Steingrímur J. molbúinn og blóðmörsspýtan

Við lestur þessarar fréttar og eftir atburði gærdagsins á Alþingi kemur mér í hug sagan af Molbúanum og blóðmörsspýtunni sem ég las í bernsku. Sú saga greinir frá því þegar Molbúi nokkur reri til fiskjar sem oftar og hreppti storm. Lafhræddum kom honum í hug að strengja þess heit að ef hann kæmist heilu og höldnu í land skyldi hann aldrei framar éta blóðmör sem honum þótti auðvitað bestur matar. Eftir landbarninginn dróst hann örþreyttur til bæjar og þar fagnaði eiginkonan honum með nýsoðnum ilmandi blóðmör. 

Þetta þótti Molbúanum skelfileg hefnd forsjónarinnar og hugsaði nú ráð sitt glorsoltinn við ilminn af kræsingunum. Og honum tókst að blekkja forsjónina með klókindum. Það var allt í lagi að éta blóðmörinn ef hann sleppti vömbinni sem var utan um keppinn og nú reif hann i sig slátrið. En auðvitað sárlangaði hann í vömbina því honum hafði alltaf þótt hún öllu betri en slátrið. Keppurinn hafði verið þræddur saman með mjórri spýtu sem enn hékk við vömbina og nú leysti Molbúinn sig frá heitinu með því að heimfæra það á blómörsspýtuna og gleypti í sig keppinn með góðri lyst. Eftir lá blóðmörsspýtan og glotti kalt.

 Glæsileg og skelegg kosningabarátta Steingríms J. Sigfússonar nýliðið vor skilaði Vinstri grænum gæstri útkomu og fylgisaukningu langt umfram væntingar. Enginn efaðist um að einörð andstaða hans við aðildarumsókn í ESB átti þar ríkasta þáttinn og kom reynda engum á óvart þar sem þessi flokkur var eina stjórnmálaaflið sem sýndist einhuga í málinu. En nú tók við alvara lífsins þegar mynduð hafði verið "norræn velferðarstjórn" undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hafði stýrt Samfylkingunni með inngöngu í ESB sem heitasta kosningamálið.

Og Steingrímur jarl af Gunnarsstöðum sem hafði vakið á sér þjóðarathygli og aðdáun þegar hann tók Davíð Oddsson til bæna og kallaði hann gungu og druslu úr ræðustól Alþingis settist auðmjúkur í kjöltu Jóhönnu Sigurðardóttur sem gerði honum það skiljanlegt að ef hjúskaparheit þeirra ætti að endast þá léti hann umsvifalaust af öllum rembingi útaf ESB umsókn Alþingis.

Steingrímur kom í ræðustól Alþingis fimmtudaginn 16. júlí 2009 og tilkynnti þjóðinni að hann væri enn einarður andstæðingur inngöngu Íslands í ESB en hann hefði ákveðið nauðugur og eftir langa innri baráttu að éta blómörskepp Jóhönnu Sigurðardóttur ásamt vömbinni-að sjálfsögðu. Hann sæi sig knúinn til að styðja aðildarumsókn Íslands til ESB.

Margir spá því nú að þessi pólitíski blóðmörskeppur verði sá síðasti sem hann étur í boði íslenskra kjósenda og nú muni hann fyrr en hann grunar verða látinn naga blóðmörsspýtuna. 


mbl.is Búið að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Árni; æfinlega !

Þakka þér; dæmisögu góða. Langt er um liðið; síðan ég sá, bið blekkingum og blaðri Þistilfirðings afmánarinnar, Árni minn, en,..... skil vel, vonbrigði ykkar hinna, hver tiltrú höfðu, á andskotans froðu snakknum, framan af.

Þau Jóhanna; hafa komið svo málum, með ráða og dáða leysi, sem fylgisspekt, við útlenda gróða menn, að landsmenn flestir, vilu berja á þeim; persónulega, gæfust tækifærin til, svo mikið er víst; um undirritaðan.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi - sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 16:13

2 identicon

við blekkingum; átti að standa þar - og; vildu berja á þeim. Afsakið; helvítis klaufskuna !

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 16:15

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Ávarp frá Steingrími J. Sigfússyni

16.7.2009                                                                          Ágætu félagar,Alþingi hefur nú samþykkt að Ísland óski eftir því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og að möguleg niðurstaða þeirra verði lögð í dóm kjósenda. Höfum það þó í huga að enn hefur engin ákvörðun verið tekin um að ganga í Evrópusambandið, hún verður ekki tekin fyrr en öll spil hafa verið lögð á borðið og það verður þjóðin sem mun taka hana komi til þess. Þannig er þessi niðurstaða vel samrýmanleg landfundarályktun í mars síðastliðnum sem lögð var fram í kjölfar mikils starfs innan flokksins sem allir flokksmenn gátu tekið þátt í.Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.Vissulega voru uppi hugmyndir um leiða málið til lykta á annan hátt og mörgum innan okkar raða er það óljúft að standa yfir höfuð að nokkurri hreyfingu málsins í þessa átt. Ég dreg enga dul á að þetta mál hefur verið erfitt fyrir mig eins og okkur öll enda hefur flokkurinn frá upphafi tekið afstöðu gegn aðild Ísland að sambandinu. Þessi leið varð hins vegar niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna við Samfylkinguna og fékk yfirgnæfandi stuðning á flokksráðsfundi. Á þeim fundi kom í ljós eindreginn vilji til að mynda velferðarstjórn að norrænni fyrirmynd með Samfylkingunni og að myndun slíkrar stjórnar ætti að varða veginn fyrir endurreisn íslensks samfélags.Nú munu væntanlega hefjast aðildarviðræður við Evrópusambandið. Með aðild sinni að ríkisstjórn getur Vinstrihreyfingin – grænt framboð haldið stefnu sinni og sjónarmiðum til haga á öllum stigum þeirra. Við munum leggja áherslu á að staðið verði vörð um íslenskan sjávarútveg og landbúnað, yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum, velferðarkerfið og félagsleg réttindi og síðast en ekki síst lýðræðið sjálft. Leiði viðræðurnar af sér aðildarsamning þá verður hann rækilega kynntur fyrir þjóðinni og þannig tryggt að hún verði í aðstöðu til þess að taka upplýsta afstöðu til málsins. Komi það hins vegar í ljós að engan þann skilning á sérstöðu eða grundvallarhagsmunum Íslands verði að finna hjá viðsemjendum okkar að það gefi tilefni til að halda viðræðum áfram, þá höfum við einnig gert það alveg ljóst að við áskiljum okkur rétt til að leggja til á hvaða stigi sem er að þeim verði hætt. Kæru félagar, það er mikilvægt að við látum þetta mál, sem ég veit að afar skiptar skoðanir eru um innan hreyfingarinnar, ekki sundra okkur. Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur nú verið sett í ferli sem mun annað tveggja leiða til þess að viðræðum verður hætt náist enginn viðunandi árangur eða að þjóðin á lýðræðislegan hátt gerir út um málið. Við þurfum á næstu mánuðum og misserum að sameina kraftana í glímunni við erfiðleikana hér heima. Til þess að sigrast á þeim þarf að grípa til margvíslegra og erfiðra ráðstafana, en við höfum þá trú að það sé betra að við gerum það sem gera þarf heldur en setja málin aftur í hendur þeirra sem bera höfuð ábyrð, bæði pólitískt og hugmyndafræðilega, á óförum okkar.Hér á eftir fylgir sú atkvæðaskýring sem ég flutti við upphaf afgreiðslu málsins í dag:Þegar tillaga þessi um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur til lokaafgreiðslu vil ég árétta þá grundvallarstefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili. Við greiðum atkvæði um það hér á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað eða samþykkt niðurstöðuna komi til hennar. Þingmenn Vg  eru bundnir af engu nema eigin sannfæringu varðandi það hvort sú leið skuli farinn. Hvoru tveggja afstaðan, að vera með því eða á móti er vel samrýmanleg stefnu flokksins. Öll eigum við það sameiginlegt að áskylja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar skoðun. Það tekur einnig til þess að hvort sem heldur er leggja til á hvaða stigi viðræðna við Evrópusambandið sem er, komi til þeirra, að þeim verði hætt ef þær eru ekki  að skila fullnægjandi árangri gagnvart grundvallarhagsmunum Íslands sem og að leggjast gegn óviðunandi samningsniðurstöðu.

Steingrímur J. Sigfússon

Sennilega best að kallinn svari þessu sjálfur!  Kveðja!

Auðun Gíslason, 17.7.2009 kl. 16:21

4 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: sagan smell passar, en hvernig ætli honum gangi að horfa á sjálfan sig í speglinum, annar eins viðsnúningur hefur ekki sést lengi, líklegt má telja að þú eigir kollgátuna um hvernig kosningar fara næst, því svikin loforð eru slæm, en verst er að svíkja sjálfan sig.

Magnús Jónsson, 17.7.2009 kl. 16:28

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það hæfir Steingrími vel að ganga í kæfubelginn í Brussel.

Sigurður Þórðarson, 17.7.2009 kl. 16:44

6 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég hélt að þessa sögu væri kannski að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar.  En Molbúasögur í þýðingu Bjarna Jónssonar úr dönsku komu víst út árið 1933 - með teikningum.  Var endurútgefið fyrir stuttu. Éta danir slátur ?

Hvorir þurfa að óttast þjóðaratkvæðagreiðsluna um þessa aðild, ESB-sinnar eða andstæðingar ?

Pétur Þorleifsson , 17.7.2009 kl. 16:47

7 identicon

Sæll Árni,

Mér finnst boðskapur sögunnar sem þú segir að neyðin kennir naktri konu að spinna, við erum nú nakin og eigum engra annarra kosta völ en að færast nær siðmenningu og því aðhaldi sem Evrópusambandið veitir. Frekar vill ég taka þátt í samskiptum og sambandi við Evrópuþjóðir frekar en að treysta áfram á siðspillingu að hætti útrásarvíkinga og misvitra stjórnmálamanna hér á landi. Það er rétt sem þú segir Árni að kúvending hefur orðið í afstöðu SJS og VG, en ég er á því að þar fari fólk sem getur breytt um skoðun ef aðstæður kalla á það, án tillits til vinsælda, og ég tek ofan fyrir því. 

Lund_Hervars (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 20:08

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Já margur verður að ráðherrastólunum API!!!!!!!!!!!!!

Rauða Ljónið, 17.7.2009 kl. 20:42

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar Helgi. Ég er ekki pólitískur liðsmaður Steingríms svo hann hefur ekki níðst á mínu umboði. En ég hef oft dáðst að honum og ætlaði honum ekki svona heigulshátt og tvöfeldni.

Auðun. Það var engin ræða í þessa veru sem efldi fylgi Vinstri grænna í síðustu kosningum. Nú notar hann þetta almenna orðalag sem Samfó hefur notað, að við eigum að láta reyna á hvað sé í boði! 

Siggi:  Já eiginlega finns mér nú hann Steingrímur garmurinn svona hálfpartinn  vera orðinn pólitískur kæfumatur.

Magnús. Þeir liðsmenn Steingríms sem ég hef hitt í gær og dag eru á einu máli um að dagar hans í forystunni séu á enda. Reyndar segja þeir nú ýmislegt fleira en það fellur víst flest utan við ítrustu siðareglur. 

Pétur. Eiginlega var ekki tilgangur færslunnar sá að vera heimild um tilurð Molbúasagna né nein skýring á hefðbundnu fæði samfélags þeirra. Ekki sé ég að það skipti heldur neinu máli hverjir þurfa að óttast atkvæðagreiðslu ef af henni verður. Hér er rætt um stjórnmálaforingja sem sveik eitt dýrasta kosningaloforð stjórnmálamanns á lýðveldistíma þessarar þjóðar. 

Árni Gunnarsson, 17.7.2009 kl. 21:04

10 Smámynd: Páll Blöndal

Páll Blöndal, 17.7.2009 kl. 22:09

11 Smámynd: hilmar  jónsson

Helv.. ertu grimmur..

hilmar jónsson, 17.7.2009 kl. 22:13

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lund H. Ég ber virðingu fyrir þeim sem geta skipt um skoðun en enga virðingu fyrir þeim sem ekki viðurkenna að stundum sé rétt að skipta um skoðun. Sjálfur hef ég verið þeirri kenningu trúr. En Steingrímur J. hefur ekki skipt um skoðun að eigin sögn enda hafa engar forsendur verið til þess hvað þetta mál varðar á þeim fáu vikum sem liðnar eru frá kosningum. Allir stjórnmálaflokkar tóku þetta mál fyrir á landsfundum fyrir kosningar og eini flokkurinn sem hefur fylgt slíkri samþykkt af heiðarleika er Samfylkingin. Nokkrir þingmenn allra annara flokka ýmist hliðruðu sér hjá að fylgja samþykktum eða voru beinlínis þvíngaðir til þess að ganga gegn þeim.

Páll og Hilmar. Sú grimmd sem líklega má finna í orðum mínum stafar auðvita'ð af því að ég er andvígur því að íslenska þjóðin glati fullveldi sínu meira ein orðið er. Og ég mun aldrei fyrirgefa þeim sem selja það fullveldi, hvað sem í boði verður. Af gamalli reynslu er ég tortrygginn á að þjóðin muni hafna því sem búið verður að semja um ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Nú er mín eina von sú að ekki náist neinn samningur.

Árni Gunnarsson, 18.7.2009 kl. 00:18

13 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góð færsla frændi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.7.2009 kl. 08:51

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hann á eftir að éta spítuna. En það getur orðið þungur hjá honum róðurinn í næstu kosninga baráttu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.7.2009 kl. 09:19

15 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Rétt Árni, Heilaga Jóhanna & SAMSPILLINGIN er búinn að leik á VG með því að KREFJAST þess að VG styðji þeirra EB frumvarp án þess verði engin "vinstri stjórn" mynduðu...!  Við þessari HÓTUN XS var bara EITT rétt svar "nei takk" við höfnum því alfarið að fara í stjórn með ykkur, enda hafið þið ítrekað sýnt að þið komið engu í verk!  Því miður tók Steingrímur RANGA ákvörðun og svo er þingflokkurinn BARINN til hlýðni til að fylgja flokkslínum - trúverðugleiki VG sem tók mörg ár að byggja upp er "hruninn - horfinn" og það eina sem hefur komið í ljós að "stuðningsmenn SteinRÍKS" verða loksins að sæta sig við þá staðreynd að SteinRÍKUR er bara góður ræðumaður en "arfa lélegur stjórnmálamaður" - hans dagar sem formaður VG eru sem betur fer taldir og fagna ég því innilega!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 18.7.2009 kl. 11:41

16 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Af gamalli reynslu er ég tortrygginn á að þjóðin muni hafna því sem búið verður að semja um ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur."
 Þetta er málið.  Það er ástæða fyrir ESB-andstæðinga að óttast það að samningurinn verði borinn á borð sem flottur og fínn af flestum fjölmiðlungum. 

Pétur Þorleifsson , 18.7.2009 kl. 12:06

17 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sumir trúa því að nú sé búið að brjóta það haft með VG sem til þurfti. VG muni skoppa tilbaka, en það verði of seint. Samfylkinginn varpi þeim til hliðar og taki upp dansinn með xD þingmönnum að nýju, jafnvel með xO sem meðreiðarsveina. Sagan segir að xD þingmenn séu það reikulir í ESB sporinu að nú geti þeir dansað hinu megin við línuna. Það voru jú ekki þeir sem ýttu þessu fley frá vör. xS hafi því fengið það sem þau þurftu frá VG og nú hegði þeir sér áfram, eða aðrir verði sóttir.....

Sjálfur vill ég ekki leggja trúnað í þetta (þó ég breiði þessum sögusögnum gjarnan út), en ljóst má þó vera að VG hefur misst gríðarlegann styrk á þingi, með því að hleypa ESB málinu í gegn. Mikilvægi þeirra minnkaði verulega við það. Ég tel því trúlegt að nú hafi Samfylkingin miklu meiri völd en áður.

Haraldur Baldursson, 18.7.2009 kl. 19:23

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jakob Þór og Haraldur. Ég get svo sannarlega tekið undir með ykkur báðum. Þetta afspyrnu klaufalega pólitíska lending Steingríms J. er ekki bara eitt afmarkað stórslys fyrir okkar sundraða og ráðvillta samfélag heldur mörg slys í senn.

Það stjórnmálaafl sem Vinstrihreyfingin grænt framboð lagði sig fram við að boða þjóðinni var íhaldssamt í anda þjóðhyggju og virðingar fyrir umhverfi og náttúru og íhaldssamt í utanríkismálum. Það boðaði nýtt gildismat byggt á sárri reynslu eftir tryllta og fyrirhyggjulausa hagvaxtarpólitík fyrri ríkisstjórna. Og leiðtoginn var herskár og sannfærandi vígamaður sem virtist óhagganlegur og óhvikull.

Út á þetta pólitíska andlit sópaði flokkurinn að sér fylgi og dýrasta loforðið var að aldrei yrði gefið eftir í andstöðunni við það fullveldisafsal sem samstarfsflokkurinn boðaði.

Af einhverri óskiljanlegri heimsku trúði Steingrímur því að undansláttur í þessu máli væri pólitísk klókindi sem auðvelt yrði að nota á síðari stigum málsins og telja þjóðinni trú um að flokkurinn myndi stöðva þann samning sem þá lægi fyrir. Hvílík afspyrnuheimska! 

Nú er Samfylkingin búin að nota Steingrím og spurning hvenær honum verður gert skiljanlegt að hans sé ekki lengur þörf né heldur flokksins.

En íslenska þjóðin er særð og reiðin magnvana. Nú treystir enginn lengur neinu stjórnmálaafli á Íslandi. Stringrímur J. Sigfússon fékk gullið tækifæri til að verða sá leiðtogi sem leiddi þessa löskuðu þjóð inn í nýja tíma með þjóðlegt gildismat að leiðarljósi. Þess í stað kaus hann að leika einhvern pólitískan ref, hlutverk sem hann kunni auðvitað ekki og varð honum að pólitísku fjörtjóni.

Nú mun einu gilda þótt flokksmenn Steingríms lýsi yfir trausti á leiðtoga sinn á einhverjum fundum eins og gjarnan tíðkast á Íslandi. Öll þjóðin mun hlægja að slíku leikriti.

Árni Gunnarsson, 19.7.2009 kl. 00:51

19 Smámynd: Haraldur Baldursson

Árni þarna er ég þér sammála, þó ekki hafi ég ratað þangað hjálparlaust. Steingrími bauðst eitt stærsta hutverk íslenskrar stjórnmálasögu...hann bara áttaði sig ekki á því, eða að hann hreinlega er ekki nógu stór til þess að rísa undir því að leiða þjóðina áfram í gegnum kreppuna. Ólin frá Samfylkingunni heldur því enn.

Haraldur Baldursson, 19.7.2009 kl. 11:19

20 Smámynd: Auðun Gíslason

MIkið hélvíti er þetta eitthvað úldið allt saman!  En að mæta til mótmæla, nei, heldur skal grátið! 

Auðun Gíslason, 19.7.2009 kl. 19:00

21 Smámynd: Hlédís

Árni!

Vantreystu samt ekki þjóðinni. - Gerirðu það ertu litlu betri en hitt forsjárhyggu-pakkið.

Hlédís, 21.7.2009 kl. 18:30

22 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll "gamli"vinur Þú hefur lög að mæla sem endranær Sértu ávallt kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 21.7.2009 kl. 20:39

23 identicon

Sæll Árni,

Ein athyglisverð frétt síðustu daga sem snertir málefnið sem þú ert að fjalla um. Samt hefur frekar lítið verið fjallað um þennan atburð. Kröfuhafar bankanna gömlu munu eignast nýju bankana að mestu eða öllu leyti. Ég held Árni að þessi ráðstöfun feli í sér mestu eignatilfærslu sem orðið hefur hér á landi frá 1550 þegar allar eignir kirkjunnar fluttust undir danakonung. Hugsaðu þér Árni, við þessa ráðstöfun eignast erlendir kröfuhafar, þ.e. erlendir bankar, hundruði íbúða og fasteigna, gríðarlegan fjölda fyrirtækja, gætu vel eignast orkufyrirtæki og þessvegna kvóta og fiskvinnslu um allt land. Tilmæli ríkisstjórnar til banka að sýna fyrirtækjum og almenningi skilning? Ætli nýjir eigendur bankanna hugsi eitthvað um það? Sá ótti sem margir bera í brjósti til ESB vegna tilfærslu á fullveldi og yfirráð yfir eignum og auðlindum er ekki í komandi framtíð. Framtíðin er núna! 

Lund Hervars (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 21:36

24 Smámynd: Björn Birgisson

Árni í botni allur rotni,

ekki er dyggðin fín.

Þjófabæli er hans hæli,

þar aldrei sólin skín.

Einhvernveginn svona var vísan um misskilda útgerðarmanninn og auðmanninn á biðilsbuxunum. Mér forlátist skekkjan, ef einhver er.

Sjá menn ekki hvað er í gangi? Sjá menn ekki að núverandi stjórnvöld eru bara að moka flórinn? Skiptir engu hvað menn hafa sagt áður. Ég hef aldrei kosið VG, en ég dáist að kjarki þeirra, sem þeir sýna við aðkomu að þrotabúi frjálshyggju og framsóknar. Hvað eigum við Íslendingar að gera? Níða niður gott fólk í björgunarstarfi? Þeir sem það gera opna sýn á annarlegan eigin hugarheim. Flóknara er það nú ekki. Góðar stundir.

Björn Birgisson, 23.7.2009 kl. 00:11

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar ég lít hér inn af tilviljun sé ég að fremur en að rífa kjaft á annara manna bloggsíðum hefði ég betur vaktað mína eigin síðu.

Haraldur og Óli,þakka innlitið.

Auðun. Þetta tek ég auðvitað til mín, en þegar ég hef litið yfir hópinn þarna undanfarna daga hafa runnið á mig tvær grímur og ég ekki séð hvort það skipti máli hvort einum væri færra eða fleira þarna á Austurvelli. Ég stóð reyndar margar vaktir þarna s.l. vetur og var ánægður þegar ég sá að búsáhaldabyltingin hafði haft erindi sem erfiði og ríkisstjórnin hrökklaðist frá.

Hlédís. Ég læt mig hafa það þótt ég kunni að falla undir forsjárhyggjupakk þótt ég lýsi ekki yfir trausti á dómgreind þeirra sem kusu Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk af jafn miklum þrótti sem raun bar vitni í nýafstöðnum kosningum.

Lund H. Þetta er nefnilega ástæða til að hugleiða. Og að því við bættu að nú mun það koma í ljós hvort- að í staðinn fyrir að innkalla skuldir útgerðar með því að ríkið (bankarnir) skuldajafni með kvótanum þá verði skuldir handhafa kvótans seldar erlendum kaupendum bankanna.

Björn Birgisson. Í fyrsta lagi þá sé ég nú ekki stórkostlega tilburði Steingríms og hans manna við meintan flórmokstur. Hann, sem af öllum þingmönnum sýndi þá fjármálavitsmuni að vara mjög sterklega við því hruni sem hann sá fyrir að stefndi í, settist á rúmstokkinn hjá Samfylkingunni og breiddi yfir flórlærin. Og ekki voru nú hvatleg viðbrögðin í þá veru að koma útrásarþjófum undir manna hendur og krefjast tafarlausrar sjórnsýslurannsóknar á þeirri pólitísku atburðarás sem var undanfari þjófnaðar á hundruðum milljarða út úr eignalausum bönkum tíu mínútum fyrir hrun þeirra. Þar er mikill flór ennþá fullur af skít. 

Og með vísan til þessarar færslu minnar sem heggur svo djúpt í þína frómu réttlætiskennd vil ég bæta við að sá flórmokstur sem þú vísar til sýnist mér stefna í að ofan á það að semja um fullveldisafsal þjóðarinnar þá hafi Steingrímur J. ákveðið að sú þjóð moki áður rækilega allan flórinn svo ESB geti tekið við fjósinu þokkalega hreinu. Steingrímur J. Sigfússon mun engan flór moka enda mun sú aldrei hafa verið meining hans þegar hann sótti um starf fjósameistarans.

Eitt að lokum Björn: Vísukornið sem þú notar í þeim fróma tilangi að beina fyrstur manna á mig þjófsorði þarftu að læra betur.

Árni Gunnarsson, 23.7.2009 kl. 03:47

26 Smámynd: Björn Birgisson

Sæll Árni, ég er ekki að beina á þig þjófsorði, fjarri því. Mér datt þetta vísukorn í hug við lestur færslunnar þinnar. Sé ekki betur en að þú vænir þar allmarga um svik og pretti.

Björn Birgisson, 23.7.2009 kl. 14:37

27 identicon

Helvíti leggstu lágt Björn Birgisson að kasta fram slíku níði um Árna Gunnarsson sem vísan sem þú byrjar færslu þína á er. Er ekki sjálfsagt að vera málefnalegur og koma fram af kurteisi, það hefur nú aldrei skaðað neinn, en oft er skortur á slíku hér á þessu landi. Ég þekki Árna Gunnarsson ekki neitt, en ég hef gaman af færslum hans og skoðunum sem eru settar fram af einurð, hressileika og síðast en ekki síst, málefnalegar. Ég fagna því.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 24.7.2009 kl. 21:00

28 Smámynd: Björn Birgisson

Æi, Lund Hervars, vertu ekki svona viðkvæmur. Árni er flottur karl. En er hann ekki að væna fólk um svik og pretti í þessari færslu? Fær ekki Steingrímur þokkalega gusu frá karlinum? Sanngjarna? Ég veit ekki. Eins og þér finnst mér gaman að lesa færslur Árna, er reyndar oftar en ekki sammála karlinum. Vertu ekkert að pakka honum í baðmull. Hann þarf ekki á því að halda. Góðar stundir.  

Björn Birgisson, 24.7.2009 kl. 22:19

29 identicon

BB frá einum vestfirðingi til annars, hafðu það gott, og Árni, haltu ótrauður áfram, við þurfum á manni eins og þér að halda.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 24.7.2009 kl. 22:28

30 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lund Hervars: Þakka þér vinsemdina og vel kann ég að meta að einhver sjái ástæðu til að skjóta skildi fyrir aldraðan mann sem hefur fengið hvatvísi sína senda til baka með vöxtum. En sú var auðvitað ástæðan fyrir þessum pistli að ég var sár og svekktur út af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið á sínum stutta ferli. Öllu meira hefur mér þó sárnað hvikul stefna í efndum dýrra kosningaloforða. Mér var satt að segja farið að þykja vænt um helvítið hann Steingrím J, og á erfitt með að fyrirgefa honum að hafa látið Jóhönnu svínbeygja sig eins og raun ber vitni.

En ég erfi ekki kaldhamraðar glósur og þekki nú reyndar nokkuð til orðaskipta þeirra Björns B. og Baldurs Hermannssonar sem ekki voru alltaf vingjarnlegar þó meiri væri nú gusugangurinn á yfirborðinu en óvildin sem undir bjó.

En mér gengur illa að halda rónni þegar pólitískir atburðir ráðast gegn minni réttlætiskennd þó ég þykist nú vita að enginn skyldi treysta eigin réttlætiskennd án endurskoðunar svona af og til. Og þegar ég rölti í dag í áttina að Austurvelli þar sem ég hugðist standa mína skylduvakt við mótmælin gegn ESB umsókninni og Icesave skuldbindingum á hendur minni voluðu þjóð fæddist örlítil vísa.

          Ég kýs mér ró við kyrran vog,

          klæddur smalaflíkum,

          fjarri öllum fréttum og

          fjandans pólitíkum.

Árni Gunnarsson, 25.7.2009 kl. 22:18

31 identicon

Mín er ánægjan kæri Árni að taka upp hanskann fyrir þig og geri það hvar og hvenær sem er. Fór á bak í dag Árni, á dóttir Hervars og ég verð að segja; helvíti eru börnin hans góð, eins og þú sagðir eitt sinn sjálfur þegar þú varst ungur og fórst á stað að sækja strokuhross með músíkina að heiman og komst til baka með músíkina úr Svaðastaðafjallinu svo sterka að þú gleymir henni aldrei. Þannig leið mér í dag kæri frændi. Hafðu það gott Árni minn.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 22:28

32 Smámynd: Björn Birgisson

Sætir strákar! Vonandi ekki súkkulaðisætir!

Björn Birgisson, 26.7.2009 kl. 02:30

33 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Snilldarfærsla. Ein sú beittasta sem ég hef lengi lesið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.7.2009 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband