Vítaverð fréttafölsun.

Hér tel ég að um mjög vítaverða fréttafölsun sé að ræða. Viðkomandi kvað sér ekki hljóðs og hvað sér meira að segja ekki heldur hljóðs. Ég er sannfærður um að háttvirtur þingmaður kvaddi sé hljóðs.
mbl.is Þingfundur hafinn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Vefmogginn er löðrandi í ambögum. Óskar Magnússon útgefandi er metnaðarfullur strákur og kann vel að taka í lurginn á letingjum. Blaðamenn verða að læra íslensku áður en þeim er sleppt í tölvuna. Óskar ætti að setja þetta mál ofarlega á forgangslistann - fyrst ritstjórinn gerir það ekki.

Baldur Hermannsson, 6.4.2009 kl. 21:50

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta var nú kannski óþarfa hótfyndni hjá mér Baldur minn. En ég leyfi mér að trúa því að með því að setja nógu oft ofan í þessa krakka þá fari þeir smám saman að vanda sig betur. Það er nefnilega slæmt ef þetta orðabrengl festist í málinu.

En svo má það nú ekki gleymast að fáir eru óhultir fyrir smávegis óhöppum.

Árni Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 23:10

3 Smámynd: Baldur Hermannsson

Óhöppin henda alla menn, en það er ekki einleikið hve hroðalega menn eru farnir að níðast á þessu fallega tungumáli okkar. Nú síðast í kosningaþættinum í kvöld sagði einn frambjóðandinn "ég vill". Þessi ári ríður húsum núna. Hann er gamall skólastjóri og hefur eflaust harðbannað nemendum sínum að segja "ég vill".

Baldur Hermannsson, 6.4.2009 kl. 23:30

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þú veist hvernig þetta er, það eru allir að flýta sér svo mikið að þeir hugsa ekki áður en þeir tala.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.4.2009 kl. 10:35

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Guðrún, þegar menn tala hratt gerast óhöppin og ekkert við því að segja. En léleg máltilfinning er miklu verri en stöku óhapp. Getum við ekki gert eitthvað til að bæta máltilfinningu unga fólksins?

Baldur Hermannsson, 7.4.2009 kl. 11:12

6 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Ekki veitir af því Baldur. Eitt af því sem hefur breyst er bókalestur. Börn og unglingar lesa minna.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.4.2009 kl. 11:26

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Guðrún, bóklestur er ábyggilega grundvallaratriði. En einhvern veginn lærðu menn samt að tala rétt í gamla daga þótt ekki hefðu þeir bækur til að lesa. Mig langar til að minnast á mál sem ég hef lesið um en er engan veginn stórfróður um, það er samband hugsunar og tungumáls. Það er ekki sama-sem-merki þarna á milli en þessi fyrirbæri eru náskyld.

Það er ekki hægt að búast við því að fólk sem ekki kann að tala kunni að hugsa svo gagn sé að. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikilvægast af öllu sé að kenna börnum gott mál, rétt og fagurt. Þau hafa ómælt gagn af miklum orðaforða, því ríkur orðaforði gerir þeim kleift að hugsa flóknari og dýpri hugsanir en ella væri.

Íslenska er lang mikilvægasta námsefnið í skólunum - og á heimilunum!

Baldur Hermannsson, 7.4.2009 kl. 11:38

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki átti ég nú von á að þessi óróatilfinning mín ætti svona mikla samsvörun. En þetta sem þú segir núna síðast Baldur er nefnilega kjarni málsins. Fólk sem hugsar á skekktu tungutaki er orðið fatlað í því efni að koma hugsunum sínum til skila svo gagn sé að. Og það versta er að ég held að ungmenni séu orðin feimin við að láta það heyrast að þau beri virðingu fyrir málinu.

Ég veit um hjón sem eiga 6 uppkomin börn og öll hafa vakið undrun og stundum nokkra umræðu þeirra sem þau umgangast vegna góðrar málkunnáttu og málvísi. Og þessi umræða sem byrjaði fyrir mörgum árum er enn í gangi. Þó vinnur þetta fólk hin margvíslegu og ólíku störf. Foreldrarnir eru ósköp ánægð með þetta.

Og ég er sammála þér Guðrún Þóra um það að lestur bóka sem ritaðar eru á góðri íslensku glæða málkennd og auka málþroska meira en flest annað.

En svo verða líka óhöpp í skólunum. Einu sinni lenti ég í því að þurfa að taka næstelsta son okkar úr kennslu hjá kennara sem var farinn að "leiðrétta" stafsetningaræfingar barnsins með slíkum fádæma afbökunum að ég missti um stund stjórn á mínum yfirveguðu geðsmunum. Versta óhappið í þessu efni var það að drengurinn var farinn að trúa kennaranum betur en mér. En hann jafnaði sig nú á því öllu og hefur greinilega ekki orðið fyrir varanlegum skaða.

Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 12:28

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég held þeir séu nú ekki margir sem gera önnur eins axarsköft að trúa kennaranum sínum betur en þér, meistari Árni.

En munið þið eftir Ragnari Önundarsyni úr Silfri Egils? Ragnar þessi er roskinn maður, fyrrverandi bankastjóri, góðviljaður, stálgáfaður og hefur vit á ýmsu. Hann sagði dálítið sem var svo sem ekki mjög áberandi en hefur setið í mér. Það var eitthvað á þessa leið:

Stjórnmálamenn þurfa að losa sig við þá ranghugmynd að það sé lofsvert að sjórna EKKI. Stjórnmálamenn verða að fara að stjórna aftur og þá ekki bara efnahagsmálum, því þjóðlíf saman stendur af svo miklu meira en bara efnahagsmálum - það er menningin okkar til dæmis sem þarf að hlúa að og stjórna.....

Ég man þetta ekki orðrétt, enda var þetta mælt í framhjáhlaupi og örugglega undirbúningslaust. En er þetta ekki mergurinn málsins: við erum búin að vera andsetin af peningahjali um svo langt árabil að við höfum vanrækt íslenska menningu? Allt gengur út á að skjalla útlendinga og allt sem útlent er og hverfa fyrir fullt og allt inn í Evrópu-móðuna miklu.

Ég veit að stórt er spurt en þá er bara að svara stórt!

Baldur Hermannsson, 7.4.2009 kl. 12:40

10 Smámynd: Björn Birgisson

Góð umræða hér. Íslenskan fagra á bágt um þessar mundir. Gaman að renna augum yfir síðuna hans Eiðs Guðnasonar, þar sem hann bendir á alls kyns ambögur sem tröllríða tungunni. Íþróttafréttamenn, sumir hverjir, eru nánast ótalandi.

"Grindavík sigraði leikinn 100-88, en staðan í hálfleik var 50-45 fyrir þeim. Þjálfarinn sagði að honum langaði að þakka góðan stuðning úr stúkunni."

Björn Birgisson, 7.4.2009 kl. 12:44

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

Björn, það líður yfir mig að heyra annað eins. Lengi ertu búinn að reyna að koma á mig höggi og núna tókst það.

Baldur Hermannsson, 7.4.2009 kl. 12:48

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ragnar Önundarson er nú bara eins og örnefni í samtíð okkar, traustur, jarðfastur og svona einhvern veginn eins og tröllin í fjöllunum. Þakka þér fyrir að nefna hann, það gera allt of fáir og allt of sjaldan. Við eigum að taka mark á honum, alltaf.

En þegar við komum að umræðunni um íslenska menningu þá finnst mér nú eins og alltaf fari að bera á einhverju skjögri. Og margir eru þeir sem tala núna mikið um að hugsa "glóbalt" og gefa skít í alla séríslenska menningu. Hún er víst bara til óþurftar í dag. Samfylkingin kann ekki að taka til umræðu mun flóðs og fjöru við Bakkaflóa án þess að tengja forsendurnar við inngöngu okkar í ESB.

Stutt er núna að sögn í reglugerð frá EES um lengd hálsbanda á heimilshundum og húsbændum þeirra.

Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 14:05

13 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þá spyr maður næst, hvar á að byrja og getum við gert eitthvað til að eitthvað jákvætt gerist í valdi fólks á íslensku máli.

Ragnar talar fallegt mál og alltaf gaman og fróðlegt að spjalla við hann.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.4.2009 kl. 15:49

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það góða við íslen[d]skuna, sem var töluð hér á landi um 1965, var að hún var almenn og hafði ekki breyst mikið merkingarlega frá landnámi og að öllu líkindum frá því hún var fyrst smíðuð. Lestir annarra þjóða sem bjuggu við stéttskiptan orðaforða voru ekki til vandræða.

Þann 10. nóv. 1949 ritar Guðni Jónsson í formála að Eddukvæðum úr Konungsbók: " Því miður er því þannig farið um þá einu útgáfu af Eddukvæðunum, sem Íslendingar hafa til þessa átt kost á að eignast, þ.e. ReykjavíkurútgáfuFinns Jónssonar.  Hann ritar t.d. alls staðar hinar tímabundnu a-hljóðvarpsmyndir goll, Goð- í mannanöfnum,fogl, oxio. s. frv., enda þótt u upprunalegt í þeim orðum og uppruni fari saman við nútíðarmál og rithátt handritanna sjálfra. Orðmyndir eins og vesa, vas, hann es o.s. frv. koma hvergi fyrir í handritunum, heldur vera, var, hann er, að ekki sé minnzt á táknið 's. .... Texti Konungsbókar:

Ár skal rísa,

sá er annars vill

fé eða fjör hafa;

sjaldan liggjandi ulfur

lær of getr

né sofandi maðr sigr.

Texti F.J.: [Til stuðnings erlendum ofurfræðingum: bragreglur Sievers]

Ár skal rísa

sás annars vill

fé eða fjör hafa;

liggjandi ulfur

lær of getrat

né sofandi maðr sigur. "

Í Snorra-Eddu er gefnar skýringar á sérkennilegum rithætti hér áður fyrr en ekki að framburður hafi breytst. [setu z má, betra að láta það vera, rita í stað -ðs, -ds, -ts:tesa: kenning t.d. germanna um samsetningar rittáknið var se-te: Persar hinsvegar lesa frá hægri til vinstri te-se sem er í samræmi við hið forna sens].

eg- hljóðið er ekki til í latneskum rittáknum: En[d]skir rita egh t.d. Við munum hafa notað c [sem sé] eða k [lc]. Til að tákna eð [ó-latneskur stafur] fór vel að láta í tje þ.e. lát -et í stað eð.

Hljóðin: egg, err, enn, emm, ell, eru ritað latínu stöfum eg, er, en, em, el sem hljóma þá sem þau væru íslendsk.

Íslendska í dag sker sig úr öðrum tungum í dag sem áður fyrr og gerir grein á fullum samhljóðum og hálfum enner fult, það vantar upp á en. Útlendingar segja hinsvegar að e í enn sé styttra e-inu í en.  Löng og stutt sérhljóð sömu merkingar eða raddar: hljóms. Latnesk rituð mál hafa 5 grönn sérhljóð í grunni: a, i, o,u,e: mismunandi hljóð eftir þeim biblíum sem giltu í hverju landi.

Hinsvegar greinum við 6 grönn hljóð: i, o; a, ö; u, e. Grant á endsku merkir sjálfgefið.   Þessi hljóð voru sögð styttingar þeirra löngu áa: forvera.

í=ií>i, ó=oú>o, á=aú>a, au=öí>ö, uú=ú>u [B-ur], eí=ei>e. Þessi breiðu [broad] hljóð kalla Snorra Sturlusonar menn náttúrulega löíng.

Í rúnum mun forfeður vorir hafa ráðið af líkum og ein rún gat borðið í sér 3-4 hljóð: ár var ein og mun hún hafa staðið fyrir a, á, [ja, já].  Mátti stinga hana [marka] punkti eða slá og marka skástriki: þá slegin. 16 rúnir koma í stað 48.

Íslenskt ú er yfirleitt táknað með hring [o] í enda flestra portugalskra orða falú rita þeir falo svo sem Svíar rita  sem ro. rú-i legt eða líkt er rúlegt og markar að allt verður á rúi og stúi. Hinsvegar má draga hring um ú [loka það inn] oú gefur ró sem er rólegt. Rú-a  latnest ritað rua markar yfirleit götu.

Erlendir og íslendskir nútíma ofurmálfræðingar græða mesta á því að merkingar og ritháttur orða breytist þá má skrá það og byggja á því seljanleg fræði: leita langt yfir skammt og tilgangurinn helgar meðalið.

Það er miður að græðgisjónarmið standa ekki hefðbundinn vörð um íslendska atkvæðagreiningu eða rótarmerkingar einsatkvæðis orða og þar frá orðsifjareglunum. 

Ef fólki er kennt að lesa og greina atkvæði að fornum sið þá fræði máliðum það sem síðar fylgir.  Almennur málskilningur  eða íslendsk málfræði.

Ég las Laxdælu hjá ömmu minni 5 ára [Egilssögu las hún fyrst og lærði utan að og blaðsíðu númerin líka]. Sá sjálfur út að um kerfisbundið stafvíxl var ekki vandamál í sjálfum sér ef orða-forðinn var nægur.   

úr var fyrst í rúnum [það er fyrst úr] og kallast þá víst ur: B yrjar og segir það burr >burar. [ar eða ar[e]r marka fleirtölu].

Í máfræði Snorra Eddu er viðskeytið -ur málsorða ávalt ritað -r eitt sér svo sem sonr hinsvegar ef kynið er beggja eða hennar svo sem hreiður og mæður þá er það ritað ur og er það í fáum undantekningum gert.

Það er margt rotið í landi græðginnar.

Júlíus Björnsson, 7.4.2009 kl. 16:36

15 identicon

Hver ber á landinu góða ábyrgð,

þjóðin mín snauða,

Þú ert dæmd í ánauð,

hið besta, annars til dauða,

og allt í boði útrásarvíkinga oga annars hyskis,

Lund Hervars (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 23:02

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Íslansk tunga er hljómmikil í góðum framburði og hrynjandi er áberandi í fallegum texta. Þessi einkenni eru gleggst hjá íbúum Norðurlands austan Tröllaskaga eftir minni tilfinningu. Ég held að lestrarnám á borð við þitt Júlíus sé ein magnaðasta aðferð til að ná sambandi við íslenskuna. Sjálfur bý ég að nákvæmlega sömu reynslu og þú og naut leiðsagnar ömmu minnar steinblindrar! Við gerðum einhvern veginn með okkur samning sem að vísu var aldrei ræddur. Ég hjálpaði henni við að ná upp lykkjum sem hún hafði misst niður af prjónunum og á meðan fór hún að þjálfa mig í að kveða að orðum. Önnur gæfa samverkandi var knappur bókakostur heimiisins svo þegar ég réðst þar til atlögu var ekki annað skárra nærhendis en Íslendingasögurnar og Heimskringla. Ég var óþreytandi við að lýsa stöfunum fyrir ömmu minni og þessu námi lauk afar skjótt. Ég sleppi því að segja frá því hvenær ég varð fluglæs enda yrði þá bara hlegið að mér.

Ég gleypti í mig Íslendingasögurnar og varð sæmilega að mér í þeim. Reyndar var það nú svo að helstu bardagar og afreksverk í tengslum við manndráp voru lesin með mestri athygli. Og Heimskringlu las ég slitrótt vegna þess að á þessum aldri skildi ég nú lítið annað en spakmæli garpanna sem var að blæða til ólífis með húmorinn að síðasta vopni. En í þeirri merku bók er mikið um drengskaparmenn sem drápu fólk af miklum móði og spöruðu sig ekki við að pína meinta andstæðinga rækilega svona til undirbúnings fyrir kveðjustundina.Að því ógleymdu hversu mikilvægt þetta var nú allt saman fyrir trúna á Hvíta Krist.

Kúltursjokkinu sem ég varð fyrir þegar ég byrjaði að skoða bókina Ungi litli sem einhver frænkan hafði sent mér að gjöf gleymi ég aldrei. Mér var óskiljanlegt hver læsi svona andskotans þvælu!

Árni Gunnarsson, 8.4.2009 kl. 13:05

17 Smámynd: Baldur Hermannsson

Gleymum ekki Sturlungu. Hún er samtíðarsaga, einskonar Moggi 13. aldar. Þar eru margar lýsingar ógleymanlegar - og svo hræðilega nærtækar. Það er stundum eins og fólkið sem sagt er frá búi í næstu götu. Njála er og verður drottningin en Sturlunga er prinsessan.

Baldur Hermannsson, 8.4.2009 kl. 13:14

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það sagði mér forðum Eysteinn Jónsson að þegar menn færu að hefja við hann umræðu um Sturlungu þá reyndi hann að eyða talinu. Og ég skammaðist mín auðvitað. Ég held að það hafi verið rétt hjá honum að Sturlungu eigi menn ekki að ræða svo mikið nema þeir einir sín á milli sem gjörþekkja hana. Ég hef ekki efasemdir um að þú sért einn þeirra og ég sáröfunda þíg. En öll þessi ættartengsl og krosstengingar sem þar er að finna eru svo tímafrekar til lærdóms að sveimhugi eins og ég gafst fljótlega upp. En auðvitað er þetta afar sterk örlagasaga með ósköpin öll af risavöxnum persónum. Og stundum í seinni tíð hafa mér komið í hug þessi endalok þjóðveldis í tengslum við ástandið í dag.

Njála og Sturlunga! Það skyldi þó aldrei vera að Njála hafi verið rituð af öðrum þeirra ritfærustu af Sturlungum- Snorra sjálfum?

Árni Gunnarsson, 8.4.2009 kl. 17:26

19 Smámynd: Baldur Hermannsson

Nei, Árni, það er gjörsamlega útilokað. Snorri skrifaði Eglu en allt annar maður - og allt öðruvísi maður - hefur skrifað Njálu.

Baldur Hermannsson, 8.4.2009 kl. 17:41

20 identicon

Alltaf gott að fá ástæðu til að kjósa eða kjósa ekki ákveðinn stjórnmálaflokk, nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn barasta sí svona boðið uppá 55 milljón ástæður fyrir því að kjósa hann ekki og geri aðrir betur!

Lund Hervars (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 18:53

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og þó hefði ein af þessum fimmtíu og fimm milljónum ástæðna nægt okkur mörgum.

Árni Gunnarsson, 9.4.2009 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband