Af Kambránsmönnum, Þorleifi á Háeyri og þjófaættum.

Eitt umtalaðasta sakamál nítjándu aldar var Kambránsmálið svo nefnt og vísar til þess er þrír ræningjar brutust inn í bæinn á Kambi skammt frá Eyrarbakka nóttina 9. febrúar árið 1827 og rændu peningum bóndans eftir að hafa bundið heimilisfólkið.  Eftir langar vitnaleiðslur upplýstist hverjir þar voru að verki og voru þeir allir dæmdir til langrar refsingar í Kaupmannahöfn. Tveir þessara manna, þeir Hafliði og Jón Kolbeinssynir voru bræður hins þekkta kaupmanns Þorleifs á Háyri á Eyrarbakka.

Þorleifur, sem lengst af var nefndur Þorleifur ríki f. 1799, d. 1883 var lengi nafnkenndur maður á Suðurlandi og reyndar frægur í sögum um land allt. Þorleifur rak lengi verslun á Eyrarbakka og auðgaðist vel eins og viðurnefnið bendir til enda talinn fégjarn og harðdrægur í viðskiptum. Af viðskiptum hans gengu sögur auk þess sem mörg tilsvör hans urðu fleyg.

Í fyrsta bindi ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar er stuttlega greint frá Þorleifi, en Ingunn móðir hans Magnúsdóttir (langamma mín) var í húsmennsku hjá Þorleifi árið eftir að hún missti eiginmann sinn.

"Ræddu þau þá margt saman. Meðal annars bar á góma Kambránsmálið. Þorleifur sagði að það hefði verið heimska af bræðrum sínum að fara í Kambsránið.- "Þeir báðu mig að vera með. Ég vildi það ekki. Það var ekki ef samviskusemi, heldur af hyggindum. Ég vildi verða ríkur. En ég hef tekið eftir því að þjófar verða aldrei ríkir. Þeir afla mikils og hætta svo að vinna og bíða eftir nýju tækifæri. Þetta gefur enga hamingju. Svo leggst þetta í ættir. Og það myndast þjófaættir, og þær verða fátækar og hamingjusnauðar. Ég vil verða ríkur. En ég vil verða það fyrir allra augum. Öll leynd er fyrirlitleg".

Öll leynd fyrirlitleg sagði Þorleifur ríki og grunaði þá ekki að að eftir meira en hálfa aðra öld skjóta auðmenn á Íslandi milljörðum króna undir bankaleynd á afskekktum eyjum í fjarlægum löndum. Hvort þetta fé var allt vel fengið á eftir að koma í ljós við frekari rannsókn. En hvernig sem dómstólar koma til með að dæma í þeim málum þá munu margir hafa efasemdir um ókomna tíð.

  En óskaplega er ég hræddur um að nú séu að myndast þjófaættir á Íslandi.

Það væri mikil ógæfa.


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tek undir þetta með þér Árni. Það eru að myndast þjófaættir á Íslandi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.3.2009 kl. 19:38

2 identicon

Heill og sæll; Árni, sem þið önnur, hér á síðu hans !

Um leið; og ég vil þakka þér glögga grein, sem frásögn alla, verð ég, að leiðrétta lítils háttar misvægi, hjá þér, Árni minn.

Kambur; Hjartar bónda, er austur í Hróarsholtshverfi, í Villingaholtshreppi vestanverðum - þó svo, að þessi lítilsháttar skekkja skipti nú ekki, höfuð máli.

En; þjófa ættirnar, munu, líkt og hýenustofninn, sunnar á Heims kringlunni, ekki gera annað, en að tímgast óhóflega, verði ei við spornað.

Með beztu kveðjum; sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 23:00

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Nú er athyglisvert að velta fyrir sér ættum sumra. Ekki það að byrjað er að klóra yfirborðið og margt á eftir að koma í ljós. Við þurfum bara að halda vöku okkar og upplýsa það sem seinna kemur fram. Var einmitt að kaupa bækur eftir Óla Björn Kárason um elítuna sem kom okkur á hausinn. Á eftir að tjá mig um það seinna en skv. fréttaflutningi sl. daga eru þau mörg rotnu eplin í körfunni. Það er okkar að upplýsa um þau.

Ævar Rafn Kjartansson, 7.3.2009 kl. 23:00

4 Smámynd: Hlédís

Svei mér góð dæmisaga! Hvar ætli afkomendur Þorleifs ríka séu annars núna? ´

"Sagan af Þuríði formanni og Kambránsmönnum" er í alla staði góð bók um kjarnorkukonu sem var snjöll að leysa gátur. Endurlas hans fyrir skömmu. Veist þú hvort hún hefur verið endurútgefin? Hún slær við færibanda-reyfurum og er sönn!  Tek fram að ég les líka skáldaðar "who done it"-sögur og hef gert í áratugi!

Hlédís, 7.3.2009 kl. 23:07

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni :ekki bregst þér bogalistinn frekar en fyrri daginn, þessi færsla er hrein snilld og ekkert annað, efast reyndar um að það séu að myndast ættir, tel þær hafa veri fyrir og nýtt sér tækifærið til fulls, okkar að sjá um að sagan endurtaki sig ekki.

Haltu áfram Árni, þú sérð hlutinna með augum sem við hin þurfum að sjá, meira svona.

Magnús Jónsson, 8.3.2009 kl. 01:33

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já ha ha, góð þessi Árni. Eru að myndast þjófaættir eða er þýfið ekki grafið nægilega djupt í jörð? Glorhungraðir útigangshundar búnir að krafsa sig niður að gullkistulokinu.

Ólafur Þórðarson, 8.3.2009 kl. 01:59

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð frásögn, Árni, og merkilegt, við hvaða frétt þú tengir þetta.

Jón Valur Jensson, 8.3.2009 kl. 02:17

8 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Snilldarbloggur - Frábær tenging og vel skrifað. Kærar þakkir.

Rúnar Þór Þórarinsson, 8.3.2009 kl. 10:40

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ormagryfjan er rétt að opnast!

Arinbjörn Kúld, 8.3.2009 kl. 11:30

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Afar skemmtileg lesning á sunnudagsmorgni. 

Ég er hrædd um að ritningin um þann þjófnað er átt hefur sér stað á Íslandi undanfarin 5 ár, séu skrif í marga doðranta.  Eða eins og maðurinn sagði;  "Þetta tekur út yfir allan þjófabálk". 

Anna Einarsdóttir, 8.3.2009 kl. 11:41

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hlédís.  Þú spyrð um afkomendur Þorleifs ríka. Afi minn segir að þeir séu margir (skrifað fyrir 1950) og margt af því mikið gáfufólk. Flestir Reykvíkingar sem muna aftur í tímann hafa áreiðanlega séð einn þeirra Guðmund Haraldsson "skáld." Guðmundur var þekktur úr miðbænum og hélt sig þar flesta daga. Lítill karl frakkaklæddur með yfirskegg og hatt. Hann vék sér oft að vegfarendum og spurði hvort þeir ættu ekki enhverja aura aflögu því nú lægi mikið við. Oft stóð hann við tröppur Landsbankans í Austurstræti því þar hafði honum reynst gott til fanga. Margir höfðu gaman af að ræða við Guðmund því hann gat verið orðheppinn og ekki skemmdi að hann stamaði ákaflega. Bróðir hans var Leifur Haraldsson stærðfræðingur, ef ég man rétt. Hann þekkti ég ekkert en hann þótti gáfaður á marga lund og m.a. skáldmæltur. Hann hafði bilaða málstöð eins og bróðir hans og stamaði mikið. Eftir Leif er eftirfarandi vísa sem ekki þarf skýringa við og er landfleyg.

Ungu skáldin yrkja kvæði-

án þess að geta það.

Á Ingólfskaffi ég er í fæði-

án þess að éta það.

Árni Gunnarsson, 8.3.2009 kl. 14:07

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annar afkomandi var séra Þorleifur Kolbeinsson, sem látinn er fyrir fáeinum misserum, fræðimaður mikill, m.a. í lútherskri guðfræði fyrri alda og táknmáli í kveðskap og reglulegur þátttakandi í klúbbi kaffidrykkjumanna á Hressingarskálanum, síðar á Café Paris og Borginni. Í hópnum hafa m.a. verið Þórhallur Vilmundarson, prof. emeritus, Jörmundur Ingi Hansen, fv. allsherjargoði, Gunnar Dal, skáld og fræðari, Pjetur Hafstein Lárusson skáld og Moggabloggari (minnir mig) og Oddur Ólafsson, fyrrv. ritstjórnarfulltrúi á Tímanum, svo að nokkrir séu nefndir.

Jón Valur Jensson, 8.3.2009 kl. 14:49

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Til viðbótar þá er Kambsmálið fyrsta íslenska virkilega sakamálið þar sem beitt var aðferðum sem minna á nútímarannsóknir. Þuríður formaður er sennilega fyrsti íslenski „rannsóknarlögreglumaðurinn“. Við athugun á vettvangi kom í ljós vettlingur sem hún rannsakaði gaumgæfilega. Athugun hennar leiddi í ljós að hún þekkti handbragðið sem leiddi aftur til að grunur beindist að réttum akaraðilum.

Varðani vafasamar fullyrðingar um „þjófaættir“ skulum forðast allar alhæfingar.

Margir merkir einstaklingar eru afkomendur manna sem miður góða kynningu hafa í samfélaginu. Sagt er að umhverfið móti einstakilinginn jafnvel meir en ætternið og má það til sanns vegar færa. Sem betur fer eru börnin oft klókari og betur gefin en foreldranir og sjái augljóslega hversu rangar uppeldisaðferðirnar foreldranna eru. Þeir eru auk þess vondar fyrirmyndir.

Þó svo að einhverjum hafi orðið á, skyndileg freisting og látið eftir henni með oft skelfilegum áfleiðingunum, þá má aldrei yfirfæra það yfir á niðjana. Þeir eru varnarlausir gagnvart miskunnarleysinu. Hvernig var t.d. um þá fátæku einstaklinga fædda utan hjónabands sem áttu sér foreldra sem voru líflátnir vegna stóradóms? Geta þeir e-ð af því gert þó foreldrunum hafi orðið svo á að til svo skelfilegra æviloka varð? Hvernig var með börnin þeirra 18 fátæku og umkomulausu kvenna sem drekkt var í Drekkingarhyl?

Við eigum að sýna þeim smæstu okkar skilning, samúð og miskunn. Allir þeir sem hafa misgernig að baki, eiga rétt á að bæta fyrir sig og misgjörninga sína.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.3.2009 kl. 17:49

14 Smámynd: Hlédís

Sammála Guðjóni og gaman er að fleiri hér minna á Þuríðu formann!

Hér kemur gömul vísa til viðbótar - sögð vera

"Um athafnamann:

Hans var jafnan höndin treg
að hjálpa smælingjonum.
Gekk þó aldrei glæpaveg,
en götuna meðfram honum."

Þetta taki þeir til sín sem eiga, óháð erfðum og uppeldi !

Hlédís, 8.3.2009 kl. 18:00

15 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll gamle ven!Góður sem endranær.Svaraði ekki umræddur Þorleifur þegar hann var spurður af hverju hann hann hefði orðið svona ríkur:"Ég leysti hnútana(!)"Sumt af þessu liði sem hefur haft milljarða af fólkinu í landinu hafa aldrei í kalt vatn difið hendi.Nú mun vera nóg að gera hjá rafeindafyrirtækjum við viðgerðir á ofhituðum pappírstæturum. Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 8.3.2009 kl. 19:23

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er sammála þér Guðjón að því leyti að enginn fær neinu ráðið um athæfi sinna forfeðra. En kannski dettur einhverjum í hug þessi tenging nú þegar margt sýnist benda til þess í dag að börn og afkomendur vafasamra viðskiptajöfra setjist makráðir að illa fengnum auði. Og ekki efa ég að með því verður fylgst nokkuð vandlega á næstu árum.

Því verður ekki á móti mælt að nú eru aðstæður óvenjulegar og tortryggni fólks eykst með hverjum degi. Og þjóðfélagsumræðan á það til að vera miskunnarlaus.

Árni Gunnarsson, 10.3.2009 kl. 13:28

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svo þakka ég ykkur öllum fyrir þátttökuna í þessu spjalli mínu. Það er þó allaf gott að finna að maður er ekki að tala við sjálfan sig einvörðungu.

Árni Gunnarsson, 10.3.2009 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband