur að enginn tók eftir því, allra síst andstæðingar."

Gutti var hins vegar skemmtilegur áhuga-leikhúsmaður, en kannski er Villi líka leikhúsmaður, þó í öðrum skilningi sé.  Allavega horfum við nú upp á miklinn farsa og öfgakenndan leikstíl sem farsanum tilheyrir iðulega.  En við bíðum nú eftir hvort hann taki upp hinn dramatíska leikstíl fyrrverandi formanns LÍÚ, hans Kristjáns sígrátandi...í fjölmiðlum   

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 01:57

31 identicon

Gleymdi bara að minna okkur á það Árni, að tungubroddur Pippa var iðulega á sífelldri sveiflu milli munnvika.  Var hann þá í huganum að "dobbeltékka" samlagninguna á bréfsnifsinu af umbúðarúllu hvítu, eða langaði hann þá bara óskaplega mikið í tána?  Hvað um það.  Pétur Helgason var fínn kall.  Og Villi er fínn inn við beinið, en er á villigötum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 02:10

32 Smámynd: Björn Birgisson

"Fulltrúi sjómanna tekur áfram þátt í störfum nefndar fulltrúa stjórnvalda og hagsmunaaðila í sjávarútvegi um fiskveiðistjórnunina. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasamtaka Íslands, segir að sjómenn hafi lagst gegn svonefndu skötuselsfrumvarpi og gagnrýni stjórnvöld fyrir að vera að vasast í einhverjum smáskammtalækningum meðan þau ætlast til að verið sé að vinna að sátt í fiskveiðistjórnuninni. Hins vegar muni fulltrúi sjómanna þó áfram taka þátt í störfum nefndarinnar „nema eitthvað nýtt komi til." segir á mbl.is

SA hefur dregið fulltrúa sinn út úr nefndinni. Er það herkænska eða bara hrein heimska, byggð á yfirgengilegri heimtufrekju?

Afstaða Sjómannasambandsins veldur vonbrigðum.

Takk fyrir góðan pistil, Árni

Björn Birgisson, 24.3.2010 kl. 10:04

33 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Afstaða fulltrúa sjómanna þarf engum að koma á óvart. Þeir hafa ákveðið að styðja við LÍÚ vegna þess að þeir eru samningsaðilinn um launakjör.

En þú minnist á heimskuna og það réttilega. Nú loks er þetta mál komið á það stig að LÍÚ er að berjast fyrir lífi sinna umbjóðenda og baráttan er greinilega töpuð. Það er alþekkt að þegar svo er komið þá á dómgreindin undir högg að sækja. Skötuselsfrumvarpið var kornið sem fyllti mælinn.

Í því máli kom glöggt í ljós að oflátungslegar yfirlýsingar Hafró hvað varða verndun, vöxt og viðgang þessarar tegundar voru froðusnakk á efsta stigi. Þar með fauk það sem eftir var af öllum trúverðugleika þessarar skelfilegu stofnunar og hún stendur eftir berstrípuð í hlutverki keisarans heimsþekkta. 

Skötuselurinn hefur gegn um langa sögu vaxið úr því að vera lítilfjörlegur meðafli upp í að verða umtalsverður meðafli sunnan-og suðvestanlands.

Og vegna ábatasemi á mörkuðum var þessu kvikindi skyndilega skellt inn í kvótakerfið og þar með orðinn "eign" tiltekinna útgerða.

Vestan-og norðanlands eiga engar útgerðir skötuselskvóta. Þar með stóðu grásleppukarlarnir vestan-og norðanlands frammi fyrir því að kaupa fyrir 350 krónur k.g. kvóta í þessu kvikindi sem farið var að angra þá með nærveru sinni og spilla netum þeirra. Eða þá að fara hina leiðina sem er einfaldlega að ræða ekki um en fleygja öllu fyrir borð.

En Hafró er heimsk stofnun, blind, heyrnarlaus, rökheld og í þokkabót hrokafull í sinni vesælu vanþekkingu á ýmsu því sem hún telur sér skylt að tala um af akademisku málfari og óskiljanlegu.

Skyndilega er þessi fiskur orðinn áberandi í netum grásleppukarla vestan lands og nú kominn á hraðferð austur með Norðurlandi.

Þjóðin er loksins búin að fá nóg af þessu vandamáli sem heitir Hafró/LÍÚ.

Árni Gunnarsson, 24.3.2010 kl. 13:14

34 Smámynd: Björn Birgisson

Ég hef þá tilfinningu að mikill meirihluti þjóðarinnar hugsi með undrun, jafnvel kala, til þeirra forustumanna LÍÚ sem nú eru að beita Samtökum atvinnulífsins fyrir sig, með sína eigin hagsmuni í forgrunni og virðast tilbúnir að láta hagsmuni þjóðarinnar sigla lönd og leið. Fyrir nokkur tonn af skötusel. Pínulítið brotabrot af heildarkvótanum

Því forljóta, en ofurbragðgóða kvikindi, skötusel!

Seint hefði maður getið sér þess til að skötuselurinn yrði fyrstur til að hefja niðurbrot hins umdeilda kvótakerfis.

Þessi tonn sem um ræðir verða veidd, fiskimönnum, landverkafólki og þjóðinni til tekna hvort sem LÍÚ er í fýlu eða ekki.

Björn Birgisson, 24.3.2010 kl. 14:06

35 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn: Horft af sjónarhóli LÍÚ sé ég skötuselsfjandann fyrir mér sem samlíkingu við arfasátuna á Bergþórshvoli sem brennumenn nýttu sér til íkveikjunnar.

-"Kerling var sú at Bergþórshváli, er Sæunn hét. Hon var fróð at mörgu ok framsýn, en þó var hon gömul mjök, ok kölluðu Njálssynir hana gamalæra........Þat var einn dag, at hon þreif lurk í hönd sér ok gekk upp um hús at arfasátu einni. Hon laust arfasátuna ok bað hana aldri þrífast, svá vesöl sem hon var. Skarpheðinn hló at ok spurði, hví hon abbaðist upp á arfasátuna.

Kerlingin mælti: "Þessi arfasáta mun tekin ok kveyktr við eldr, þá er Njáll er inni benndur, ok Bergþóra, fóstra mín, ok berð þér á  hana vatn," segir hon, "eða brennið hana sem skjótast."

"Eigi munum vér þat gera," segir Skarphéðinn, "því at fást mun annað til eldkveykna, ef þess verður auðit, þó at hon sé eigi."

Kerling klifaði allt sumarit um arfasátuna, at inn skyldi bera, ok fórst þat fyrir.

Og síðan var nú Bergþórshvoll brenndur. Og með fulltingi arfasátunnar.

Sagan er hrekkjótt og á það til að endurtaka sig en gjarnan með breyttum formerkjum.

Réttlætið á auðveldara með að finna sér farvegi í upplýstu samfélagi en þar sem það verður að berjast í myrkri vanþekkingar og fordóma.

Og Villi Egils mun fáa fyrir hitta sem telji það réttlætismál að sá grásleppukarl sem norður af Haganesvík fær nokkra skötuseli og þarf að eyða í það hálfum degi að lagfæra eftir þá netin, megi sæta því að borga Guðmundi vinalausa eða Guðbjörgu moldríku 350 kr. fyrir kílóið þegar hann landar honum loks inn á markað eftir að hafa brölt með hann á snjóbíl til Sauðárkróks. Komist hinsvegar upp að hann hafi fleygt ófétinu í sjóinn á hann yfir höfði sér missi veiðleyfis og upptöku veiðarfæra, auk umtalsverðrar sektar í ríkissjóð!

Allt í boði Friðriks J. Arngrímssonar, Vilhjálms Egilssonar og Jóhanns Sigurjónssonar.

Þar að auki er ónefndur óbótamaður samsekur í að hafa sett stöðugleikasáttmála þjóðarinnar í uppnám.

Auðvitað  eiga þessir grásleppukarlar fyrir norðan ekki að ganga lausir.

Þvílíkur óþjóðalýður!

Árni Gunnarsson, 24.3.2010 kl. 15:31

36 Smámynd: Björn Birgisson

Ég segi nú bara AMEN  Ertu búinn að lesa Guðbjörn Jónsson í dag?

Björn Birgisson, 24.3.2010 kl. 15:46

37 identicon

Árni hefur hér í pistli og athugasemdum talað tungu sannleikans og réttlætisins.  Hafðu mikla þökk fyrir Árni.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 17:02

38 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka innlitið gamli Króksari af Hólaveginum.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég ekki handhafi hins eina sannleika í neinu máli. Stundum ofbýður mér hinsvegar svo ósvífni heimskunnar í samfélagi okkar að ég finn hjá mér þörf til að láta hlutaðeigandi vita af því að ég er bara ekki ílát sem hægt er að troða í hverju sem er.

Með Kveðju! 

Árni Gunnarsson, 24.3.2010 kl. 17:12

39 Smámynd: Björn Birgisson

Árni minn, þrátt fyrir háan aldur þinn brennur eldur innra með þér! Þú ert frábær! Farðu nú, elsku skunkurinn minn, inn á síðu Guðbjörns Jónssonar að nýju. Hann hefur gefið okkur leyfi! Nýttu þér það - í guðanna bænum!

Bestu kveðjur til þín og þinna! BB

Björn Birgisson, 25.3.2010 kl. 00:04

40 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Talaði ekki eitthvert skáld um "þau þöglu svik- að þegja við öllu röngu?"

Ég mun reyna í lengstu lög að varast það að verða þögull svikari meðan ég trúi því sjálfur að orð mín gagnist sem vopn gegn órétti og spillingu.

Í það minnsta á meðan ég fæ það staðfest af þeim sem ég tek eitthvert mark á.

Árni Gunnarsson, 25.3.2010 kl. 01:24

41 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég ætla að ýta aðeinz undir með þitt mæta mal um þarna á morgun, félagi góður.

"Þarfur ertu klár"

Steingrímur Helgason, 26.3.2010 kl. 00:01

42 identicon

Skötuselur, my ass, allt sem á undan er gengið, verðbólga, gengið til fjandans og hrun efnahagslífsins, meira og minna í boði þeirra sem hvað harðast misbjóða okkur í þeirri trú að við höfum gullfiskaminni, hyski segi ég, rusl upp til hópa. Ekki nema von að meirihlutinn hafi meira að segja enda draslið mest. Fokk og aftur fokk.

Brostinn Besservisser (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 23:53

43 Smámynd: Árni Gunnarsson

Alltaf velkominn Steingrímur.

Árni Gunnarsson, 27.3.2010 kl. 09:37

44 Smámynd: Árni Gunnarsson

Besservisser. Nokkrir tugir einstaklinga fá úthlutað án endurgjalds mestum hluta aflaheimilda þjóðarinnar. Fiskurinn í sjónum var öllum frjáls til lífsbjargar eins og allar aðrar auðlindir þjóðarinnar þar til fræðimenn töldu að allur fiskur væri ofveiddur.

Þá var aðgengið skammtað og reynt að úthluta eftir veiðreynslu.

Nú hefur þetta skammtaða aðgengi ekki sýnt skárri árangur en svo að nú er veiddur aðeins þriðjungur þess afla sem lagt var upp með í upphafi!

Og svo leyfa þessir andskotar sér að kalla þetta besta kerfi heimsins!

Hafrannsóknarstofnun er ekki krafin svara um þennan glæp! 

Árni Gunnarsson, 27.3.2010 kl. 10:00

45 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæll Árni.

Ég svara seint, en svara þó. Ég er hjartanlega sammála þér!

Enn...Af hverju hefur ranglætið í fiskveiðistjórnunar-kerfinu fengið að viðgangast eins lengi; sem raun ber vitni, eins og annað ranglæti sem viðgengist hefur hérna áratugum saman af stjórnvöldum? Fólkið hrópar á réttlæti en ekkert skeður...þrátt fyrir það hefur þjóðin alltaf kosið það sama yfir sig aftur, aftur og aftur!

Er ekki eitthvað að hjá okkur einstaklingunum sem kvörtum bara en aðhöfumst ekkert? þannig geta stjórnvöld gert það sem þeim sýnist og hafa alltaf komist upp með!

Fjórflokkurinn lengi lifi...Eða hvað?

Guðrún Magnea Helgadóttir, 31.3.2010 kl. 05:30

46 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún M. Það er ánægjulegt að sjá þig hér aftur. Hingað koma alltof fáar konur og þess vegna er ánægjan meiri.

Þjóðir hafa alltaf kallað eftir réttlætinu því samfélagið er aldrei eins réttlátt og það gæti verið. Þess vegna er það skylda okkar allra að láta raddir okkar heyrast og við þurfum stundum að vera hávær eins og við bæði vitum.

Kannski hefur aldrei verið meiri ástæða en nú til að vera hávær.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 10:08

47 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Aldrei hann fyrir aftan kýr
orrustu háði neina.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 31.3.2010 kl. 17:48

48 Smámynd: Árni Gunnarsson

Alla vega ekki mikið nú í seinni tíð.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 20:25

49 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Mér fannst Jóhanna gera vel þegar hún sagðist eiga erfitt með að smala köttum. Ég lagði það til að á næstu ólympíuleikum yrði kattasmölun gerð að keppnisgrein og allir andstæðingar Jóhönnu yrðu skyldugir til að taka þátt í leikunum. Það fannst mér að myndi lækka í þeim rostann. 

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 31.3.2010 kl. 21:06

50 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ætli að Jóhönnu veiti nokkuð af þjálfun í smalamennsku? Hræddur er ég um að hún verði erfið smölunin fyrir atkvæðagreiðsluna um inngöngu í ESB.

Annars verður nú sennilega búið að draga þá hringavitleysu til baka áður en til þess dregur. Dálítið finnst mér nú vera illa farið með fjármuni þjóðarinnar þegar hundruðum milljóna er eytt í einhverja draumóra fáeinna vitleysinga.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband