Hrunið! - Hið svokallaða Hrun! - (eða bara) Gott strand!

Frá því er greint í munnlegum sögnum og annálum fyrri alda að fólkið sem bjó við hafnleysi suðurstrandar Íslands hafi mörgum happafeng bjargað í hús úr strönduðum skipum.

Sagt hefur verið í kaldhæðni um þessa  hörmungaratburði að fólkið í Skaftafellssýslum hefði gjarnan skipt þeim upp í umræðunni eftir ábata og talað um "gott strand", þegar mikið náðist af matvælum og jafnvel koníaki og öðrum góðvínum sem venja mun hafa verið að bjóða upp á strandstað.

Nú eru meira en 5 ár frá því að verstu spár raunsærra manna um endalok útrásarbrjálseminnar og þenslunnar í byggingariðnaðinum rættust og forsætisráðherrann mætti klökkur í beina útsendingu.

Íslenskt efnhagkerfi hafði hrunið. Útrásin reyndist spilaborg og flestir pólitísku máttarstólparnir og gáfulegu ráðuneytisstjórarnir ásamt þungbrýndum embættismönnum stóðu uppi eins og keisarinn fatalausi í ævintýrinu.

Berrassaðir aular.

Ennþá eru þó sanntrúaðir hagvaxtartrúboðar að burðast með skurðgoð markaðshyggjunnar og tína saman efni í nýjan stall handa því að standa á.

Enn er sanntrúaður hugmyndafræðingur hægri manna á Íslandi að berja saman kenningu um að þetta "svokallaða Hrun" hafi verið hrekkur vondra manna sem þoldu ekki að sjá íslenska yfirburðamenn leggja undir sig efnahagskerfi vesturlanda.  

Og flesta daga heyrum við fregnir af því að týndir og brottflúnir leikstjórar í hinum margbrotnu uppfærslum útrásartragikómedíunnar séu að skáskjótast til baka klyfjaðir fé sem þeim hafði með útsjónarsemi tekist að nurla saman og kjótla útfyrir landhelgina.

Og eru verðlaunaðir fyrir.

Af því að þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta bara býsna gott strand þegar öll kurl eru komin til grafar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður Árni.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.11.2013 kl. 12:14

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og nú er verið að yfirheyra nokkra skipverja sem reru frá borði skömmu áður en skútan strandaði.

Þeir eru búnir að koma sér vel fyrir í nýjum fiskiplássum og muna víst lítið frá atburðum.

En er ekki einmitt núna kominn tíminn til "að gefa í"?

Árni Gunnarsson, 5.11.2013 kl. 12:56

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Nú er áhöfnin sem strandaði þjóðarskútunni farin að tala um "hin gífurlegu tækifæri" sem strand hennar bauð upp á fyrir íslenskt efnahagslíf en björgunarmenn á strandstað gerðu víst þetta góða strand að engu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.11.2013 kl. 16:17

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Heldurðu ekki Axel að þeir sem svona tala hafi misst þetta út úr sér í ógáti?

Það er mín skoðun að hugtakið; "íslenskt efnahagslíf" hafi verið túlkað þarna afar þröngt!

Það er nefnilega löngu komið í ljós að tækifærin voru ærin og þau svo sannarlega nýtt af þeim sem voru "vel settir."

Árni Gunnarsson, 5.11.2013 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband