Framboð aldraðra og öryrkja

Til að ganga endanlega milli bols og höfuðs á völdum þess tvíeykis sem lengst og mest hefur gengið erinda voldugra hagsmunahópa á kostnað almúgafólks þarf sameiginlegt og skipulegt átak. Gífurleg fylgisaukning Pírata virðist vera orðin staðreynd og ótti tvíeykisins er orðinn utanáliggjandi lasleiki sem dylst engum.

Óþreyja fer nú greinilega vaxandi í röðum aldraðra og öryrkja vegna síendurtekinna svika við að leiðrétta lífeyrisgreiðslur sem áttu að fylgja hækkunum lægstu launataxta. Og nú er jafnvel rætt um framboð í næstu alþingiskosningum og/eða málsókn gegn ríkinu til leiðréttingar á kjörum þessara hópa sem eru fyrir löngu komin niður fyrir stjórnarskrárvarin réttindi hvað lífeyri varðar.
Flestum er nú orðið ljóst að baráttan við ríkisstjórnarflokkana snýst fyrst og fremst um:

1. Að opna fyrir aðgang að fiskimiðum okkar, dýrmætustu auðlind þjóðarinnar sem ekki einungis hefur verið einokuð, heldur vannýtt að auki svo skelfilega að það hefur nánast eytt mörgum byggðakjörnum,haldið niðri almennri hagsæld og nú síðast lamað velferðis-og heilbrigðiskerfi okkar svo að í óefni er komið og vandséð um lausnir. Þarna er fyrsta verkefnið að gefa handfæraveiðar frjálsar. Með því er því fólki sem býr við sjávarsíðuna, færð á ný þau mannréttindi sem það var svipt vegna heimsku og stjórnlyndis okkar pólitíska vanburðafólks. Engin áhætta fyrir fiskistofnana felst í þessu. Um það eru allir sammála sem vita hvernig þessum veiðum er háttað. Og handfæri ógna aldrei vexti og viðgangi fiskistofna.   

2. Að leiðrétta kjör aldraðra, öryrkja og tryggja þeim búsetuúrræði í viðunandi húsnæði.

Nokkuð víst má telja að einhverjir úr hópi eldri borgara sem fengið hafa nóg af fjórflokknum muni komast í vanda ef þeir eiga ekki aðra kosti en Píratana. Tungumál þeirra er líklega á margan veg með öðrum brag en við höfum vanist sem heyrum til kynslóðinni sem óx upp skömmu eftir eða fyrir lýðveldistöku. 

Baráttan við fjórflokkinn og þó ekki síst þá tvo sem nú stýra samfélaginu, verður hörð og óvægin og þar er mikið í húfi. Nú er það von mín að eldri borgarar taki á sig rögg og fari að undirbúa framboð til næstu alþingiskosninga.

Það framboð gæti vel sameinast stjórnmálaaflinu Dögun sem hefur á að skipa mörgu afbragðsfólki. Nægir þar að nefna fyrrum alþingismennina og baráttujaxlana Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður L.E.B. ásamt Helgu Þórðardóttur formanni Dögunar eru einnig álitlegir frambjóðendur ásamt okkar óþreytandi baráttumanni Björgvin Guðmundssyni og fleiri mætti nefna s.s. Karl Matthíasson fyrrv. alþm.

Þessu er skotið fram hráu, svona til umhugsunar en ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Mer finnst þessi hópur þurfa að fara að gera eitthvað- hið snarasta. Björgvin á ÞING !

Erla Magna Alexandersdóttir, 29.8.2015 kl. 18:25

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Fáum Forsetan til að standsetja Þjóðþing og skipta landstjórninni í ca.5 hluta sjálfstjórnarsvæði og trillurnar veiði frjálst næstu 5-8 árin á meðan sjávarþorpin eru að ná sér. Sægreifarnir verða fiskverkamenn og hagur landsins mun verða eins og þjóðskráin kveður á um að fólkið beri arð af landinu.

50 cal.

Eyjólfur Jónsson, 12.1.2016 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband