Færsluflokkur: Bloggar

Sagt frá ógæfumönnum af Skaga og innflytjendum við skeljatínslu

   Ritningin kennir oss að mennirnir eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera- og nú er Jón í Kálfárdal búinn að selja Lýsing sinn fyrir spað!

Þessi orð, sem fleyg urðu í Skagafirði vestanverðum á fyrri hluta nítjándu aldar og tóra jafnvel enn í munni nokkurra fulltrúa eldri kynslóðar þar,  eru höfð eftir piltinum Jóni Bergþórssyni sem stautaði sig gegnum kverið upphátt. Eitthvað hefur hugurinn reikað frá kristindómnum eins og dæmi eru líklega um ennþá í dag þegar börn eru búin undir þá vígslu inn í kristið samfélag sem krefst þess að þau "gangi fyrir gafl".  Jóni verður það umhugsunarefni að svo er komið fyrir fátækum erfiðisbónda á snjóþungri fjalljörð að hann þarf að selja reiðhestinn sinn til að geta brauðfætt hyski sitt og hjú. Enginn veit betur en Skagfirðingar hvíík ógæfa steðjar að þessum manni.

Enginn man heldur lengur að segja frá gæðingnum Lýsingi sem er svo hugstæður ungum hakningspilti og sveitarómaga að hann stendur þar ofar  en hinn eilífi kærleiksboðskapur. Hinn miskunnarlitli heimur samfélagsins á Íslandi  á átjándu öld ætlaði Jóni Bergþórssyni hinsvegar nokkuð hlutverk í þeirri sögu sem nú er flestum gleymd eða horfin inn í rökkur aldanna.

Jón var engum aufúsugestur þegar hann opnaði augu sín fyrst fyrir þessum heimi. Móðirin Guðrún Jóhannesdóttir -jafnan nefnd  Fannlaugarstaða- Gunna, sem ung að árum gerðist lagskona Sigurðar Gíslasonar "trölla", sem gerðist landnámsmaður á Fannlaugarstöðum á Laxádal ytri. Á þessu snjóþunga kotbýli sem nú er hluti afréttar milli Skagafjarðar-og Húnavatnssýslna, bjó Sigurður trölli frá 1823 - 1851 er hann lést í júní það ár en kona hans Ingibjörg Vigfúsdóttir til fardaga næsta árs en þá fór jörðin í eyði. Síðan hefur þar ekki verið ábúð og nú er hún fallin inn í afréttarland. Sigurði græddist fé á þessu koti og líkur eru til að hann hafi verið mannskapsmaður. Um hann orti Stephan G. eitt af sínum mögnuðu ljóðum og meðal afkomenda Sigurðar er Sólveig Pétursdóttir fráfarandi Alþingisforseti.

Fannlaugarstaða- Gunna var ekki við eina fjöl felld og eignaðist mörg börn sem hún kenndi ýmsum öðrum en Sigurði. Bergþór hét maður Jónsson og bjó á Sauðá. Bónda þennan nefndi Gunna föður að barninu Jóni og þó hann tæki því ekki létt,þrætti hann ekki fyrir afskipti af Gunnu og hét að lokum að annast barnið. Eitthvað hefur það farið úr böndum því Jón fór ungur inn á veg hrakninga og reyndist bæði ódæll og hvinnskur.

 Sálufélaga eignaðist Jón sem Jóhannes Oddsson nefndist og var utan af Skaga. Sá hafði álíka stöðu í skagfirsku samfélagi og Jón og saman unnu þeir sér þann rétt til samfélagslegra afskipta sem ævinlega leiddi á þessum tíma af þeim missskilningi að sú knýjandi nausyn sem leiðir af miklu hungri og löngu megi brjóta lög.

Kunnur húsaskipan á Fannlaugarstöðum stýrði Jón för þeirra þangað í aprílmánuði á því herrans ári 1850. Þetta er langur vegur og krókóttur soltnum mönnum með sleða á næturþeli, gæti numið 30-40 kílómetrum. En hvorki skorti fémuni né ríkulegar matarbirgðir á sleða þeirra félaga er þeir sneru til baka og höfðu áður tekið vel til matar síns af kræsingunum úr búri Sigurðar trölla,  afréttarbóndans auðuga. 

Illur fengur illa forgengur, segir máltækið og svo fór um þennan feng. Þeir svarabræður munu skammt hafa verið komnir á veg er til þeirra náðist. Og nú beið refsingin. Samkv. dómi 2. desember þetta ár þótti hæfilegt 3x27 vandarhögg á bert bak. Þeirri refsingu var þó ekki fullnægt fyrr en þrem árum seinna. Ámælisverðar tafir á fullnustu samfélagslegrar blessunar virðast ekki vera nýlunda í réttarfari á okkar ágæta landi. Ekki bar hann Björn okkar Bjarnason ábyrgð á þessum slóðaskap.

En nú gisna að mun allar heimildir um þá félaga Jón Bergþórsson margnefndan og hans þjáningarbróður Jóhannes Oddsson. Líkur eru þó til að þeir hafi skolfið saman undir messum í Ketukirkju á þeim sunnudögum sem prestur átti heimangengt. Skaginn er harðindapláss og sjávarhlunnindi voru þar ein helsta lífsbjörg í langri sögu. Menn sóttu sjóinn fast og meiri líkur en minni verður að teljast á því að ungir sakamenn hafi verið eftirsóttir við störf sem kröfðust vaskleika.

En árið 1855 skýtur nafni Jóns sonar þeirra Fannlaugarstaða Gunnu og Bergþórs á Sauðá, ásamt með einhverju ívafi frá erfðaefni Sigurðar trölla - upp í heimildum af Skaga. Það ár er hann vinnumaður á Kleif en var lánaður að Selá í sömu sveit á útmánuðum. Og af því að flest það sem hér hefur verið frá sagt um téðar persónur er stolið- og illu heilli jafnframt líka stílfært úr skrifum fræðameistarans og rithöfundarins Kristmundar Bjarnasonar á Sjávarborg ætla ég mér nú að sleppa honum lausum. Og bókin er Skagfirskur annáll 1847-1947, fyrra bindi bls. 36-38.

Þá var matarlítið á Skaga, landfastur ís, tregt um björg af sjó. Bændur á Fram-Skaga hjuggu vakir í ísinn framundan svonefndu Ásnefi og lögðu lagvaði. Þar sem Jón Bergþórsson var allra manna fótaskinn, dæmdur bjálfinn, var hann lánaður að Selá eins og fyrr segir. Hinn 7. marz aflaðist óvenjuvel, og urðu bændur seinir fyrir að koma öllum fengnum, svo og veiðarfærum í land. Morguninn eftir var Jón sendur út á breðann með sleðagrind að sækja ýmsar færur, svo og hákarlinn, sem eftir hafði orðið. Hundur hans tölti á eftir. Sveinn Símonarson hreppstjóri í Efranesi sendi sýslumanni og kammerráði Kristjáni Kristjánssyni í Hofstaðaseli svohljóðandi tilkynningu hinn 20. marz 1855:

"....Einnig vil ég ekki láta hjá líða að geta þess, að 8da dag þ.m var Jón Bergþórsson sá er var í þjófnaðarmálinu, vinnumaður á Kleif, en nú um tíma á Selá, á ferð út á ísnum hér fyrir Skaganum, en þíðviðri var komið, og svo hljóp snögglega upp ofsaveður af suðri, svo ísinn rifnaði allt í einu frá landi á endilöngum Skaga, og spöngina,sem Jón var á, rak þegar til hafs, og sáu menn skamma stund til hans úr því, bæði vegna fjarlægðar og særoks, enda hefur ei til hans spurzt síðan, og hyggja flestir hann týndan, því lítil von virðist til, að hann hafi rekið upp á austurlandið. Hann mun hafa átt eitthvað lítið af fötum og smávegis rusl, er ég mun láta skrifa upp, þegar útséð er um, að hann hafi komist lífs af".

Það sást til Jóns í sjónauka, meðan bjart var. Hann hljóp fram og aftur um ísinn, þindarlaust og baðaði út höndunum, eins og hann vildi hefja sig til flugs. Seppi fylgdi á hæla honum. Þá bar hraðbyri út í sortann. Ekkert var reynt til bjargar Jóni, engar fjörur gengnar næstu daga. Þó er mælt að rakkinn, sem fylgdi honum, kæmist á land á Út-Skaganum seint um kvöldið, aðrar heimildir herma, að hann hafi komið að Víkum á Skaga sex dægrum síðar".

Jóhannes Oddsson lifði fornvin sinn í nær fjórðung aldar. Þann 8. nóvember 1879 fórust tveir bátar af Skaga í fiskiróðri með 11 mönnum. Einn þeirra var Jóhannes Oddsson vinnumaður á Gauksstöðum.

Það er ekki héraðsbrestur þó kaghýddir sakamenn úr vinnuhjúastétt hverfi af þessum heimi með slysalegum atburðum. Bölvaðast kannski með sleðann og verkfærin sem hurfu með Jóni. "Þetta var náttúrlega alltaf mesti ólánsbjálfi og endaði sem slíkur, ekki við öðru að búast",  heyrir maður hvíslað frá aldanna niði sem bergmálar umræðuna frá hverri tíð sögunnar, jafnvel þó óskráð sé. Jón Bergþórsson "skaust inn í ættir landsins utanveltu hjónabandsins", eins og nafni hans "hrak". Ekki fara sögur af minningarathöfn í Ketukirkju en bót í máli þó að ekki dró til kostnaðar vegna greftrunar.

 Kannski festist ekki að ráði í höfði Jóns neitt markverðara frá kristindómsfræðslunni  en þessi stutta málsgrein um gæsku mannanna sem ævinlega er minni en hún ætti að vera. Hún sannaðist að vísu nokkuð á hans eigin skinni lifandi sem dauðu.

Ein öld og þó hálfri betur líður þar til örlög Jóns Bergþórssonar, ógæfubarns úr utanverðum Skagafirði vestanmegin, rifjast upp kunnugu fólki. Til þess verður slysalegur atburður í landi sem liggur okkur nærri í mörgum skilningi. Í stað dæmdra sakamanna koma þar til sögu ólöglegir innflytjendur sem-í stað þess að verða gripnir og dæmdir öðlast náðarsamlega yfirhylmingu glæpsins með því að gerast aðdráttarmenn hlunnindabænda við að safna skeljum á háfjörunni. Þeir þekkja ekki til staðhátta og húsbændurnir halda þeim stíft að verkinu. Hagvöxturinn blessaður er harður húsbóndi og gott er að eiga kost á ódýru vinnuafli. Gáleysi þessara kínversku vitleysinga er óskiljanlegt og ámælisvert.

Húsbændum sínum og velgjörðarmonnum til bölvunar taka þeir uppá að drukkna bara rétt sisona og allur aflinn fordjöflaður rétt eins og hákarlinn út af Ásnefinu árið 1855. Og greiðamenn þeirra í héraði fá skömm í hattinn og úthrópun fyrir vítavert gáleysi.

Það er ævinlega vandratað meðalhófið þó alltaf sé nú freistandi að nýta sér ódýrt vinnuafl af erlendu þjóðerni. Þokkalega verkfærir sakamenn eru auðvitað ekki fáanlegir lengur til vinnu á Íslandi fremur en glóandi gull. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband