Af mínum misskilningi; snýst málið um ólögvarða skuldakröfu eða stríðsskaðabætur?

Margir munu sitja heima í dag.  Þeir hafa tekið þá ákvörðun að sleppa því að nýta fyrsta tækifærið sem kjósendum þessarar þjóðar hefur verið fært til samþykkis eða synjunar á lögum frá Alþingi.

Þeir um það og enginn efast um að til þess hafi þeir fullt leyfi.

Tiltekinn stuðningshópur ríkisstjórnarinnar tekur þessa ákvörðun til þess að sýna henni hollustu í baráttu við vont viðfangsefni sem hún bar ekki ábyrgð á nema að hluta, en ákvað þó að takast á hendur að leysa.

Samfylkingin ber án vafa alla ábyrgð á tilurð vandans fyrst í samtogi með Sjálfstæðisflokknum og á seinna stigi ásamt með Vinstri grænum.

Vandamálið í upphafi afurð pólitískrar heimsku. Á seinna stigi líka.

Sumir benda á að atkvæðagreiðslan í dag sé tilgangslaus því lögin sem kosið er um séu nú þegar orðin úrelt. Skiptir auðvitað engu máli því þau úreltust vegna þess að lögunum var vísað til þjóðarinnar og þá tók við nýtt ferli sem greinilega mun skila betri samningi, eða svo er talið.

Aðrir benda á að margir misskilji tilgang atkvæðagreiðslunnar; og hvað með það? Hafa kjósendur ekki æ ofan í æ afhent umboð sitt hinum og þessum pólitískum hálfvitum af misskilningi? Ekki veit ég betur.

Sumir benda jafnframt á að útlendingar muni skilja höfnun umræddra laga á þá lund að Íslendingar hafi þar með neitað að borga lágmarkstryggingu Icesave reikningsins. Hvað með það?

Ég upplýsi það að ég mun ganga til þessarar atkvæðagreiðslu með því hugarfari að ég sé að neita öllum greiðslum úr galtómum sjóðum okkar Íslendinga í óljósa skuldahít vegna íslenskra þjófa í útlöndum. Þeir voru ekki sendir af þessari þjóð til að stela svo miklu sem einnar krónu virði en gerðu það fyrir framan augun á bæði Bros og Brown eða hvað þeir nú heita allir þessir vitleysingar sem hafa vit fyrir útlendu fólki í eigin landi. Þeir hefðu bara átt að banna þjófunum þetta sjálfir og hneppa þá í varðhald fyrir óknyttaskapinn.

Ég er hér með að greina frá því að mér er drumbs með að láta jafnt íslenska pólitíkusa sem útlenda hafa mig að fífli og samþykkja það með þögninni.

Vond deilumál eru ekki alltaf eins flókin og pólitíkusar reyna að telja okkur trú um.

Og heimsku pólitíkusarnir okkar eiga að hætta að flækja málin fyrir okkur og þeir eiga líka að hætta að ljúga að okkur. Þeir eru nefnilega of heimskir til að nokkur trúi þeim lengur.

Ég árétta: Það er ekki misskilningur hvað mig varðar að í dag er ég að neita að borga krónu af þessari skuld heimskunnar við sjálfa sig.

Ég veit ekki einu sinni hvort þetta snýst um ólögvarða skuldakröfu eða einhverskonar stríðsskaðabætur. 

En; Lifi Ólafur forseti! Lifi byltingin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Auðvitað segjum við NEI - og styrkjum þannig samningsstöðuna - það er borgaraleg skylda okkar.  Svo væri best að ráðherrar færu í þagnarbindindi um samningaviðræðurnar og létu samninganefndina í friði með sitt verk.

Kristinn Pétursson, 6.3.2010 kl. 16:58

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir góðan pistil og vörnina á ágætri bloggsíðu um daginn.

Kærar kveðjur að norðan.

Arinbjörn Kúld, 6.3.2010 kl. 17:29

3 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Rétt hjá þér Árni og lifðu heill.

Elís Már Kjartansson, 6.3.2010 kl. 17:37

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Rétt hjá þér Kristinn og það sama á við um stórkarlalegar pólitíksar yfirlýsingar svona almennt og yfirleitt.

Það er í það minnsta lágmark að þetta lið grjóthaldi kjafti þegar talið berst að "fyrirhuguðum breytingum á stjónun fiskveiða og fyrningu aflaheimilda."

En nú segja fréttir frá Barenthafinu að þorsktorfurnar séu orðnar svo þéttar að skipstjórar séu búnir að hlaða vörður ofan á þeim og merkja þær eftir stærð fiskanna.

Meira ólánið! að ekki var farið eftir ráðgjöf vísindamannanna og stofninum "forðað frá hruni" þarna um aldamótin.

Árni Gunnarsson, 6.3.2010 kl. 18:12

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Arinbjörn og Elís Már. Þakka innlit. Ég hef gaman af að vera á annari skoðun en fjöldinn og stundum tekst mér að komast upp með það ef viðfangmenn mínir eru nógu klaufskir eða þá seinir til að hugsa.

Árni Gunnarsson, 6.3.2010 kl. 18:16

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Sæll og blessaður!  Takk fyrir fínan pistil að vanda.  Ég þarf ekkert að segja þér mína skoðun á þessu máli, þú veist flest um skoðanir mínar í þessu vandræða máli!

Einu hef ég verið að velta fyrir mér og það er þessi skyndilegi áhugi almennings á Icesave, sem kom fram í Indefence undirskriftunum og nú á kjördag.  Hvar kom þessi áhugi fram síðastliðið sumar?  Allt síðastliðið sumar var mótmælastaða á Austurvelli?  Meðan þingmenn voru að koma sér saman um fyrirvara Alþingis stóðu þarna fáeinar hræður.  Fólkið sem stendur að félagsskapnum Siðbót stóð vaktina, ásamt fólki sem reisti "Tjaldbúðir heimilanna."  Ekki bólaði á þessum mikla áhuga fyrir þessari kúgun sem við sætum!  Útúr því var ekki annað hægt að lesa en að landslýður væri bara sáttur við kúgunina!  Þegar möguleiki var á að þrýsta á þingið að fella samninginn og gefa yfirlýsingu um að ekki yrði samið um málið, þá var þessi almenningur, kjósendur og mismunandi þjóðrembufulli landslýður heima hjá sér í sólbaði og að grilla.  Ef menn höfðu þá  ekki lagt land undir fót!

Fyrir bragðið hefur hrunflokkunum tekist með lýðskrumi sínu að snúa öllu á haus í landinu!  Gerendurnir í hruninu eru þjóðhetjur, en þeir sem hafa verið að baslast við að tjasla saman einhverskonar hrófatildri úr rústunum eru aðal SKÚRKARNIR!  Það hillir því undir að hrunflokka muni tylla sér í valdastólana!  Sem var alltaf tilgangurinn með lýðskruminu.  Það var ekki umhyggja fyrir alþýðu landsins.  Og það var ekki vegna þess að þeir væru ekki viljugir að beygja sig í duftið fyrir Brown og Darling etc.  Sem þeir munu gera mjög snarlega, ÞEGAR völunum hefur verið náð!  Sjáðu bara til!  Og án vafninga munu þeir sauma að íslensku alþýðu sem aldrei fyrr, og endurreisa veldi sitt, helmingaskipta veldið!  AGS verður hér áfram og sem nú.  Þar verður engin breyting á!  Og Bjarna og Sigmundi mun alveg örugglega takast að sannfæra kjósendur um nauðsyn þess að borga hverja krónu til baka af þessum svokallaða Icesave-reikningi.  Þessa sömu kjósendur, sem nú þyrpast á kjörstað til að segja NEI!  Þegar ég tala um kjósendur þá vil ég vísa á Björn Birgisson http://urval3bjorn.blog.is/blog/urval3bjorn/, þar sem hann skrifar um duglega kjósendur!  Takk fyrir þolinmæðina!

"MANNI Á BARA AÐ VERA SAMA UM ALLT."

Auðun Gíslason, 6.3.2010 kl. 20:06

7 Smámynd: Auðun Gíslason

...ÞEGAR völdunum hefur verið náð!  Þú áttar þig á að ég flokka þig ekki undir þessa "duglegu kjósendur", sem Björn skrifar um!

Auðun Gíslason, 6.3.2010 kl. 20:10

8 identicon

Nú hefur þjóðin kosið að hafna samningi og lögum sem voru ekki lengur til umræðu og á mánudag á að halda áfram að semja um það sem ekki var kosið um í dag. Dásamleg þjóð, verst hvað allt er dýrt hér, góðir hestar samt, sérstaklega í Skagafirði. Afsakið nú er ég farinn að þvæla einhverja viteysu, ja hérna hvar var ég í gáfulegri umræðu, já alveg rétt Isesave, ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ!!

Skondinn Spéfugl (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 22:54

9 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Lifi byltingin!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.3.2010 kl. 00:28

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðun. Þakka þér vinsamleg orð í minn garð. Það er mikilvægt í málum sem þessu að missa ekki sjónar á aðalatriðum og skekkja þau ekki viðhorfum til stjórnmála almennt eða stjórnmálaflokka/stjórnmálamanna. Mér er það fullvel ljóst að margir villast þarna af vegi og telja að með því að kjósa og segja nei sé verið að lýsa yfir stuðningi eða aðdáun á núverandi stjórnarandstöðu.

Allir sem mig þekkja vita vel að viðhorf mín til stjórnsýsluathafna á hverjum tíma eru aldrei skynsamlegri eða heimskulegri en sem nemur minni eigin dómgreind sem langt í frá er nú meiri - né heldur vonandi minni en almennt gerist um óbrjálað fólk.

Ég var búinn að lesa tilvitnaða bloggfærslu Björns góðvinar mín Birgissonar og svara henni líka fullum hálsi áður en ég fékk um hana ábendingu frá þér.

Mér er heldur óljúft að skattyrðast mikið við vini mína og þurfti að beita mig hörðu til að nota þá hvatvísi í orðum sem ég gerði þar. En mér er nokkuð mikið niðri fyrir með að Ólafur forseti verði ekki hrakinn frá vaktstöðu sinni fyrir hönd okkar sem lengst af verðum að hlíta glópskulegum pólitískum ákvörðunum vanburða stjórnsýslu Alþingis og ráðherra.

Aldrei sem nú er þessari þjóð þörf á einarðri frammistöðu stjórnvalda en jafnframt þó viturlegri. Hvergi sé ég vísbendingar um neitt í þá veru þessa dagana.

Ég tjáði forsetanum þakkir með atkvæði mínu í dag þar sem ég neitaði þessum lögum sem vissulega voru að líkindum úrelt áður.

Þú ert í þeim hópi sem hefur leitt að því líkur að tafir á lausn þessa vandræðamáls séu nú þegar orðnar þjóðinni dýrar. Um það er þó deilt hversu mikill sá kostnaður er. Sjálfur hef ég hvergi séð frá ríkisstjórninni skilgreint hvaða mikilvægu aðgerðir bíði eftir lánsfé. Ég sé engar ástæður til þess að þær séu svona óljósar eða kannski leyndarmál! 

Við sem gerum kröfur til stjórnsýslunnar verðum að muna okkar eigin skyldur.

Þú skondni spéfugl. Alveg ótvíræð niðurstaða þessi ályktun þín um góða hesta í Skagafirði. "Hafðu nú ráð þó heimskur kenni." Kauptu í snatri góðan hest af Skafta á Hafsteinsstöðum og hafðu hann hvítan. Síðan skaltu gera þér dagamun og drekka þig slompfullan. Ríddu svo glæsifáknum nokkra hringi umhverfis Austurvöll og kyrjaðu fullum hálsi tvíræðar vísur úr "Pontusrímun eldri" með nokkrum hávaða.

Mundu orð Péturs Gauts: "Af reiðskapnum kennist hvar heldri menn fara" og ljúktu svo þessari tilkomumiklu reið með því að henda tómum vasapelanum í þá rúðu Alþingishússins sem best liggur við skotinu.

Farnist þér vel í öllu þessu!

Axel: Byltingin er að þróast, vertu viss!

Árni Gunnarsson, 7.3.2010 kl. 01:22

11 Smámynd: Ómar Gíslason

Sæll Takk fyrir góðan pistill.

Auðvitað segjum við NEI. Það sem hefur komið mér mest á óvart að þeir flokkar sem nú eru við stjórn og voru kosnir í frjálsum kosningum eru ekki tilbúnir til að fylgja eftir og styðja lýðræðislega atkvæðagreiðslu sem er jú bundin í lög.

Ómar Gíslason, 7.3.2010 kl. 01:47

12 Smámynd: Auðun Gíslason

Sæll, minn kæri!  Seint held ég að nokkur bregði þér um heimsku, skort á skynsemi eða dómgreindarleysi!  Frekar að undirritaður þjáist af súrefnisskorti, en  þú af fyrrgreindum!

Auðun Gíslason, 7.3.2010 kl. 05:15

13 Smámynd: Elle_

Árni, þú skrifar: Það er ekki misskilningur hvað mig varðar að í dag er ég að neita að borga krónu af þessari skuld heimskunnar við sjálfa sig.

Ég veit ekki einu sinni hvort þetta snýst um ólögvarða skuldakröfu eða einhverskonar stríðsskaðabætur. 

En; Lifi Ólafur forseti!

Mikið gleður það mig, Árni.

Elle_, 7.3.2010 kl. 19:39

14 Smámynd: Björn Birgisson

Árni minn Gunnarsson, takk fyrir þennan vel ritaða pistil. Mér er það heiður að vitnað sé til orða minna innan um allar bókmenntirnar hér. Aldrei verðum við sammála um alla hluti. Þó það nú væri. Logn er ekkert veður sagði veðurfræðingurinn forðum!

Eitt skulum við þó sannmælast um: Að virða skoðanir hins, hversu vitlausar sem þær eru!  Lifðu heill og skrifaðu sem mest! Bestu kveðjur til þín frá leyndum aðdáanda!

PS. Auðun, hvaða skálastærð notar þú?

Björn Birgisson, 7.3.2010 kl. 20:24

15 Smámynd: Auðun Gíslason

Einkennilegur háttur vanþroska einstaklinga, að brigsla mönnum um einhverskonar öfugsnúning í lífnu!  Hefur Óskar þessi einhverntíma verið við kvennmann kenndur?  Ekki átti ég hinsvegar von á misþroski að þessu tagi blundaði í Birni!

Auðun Gíslason, 7.3.2010 kl. 21:07

16 Smámynd: Björn Birgisson

Hehehehe! Góður!  Aldrei að vita hvað blundar í þessum Birni! Held að Óskar sé í tygjum við gullfallega stúlku frá Asíu. Bestu kveðjur!

Björn Birgisson, 7.3.2010 kl. 21:26

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hjarta mitt fylltist af stolti og þjóðrembu þegar ég horfði á Sifur Egils í dag.

Að hugsa sér það að þessi litla þjóð skuli eiga svona marga leiðtoga og leiðtogaefni til að ræða gáfulega um vandamál sem búið er að velkjast á þeirra pólitíska skákborði í eitt og hálft ár og er enn óleyst!

Leiðtogar örbjarga örþjóðar sem veiðir árlega 1,5% af öllum fiskafla heimsins!

Og halda langar ræður um það "framandi" umræðuefni að "koma hjólum atvinnulífsins í gang!"

Eru þetta kannski "gáfaðir hálfvitar?"

Eða bara hálfvitar? 

Árni Gunnarsson, 7.3.2010 kl. 22:46

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Örlítil viðbót til allra sem málið varða:

Ég lofa að láta vita af því þegar ég geri nærfatnað að umræðuefni.

Árni Gunnarsson, 7.3.2010 kl. 22:53

19 identicon

Spennó !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

karen karlsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 21:33

20 Smámynd: Auðun Gíslason

Alltaf gaman að Sumarliða!  Talandi um gullfallegar stúlkur við frá Asíu, Björn, þá á ég barn með einni slíkri!  Mikið fyrirmyndar barn, enda alið upp af undirrituðum!!!  (Mont er þetta í gömlum manninum.)  Mig hefur alltaf grunað að það blundaði í þér kommúnisti og byltingarsinni,  Björn!  Farið að vera ansi algengt hér!  Spurning, hvort maður á ekki að fara að fjárfesta í vopnabúri, fyrst Kristján Hreinsson er farinn að safna liði á fésbókarsíðunni "Gerum byltingu." 

Auðun Gíslason, 10.3.2010 kl. 12:38

21 Smámynd: Björn Birgisson

Auðun, ég á smjörhníf og golfkylfu, dugar það eitthvað í byltingunni?

Björn Birgisson, 10.3.2010 kl. 13:33

22 Smámynd: Auðun Gíslason

Björn!  Takk, skæruliðar nota bara það sem hendi er næst!  Smjörhníf má nota til að afgreiða "smjörklípurnar".

Auðun Gíslason, 10.3.2010 kl. 13:56

23 Smámynd: Óskar Arnórsson

Datt kommentið mitt út? Ertu nokkuð að ritskoða mig Árni? Eða fór kommentið í vitlaust blað? Talið varlega um vopn! Ritstjórn MBL trúir að ég sé líklegur til að skjóta einhvern.... Enn góð bylting er bara skemmtilegt....Geturðu ekki sett mynd af þér á bloggið Auðun?

Óskar Arnórsson, 10.3.2010 kl. 22:00

24 Smámynd: Björn Birgisson

Auðun, ertu kvæntur Asíukonu? Ekki það að mér komi það nokkuð við. Ég er bara svo vitlaus og forvitinn! Þú fyrirgefur upprennandi kommanum vonandi! 

Óskar, Auðun Gísladóttir, has left the building! Ekki veit ég hvers vegna. Kannski bara líkað illa félagsskapurinn og leitað annað. Er hún nokkuð á tröppunum hjá þér? Gáðu!

Björn Birgisson, 10.3.2010 kl. 23:07

25 Smámynd: Auðun Gíslason

Ég held það sé alveg óþarfi að gleðja þig með mynd af mér!  Eða nægir ekki toppmyndin á blogginu mínu! 

Björn!  Farið er mig að gruna hvað blundar í þér.....!

Auðun Gíslason, 10.3.2010 kl. 23:18

26 Smámynd: Óskar Arnórsson

Hvað grunar þig? Að ég sé að fara að klífa fjöll Auðun? Aldrei. Þoli ekki fjöll. Já Björn. Þessi köttur er undarlegur enn hann var ekki úti á tröppum...stórskrítin kvenmaður,,

Æi, ég veit ekki af hverju ég er að þessu rugli við Auðun. Ég ruglaði kynjunum saman í byrjun og fannst það fyndið. Svo breyttist það í kæk...

Óskar Arnórsson, 11.3.2010 kl. 00:04

27 Smámynd: Auðun Gíslason

Það er flestum ljóst afhverju þú ert að þessu rugli!  Þú ert bara svona djöfull ruglaður!  Að ruglast á kynjum er náttúrulega einhverskonar kynhverfu, er það ekki?  Þú ert sálfræðimenntaður, ekki satt?  Skreytir þig með titlinum "phychoterapeut." Analyse this!

Auðun Gíslason, 11.3.2010 kl. 20:08

28 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er víst illa fyrir kallaður eins og sagt er.

En mér er aldeilis fyrirmunað að sjá hvernig þessar síðustu athugasemdir tengjast því umræðuefni sem ég lagði upp með

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 22:25

29 Smámynd: Björn Birgisson

Nú, er þetta ekki kaffihús í anda Baldurs Hermannssonar? Hvar er hann annars, sá andans gleðigjafi og íhaldsbulla?

Björn Birgisson, 11.3.2010 kl. 22:59

30 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég þoli ekki ketti. Mér klæar öllum...

Óskar Arnórsson, 11.3.2010 kl. 23:31

31 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur Hermannsson er lagstur í sauðaþjófnað austur á Síðumannaafrétti og fer huldu höfði. Þetta hef ég eftir mjög áreiðanlegum heimildum frá miðilsfundi þar sem bæði Eyvindur og Halla mættu.

 Þau létu heldur vel af sér skötuhjúin.

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 23:54

32 Smámynd: Óskar Arnórsson

Eyvindur og Halla? Skilaðu kveðju til þeirra frá mér...

Óskar Arnórsson, 12.3.2010 kl. 00:09

33 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég fer ekki á miðilsfundi Óskar. Bloggið er ámóta trúverðugt og miðilsfundir og það nægir mér. Enda sýnist mér nú að á blogginu séu margir vel tengdir fréttum frá öðrum heimi. Varla eru aðrar skýringar á mörgum ályktunum þar nærtækari.

Árni Gunnarsson, 12.3.2010 kl. 00:21

34 Smámynd: Óskar Arnórsson

Nú! Er bloggið ekki einu heimildirnar um lífið og tilverunna?

Óskar Arnórsson, 12.3.2010 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband