Tæknivætt háskólasamfélag fullt af bjarsýni með frjóar hugmyndir handa næstu kynslóðum

Það er með miklu stolti sem ég sest niður til að fá útrás fyrir aðdáun mína á ómetanlegri menntun okkar ungu kynslóðar. Nú loksins fer að hilla undir nýja tíma bjartsýni eftir aldalangt svartnætti þar sem torfið og fjallagrösin bar hæst í allri umræðu. Ég hef það fyrir satt að þessi álver séu í dag talin vera Aladínslampi allra þeirra þjóða sem "á hæstum sitja tróninum" í samfélagi menntaðra og upplýstra landsvæða.

Nú bíð ég eftir því að einhver framsýnn menntamaður stigi fram á sviðið og krefjist þess að sími verði leiddur inn á hvert heimili í þessu útúrborulega landi.

Of lengi höfum við notast við kálfskinnsmenninguna.

Það kom hérna maður sem sagði mér að nú væri komið svo á efnaðri heimilum að fólk væri hætt að nota export í kaffið!

Það bendir allt til þess að það komi rennandi vatn inn í öll hús á Íslandi.

Einhvern tímann hefði það nú þótt ótrúlegt að við Íslendingar kæmumst svo hátt á heimsmælikvarða að langtíburtuþjóðir byðust til að þiggja af okkur ódýra orku.

Mikið held ég að virðing okkar sé að vaxa. 


mbl.is Sex af sjö tilboðum undir kostnaðaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill að venju hjá þér. Það er komin tími á að verða jákvæður og byrja að sjá alla möguleika sem eru í boði. Þjóðfélagið þarf ekki og verður líklegast aldrei það sama. Sem er gott mál. Það kemur eitthvað í staðin sem allir verða ánægðir með. Miklu betra. Ég ætla að hoppa yfir Exportinn í kaffið af því að ég trúi að ég þurfi þess ekki.

Síminn heima er ekki lengur 2 langar og ein stutt. Ég er ánægður með það.

Óskar Arnórsson, 11.3.2010 kl. 18:45

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Allar þjóðir munu horfa til okkar með aðdáun. Nú fer allt að fyllast af fréttamönnum og litlu börnunum í stjórnarráðinu verða gefnar karamellur þar sem þau standa með íslenska fánann og brosa feimnislega við útlendingunum sem koma til að undirrita samningana.

Og svo verður skipst á pennum. Þá fær hún Katrín litla iðnaðar svaka flottan kúlupenna með merkinu hans alkóa en lætur í staðinn fjöðurstafinn og blekbyttuna.

Og svo drekka allir súkkulaði á eftir og það verður sko með rjóma. 

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 18:58

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

íslendingar eru spes. Engin þjóð hefur klifið svo hátt og dottið jafn hratt niður á jafnskömmum tíma. Og komið niður á fæturna. Næstum því...Að sjálfsögðu verður þetta svona eins og þú segir. Það er það sem er svo fyndið. Og þó það verði settur einhver bragðbætir út í súkkulaðið, þá verður skipst á pennum, ræðum og handaböndum. Allir verða í sparifötunum. Það eru dýrðardagar í nánd. Seðlabankinn selur hauga af víxlum á í hverjum mánuði til að tryggja afkomu landsins. Komnir með fasta daga í þetta meira að segja. Getur ekki verið betra....

Er ekki hægt að nota vestfirði í stóriðju? Þá meina ég alla vestfirði...Alcoa stóriðjufirðir... svo þarf skipaskurð í gegnum Gilsfjörð....

Óskar Arnórsson, 11.3.2010 kl. 19:28

4 Smámynd: Auðun Gíslason

Er þetta ekki hið alþekkta nýlenduhugarfar?  Að vilja endilega flytja út sem ódýrast hráefni svo Burtistan geti auðgast enn meir?  Fyrrum nýlendurþjóðir, sem búa svo vel að eiga auðlyndir, eru fátækustu öreigar jarðarinnar!  Fyrrum nýlendur, sem eiga engar auðlyndir, eru á hinn bóginn meðal hinna ríkustu! Þar fer bókvitið í askana, eða þannig!

Auðun Gíslason, 11.3.2010 kl. 20:01

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er auðvitað mikið alvörumál þegar vatn rennur í friði til sjávar. En auðvitað dettur engum lærðum manni það í hug að innan fárra áratuga verður allt það rennandi og hreina vatn sem fellur til á Íslandi meira virði til neyslu hjá iðnarþjóðunum en allt það iðnaðarál sem brætt er í nafni hins eilífa hagvaxtar á þessu ágæta landi.

Það er orðið nóg í bili af heimsku og niðurlægingu sem flutt er út frá Íslandi með skipalestum.

Vonandi þarf ekki að fjölga skipalestum til að flytja út meira af þessum ofangreindu afurðum okkar sem þó virðast vera endurnýjanlegri en viðskiptavinir Jónínu Ben í detox meðferð.

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 20:36

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar. Ótrúlega stór hópur Vestfirðinga taldi það mikla ráðsnilld að setja upp olíuhreinsistöð í nágrenni við stærsta fuglabjarg í Evrópu, ef ekki það stærsta í öllum heiminum!

Enginn virkisveggur er svo hár að ekki komist yfir hann asni klyfjaður gulli. Verst þykir mér hversu marga asna við Íslendingar eigum sem krjúpa í auðmýkt á hnén og bíða eftir gullklyfjunum. Enginn þessara asna nennir að lyfta klyfjunum á sig sjálfur. Þetta eru nefnilega bæði heimskir og latir asnar.

Og auðvitað eru þetta háskólamenntaðir asnar.

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 20:47

7 Smámynd: Björn Birgisson

"Mikið held ég að virðing okkar sé að vaxa."

Engan kipp tók hún með þjóðaratkvæðagreiðslunni. Samkvæmt nokkrum heimildamönnum mínum erlendis, löndum vorum, var hinn illa upplýsti erlendi almenningur á þeirri skoðun að Íslendingar hefðu bara verið að þjappa sér saman um það ráðslag að greiða ekki skuldir sínar af því að þær væru orðnar of miklar og háar!

Hvað eru nokkrar virkjanir annars á milli vina?

Björn Birgisson, 11.3.2010 kl. 21:08

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn minn. Við Íslendingar skulum nú hafa hratt á hæli og stinga okkur til sunds í Evrópusambandið. Eina von okkar til sjálfsbjargar er þar.

Stofnaður verður þar almenningsgarður þarna úti í Brussel þar sem Íslendingar verða hafðir til sýnis eins og pandabirnir. Aðgangur verður ókeypis en dýrunum verður gefið að éta.

Fólk mun verða agndofa þegar það sér að þessi undarlegu dýr geta meira að segja talað.

Vísindamenn sannfærast með hverju ári betur um að þarna er hann kominn "týndi hlekkurinn!"

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 22:10

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn; örlítil athugasemd vegna fréttarinnar af því að Íslendingar vildu ekki greiða skuldir sínar!

Mér er spurn: Skulda ég þessu fólki eitthvað?

Ég veit ekki um þig en þú ert greinilega hugsi.

Árni Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 22:15

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Já enn Árni! Nú verður fólk að vera skynsamt. Engin tími eða áhugi fyrir þvælu og vitleysu. Það sem myndi ávinnast av "projekti eins og að saga af Gilsfjörð, senda bændur og villibændur inn á meiginlandið, þarf ekki að fjölyrða um.

Pappi var bóndi á vestjörðum og ég ólst upp á vestfjörðum, þó það hafi mistekist, þá skildi ég alla vega að við vorum jú ekki líkir restinni af fólki í landinu. Það þurfti hvorki vitringa né sérvitringa til að skilja það.

Jæja. Auðun er búin að sanna sig fyrir mér fyrir löngu síðan. Ég er búin að skrifa eins og asni um hann oft og mörgum sinnum, og þótt það brandari. Hann segir svo mikið af viti að ég hvorki þarf eða ætla í neinar málalengingar. Þetta virðist vera kall í lagi þrátt fyrir allt!

Nú fáum við smá frí. Læknirinn tvöfaldaði alla skammta fyrir þessa veiku svo við sem erum á vaktinni gætum verið í friði með bloggið...

Óskar Arnórsson, 11.3.2010 kl. 23:49

11 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Nú er rétti tíminn til að fullkomna verkið.  Eyðileggjum hreina vatnið okkar, náttúruna og loftið og þá er ekkert orðið eftir hérna fyrir okkur og við getum án umhugsunar hent landinu og farið eitthvað annað.  

Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er án efa fáránlegasta hugmynd sem ég hef heyrt í þessu lífi.

Anna Einarsdóttir, 12.3.2010 kl. 10:44

12 Smámynd: Björn Birgisson

Árni, sá að þú beindir spurningu til mín (#9). Stutta svarið er nei. Lengra svarið gæti verið svona: Einkareknir bankar eru ekki sambærilegir við einkarekin fyrirtæki úti í bæ. All mikið regluverk er um starfsemi bankanna, sett af ríkinu, sem svo hefur ríka eftirlitsskyldu. Þegar það eftirlit bregst algjörlega dregst ríkið niður í svað bankabófanna og ber þar mikla ábyrgð.

Hvað er ríkið? Ég og þú og nokkrir fleiri landar.

PS. Sólkonungurinn Lúðvík XIV leit dálítið stórt á sig og sagði einhverju sinni "Ég er ríkið."

Árni,  þekkir þú nokkurn mann á Íslandi sem gæti hafa hugsað svona en ekki þorað að segja það upphátt?

Björn Birgisson, 12.3.2010 kl. 14:17

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Þessir menn með Napoleonsheilkennin eru flestir hinir mestu garmar þegar á reynir. Kjarkleysið birtist í árásarhneigð ásamt því að hafa alltaf í kring um sig hirð geltandi rakka sem verja blæti sitt með óstöðvandi orðaflaumi og fúkyrðum.

Ég minnist pólitísks valdsmanns á Íslandi sem aldrei kom hin síðustu árin í sjónvarpsumræður. Hann kom í svokölluð viðtöl þar sem hann lét móðan mása og gerði ýmist að mæra sjálfan sig eða varpa háðsyrðum að fjarstöddum.

Og við skulum bera talið að "ónefndum" manni sem í stað þess að segja manni upp sem hafði þverstæðar skoðanir í pólitísku máli, lagði niður stofnun þá sem hann var í forsvari fyrir. 

Sterkar líkur eru til þess að Þjóðhagsstofnun hefði bjargað miklu með því að taka til máls og benda með rökum á í hvert óefni stefndi og þar með stöðva brjálsemi bankútrásarinnar áður en svo illa fór sem raunin varð.

Og nú að nafngreindum manni Davíð Oddssyni seðlabankastjóra. Þegar til kastanna kom reyndist þessi maður heimskur pólitíkus og úrræðalaus embættismaður í valdamesta embætti peningastjórnunar á Íslandi.

Á hans vakt og á hans ábyrgð hrundi íslenska hagkerfið í einni andrá. Hagkerfi sem hann sjálfur átti ekki næg lýsingarorð til að mæra ásamt hans eigin framsýni sem það hefði grundvallast á og orðið elstu og þróuðustu hagkerfum heimsins fyrirmynd og öfundarefni.

Ennþá gelta rakkarnir sem mynduðu hirðina og biðja til almættisins að þessi goðum líki maður verði leiddur á ný til æðstu valdstjórnar.

Þetta er ekki heimska, aðeins slæm veikindi. 

Árni Gunnarsson, 12.3.2010 kl. 17:48

14 Smámynd: Björn Birgisson

Árni minn, þetta var hressilegt að lesa í aðdraganda helgarinnar! Með agnarlítilli snyrtingu væri þetta giska góð sjálfstæð færsla. Gerðu það, hlýddu bara og vertu fljótur að því! Bestu kveðjur til þín úr vorblíðunni í Grindavík!

Björn Birgisson, 12.3.2010 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband