Strandveiðar: Dulræð vísindatilraun eða atvinnuvegur jafngamall búsetu?

Arthur Bogason fyrrverandi formaður baráttusamtaka fyrir réttindum smábátasjómanna ritar í dag grein í Morgunblaðið þar sem hann gerir úttekt á strandveiðunum svonefndu. Þetta er ítarleg samantekt og niðurstaðan gefur greinarhöfundi ekki tilefni til bjartsýni á þennan útgerðarflokk við óbreytt rekstrarumhverfi. Reyndar er sú ályktun upphaf greinar Arthurs og eiginlega eina pólitíska niðurstaðan eftir lesturinn.

Vonandi.

Kannski hefur mér tekist að misskilja minn gamla góðkunningja en ég kem bara ekki auga á að þessi grein eigi annað erindi við lesendur en það að renna stoðum undir þær ályktanir náhirðar LÍÚ að strandveiðar séu gagnslaust fimbulfamb því fisk eigi ekki aðrir að veiða en tæknivæddar útgerðir.

Það er nefnilega hárrétt athugað að við óbreytt umhverfi laga og reglugerðar verða þeir ekki margir sem geta haft strandveiðar að fullu starfi.

Og ég hefði kosið að greinarhöfundur gerði þá ályktun að aðalatriði og þrýsti á stjórnvöld að aflétta glæpavæðingunni sem þau hafa vafið utan um þennan elsta bjargræðisveg þjóðarinnar allt frá landnámi. Og að hann hefði gert þær kröfur að strandveiðar mætti stunda minnst 20 daga í hverjum mánuði með handfærum og án hámarksafla. 

Af því að strandveiðar eru tiltölulega nýtt orð í tungumálinu og stór hluti þjóðarinnar er greinilega orðinn aftengdur sjávarútvegi er rétt að koma því til skila að þarna er ekki um að ræða nýja tilraun í anda pólitískrar snilldarlausnar. Þetta er ekki dulræð- og áður óþekkt vísindatilraun.

Þetta er einfaldlega klaufaleg endurvakning á bjargræðisvegi forfeðra okkar sem stundaður hefur verið við Ísland í meira en þúsund ár. Strandveiðarnar, eins og þeim er stýrt, eru eru klúðursleg tilraun við að skila íbúum sjávarþorpanna sjálfsögðum mannréttindum - réttinum til að fiska úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og með frumstæðustu veiðarfærunum.

Stjórnvöld hafa skipað fyrir um að nartað skuli í þessa auðlind með einhverjum vísindalega útreiknuðum taugaveiklunarbrag svo að tryggt verði að engum standi til boða sá ábati að hann verði öðrum hvatning.  
Það er svo sem eftir öðru hjá fjórflokknum margumrædda sem með hverjum degi sannar betur en áður að hann er handbendi og heimilishjálp útgerðar og bankastofnana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það hefði líka verið útlátalaust fyrir greinarhöfund að lýsa í fáum orðum og þó myndrænum hvílík breyting varð á mannlífi í sjávarþorpunum við þessa þó feimnislegu tilraun. Bryggjurnar fóru að iða af lífi og mávagerin tóku til við að syngja á ný sín aldagömlu stef um gómsæta lifur og hrognabrók.

Sumir fóru að trúa því á ný að Íslandi væri ætlað það hlutverk að næra mannlíf.

Í stað þess að verða verðbréfmiðstöð með áherslu á hlutabréf í óveiddum fiski. 


Til sölu gamalt og virðulegt sýslumannssetur í yfirgefnum kaupstað á Vestfjörðum!

Tilvalið sem sumarbústaður fyrir verðbréfamiðlara. 

Árni Gunnarsson, 7.6.2014 kl. 23:00

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Hvað er það í umhverfi laga og reglugerða sem þarf að breyta til að gera strandveiðarnar hagkvæmar Árni.

Jósef Smári Ásmundsson, 8.6.2014 kl. 07:18

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég sé fyrir mér að afnema lög og reglugerðir um handfæraveiðar. Handfæri ógna aldrei fiskistofnum. Strandveiðar eru nýtt hugtak sem "galdramenn í pólitískri fiskihagfræði" fundu upp til að sveipa dulúð elsta bjargræðisveg þessarar þjóðar.

Það svínvirkaði vegna þess að það eru ekki nema örfá - líklega innan við 5% þjóðarinnar sem bera minnsta skynbragð á færaskakið.

Hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson skrifaði lærða langloku á dögunum um þessa pólitísku fiskveiðhagfræði. Minntist á árin upp úr 1980 þegar við vorum að tortíma fiskistofnum vegna "ofveiði".

Langt aftur í aldir segja annálar okkar frá fiskileysisárum þegar "ekki fiskaðist upp á hund" og fólk hríðféll úr hungri í fiskisælustu verstöðvum! Hverjir höfðu ofveitt?

Verði handfæraveiðar gefnar frjálsar mun fjöldi manna stökkva hæð sína í loft upp af hrifningu og fjárfesta í bátum og búnaði. Það er óþarf bjartsýni að trúa því að frjálsar handfæraveiðar muni gera sjávarþorpin að auðmannahverfum. Fiskur gefur sig á færin suma daga og suma ekki eins og hann hefur gert frá landnámstíð. Og það munu verða niðursveiflur. En þetta gæti orðið mörgum deyjandi sjávarplássum lyftistöng. 
Það er ekki glæpur að veiða fisk handa sér til lífsviðurværis en það er mikill glæpur að banna mönnum að gera það. Ísland á að vera aðsetur mannlífs og lífsgleði en ekki fangelsi til að refsa fólki fyrir að hafa fæðst.  

Árni Gunnarsson, 8.6.2014 kl. 09:20

4 identicon

Heill og sæl Árni æfinlega - og sælir: aðrir gestir þínir !

Árni !

Réðum við Falangistar: (yzt úti á Hægri brúninni) fylgismenn Francós heitins Ríkismarskálsks Spánar / og þeirra Gemayel feðga austur í Líbanon - væri ALLUR sjávarútvegur:: sem nytjar hans þjóðnýttar - og skipt bróðurlega afrakstrinum / í samræmi við íbúafjölda hvers pláss - hringinn í kringum landið fornvinur góður.

Gerfi- lýðræðis liðið: sem hér fer með völdin / og hefir gert allt frá árinu 1944 kappkostar aftur á móti: að burgeisa væða greinina - sem flestar annarra.

Því er komið málum - sem komið er Árni minn.

Og - forheimskunin kristallazt í ''ráðgjöf'' afglapans:: Jóhanns Sigurjónssonar frænda míns - hjá Hafrannsóknastofnun.

Því - er ekki við öðru að búast / að óbreyttu.

Með beztu kveðjum af Suðurlandi - sem endranær /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.6.2014 kl. 14:07

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér innlitið í bæinn Óskar Helgi.

Þetta með þjóðnýtinguna er kannski útfærsluatriði.

Verst er raunar þegar saman fer sértækt nýtingarleyfi handa góðvinadeild pólitíkusa og til viðbótar, á sömu lund sértæk vannýting á þessari auðlind til hagsbóta fyrir sömu einkavinadeild.

Ísland er auðugt land; þó ekki nægilega auðugt til að viðhalda svona yfirtöku hagsmunabófa.

Árni Gunnarsson, 8.6.2014 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband