Hverjir eiga að hafa vit fyrir hverjum?

Sá maður er daufdumbur sem sér ekki hvílikt ástand er að þróast á Íslandi þessa dagana. Ég efast reyndar um að svo fatlaðir einstaklingar finnist. Færustu hagfræðingar innlendir sem erlendir takast á um það hvort skuldir ríkissjóðs séu yfirstíganlegt verkefni við hagstæð skilyrði. Vonandi að þeir bjartsýnu hafi rétt fyrir sér. En það þarf reyndar enga hagfræðinga til að sjá að til þess að það megi takast þarf tekjur, en með hverjum degi rýrna tekjur ríkissjóðs og skuldir aukast.

Hagræðing í rekstri þjóðarbúsins er sögð þurfa að vera 170 milljarðar á þessu ári og ríkisstjórnin er búin að hækka gjöld á eldsneyti og munaði sem talið er að auka muni tekjur ríkissjóðs um tvo milljarða ef vel tekst til með neyslu. Fyrir skuldug heimili kostar þetta 8 milljarða í hækkun vísitölu og verðbóta og biðja nú flestir Guð að hjálpa sér ef öll þessi 170 milljarða hagræðing skilar neytendum efnahagsvoða í hlutfalli við fyrstu tvo milljarðana.

Stýrivextir Seðlabankans lækkuðu um 1% í morgun sem segir okkur það að hraði gjaldþrota hjá fyrirtækjum og einstaklingum mun aukast á næstu vikum og var þó ærinn fyrir. Það bætir lítið stöðuna þó á svipuðum tíma hafi löngu dauður eðalkrati vitnast forsætisráðherra vorum í draumi og sannfært hana um að skuldir heimilanna væru nú bara hreint ekki svo skelfilegar!

Margir horfa nú til aukningar á strandveiðum fyrir deyjandi sjávarþorp og eins fyrir þá fjölmörgu sem leita nú leiða til að bjargast á eigin spýtur í verstu kreppu þjóðar vorrar á seinni tímum. Menn töldu sig hafa ástæðu til að trúa orðum núverandi og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem hétu þessu í aðdraganda kosninga og fengu að líkindum nokkurt fylgi að launum.

Bent hefur verið á verulega aukningu þorskgengdar á grunnmið og það svo að kvótaskipting tegunda er orðin óleysanlegt vandamál fyrir sjómenn því þorskur yfirtekur öll veiðarfæri hvað sem reynt er til að ná öðrum tegundum. Bent hefur jafnvel verið á að nú eigi að gefa þessar veiðar frjálsar og án þess að innkalla kvóta í staðinn. Þessi ábending kom frá reyndum fiskifræðingi sem Hafró gat að vísu ekki notað vegna ágreinings um mikilvæg atriði. Á þeim sama tíma sem okkar fiskifræðingum tókst ekki að auka aflaheimildir hvað þá halda þeim í horfi kom þessi íslenski fiskifræðingur, Jón Kristjánsson Færeyingum til aðstoðar en þeir stóðu ráðþrota með þessa höfuðgrein atvinnu sinnar og lífsbjargar frá upphafi sinnar tilveru.

Færeyingar sem höfðu prófað íslenska kerfið í tvö ár skiptu yfir og tóku ráðgjöf Jóns Kristjánssonar alvarlega. Nú eru þeir búnir að byggja sína stofna vel upp og allir eru himinlifandi, jafnt stjórnvöld sem samtök sjómanna. Þeir minnast með hryllingi þeirra tveggja ára sem þeir nutu brottkasts-og tortímingarstefnu Hafró.

Nú stendur upp á Jón Bjarnason sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra. Hann hefur fengið tölvupóst frá mér um þessi mál en ekki svarað þeim Hann hefur fengið grein Jóns Kristjánssonar senda en svarar honum ekki einu orði svo mér sé kunnugt. Mér kemur í hug að hann hafi talað við einhverja aðra sem hafi sagt honum að láta það ógert að ræða við þennan voðamann. Þetta sé nefnilega allt saman lygi og nú séu allir stofnar að hrynja í Færeyjum. Það er pólitískt hagsmunamál að henda fiski í hafið á Íslandi. Og það er pólitískt hagsmunamál nokkurra kvótaeigenda að halda skortstöðu í aflaheimildum svo kvóti falli ekki í verði. Og kannski tekst þeim í dag í Vestmannaeyjum að telja Jóni Bjarnasyni trú um að Færeyingar hafi enga hugmynd um hvað þeim sé fyrir bestu.

Ég held að vanhæf ríkisstjórn sé ekki rétt orðalag um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Ég tel hana mjög vel hæfa til að koma því í framkvæmd sem ég er farinn að trúa að sé hennar ætlunarverk. Ég leyfi mér ekki að skýra það nánar en ég sé það fyrir mér að haldi fram sem horfir þá muni ríki ESB koma til með að þakka þessum stjórnmálamönum og IMF að verðleikum fyrir vel unnin störf.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég held að vanhæf ríkisstjórn sé ekki rétt orðalag um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Ég tel hana mjög vel hæfa til að koma því í framkvæmd sem ég er farinn að trúa að sé hennar ætlunarverk.

Hún vinnur kerfislega að því að mínu mati að færa eigur [bókhaldslegar eignir] Íslendinga yfir í efnahagsreikninga ES[EU] skuldsetjara sem hafa unnið markvist að því að fjárfesta Íslenska almenning síðan 1995? til að fengu þeir með aðgerðarleysi væntingar stjórnvalda Íslands samþykki þeirra og samvinnufúsan Seðlabanka og aflavakan Kauphöllina [1995] til að falbjóða skuldabréf sjóða, sveitarfélaga og einkavinahlutfélaga með stjórnmálalegum bakhjarli.  ES: vissi fyrirfram  um veikleika Íslendinga: skyldleiki frekar en hæfni og greind í æðstu stöðum. Útlendingar yfir meðalgreind greina nú  þá sem eru í meðalgreind eða þar undur. Íslendingar [stjórnendur í og undir meðalgreind] eru ginkeyptir fyrir lánum og fagur gala.   Aðildarsamningurinn um Evrópskt reglukerfi frá 1994 opnaði allt upp á gátt og skuldbatt Seðlabanka að vera augu og eyru Seðlabanka Evrópu: með því að láta honum í té nauðsynlegar upplýsingar á engilsaxnesku. Íslendingar gátu falið greindarleysi sitt í efstu stöðum með skjölum á Íslensku og takmörkuðu frjálsu flæði.   

Góður vel skipulagður sjávarútvegur er ekki áhætta að mínu mati fyrir Íslendinga.

Afla ætti að úthluta til byggðanna. Opinberir löggiltir uppboðsaðilar ættu að kaupa aflann fyrir hönd ríkissjóðs á handstýrðu jafnaðarverði. Sá sem aflar fær greitt fyrir þyngd óháð tegund eða stærð. Aflarinn nær fram hagnaði með því halda tilkostnaði við veiðarnar í lágmarki. Aflinn er síðan seldur á uppboði [til vinnslu og endursölu] gegn staðgreiðslu: uppboðshagnaðurinn rennur í sjóði sveitarfélaga og ríkis: uppboðshaldarinn tekur hlutfalslega greiðslu.  

Nú er tími til að setja leppfyrirtækin á hausinn og koma fótum undir al Íslensk sjálfstæð [t.d. lándrottnar eru ekki hluthafar] fyrirtæki af viðráðanlegri stærð til að fjölmargir aðilar geti verið í skemmtilegri samkeppni.

Júlíus Björnsson, 4.6.2009 kl. 18:28

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já það er full ástæða til þess að spyrja sig hver markmið Ríkisstjórnarinnar eru.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.6.2009 kl. 19:44

3 identicon

Heill og sæll; Árni - sem þið önnur !

Hygg; að fátt sé ofsagt, í þessarri frásögu þinni, Árni. Beinlínis; í sjónhending, fram dregið sem yfir okkur, og landið er að ganga, og fer all versnandi, með þessum liðleskjum, hverjar sviku sig, inn á íslenzka Alþýðu, með digurbarka legum svigurmælum, þann 25. Apríl, síðast liðinn.

Víst; má spyrja, svo sem, hvert endurgjaldið er, illverkanna, í þágu þess frjálshyggju Kapítalisma, hver fer hamförum, um heimsbyggð víða ?

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 21:03

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka ykkur öllum innlegg í þessa umræðu.

Vissulega fer ég hörðum orðum um ríkisstjórnina og vinnubrögð ráðherra. En mér er farið að ofbjóða allur þessi hringdans utan um erfið vandamál sem öllum var auðvitað ljóst að við þurfti að glíma. Það er hreinasti óþarfi fyrir þessa ráðherra að tuða endalaust um erfið verkefni. Af því hafa allir fengið nóg. Málin snúast einfaldlega um að segja frá því hver vandinn er og hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Mér er til efs að það liggi fyrir.

Og hvað strandveiðar áhrærir þá er kominn tími til að hefja þær því ekki er eftir neinu þar að bíða. Um samninga við handhafa heimilda gildir það sama. Það er deginum ljósara að þar eru einhverjir þannig staddir hvað skuldastöðu áhrærir að þeir munu ekki koma til með að bjargast af sjálfsdáðum. Þessi mál þarf að taka föstum tökum og gæta þar fyrst og fremst hagsmuna vinnslunnar á þeim stöðum þar sem vinnsla tengist útgerð. 

Þetta eru fyrst og síðast verkefni sem þarf að ganga í af þrótti og kjarki. 

Að halda Alþingi í gíslingu með blaðri um aðildarumsókn í ESB er ekki boðlegt. Það apparat mun ekki leysa þann bráða vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Nær væri þá að ákalla Maríu Guðsmóður og kveikja á nokkrum kertum henni til dýrðar. Ferð Össurs Möltufálka mun kosta þessa þjóð virði magra kerta. 

Árni Gunnarsson, 4.6.2009 kl. 22:42

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir þennan ágæta pistil. Þeir eru ekki margir sem geta komið jafn vel fyrir sig orði og þú Árni.

Sigurður Þórðarson, 5.6.2009 kl. 00:16

6 identicon

Árni, þetta er eins og skrifað frá mínu hjarta og þessi setning þín er kjarni málsins. Málin snúast einfaldlega um að segja frá því hver vandinn er og hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Við erum engvir óvitar og getum vel tekið því að allt sé í fári. Við verðum bara að fá skýr svör og áætlanir. ef það gerðist er ég fullviss um að við sem þjóð myndum taka á vandanum og komast út úr þessu.

En við verðum að fara að afla tekna númer 1,2 og 3, öðruvísi gengur þetta ekki.

Ásta Hafberg (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 07:26

7 Smámynd: Hlédís

Þakka frábæran pistil!

Nú er að vona að hann berist til þeirra sem lesa þurfa. 

Hlédís, 5.6.2009 kl. 09:52

8 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Kæri Árni gott að sjá þig standa vaktina, þessi ríkisstjórn er ekki vanhæf, það ORÐ felur í sér að hún hafi einhvern tímann verið HÆF...!  Þessi ríkisstjórn er vita GAGNLAUS fyrir einstaklinga & fyrirtæki í landinu, en eflaust frábær fyrir sjálftökuliðið sem tengist flokkunum.  Óeðlilega margir eru í stjórnmálum til að fá "bitlinga" og það lið mun endarlaust dansa með STRÚTNUM (ríkisstjórnin sem ávalt stingur hausnum í sandinn) - hugsanlega er eina breytingin að í stað þess að Solla stirða sé upp í brú þjóðarskútunnar, þá er Heilaga Jóhanna komin upp í brú og mér sýnist hún sigla á "full steam ahead towards ICEberg...:)". 

Við skulum VONA það besta, en búast við því versta.....  Félagi & vinur minn Dalai Lama orðaði þetta vel: "Hafi fyrri ríkisstjórn verið vanhæf þá er þessi óhæf!" - já félagi Lama er svo sannarlega UPPLÝSTUR karakter.....  Gleðilegt sumar félagar, nú er það "golf & laxveiði" sem á hug minn allan, en í haust förum við í það að "spúla þessar vita gagnlaus ríkisstjórn burt..!"

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 5.6.2009 kl. 12:59

9 Smámynd: Jón Kristjánsson

Þakka pistilinn Árni

Nú föstudaginn fyrir sjómannadag, eins og alltaf, birtist svartagallið frá Hafró. Ekki urðum við hressari, niðurskurður yfir alla línuna og Jói Hvalur aldrei hortugri. Fréttamenn og stjórnmálamenn meðvirkir, enginn spyr neins. Þessi lína frá Hafró í dag er skipun um minni gjaldeyrisöflun, skort á kvóta og hækkun leiguverðs. Ætlar þetta aldrei að hætta?  

Jón Kristjánsson, 5.6.2009 kl. 17:48

10 Smámynd: Hlédís

Kæri Árni!

Eftir fregnir af vaxtaprósentu sem samdist um á Icesave-láni á ég ekki önnur orð yfir heilagan forsætisráðherra vorn - sem enn mun með allan hug við EB-aðild - en LANDRÁÐAMAÐUR!

Skýring: Okur nú - arðrán í EB!

Hlédís, 5.6.2009 kl. 18:55

11 Smámynd: Hlédís

ES: Aldrei mun undirrituð öðlast ofurtrú á Hafró- eftir lýsingum á "vísindaferðum' stofnunarinnar. Get sagt frá þeirri fyrstu, ef einhver biður um

Hlédís, 5.6.2009 kl. 18:58

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka öllum vinsamleg innlit. Ég er hvatvís og það er eðli mitt en ekki áunnið og ég tel mér það engan veginn til gildis. Mér finnst það bara engan tilgang hafa að taka til máls um brennandi umræðuefni nema eftir því sé tekið og stundum tekst mér það. Um leið og ég þakka Jóni Kristjánssyni fyrir komuna vil ég benda lesendum á bloggsíðu hans og pistil sem hann skrifaði á Fishing News um nýjustu uppgötvun! vísindamannsins Einars Árnasonar, jafnt og aðra pistla hans um vísindalega ráðgjöf Hafró. Þetta er einfalt og nægir að slá bendlinum inn á nafn hans hér ofar. 

Nú er hógværðin orðin ærandi hvað varðar metnaðarfullar aðferðir við innköllun aflaheimilda af hálfu sjávarútvegsráðherrans og frjálsar handfæraveiðar sömuleiðis í þokumistri. Ráðherrar þeytast um landið og sannfæra grátandi sægreifa um að engin röskun muni verða sem komi illa við nokkurn heildsala aflaheimilda, en kvótasala hefur verið eina bjargræði þessa hóps til að gera sér dagamun og kaupa fótboltalið eða þyrluræfil. Ég er farinn að eiga von á núllinu í þessu hvorutveggja og allt þar framyfir sem lottóvinning fyrir fólk með heilbrigða dómgreind.

Nýi fiskistofninn sem Einar Árnason fann og heitir AA stofn til aðgreiningar frá humri og kúskel er í útrýmingarhættu að dómi Einars. Jón sjávarútvegs tók andköf þegar hann las þessi skelfilegu tíðindi og fiskifræðingar Hafró orðnir áhyggjufullir. Reyndar hafa þeir verið áhyggjufullir svo langt sem ég man nema það eina sinn er Jói hvalur fann hálfa milljón tonna af þorski en svo týndist hann árið eftir og Jói grét. "Það svaf hjá henni maður" sagði Jón Þeofílusson forðum í þrælakistunni á Bessastöðum. Hann grét líka. Mér er meinilla við þennan AA stofn. Lánshæfismat Íslands var AA þegar við vorum í sveiflunni, nú er það eitthvað minna eða kannski ekkert. 

Jón Þeofólusson áðurnefndur var dæmdur fyrir að koma sér upp vindgapa til að ná ástum stúlkunnar. Samfylkinguna dreymir um að komast í ESB og er búin að senda sinn vindgapa niður til Möltu. Og til að bæta andrúmsloftið í Brussel er Alþingi gert að samþykkja allar kröfur Hollendinga og Breta upp á tæpa 700 milljarða í snatri og ekki seinna en á morgun.

Góðan daginn!

Niðurstaða: Við skulum borga, borga, borga. Við þurfum víst engar tekjur en aðild að ESB mun nægja þessari þjóð um aldur og ævi.

Hvenær kallast stjórnmálamenn Þjóðníðingar?

Hlédís. Allar upplýsingar um vísindi Hfró er vel þegnar hér.  

Árni Gunnarsson, 5.6.2009 kl. 21:15

13 identicon

Kæra Hlédís,

Mér finnst eitt að moka flórinn og anga af skítalykt og annað að fá glósur fyrir það á almanna færi. Mér finnst svipað með Icesave og forsætisráðherra. Hún mokar flórinn í nafni Landsbankans sem hagaði sér eins og vitfyrringur og flórinn gerði XD og XB, svo skömmum við fjósakerlinguna fyrir að anga af skítalykt!. Annars er gaman að sjá pistil eftir þig aftur eftir þig kæri Árni.  Lifið heil!

Lund hervars (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 22:38

14 Smámynd: Hlédís

Sagan um fyrstu Hafróferðina hefst á því, að snúa þurfti við - eftir marga kl.tíma - til að sækja Machintosh-dolluna með fiska-merkjunum! Minnir bara á, að hér eru ekki fullkomnir snillingar á ferð, fremur en annars staðar.

Hlédís, 5.6.2009 kl. 23:06

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú segir nokkuð Hlédís.

En ertu nú viss um að það hafi bara nokkur svona merki verið í helvítis dósinni?   Ég er ekki sannfærður.

Árni Gunnarsson, 6.6.2009 kl. 00:42

16 identicon

Annars er þessi glaðningur sem Landsbankinn, banki allra landsmanna, skiluer eftir hjá okkur, börnum og barnabörnum til háborinnar skammar. Hyski fram í fingurgóma, ég segi fari allir sem vettlingi geta valdið og veiði sem þeir geta. Þetta hyski stjórnar okkur ekki lengur, hvaða flokki sem það er í. Og tl þín Árni, Íslendingur, haltu áfram að koma með pistla þína, jörð og salt, sannur Íslendingur!!

Lund Hervars (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 22:10

17 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Alltaf góður.

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.6.2009 kl. 21:37

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka innlit ykkar Lund og Gunnar. Ég mun reyna að halda meðvitund en það verður erfiðara með hverju rothöggi frá pólitíkusum okkar.

Árni Gunnarsson, 8.6.2009 kl. 22:40

19 identicon

Sú sorglega staðreynd blasir nú við að Íslendingar eru nánast gjaldþrota. Ég sé engan veginn fram á að við getum borgað fyrir þennan glaðning sem Landsbankinn skilur eftir. Og svo er annað Árni, við erum bara að borga lágmarks greiðslu innlána, þúsundir breta og hollendinga tapa gríðarlegum fjárhæðum. Hvort sem við fáum eitthvað inn á móti Icesave, þá erum við samt sem áður gjaldþrota sem siðmenntuð þjóð sem er ekki treysandi. Útrásarhyskið hefur m.ö.o. rænt okkur heiðri og trausti, mér finnst það ekki síður vont en peningalega hliðin. Allir fjármunir sem áttu að fara í uppbyggingu samfélagsins, menntamál, samgöngur, heilbrigðismál osf fer nú til að greiða skuldir sem við sem þjóð stofnuðum ekki til. Nú er helvíti hart að vera Íslendingur.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband