Hann formælti þessu landi og......

Nú styttist í tíðindi á landi voru og órói virðist tekinn að gera vart við sig í einni og einni viðkvæmri sál. Hin langþráða og lengi umrædda skýrsla rannsóknarnefndarinnar mun birtast í byrjun næstu viku og viðbúnaður við henni undirbúinn víða af fréttum að dæma.

Fáir munu vita efni þessa plaggs utan innsta hrings en engum dylst að nú er komið að leiðarlokum tignar í samfélagi okkar hjá einhverjum hópi vel klæddra og þekktra manna úr hinum ýmsu hópum sem  með einum og öðrum hætti léku áberandi hlutverk í aðdraganda hrunsins og endalok veislunnar dýru. Margir eru án vafa hræddir í dag og hafa til þess ástæður. Hvenær ákært verður og hvenær dómar verða felldi yfir ákærðum veit auðvitað enginn. En réttarhöld munu verða löng og ströng.

"Allir eru saklausir uns sekt er sönnuð." Þessi vísdómur gildir ekki lengur í íslensku samfélagi þó illt sé að viðurkenna það. Allmargt hefur beinlínis verið upplýst um refsivert athæfi og vítavert gáleysi margra þjóðþekktra einstaklinga. Allir vita að þegar einhver er rændur þá er ræningi þar viðriðinn, einn eða fleiri.

Það er reyndar ekkert leyndarmál að í dag eru margir búnir að dæma. Ótrúlega margir þeirra sem fyrir fáum missirum töldust vera í hópi tignarfólks eru ærulaus grey í augum margra sinna samlanda. Það var nefnilega ekki venjulegt óhapp sem gekk yfir hundruð eða þúsundir einstaklinga og fjölskyldna. Margir misstu aleiguna og það urðu dauðaslys á fólki sem þessir atburðir gengu svo nærri að dauðinn var talinn betri kostur en lífið.

Vangá, hroki, græðgi, óheiðarleiki. Allir þessir þættir lágu að baki þeim hörmungum sem nú munu verða gerð upp að svo miklu leyti sem efni verða til að mati dómstóla.

Og nú munu að líkindum gerendurnir verða fórnarlömb eigin verka. Fáir munu syrgja það.

En margir munu veita athygli viðbrögðum hinna sakfelldu.

Hvort mun þar verða yfirsterkara iðrunin eða hrokinn?

Það er liðin sú tið að sakfelldir menn treysti á hollenskar duggur til að flýja land. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Þessi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mun valda vonbrigðum.  Þar verður fjallað um atburðarrás í víðu og loðnu samhengi.  Sök einstakra gerenda verður falin með orðagjálfri á borð við "menn fóru fram úr sér",  "eftirlitskerfið brást",  "bankakerfið varð of stórt",  "ef menn hefðu hlustað á viðvörunarorð"...

Jens Guð, 9.4.2010 kl. 23:12

2 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: Hvað sem kann að koma upp úr þessari skýrslu, og það verður líkast til margt og illt til afspurnar fyrir þá sem nefndir verða, þá stendur það að þetta sama fólk sem tók fullan þátt í banka ruglinu, það iðrast ekki, margir hverjir sitja á þingi en þá, vitandi vits að þeir brugðust þeim sem veittu þeim umboðið, vitandi að þeir stunduðu línudans á lögum, og hrein brot á lögum siðgæðis og velsemdar, sitja þau enn, og það sorglegasta er að þau munu bjóða sig fram áfram og verða kosin í prófkjörum, eins og dæmi sanna, það þarf að setja stjórnlaggaþing sem fyrst, og koma þar í veg fyrir að fólk sem framið hefur afbrot, og þar má nánast einu gilda hvert afbrotið er, afbrotamenn  mega ekki starfa á löggjafaþingi Íslendinga. 

Magnús Jónsson, 9.4.2010 kl. 23:25

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Jens hefur rétt fyrir sér. Það verður tekinn Árni Johnsen á þetta. En... hvort það virki á eftir að koma í ljós.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.4.2010 kl. 23:29

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Og ég sannnarlega vona að svo verði ekki.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.4.2010 kl. 23:30

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það er löngu ljóst Árni, að æði margt hefur í sælu frjálshyggjunnar verið framkvæmt af gæðingum hennar, sem í besta falli verður flokkað sem lögbrot. Svo ætla sumir að vera að heiman, þegar flugeldarnir fljúga.

Jens, ég held að enginn búist við að skýrslan verði einhver fullnaðarúttekt, heldur frekar leiðarvísir um framhaldið.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 9.4.2010 kl. 23:31

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jens: Sjálfur óttast ég þetta og hef oftar en einu sinni haft um það orð. Hinsvegar virðist mér af umræðunni að þarna sé fingri bent á afdrifarík mistök og yfirveguð bókhaldsglöp til að fela refsiverða starfsemi í ábataskyni.

Og nú er farið að fullyrða að embættismenn og pólitískir valdsmenn muni fá ofanígjafir vegna glópsku og vanrækslu. Um marga þætti svona efnahagsslysa gilda alþjóðlegar vinnureglur að sögn kunnugra.

Hinsvegar er það Alþingis að taka ákvörðun um Landsdóm og litla trú hef ég á að það kærleiksheimili fjórflokksins leggi í innbyrðis vígaferli.

Og auðvitað verður tilgreint orðalag óspart látið heyrast með tilheyrandi útfærslum hins þekkta orðhengilsháttar.

Árni Gunnarsson, 9.4.2010 kl. 23:40

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Axel. Þú talar um sælu frjálshyggjunnar. Hún er dálítið óljós í laginu þessi frjálshyggja. Boðendur hennar gefa hanni marga plúsa og ekki ófyrirsynju. Hennar helsti kostur virðist vera sá að hún gefi færi á því að seglum sé bara hagað eftir þeim vindi sem hagstæðast blæs og alltaf nægar afsakanir þegar hún veldur slysum.

Enda eru liðsmenn hannar auðþekktir frá eðlilegu fólki.

Árni Gunnarsson, 9.4.2010 kl. 23:54

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ævar. Ég held að þjóðin sé búin að bíða svo lengi eftir uppgjörinu við siðlausa drullusokka að Árni minn Johnsen dugi ekki lengur nema þá í sínum eina flokki.

Ég á von á öflugu Alþingi götunnar við birtingu þessa plaggs og þar verða fleiri umræður en ein. Og enginn mun óska eftir afbrigðum frá þingsköpum. Dómkerfið mun fá aðhald frá fólkinu og ég á ekki von á miklu umburðarlyndi lengur.

Samfélagið er breytt og harkan komin á andlit kviðdómsins.

Meira að segja okkar ágæta lögreglulið finnur lykt af óróanum í vorþeynum.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 00:06

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús. Já, svo sannarlega er komið að því að við, fólkið í þessu landi tökum af skarið og setjum okkar eigið stjórnlagaþing ef Alþingi heykist lengur á framkvæmdinni. Við eigum þetta land með sama rétti og stjórnvöld og það fólk sem við trúðum og treystum fyrir umboði okkar þarf að sjá að langlundageð okkar er þrotið.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 00:10

10 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Fljúga þeir ekki bara út um helgina með Iceland Express?

Magnús Þór Hafsteinsson, 10.4.2010 kl. 00:16

11 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Davíð skrapp í huggulegheitin... Og kemur til með að senda sínar smjörklípur áður en hann kemur til baka. Ætli örvitaþjóðin láti ekki bjóða sér það áfram?

Ævar Rafn Kjartansson, 10.4.2010 kl. 00:23

12 Smámynd: Magnús Jónsson

Ævar: þú átt líklega við Davíð Oddsson, fáir ef nokkrir hafa "varað við" jafn lengi og verið sannfæring sinni jafn trúir og umræddur Davíð, hann er ekki vammlaus frekar en aðrir, en hann var einn af örfáum sem þorði að var við, það vildi bara enginn hlusta,  þú ættir að beina athygli þinni að samfylkingunni, þar var kór sem tók undir með bófunum??????, og er á flótta núna.

Magnús Jónsson, 10.4.2010 kl. 00:56

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hræddur er ég um að Vilhjálmur hafi höggvið stórt skarð í auglýsingagildi verðlaunanna þeirra Expressjónista Magnús Þór!

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 01:07

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ævar. Hinn dáði brandarakarl Davíð er horfinn. Í hans stað er kominn argur, fúll og vonsvikinn karlbjálfi með misheppnaða fortíð í pólitík og verður að fullum líkindum þekktur sem pólitískur óhappamaður og víti til varnaðar.

Smjörklípur hans munu hitta hann sjálfan helst fyrir.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 01:13

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús minn Jónsson. Það er fallegt að vera trúr sínu lífsblómi. En nú skulum við bara sjá hversu trúverðugar rannsóknarnefndinni hafa þótt aðvaranir mannsins sem átti að bera ábyrgð á peningastefnu þjóðarinnar. Mannsins sem afhenti siðlausum fjármálaskussum þjóðarbankana og þáði handtak sem endurgjald.

Af hverju situr þessi maður ekki heima og fagnar skýrslu þessarar nefndar í stað þess að hverfa af landi brott?

Ekki er nú reisnin áberandi.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 01:23

16 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni : Davíð á seinleg eftir að vera skráður í sögubækurnar sem sá sem opnaði dyrnar, en það sem brást voru dyraverðirnir, og það að Davíð sást ekki fyrir, hvers lags ormagryfju hann opnaði, það má hins vegar ekki gleymast að Davíð þessi sat ekki einn á Alþingi, og hann var ofurliði borinn erginn flokk, og við völdum tóku sem að því er virðist, gerðu eins og þeim ver sagt, þjóðarhagur var verðfeldur til að reina í örvæntingu að bjarga eigin skinni, þetta verður dagljóst með hverjum deginum sem líður, mér finnst það vera smjörklípa af lélegri  gerð að kenna Davíð Oddssinni um svindl og svínarí manna sem á síðustu stundu reyndu að færa milljarða til sín.

Magnús Jónsson, 10.4.2010 kl. 01:47

17 identicon

Heill og sæll Árni - sem og, þið aðrir, hér á síðu hans !

Magnús Jónsson !

Víst er það; að nefna mætti þá Halldór Ásgrímsson og Jón Baldvin Hannibals son, í sam mund, og ófétið Davíð, en ekki; ekki reyna, að bera blak, af þessum Sunn- Mýlzka skelmi, ágæti drengur.

Það sló mig strax illa; vorið 1991, þegar ''Sjálfstæðismenn'' hentu gufunni Þorsteini Pálssyni til hliðar - og settu þennan pilt, í öndvegið, eftir að hann var búinn að sýna ýmsa ógeðfellda takta, sem Borgmeistari (borgarstjóri) Reykvízkra, nokkur árin, á undan, svo sem.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 02:12

18 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Held að það sé of mikil eftirvænting varðandi þessa skýrslu.

Er skýrslan ekki, eða tilgangur hennar,  fyrst og fremst Saga hrunsins ?  Að skrifa sögu hrunsins - og jú einhvern aðdragandi og svona.

Er skýrslan eða átti skýrsla að vera um eða svara spurningunni af hverju allt hrundi ?  Nei eg bara spyr.

Eg held að þetta verði að megninu til:  Fyrst gerðist þetta og þá sagði þessi hitt og síðan fóru þeir útí heim og sögðu eitthvað þar o.s.frv.

En jú jú, maður vonast til að atburðarrásin verði skýrð eitthvað því manni finnst vanta eitt og annað inní dæmið.  Hálf loðið allt og í nokkri móðu sumir hlutir.

En - það kæmi mér á óvart ef einhver fengi beinlínis óvægin dóm eða bent á sökudólga o.s.frv.

Þessvegna byrjar nú bráðum túlkunar og útleggingar á boðskapnum og munu þar vaxa margar greinar eða skólar í túlkunum - Svipað og td. í samb. við Bibíuna.  Þar hafa sprottið upp ótal kvíslar og hver túlkar og skilur með sýnum hætti sem kunnugt er.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.4.2010 kl. 02:15

19 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Birtur mun verða fyrsti kafli í skýrslu sem aldrei verður birt. Þetta intro mun verða eins og hvað annað, ófullnægjandi til handa þeim sem vilja að eitthvað sé gert. En auðvitað er ég alltaf með svoddan endalaust helvítis svartsýnisraus að hið hálfa væri nóg.

Ólafur Þórðarson, 10.4.2010 kl. 02:21

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús. Davíð Oddsson var holdgervingur hroka og sjálfsdýkunar og lítill bógur í pólitík. Það var siður hans að safna um sig hirð sem dáði hann og hló ef hann prumpaði. Árgæska er ekki stjórnvöldum að þakka. Margir sjálfstæðismenn héldu að það væri Davíð Oddssyni að þakka að heita vatnið rann úr krönunum.

Davíð Oddsson trúði á mátt græðginnar og virkjaði það afl með því að láta í félagi við Halldór Ásgrímsson og vin sinn  Kjartan Gunnarsson góðvini fá þjóðarbankana með lygagerningum.

Hann hefur oft verið sýndur á myndbandinu þar sem hann dáði jöfnum höndum sjálfan sig og peningafíflin sem voru að opna sitt ræningjabæli á erlendri grund og engin aðvörunarorð heyrast þar í bland við húrrahrópin sem hann rak upp vegna þess að hann hafði svo ríkulegar veitingar í höndum að hann gat ekki klappað.

Hann Davíð rak menn og rak stofnanir sem gengu ekki hans eigin gæsagang. Hann lagði niður mikilvæga eftirlitsstofnun í hagstjórn sem hét Þjóðhagsstofnun af því honum féll ekki við hagspárnar.

Það er ekki mikill skipstjóri sem siglir heill úr höfn og heill í höfn þegar góð er tíð og enginn verður mikill aflaskipstjóri í sögu þjóðarinnar þótt hann fiski í aflahrotum. Davíð stýrði íslenskri stjórnsýslu í góðum árum í auðugu umhverfi og með góðri áhöfn.

 þegar á reyndi kom í ljós að áttavitinn sem hann hafði sjálfur stillt var skakkur og fyrir alla glópsku og hroka þessa manns mega þeir þakka forsjóninni sem til þess hafa geðsmuni.

En þeirra vegna skulum við vona að skýrslan dragi ekki svo úr honum kjarkinn að hann þori ekki til baka frá útlöndum.

Sama væri mér. 

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 08:03

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ómar. Það var að sögn lagt upp með það verkefni að greina ástæður fyrir þessu hruni og hvar varnir brugðust. Hinsvegar er það haft eftir nefndarmanni að þar hafi komið í ljós svo alvarlegir hlutir að þeir muni ganga fram af fólki þegar sannleikurinn kemur fyrir augu þess.

Og það er mikið talað um að þegar eftir birtingu þessa plaggs muni hefjast hér uppgjör fyrir dómstólum við þá sem ákærðir verðií ljósi þess sem skýrsluhöfundar upplýsa. Meira veit víst enginn ennþá. En Davíð Oddsson er farinn af landi brott og formaður lögreglufélags Reykjavíkur hefur lýst áhyggjum löggæslumanna af því ástandi sem skapast geti.

En við skulum fremur trúa orðum Þorgerðar Katrínar um að það séu spennandi og skemmtilegir tímar framundan.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 08:19

22 Smámynd: Árni Gunnarsson

veffari. Þú ert ekki einn um að vera svartsýnn. Íslenskir valdstjórnamenn hafa ekki orðið þjóð sinni efni til bjartsýni undangengin missiri.

En nú er að koma vor í íslenska náttúru og þess skulum við njóta eftir föngum. Landið okkar svíkur ekki sitt fólk.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 08:22

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar Helgi. Við deilum aðdáun á umræddum óheillagripum með nokkuð áþekku hugarþeli.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 08:25

24 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er hægt að taka undir hvert orð hjá þér Árni, eins og oftar. Ég er nú svo svartsýnn á útkomuna, að ég er að hugsa um að veðja á hrokann...?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.4.2010 kl. 11:39

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafsteinn. Hrokinn hefur fram að þessu verið það eina sem við höfum séð. Reyndar er ég enn að hlægja að því þegar Bjarni Ármannsson var að skipta hagnaðinum sem honum áskotnaðist vegna innherjaþekkingar sinnar á milli sín og bankans, eða þjóðarinnar. Og honum leið svo voða vel á eftir.

Siðblinda er innbyggð í græðgi og á meðan þessir óþverrar fá að halda haus í eigin samfélagi þá eigum við eftir að sjá endurtekningu á öllum þessum djöfulskap í okkar samfélagi.

Þjóðin þarf að hrista hundseðlið út úr sálinni. Þó ekki væri nema vegna barnanna sem nú búa sig undir að taka við.

Ef ég væri maður til að berja menn þá væri ég í það minnsta með skilorðsdóm í dag. 

Og slæmur í öxlinni.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 11:56

26 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eftir fréttir undanfarinna mánaða, er aðeins eitt sem gæti valdið mér áfalli við útkomu skýrslunnar.  Það er ef ekkert innihald er í henni og ekkert nýtt kemur þar fram.

Anna Einarsdóttir, 10.4.2010 kl. 12:04

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vertu viðbúin vægu áfalli Anna mín

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 12:13

28 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það verður hrokinn Árni. Það var áhugavert viðtalið við Bubba þegar hann var að lýsa hvernig menn höguðu sér í neyslu. Þar var lýsing á  "útrásarvíkingunum". Ekki veit ég í hvaða neyslu þeir voru og eru jafnvel enn.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 10.4.2010 kl. 13:13

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún Þóra. Ánægjulegt að fá þig í heimsókn. Það ganga margar sögur um neyslu þessara tindáta og eitt er víst að ekki eru þeir neyslugrannir!

En ykkur að segja þá lít ég ekki lengur á mörg þessi ógeð sem menn. þetta er einhver tegund af genabrenglun sem mannkynið þarf að varast og halda í skefjum til að forðast úrkynjun. 

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 14:35

30 Smámynd: Rannveig H

Þú bregst ekki Árni frekar en fyrri daginn. Ég geri mér væntingar um þessa skýrslu þó ég viti að ekki verði hún rituð á neinu sjómannamáli (hrein og bein) ég geri mér líka vonir um að fólk sé tilbúið að horfast í augu við það hversu sjúku þjóðfélagi við búum í. Byltingin verður að koma, sú síðasta varð því leiti misheppnuð að allir eignuðu sér hana þá er ég að tala um núverandi stjórnvöld og svo það nýja framboð sem varð til en hvernig á annað að vera við kunnum ekkert annað en að grípa tækifærið,engin prinsipp. Hrokinn er og verður alltaf óvinur okkar númer eitt hann kallar svo og á vangá græðgi og óheiðarleiki eða ein allsherjar siðblinda Nýjasta dæmið um blindu og hroka stjórnmálamanns er viðtalið við ISG þar sem hún er tilbúin að klína öllu yfir á aðra flokkssystkin sem meðstjórnendur neitar svo að svara íslenskum blaðamönnum og segir þetta viðtal vera fyrir þýskan markað. Iðrun er hvorki að vænta hjá sökudólgum í stjórnmála eða viðskiptaheiminum, þetta fólk er siðblint. DO sagði við mig fyrir mörgum árum þegar Kvennalistin var að koma sér áfram "það er bara ein kona í þessari hreyfingu sem hefur eitthvað stjórnmálavit það er ISG"bragð er að er barnið finnur. Ég er frekar bjartsýn þessa daganna og held að almenningur sé að vakna nýjasta dæmið hvernig fólk tekur prinsipp mönnum eins og Vilhjálmi og er tilbúið að styðja við önnur sjónarmið ég er líka ánægð með að DV sé komið í aðra eignaraðild ég sé fullt af fólki sem er að berjast fyrir réttlæti og það tekst. Það verður að takast.

Rannveig H, 10.4.2010 kl. 16:36

31 Smámynd: Rannveig H

Mikið skelfing var þetta langt hjá mér Árni minn  Fyrirgefðu.....

Rannveig H, 10.4.2010 kl. 16:39

32 Smámynd: Júlíus Björnsson

vítavert gáleysi

Líkir sækja líka heim. Ribbaldarnir sem var hampað hér, gætu ekki hafa komist upp með þetta nema hafi því dómgreind stjórnsýslunnar er varla í meðallagi. Enda mun þetta vera lifandi um dæmi um  ný-mannauðinn Íslenska, sem á sér varla hliðstæðu. Græðgin og forheimskan er enn þá á fullu.

Júlíus Björnsson, 10.4.2010 kl. 17:13

33 Smámynd: Árni Gunnarsson

Rannveig mín gamla vinkona. Nú bjargaðir þú bara deginum. Auðvitað er svo komið að þjóðin er í stórhættu vegna meðvirkni og sljóleika gagnvart þessari ógnar spillingu sem hér hefur verið landplága eða öllu heldur þjóðarplága um langt skeið.

Þetta er miklu alvarlegra mál, því það þarf þó ekki annað en sterka hreyfingu fólksins til að breyta ástandi stjórnsýslu og viðskipta þar með.

Vandamál dagsins er upphafið og áræðið sem til þarf að gera byltingu. Og sú bylting verður gagnslaus ef hún fær ekki að kosta það sem hún þarfnast.

Við sáum það í búsáhaldabyltingunni að varnirnar brustu þegar óttinn var farinn að virka.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 17:23

34 Smámynd: Árni Gunnarsson

Júlíus. Þú nefnir mannauð og um hann hefur lengi verið mikið talað á Íslandi á hátíðastundum. Ég auglýsi eftir því að þessi mannauður fari að láta á sér kræla. Ég sé ekki þennan umrædda mannauð okkar.

Hinsvegar sýnist mér mannræna á Íslandi vera við mörk örbirgðar.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 17:28

35 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Sæll Árni, það er ekki að ég hafi ekki kíkt inn til þín, ég hef verið gjörsamlega dofin yfir þessu þjóðfélagi. Skíturinn og viðbjóðurinn alls staðar hefur meira að segja lagt afkomendur Jóns Péturssonar háyfirdómara og þá er nú mikið sagt, því seiglan hefur verið mikil hingað til. Ég er samt glöð yfir því að ég þekki ekki einn einast "útrásarvíking" og það finnst mér jákvætt. Tölvan mín gafst upp og ég er í lánsgarmi sem ég kann lítið á. Ég er nenfilega Makkakona. 

Það verður mikil sorg og doði á mánudaginn og lítið verður unnið þann daginn. Það verður spennulosun og þá tel ég ekki skipta máli hvað í skýrslunni stendur.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 10.4.2010 kl. 18:45

36 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ekkert er nýtt undir sólunni. Ný merkir eitthvað annað en það sem það stendur á undan, alls ekki nauðsynlega eins. Samanber ný-sósíalismi í USA og ný-frjálshyggja í EU. Árinn kennir illur ræðari. Neyðin kenndi nakinni konu að spinna.

Júlíus Björnsson, 10.4.2010 kl. 19:22

37 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér fyrir komuna Guðrún Þ. Það sleppa víst engar fjölskyldur óskemmdar frá þessum hýenum sem vinna í hópum og fýluna leggur af heimshornanna á milli.

En heppin ertu að þekkja engan í deildinni og sannarlega get ég sagt það sama.

Ertu viss um að það létti bara ekki sorg og doða fremur en hitt á mánudaginn? Þá er kannski von til að eitthvað fækki rembingsmönnum í drottningarviðtölum á sjónvarpsskjánum.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 19:44

38 Smámynd: Árni Gunnarsson

Júlíus minn. Mér sýnist þetta ný- viðhengi sem fæstir skilja nú, ekki hafa borið með sér neina nýbylgju framfara á landi voru.

Má ég þá bara heldur biðja um grænverkuð lambasvið og gamalt skyr í aski.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 20:18

39 Smámynd: Júlíus Björnsson

Nýtt skyr og lifur og lambalæri nægir minni karlmennsku. Enda er ég yngri.

Júlíus Björnsson, 10.4.2010 kl. 20:26

40 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það voru innan við 100 manns á Austurvelli í dag. Hvað voru margir í Kringlunni og Smáralind? Hvar eru 20.000 atvinnuleysingjarnir. 40.000 manneskjurnar sem ná ekki endum saman? Er ekki kominn tími á okkar Bastilludag?

Ævar Rafn Kjartansson, 10.4.2010 kl. 20:31

41 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ævar. Mér kæmi ekki á óvart þótt þitt óvarlega orðalag núna færi að bergmála úti í samfélaginu áður en varir og af meiri alvöru en við er búist í dag.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 21:36

42 Smámynd: Árni Gunnarsson

Júlíus. Það er ekkert bragð að þessu helvítis nýmeti úr frystikistum og kæliskápum. Búið að eyðileggja allan mat með gerilsneyðingu og hverskyns fikti við náttúrulegt niðurbrot og gerlabúskap.

Enda er annar hver maður á Íslandi orðinn heimagangur á spítala löngu fyrir kynþroskaaldur. Og svo fer þeim nú líklega að fækka sem ná þokkalegum kynþroska vegna skorts á hollustumat.

Árni Gunnarsson, 10.4.2010 kl. 21:42

43 Smámynd: Jens Guð

  Gagnrýnislausir bláeygir DOddsson aðdáendur hjakkast stundum á þessu með að hinn óskeikuli einvaldur hafi varað við bankahruninu.  Vissulega er rétt að einvaldurinn var réttilega tortrygginn gagnvart banka Baugsfeðga.  Bláeygar lærisneiðar DOddssonar snúa hinsvegar blinda auganu að lofsöng hans um Landsbankann,  Icesave og það allt.  Trúin flytur fjöll og heili blindra aðdáenda ritskoðar sjálfvirkt minningarnar.  Aðdáendurnir muna ekki lengur að DOddsson keppti við forsetann í uppklappi og húrrahrópum fyrir Björgólfsfeðgum,  Sigurði Einarssyni og þessu liði.  "Við hrópum þrefalt húrra fyrir þessum mönnum," sagði DOddsson og fylgdi því eftir með húrrahrópum.  Jafnframt gerði hann sér áróðursferð til Bretlands vorið 2008 þar sem hann fullvissaði í sjónvarpsviðtali og viðtölum við breska bankamenn að Icesave væri gulltryggt dæmi.  Sömuleiðis sendi hann í nafni Seðlabankans frá sér snemmsumars yfirlýsingu þar sem hann vottaði styrka stöðu bankanna á Íslandi.  Áfram mætti telja.  Húrrahróp DOddssonar fyrir Landsbankanum bergmála:  "Húrra,  húrra,  húrra!"  Orðrétt eftir honum haft:  "Húrra,  húrra,  húrra!"

Jens Guð, 11.4.2010 kl. 00:14

44 identicon

Góður Árni, völlur á kalli þessa helgina

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 01:07

45 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni : þú og Jens guð virðist ekki sjást fyrir í hatri ykkar á Davíð Oddssinni, þú Árni minn skrifar eins og maður sem ekki var á landinu í óslitinni landstjórn Davíðs, og við það verður þú að eiga við sjálfan þig,  því sumir þurfa að persónugera allt sem ylla fer, en minnast ekki einu orði á framfarir og slökun hamla sem færðu almenningi, aukin kaupmátt og  landinu í heild eitt gróskumesta hagkerfi heims á sínum tíma, það er hins vegar dapurlegt að þú getir ekki skilið, hve reiður Davíð varð þeim mönnum sem stefndu allri hans uppbyggingu í voða, þú talar um að Davíð hafi safnað um sig hirð?, þú setur niður sjálfan þig með slíkri fullyrðingu, það sem gerðist var að hirðin safnaðist um hann, öllum til tjóns því miður, því hirðin stakk hann í bakið, og setti hann í Seðlabankann þar sem hann gat nánast ekkert gert, fyrir okkur fólkið í landinu, og það sauð á Davíð nokkrum, í þau skipti sem hann komst að til að segja eitthvað.

Jens  Gu. : þú mættir alveg hætta að skreyta þig með Guð, það fer þér orðið ylla, men á borð við þig hopa helst fram þegar þeir telja sig hafa sigurinn fyrirfram, og fabúlera um þetta og hitt, þú minnist á umrætt viðtal við breskan fjölmiðil, það hefur verið margtuggið upphátt að bankarnir lugu að seðlabankanum, þeir beittur brögðum, til að mynda fengu þeir sparsjóði til að sækja um lán hjá Seðlabankanum, sem skildu síðan notast til a kaupa hlutabréf  bönkunum, þar sem Seðlabankastjórinn (Davíð) vildi ekki lána þeim meira, þannig gátu þeir fegrað stöðu sína fyrir seðlabankanum, það er að segja á íslensku með undirferli og lygum, svo koma svona sjálfskipaðir orðflækjudurtar eins og þú, eftirá og segja, Davíð er vondi maðurinn, ja skömm ef af þínum skrifum í þessu máli, þau lýsa aðeins  vanþekkingu og nánast hreini afneitun á að bankakerfi heimsins nánast hrundi alveg til grunna við gjaldþrot Leman brot..

Magnús Jónsson, 11.4.2010 kl. 01:57

46 Smámynd: Rannveig H

Eftir langvarandi hrunaveiki og heltekin af skýrsluspennu með tilheyrandi pirringi  get ég ekki annað en brosað við lesturinn hjá Magnúsi J. Meðvirkni gerir fólk mannlegt og svei mér að ég get bara unnt DO þess núna.Það er fátt um fína (blinda) drætti í dag Magnús haltu bara fyrir annað augað...... Jens fer illa að vera guð en honum fer vel að vera Guð þar sem það er nú bara stytting á Guðmundsson, þeir eiga það sameiginlegt Jens Guð og DOað vera húmoristar skarpir og skýrir í hugsun. Menn á borð við Jens eru ekki að horfa til einhvers einkasigurs þar væri réttlætiskenndinni hjá Jens ofboðið, Menn á borð við DO leggja allt á sig og aðra fyrir einkasigurinn, þú veist hvað ég meina Magnús! Þetta að vita og geta allt betur en fúll á móti HA!

Rannveig H, 11.4.2010 kl. 15:49

47 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús. Það er mikið til í tveimur ályktunum þínum.

1. Þú lætur að því liggja að ég hati Davíð Oddsson og ekki neita ég því að um fáa mina samtíðarmenn er mér minna gefið en hann. Davíð hafði til brunns að bera flest það sem mönnum er best gefið af hæfileikum og vakti verðskuldaða aðdáun fólks. Hann ofmetnaðist fljótt og sótti fram til áhrifa af kappsemi og þeirri ófyrirleitni sem ævinlega þarf til að komast í áfangastað.

Hann náði fljótt þeim völdum sem dugðu til þess að setja samfélaginu leikreglur og stjórnaði með hvatleik meira en forsjá. Andstöðu þoldi hann ekki og lét engan komast upp með að hindra sig eða stöðva. Og til þess að fullnægja þessum tilburðum einræðis rak hann menn og lagði niður stofnanir.

Pólitískir vitsmunir þessa manns eru ljósir þegar lesin er raunsönn lýsing Jens G. af veislunni sem Davíð leiddi með húrrahrópunum og mærði jöfnum höndum sjálfan sig og þá sem þar voru að feta sín fyrstu skref við að leiða íslenska þjóð til örbirgðar með óheiðarleika og hálfvitahætti.

Hagsæld þjóðarinnar sem þú vísar til á valdatíma Davíðs var login og hún var blekking byggð á heimskri valdstjórn. Lífið er ekki hraðferð og það er engin snilld fólgin í því að taka að láni kappakstursbíl, láta skrifa bensínið og keyra hringinn á mettíma. Það var engin innstæða fyrir þeirri hagsæld sem byggðist á þenslunni sem fylgdi uppbyggingunni við Kárahnjúka og hóflausum lánveitingum til íbúðabygginga á höfuðborgarsvæðinu jafnt og jaðarbyggðum þessa lands.

Davíð Oddsson setti leikreglur samfélagsins sem síðan hrundi ofan á saklausar fjölskyldur og börn og gamalmenni. Mér finnst fremur vænt um fólkið í þessu landi. Ég vil ekki að saklaus börn verði fórnarlömb einhverra ábyrgðarlausra spilafíkla sem leggja örlög og lífshamingju þeirra að veði fyrir sínu lúxuslífi og sendi þeim reikninginn ef illa fer.

Það hafa komið fréttir af því að Davíð Oddsson sé í erlendum blöðum talinn vera einn af 25 aðalhöfundum heimshrunsins haustið 2008.

Hvort ég hata Davíð Oddsson? Ég þori ekki að svara því svona í fljótu bragði en ég vona að þessi þjóð eignist aldrei leiðtoga sem skilja fólkið eftir í aðstæðum sem líkjast þeim aðstæðum sem hann leiddi yfir saklaus börn upphafinn af eigin heimsku og aðdáendaher.

2. Þú segir það að nokkru satt að það var fremur þessi heimska hirð sem safnaðist utan um Davíð af sjálfsdáðum en ofmælt hjá mér að hann hafi beinlínis krafist þess.

En ekki man ég til þess að hirðin hafi stungið hann í bakið og sent hann í Seðlabankann!

Og talaðu aldrei aftur um gróskumesta hagkerfi heimsins á Íslandi Magnús. Það er engin gróska í hagkerfi sem er tekin að láni hjá börnum, fæddum sem ófæddum. Og síðan máttu ekki gleyma því að allri þessari þessari grósku var breytt í loft sem síðan var selt fyrir peninga sem loftandarnir stálu. 

Það er niðurstaða mín sem ég á ekki von á að verði hnekkt af sagnfræðingum seinni tíma að Davíð Oddsson hafi verið sterkur leiðtogi en jafnframt misheppnaður og ákvarðanir hans dýrar og örlagaríkar fyrir litla þjóð.

Ekkert er neinni þjóð hættulegra en sterkur og heimskur leiðtogi.

Árni Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 17:46

48 identicon

Gud...thad var nú reyndar ferfalt húrra:

http://www.youtube.com/watch?v=5egkmJRikKw

Mér finnst Davíd Oddsson alla tíd hafa einvördungu unnid fyrir sérhagsmuni ALDREI fyrir hagsmuni heildarinnar.  Sama má segja um Halldór Ásgrímsson.  Ad mínu viti eru thetta ómerkilegir menn og ég hef aldrei borid hina minnstu virdingu fyrir theim.

Útrásarsöngur og húrrahróp Davíds (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 20:27

49 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aths. 48 - Á tímabili virtust þessir umræddu pólitísku vindbelgir vera í keppni sín á milli um það hvor nyti meiri valda til umsvifa í fjármálalífi þjóðarinnar og vinnubrögðin voru ekki alltaf snyrtileg þegar verið var að skipta eigum þjóðarinnar milli góðvina. Svo sprungu báða blöðrunar og þeir neyddust til að yfirgefa sínar pólitísku skömmtunarstöðvar.

Davíð skipaði sjálfan sig Seðlabankastjóra og sagði nokkru síðar brandara í sjónvarpi um það mál. Hann sagðist hafa verið vitlausasti maðurinn í Seðlabankanum á sínum fyrstu dögum þar og það mátti skilja að á því hefði orðið töluverð breyting til hins betra.

Svona eftir á að hyggja þá virkar það nú svolítið undarlega að næstum frá fyrsta degi þá kom Davíð fram fyrir hönd stofnunarinnar og gaf yfirlýsingar um faglega atburðarás í hverju máli.

Dálítið undarlegt þegar það er haft í huga að þarna var hópur hagfræðinga úr fremstu röð og margir með langa starfsreynslu og starfsþekkingu í bankanum.

En Davíð með gamalt háskólapróf í lögfræði!  

Árni Gunnarsson, 11.4.2010 kl. 22:58

50 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Hvort ég hata Davíð Oddsson? Ég þori ekki að svara því svona í fljótu bragði en ég vona að þessi þjóð eignist aldrei leiðtoga sem skilja fólkið eftir í aðstæðum sem líkjast þeim aðstæðum sem hann leiddi yfir saklaus börn upphafinn af eigin heimsku og aðdáendaher.

Takk fyrir þessa setningu........

Ævar Rafn Kjartansson, 11.4.2010 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband