Frjálslyndi flokkurinn með landsfund í vikulokin. Gerum þennan landsfund að tímamótum í íslenskum stjórnmálum

Aldrei hafa jafn margir Íslendingar verið jafn reiðir og nú. Aldrei hafa meiri vonbrigði kjósenda þessa lands verið jafn mikil og nú. Öllum ætti nú að vera orðið ljóst hversu fálmkennd og ráðalaus pólitísk stjórnsýsluvinna á ábyrgð fjórflokksins er. Á því hefur því miður ekki sést nein breyting þrátt fyrir oflátungslegar yfirlýsingar í aðdraganda kosninga svo langt sem minni fólks nær.

Nú er tækifæri til að gera þá einu byltingu sem dugar. Nú þurfa allr þeir sem misst hafa þolinmæðina og vonina um heiðarlega stjórnsýslu að rétta úr sér og taka þátt í að efla þennan flokk og setja honum skýr og afmörkuð markmið í pólitískum baráttumálum.

Við erum að tala um flokk sem sundraðist vegna pesónulegra innbyrðis deilna sem nú eru að baki. Margir hafa yfirgefið flokkinn og margir komið í staðinn. Nú eigum við tækifærið til að skipa nýju fólki til starfa og við þurfum að velja það af kostgæfni. Þeim mun fleiri sem skrá sig í flokkinn og skrá sig til þáttöku á landsfundinum, því öflugri verðum við. Þeim mun fleiri sem taka til máls og láta í sér heyra því meiri líkur á að markmiðin verði skýr og aðferðirnar líka.

Munum að Frjálslyndi flokkurinn er með skýra stefnu í stjórnun fiskveiða og hefur aldrei hvikað frá henni. Allir aðrir stjórnmálaflokkar hafa gugnað þegar á hóminn var komið. Enda meintu þeir aldrei neitt með orðum sínum og samþykktum.

Áfram Ísland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Ef Frjálslyndi flokkurinn getur haft bætandi áhrif á stjórnmálin þá fagna ég því. Til þess þarf flokkurinn að ná sameiningu við krafta Borgarahreyfingarinnar og búa þannig til all nokkurn slagkraft. Ég hef það stíft á tilfinningunni að Hrunskýrslan muni gera margan manninn afhuga sínum flokki og að þannig myndist raunverulegur möguleiki á því að ný öfl geti náð árangri. Því skyldi það ekki vera Frjálslyndi flokkurinn?

Björn Birgisson, 15.3.2010 kl. 15:27

2 Smámynd: Rannveig H

Ég hef löngum sagt að þu vitir hvað þú syngur Árni! Ég ætla að syngja þennan söng með þér .

Rannveig H, 15.3.2010 kl. 19:03

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Takk fyrir Rannveig. Mér finnst allt í lagi að við prófum að raula svona einn dúett með þessum endurnýjaða kór. Við hættum þá bara ef við verðum hjáróma.

Árni Gunnarsson, 15.3.2010 kl. 19:26

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Áddni, ég er að reyna að rifja upp ztrigabazzann með, en trú mín er fátæk, & það vantar zannfærínguna í nikkuna ...

Steingrímur Helgason, 16.3.2010 kl. 00:28

5 identicon

Margir hafa yfirgefið flokkinn og koma til baka!  Margir eru flokkslausir og vita ekki hvar skal standa.  Frjálslyndi flokkurinn gefur góða von með nýjum formanni og ferskum blæ.  Og góð málefni og heiðarlegur málflutningur án skrums og innantómra loforða.  Líklega hittir  Björn naglann á höfuðið þegar hann segir:"að Hrunskýrslan muni gera margan manninn afhuga sínum flokki" .  Þá sjáum við hvert menn munu  leita.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 23:25

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auður: Slæm reynsla að stjórnmálamönnum/flokkum hefur orðið nýjum flokkum mikill fjötur um fót. Ég hvet alla til að leita eftir því í ræðum frá Alþingi hvenær fulltrúar Frjálslynda flokksins hafa talað- eða greitt atkvæði þvert á yfirlýst stefnumál flokksins. Ég hvet til leitar og ég kvíði ekki afrakstri þeirrar vinnu.

Ég sé fyrir mér að Sigurjón Þórðarson muni taka við forystunni á landsfundinum og ég kvíði ekki forystu hans. Kvíði henni ekki, hvorki í sinnra starfi né störfum hans og hans liðsmanna inni á Alþingi ef við náum þar þingstyrk.

Sigurjón hefur umfram aðra stjórnmálamenn þann seint fullmetna kost að segja það sem hann meinar og meina það sem hann segir.

Árni Gunnarsson, 17.3.2010 kl. 00:11

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og Zteingrímurr. Það er grábölvað ef nikkudjöfullinn missir sannfæringarkraftinn og "kraftbirtíngarhljómur djúpra pólitískra ályktana" verður að einhvurju óljósu muldri útí bláinn! Ztrigabazzinn er bráðnauðsynlegur og efling trúarinnar kemur af sjálfu sér eftir að hafa þaullesið góðan málefnabræðing.

Og svona til að efla þig í andanum þá er mér ljúft að lýsa því yfir að ég hef hugsað mér að segja fáein hugljúf en einörrð hvatningarorð þarna úr ponturæflinum - með leyfi fundarstjóra!

Árni Gunnarsson, 17.3.2010 kl. 00:28

8 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Hef trú á Sigurjóni sem formanni og Ástu sem varaformanni en mín reynsla er sú að gamla valdaklíkan sem dregur sig tímabundið í hlé mun sækja stíft fram eftir að atkvæðin hafa verið talin og ræna sigrinum.

Þetta hef ég upplifað áður, krókódílum á ekki að gefa kost á endurkomu úr fylgsnum sínum til að hirða afraksturinn af vinnunni, ef Sigurjóni og Ástu tekst að ná kjöri og þau ná sáttum við þá sem út hafa gengið.

Þau geta virkjað aftur fjölmarga til góðra starfa en þurfa að hafa þor og kjark til að stækka flokkinn.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 17.3.2010 kl. 21:24

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafandi verið starfandi í þessum flokki allt frá byrjun er mér óljóst hveja átt er við þegar rætt er um gömlu valdaklíkuna.

Kristinn H. Magnús Þór. Jón Magnússon og ýmsir þeirra sem mestur styrr stóð um eru horfnir úr flokknum. Enginn minnsti málefnaágreiningur hefur verið í þessum flokki. Átök um menn og átök milli manna voru allur vandi flokksins og ástæðan fyrir misheppnuðum landsfundi í Stykkishólmi og máttleysi XF í síðasta framboði til Alþingis.

Árni Gunnarsson, 17.3.2010 kl. 23:13

10 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Að sjálfsögðu var aldrei málefnaágreiningur í flokk sem nánast vísaði öllum tillögum í nefnd eða til skoðunar og vann svo málefnavinnuna í þröngum hópi til að tryggja rétta útkomu.

Var almennt gefinn kostur á málefnavinnu meðal hins almenna flokksfélaga.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 18.3.2010 kl. 13:12

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Málefnavinnu nefndi ég ekki. Þessi flokkur var myndaður um það málefni sem sameinaði þann hóp sem lagði af stað í framboð á sínum tíma. Þau málefni voru fyrst og fremst breytt stjórnun fiskveiða með innköllun kvótans og áherslu á dreifingu hans til strandbyggðanna. "Frelsi einstaklingsins" í þeim góða skilningi okkar að frelsi einstaklingsins megi aldrei skerða með forgjöf til handa þeim sem ráða yfir fjármagni og beita því af siðleysi gegn þeim sem eru að feta sig áfram af eigin dugnaði.

Við höfðum jafnframt skýra stefnu í málefnum aldraðra og öryrkja og bentum ótrauð á þær skekkjur sem orðið höfðu og þróast í lífeyrisgreiðslum til þeirra.

Um stóriðjustefnuna var lítið rætt enda voru um hana nokkuð skiptar skoðanir.

Eina stóriðjustefnu voru þó allir sammála um og það var sú stóriðjustefna sem felst í því að gefa fólki tækifæri til frelsis í tilliti þess að fjötra það ekki í óþörfum frumskógi reglugerða. 

Betra er að hafa fá markmið og skýr en þvaðra um alla þætti samfélagsins til að ná einhverri tengingu við alla.

Stjórnmálamenn eiga að segja það sem þeir meina og meina það sem þeir segja. Það tel ég að fulltrúar Frjálslynda flokksins inni á Alþingi hafi tamið sér.

Árni Gunnarsson, 18.3.2010 kl. 19:11

12 Smámynd: Björn Birgisson

"Eina stóriðjustefnu voru þó allir sammála um og það var sú stóriðjustefna sem felst í því að gefa fólki tækifæri til frelsis í tilliti þess að fjötra það ekki í óþörfum frumskógi reglugerða."

Vel mælt!

Björn Birgisson, 18.3.2010 kl. 19:23

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þorsteinn: Og að þessari lýsingu þinni á málefnavinnu og þeirri aðferð að vísa öllu til nefndar þá er mér ekki kunnugt um þau vinnubrögð.

Hver sagði þér þessa sögu Þorsteinn?

Árni Gunnarsson, 18.3.2010 kl. 19:24

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn minn: Mér finnst vænt um að þessi málsgrein náði þó í það minnsta eyrum þínum. Í mínum huga er varðhald reglugerðafargansins eitt mesta mein samfélagsins.

Árni Gunnarsson, 18.3.2010 kl. 19:50

15 Smámynd: Björn Birgisson

Árni minn Gunnarsson, ég kippist alltaf við þegar orðið reglugerð ber á góma. Sem barn ólst ég upp í mikilli nálægð við villiketti, en þeir voru margir og áttu sér athvarf í skreiðarhúsum og veiðarfærageymslum, ekki svo langt frá heimili mínu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Ég reyndi að vingast við þá, stal mjólk úr ísskápnum hennar mömmu minnar sálugu, blessuð sé minning hennar, og færði þeim, ásamt öðrum veitingum úr ísskápnum hennar móður minnar. Í hvert sinn sem ég nálgaðist villidýrin hvæstu þau á mig og sýndu tennurnar, sérstaklega þegar kettlingarnir voru nýfæddir. Ég skildi þetta fjandsamlega viðmót illa, en skildi alltaf veigarnar og veitingarnar eftir, ekki svo langt frá bælinu og ungviðinu og dró mig í hlé, dapur í bragði yfir því að fá ekki að klappa villidýrunum, sem ég vildi gera að vinum mínum. Næst þegar mig bar að garði var allt uppétið og sagan endurtók sig. Margsinnis. Vináttan varð aldrei önnur en af minni hálfu.

Hefði ekki þurft að setja villiköttunum reglugerð um að taka þessum níu ára dreng með virðingu við hæfi?

Þrettán ára eignaðist ég svo loftriffil frá Ameríku.

Hvernig er komið fyrir okkur? Var ekki allt betra í gamla daga? Ég hallast að því. 

Björn Birgisson, 18.3.2010 kl. 21:46

16 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Árni það sagði mér enginn sögu, ég upplifði þetta sjálfur og labbaði svo út því flokkur sem þorir ekki að opna umræður af ótta við innanflokks óróa eða stækka af ótta við að forustan missi stjórn á umræðum og þróun, vekur ekki áhuga minn frekar en önnur sökkvandi skip.

Nái Sigurjón og Ásta kjöri, standi svo í lappirnar, er enn von til að ná inn nýju fólki og hefja viðreisn.

Formenn sem vilja vera farsælir verða líka að sýna sjálfstæði, kunna að safna liði og geta framselt bæði völd sem verkefni.

Gangi ykkur annars vel.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 18.3.2010 kl. 22:57

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Ef mér skjátlast ekki þá fer að styttast í að íslenskir ríkisborgarar fari að ráði villikattanna þarna um árið í Neðstakaupstað.

Þeim fer nefnilega fjölgandi sem átta sig á því að ódýrasta vistvæna orka þjóðarinnar er í vel upplýstu og vel menntuðu fólki. Sjái stjórnvöld ekki að sér þá mun þessi gleymda orka finna sér farveg á eigin forsendum og utan við bálka tilskipana frá EES.

Ég er áreiðanlega ekki að opinbera leyndarmál þó ég upplýsi að anarkisminn er að festa rætur í samfélagi okkar. Aldrei sem nú er jarðvegur fyrir pólitík anarkismans. Þegar allt er bannað og meira að segja liggja við því ströng viðurlög ef kvótalaus trillukarl skýst út á miðin og fiskar í soðið handa svöngu fólki nokkrum dögum fyrir jól!

Anarkisminn er afleiðing óskaplegrar óstjórnar og segir aðeins sögu af vondum stjórnvöldum.   

Árni Gunnarsson, 18.3.2010 kl. 23:01

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þorsteinn. Líklega ertu að segja mér frá landsfundinum í Stykkishólmi þar sem Vestfjarðagoðarnir gengu endanlega frá eigin framtíð í stjórnmálum og tóku flokkinn niður í leiðinni. Ég fór ekki á þennan svonefnda landsfund sem betur hefði verið boðað til sem raunveruleikhúss.

Ég get nú ekki ímyndað mér að neitt af því sem þar fór fram flokkist undir málefnavinnu.

Ég var búinn að segja meiningu mína um þetta ástand sem þú lýstir og gerði það á fundi á Grand Hotel nokkrum mánuðum áður.

Ég gerði mér far um að tala ekki ógreinilega.

Nokkrir viðstaddir þökkuðu mér fyrir á eftir; aðrir sögðu mér að skammast mín og báðu mig aldrei þrífast.

Hvorttveggja þótti mér jafn ljúft að heyra.

Árni Gunnarsson, 19.3.2010 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband