Yfirlýsing forsetans

Þá hefur forsetinn leyst upp allar vangaveltur okkar um framtíð hans í embætti. Margir fagna nú með fyrirferðarmiklum yfirlýsingum og upphrópunum, þessari ákvörðun hans. 

Ég er á hinn bóginn í flokki með þeim sem kveðja þennan þjóðarleiðtoga okkar með nokkrum söknuði.

Ólafur Ragnar breytti forsetaembættinu eftir nokkrar sviptingar og þrátt fyrir gildishlaðnar fullyrðingar af pólitískum toga um að til þess væri engin stoð í lögum.

En með þessu breytti hann vissulega stöðu embættisins og staðfesti að mínum dómi jafnframt hversu brýnt það er að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og festa í lög ákvæði um heimildir tilgreinds minnihluta Alþingis og einnig tilgreinds hluta kjósenda, til að vísa umdeildum tilskipunum og lögum Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Öllum má vera ljóst að það er ótækt að eiga þennan synjunar-og málskotsrétt undir geðþóttaákvörðun eins embættismanns eftir heiftúðug átök og illdeilur.

Ólafur Ragnar átti að baki nokkurn feril pólitískra átaka í stjórnmálum er hann settist í embættið. Og ásamt því að vera hvorki geðlaus né gallalaus, hlaut það að afla honum nokkurs mótbyrs í pólitísku andrúmi samfélagsins þegar mestur varð gusturinn.

Sameiningartákn varð Ólafur forseti aldrei í þeim hefðbundna skilningi og sóttist kannski ekki svo mjög ekki eftir því. 

Ég þakka honum fyrir mig og óska honum góðs farnaðar um ókomin ár.

Ég vona jafnframt að við fáum góðan forseta í hans stað á Bessastaði.

Ekki þarf hann að verða gallalaus.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll æfinlega Árni / sem og aðrir gestir þínir, og þakka þér fyrir góð samskiptin, á liðnum árum !

Það er ágætt: að þessi skelmir skuli vera að láta senn, af embætti.

Hann hefir alla tíð - líkt Vigdísi fyrirennara sínum, að vera hinn þægi ljár, í viðurstyggilegum þúfum burgeisa- og auðkýfinga gerpanna, í landinu.

Ekkert: ekkert hefir hann lagt lið, því fólki, sem er að kljást við Banka Mafíuna t.d., í ásælni hennar til húseigna fólks:: fólks, sem oftast hefir lagt afrakstur æfistarfsins, í sín húsaskjól.

Margt annað - mætti tiltaka, um þennan auma hræsnara, Árni minn, þó ég láti staðar numið, að sinni.

Með beztu kveðjum til þín og þinna - sem jafnan, af Suðurlandi /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.1.2016 kl. 20:29

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hafðu gæfu og næði á nýju ári Árni Gunnarsson  sem og þitt fólk og gestir á þinni síðu.

Á fyrri hluta kjörtímabila síns var Ólafur sérstaklega sinn eigin forseti, en síðari hlutann þá var hann virkilegur landsfaðir og í Icesave málum bjargaði hann svo miklu að aðrir forsetar fá tæplega færi til að vinna okkur þvílíkt gagn.  

Það þíðir ekki að útilokað sé að við getum fengið góðan forseta, en ég legg til að misvitrir þingmenn láti reglur og lög um forseta embættið í friði að sinni, þar sem það hefur sýnt sig að gamall í embætti varð betri en nýr í embætti. 

Gestur þinn Óskar Helgi gamall vinur minn er orðhvatur í meiralagi.  En Vigdís varð okkur til sóma hvar sem hún fór, sem og fyrirrennari hennar og Ólafur á seini hluta búskapar síns að Bessastöðum.

Hrólfur Þ Hraundal, 2.1.2016 kl. 11:29

3 identicon

Komið þið sælir - á ný !

Hrólfur: Vélfræðingur mæti !

Og - þakka þér gömul og góð samskipti:: hér á vefnum, á liðnum árum, ekki síður en Árna síðuhafa.

Má vera Hrólfur: að ég sé harðdrægur í orðavali, gagnvart þessu Bessastaða slekti / fyrr, sem nú:: en innistæða er fullkomlega, fyrir hverju orða minna.

Ólafur Ragnar Grímsson er - og hefir verið, liðléttingur fjárplógs valdastéttarinnar, gagnvart öllum almenningi, þó ýmsum hafi tekist að klæða gjörðir hans, ýmiss konar Silki- og blúndu klæðum, gegnum tíðina.

Vigdís Finnbogadóttir: SVEIK okkur öll, um atkvæðagreizluna, að upptöku hinnar hörmulegu EES reglugerða skjóðu, á 10. áratug liðinnar aldar / og skal það geymt verða, en ekki gleymt jafnframt, Hrólfur minn.

Þessi hjú bæði - hafa sér EKKERT til afbötunar né afsakana, hvorki í bráð né lengd, Eyrbyggi góður.

Ekki síðri kveðjur - þeim, hinum fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.1.2016 kl. 14:11

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ágætu Óskar Helgi og Hrólfur. "Þarna gerðir þú mig heimaskítsmát kona góð!" sagði Jón bóndi við konu Arnæusar forðum tíð í Kaupmannahöfn.

"Nú þykir mér vera stungin tólg", segir gjarnan Sverrir Hermannsson þegar honum ofhasar í einhverju efni.

Ætli ég láti þessa karla ekki um að svara fyrir mig núna og geri orð þeirra að mínum, af því að það var nú aldrei ætlun mín að skiptast á skoðunum

við fólk um þetta efni. 

En ég tek heils hugar undir góðar kveðjur og sendi þær til baka með ósk um að þær hafi ekki slaknað neitt til muna á löngu ferðalagi.

En ég bíð í ofvæni eftir að sjá nöfn á fleiri frambjóðendum. Þetta er vel launað starf og þar að auki búseta á frægri hlunnindajörð.

Og aldeilis hissa hef ég stundum verið að sjá aldrei myndir af forsetum - eða forsetafrúm við dúntekju og dúnhreinsun. 

Árni Gunnarsson, 2.1.2016 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband