Sjómannadagur

Til hamingju með daginn ykkar íslensku sjómenn!

Líklega er óvenju miklu skrökvað að íslensku þjóðinni á þessum hátíðardegi sjómanna sem nú er haldinn í áttugasta sinn.

Og mestu er skrökvað þar sem síst skyldi - í hátíðaræðum framámanna þjóðarinnar, að ógleymdum ræðum prestanna sem segja oftast það sem til er ætlast af þeim.

Það er nefnilega ósatt sem einlægt er haldið fram, að pólitísk nýtingarstefna (verndarstefna) undir stjórn Hafrannsóknarstofnunar hafi virkað af snilld og skapað okkur þann ábata sem til var ætlast. Framfarir í sjávarútvegi og framfarir í nýtingu og meðferð hráefnis hafa orðið verulegar og hafa tengst þeirri þekkingu og tæknibyltingu sem orðið hefur í flestum eða öllum atvinnugreinum.

Glæpavæðing útgerðar og sjómennsku er svo sjálfstæður glæpur sem alfarið er á pólitískri ábyrgð stjórnvalda okkar um áratugi.

Síðan má ekki gleyma því tjóni sem orsakast hefur af vísindalegri ráðgjöf þeirrar stofnunar sem falið var að greina ástand og nytjaþol fiskistofnanna.
Afleiðingarnar eru skelfilegur byggðaflótti svo að til landauðnar horfir á stórum svæðum við strendur landsins.

Lokaorðin eru tekin úr formála bókarinnar Fiskleysisguðinn sem gefin var út af Nýja Bókafélaginu ehf árið 2001 og er samantekt blaðagreina úr Morgunblaðinu sem Ásgeir heitinn Jakobsson rith. og blaðamaður skrifaði um mistök fiskifræðinganna hjá Hafró.
Umræddur formáli 
sem er snilld - er ritaður af Jakobi F. Ásgeirssyni sem er sonur höfundar.

Skylt er að biðja höfund afsökunar þegar texti er slitinn úr samhengi.

,,Faðir minn kvað Hafrannsókn engan lærdóm vilja draga af fiskveiðisögunni sem sýndi hvað íslenzk fiskislóð væri viðkvæm fyrir of stórum stofni. Hann benti á skrif erlendra fiskifræðinga sem héldu því fram að mesta hindrunin í verndun fiskistofns væri ekki sóknin heldur fiskurinn sjálfur og að of lítil sókn gæti ekki síður verið fiskistofni skaðleg en of mikil.

Tilraun Hafrannsóknar hefði mislukkast vegna þess að að hrygningarstofninn 1971 var stór og fiskislóðin þoldi ekki hvort tveggja, stóran stofn af ætisfrekum stórfiski og of mikla nýliðum vegna of mikillar verndunar ungfisks.

   Í skrifum sínum lagði faðir minn áherslu á að fiskifræðingar gætu engu spáð um aflabrögð og sagði:

Það leiðir af sjálfu sér að fiskifræðingum okkar gangi illa að ná upp fiskistofni miðað við þá þekkingu, sem þá vantar til þess. Þeir geta í engu bætt sjávarhagana fyrir fiskinn, engin áhrif haft þar á æti, ekki verndað fisk fyrir hitabreytingum sem örva eða tefja vöxt, engu ráðið um göngur fisks, að eða frá landinu, engu ráðið um fisksjúkdóma, engu ráðið um áhrif eins fiskistofns á annan, engin áhrif haft á hvað selur og hvalur og súla étur af fiski og átu.

Af þessu getuleysi í undirstöðuþáttum og vanþekkingu á öðrum þáttum geta þeir ekki sagt með neinni vissu hvort á þessu eða hinu tímaskeiðinu sé fremur rétt að grisja á slóðinni með aukinni sókn eða reyna að auka ásetninginn með minnkun sóknar, og stofnmælingar þeirra þykja ótraustar og hafa reynst það."

Þessi endursögn Jakobs F. Ásgeirssonar á fáeinum ályktunum föður hans segir margfalt meira um fáviskuna sem þessari þjóð hefur verið seld af hennar mikilvægustu visindamönnum en margar ræður innblásnar af oflæti og vanþekkingu.

Í stjórnlausri sókn árin 1962 - 1971 veiddum við að meðaltali á ári 403 þúsund tonn af þorski.

Árin 1972 - 1975 veiddum við undir takmarkaðri stjórn 380 tonn til jafnaðar á ári.

Það voru kostnaðasöm mannréttindabrot þegar stjórnmálamönnum hugkvæmdist að hygla sjálfum sér og nánustu vinum og fjölskyldum með því að glæpavæða sinn elsta atvinnuveg.

Og afleiðingarnar eru skelfilegar.

Þrátt fyrir að fáeinar moldríkar fjölskyldur græði á tá og fingri á skortstöðu og vannýtingu.
En að baki þeim ábata er engin snilld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hef nú leiðrétt fáeinar innsláttarvillur sem voru til leiðinda og ég biðst afsökunar á.

Árni Gunnarsson, 11.6.2017 kl. 15:43

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góð grein (eins og við var að búast, þar sem þú átt hlut að máli).  Svo virðist vera að mjög fáir séu tilbúnir til að segja "söguna" á bak við kvótakerið, eins og hún í rauninni er og fjalla um leið um þá ógæfu sem þetta sama kvótakerfi, eða réttara sagt útfærslan á því, hefur leitt yfir landsmenn.  Ég hætti til sjós þann 16 ágúst 1986 og var þar stór áhrifavaldur, atvik, sem á rætur sínar að rekja til kvótakerfisins og má segja að það atvik hafi verið "kornið sem fyllti mælinn".  Ég ætla ekki að fara nánar út í það en kannski geri ég það síðar.

Jóhann Elíasson, 11.6.2017 kl. 16:34

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Takk fyrir innlitið og óverðskuldað lof ágæti bloggvinur.
Því miður eru það orð að sönnu að fáir virðast leggja í að tjá sig af einurð um þennan hrylling.
Mér væri þó þægð í því fremur en hitt ef einhver tæki sig til og andmælti mér með rökum.
Ekki læt ég mér til hugar koma að ég hafi alltaf á réttu að standa en ég er reiðubúinn til að sækja og verjast með frambærilegum rökum.

Árni Gunnarsson, 11.6.2017 kl. 16:46

4 Smámynd: Jón Kristjánsson

Hún var nú ekki alveg á þessu ráðherran í dag ræðu sinni, eina ágreininginn sagði hún gjaldið, hvað það ætti að vera hátt. Mærði vísindin og lofaði hagkvæmnina og hagnaðinn. Er ekki nokkur leið að koma staðreyndum inn í þessi höfuð sem stjórna landinu? Ég bíð bara eftir því hvenær uppyggingin endar með skelfingu. Reyndar virðist hún tilgangslaus, því lítið sem ekkert er veitt úr þessum stóra hrygningarstofni, sem étur upp alla nýliðun. Hvað gerist ef makríllinn lætur standa á sér í sumar? Verð að segja að því fyrr sem skellurinn kemur, þeim mun betra.

Jón Kristjánsson, 11.6.2017 kl. 18:13

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Spurning hvort ráðherrann hafi farið að dæmi Vigdísar Hauksdóttur og stungið höfðinu í steininn?

Árni Gunnarsson, 11.6.2017 kl. 20:48

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

En að telja eina ágreininginn um kerfið vera fólginn í veiðigjaldinu er auðvitað út í hött og til þess eins fram sett að forðast umræðu um aðalatriðin.
Og aðalatriðin eru stórfelld vannýting á auðlindinni samfara byggðaeyðingunni sem er orðin að stórkostlegu vandamáli sem aftur krefst tafarlausra viðbragða. 

Árni Gunnarsson, 11.6.2017 kl. 21:41

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Það leiðir af sjálfu sér að fiskifræðngum okkar gangi illa að ná upp fiskistofni miðað við þá þekkingu, sem þá vantar til þess."

Þessi setning Ásgeirs heitins Jakobssonar, þess mikla viskubrunns um hérlendan sjávarútveg, segir eiginlega allt, sem segja þarf um Hafró og "ráðgjöf" þeirra, sem þar starfa. Þvælan sem frá Hafró hefur komið gegnum árin hefur kostað þjóðarbúið hundruði milljarða. Allt hefur það gerst með dyggri aðstoð misviturra og á stundum fávísra stjórnmálamanna. Þetta snýst nefnilega ekki lengur um vísindi. Þetta er hagsmunagæsla, sem ætlað er að viðhalda veðhæfni þeirra fyrirtækjs sem eiga kvóta og gæta þess vandlega að ekki komist fleiri að í greininni, því miður. Exelguttarnir á Hafró, sem reikna samkvæmt samevrópskum reiknistuðli, hve mikið má veiða, eða ekki, eru hluti af plottinu, sem síðan rennur vel smurt gegnum í gegnum Alþingi, því þar vita sennilega fæstir um hvað er verið að fjalla, frekar en fyrri daginn. Orðagjálfur núverandi ráðherra þessara mála er grátlegur vitnisburður um þekkingarskort og vilja, til að efla Íslenskan sjávarútveg, öllum landslýð til heilla, en ekki aðeins örfáum.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.6.2017 kl. 00:24

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakkaþér gott innlegg Halldór. Og vissulega er það rétt sem þú ályktar um þekkingu - þekkingarskort fulltrúa okkar inni á Alþingi.

Verst er að þeir sem mestu ráða - flokkseigendafélögin -kæra sig líklega ekki um að alþingismenn velti fyrir sér erfiðum spurningum um þessi efni. 

Árni Gunnarsson, 12.6.2017 kl. 08:06

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kúlulándrottingin missti jarðsambandið og þar með allt samband við fólkið löngu fyrir hrun og þetta samband hefur hún ekki fundið aftur.  Hún sótti það mjöööög fast að fá stöðu framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ), þegar sú staða losnaði.  En eins og allir vita þá tapaði hún því kapphlaupi fyrir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur.  Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að þar sé skýringin á aðgerðum eða aðgerðaleysi hennar í sjómannaverkfallinu.

Jóhann Elíasson, 12.6.2017 kl. 09:12

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það ber allt að sama brunni Jóhann Elíasson. Stjórnmálaelítan veit að með áróðrinum fyrir "verndun" fiskistofnanna undir stjórn Hafró er í reynd verið að friða kvótagreifanna og þar hafa safnast upp fjármunirnir sem árlega hefur verið rænt af þjóðinni sem á auðlindina samkvæmt lögum.
Það er í rökréttu samhengi að þeir pólitíkusar sem hvað staðfastlegast hafa gengið fram í því að eyrnamerkja auðlindina réttu fólki - að þeir geri tilkall til ábatasamra starfa hjá skjólstæðingunum.

Árni Gunnarsson, 12.6.2017 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband