Yfirlýsing forsetans

Þá hefur forsetinn leyst upp allar vangaveltur okkar um framtíð hans í embætti. Margir fagna nú með fyrirferðarmiklum yfirlýsingum og upphrópunum, þessari ákvörðun hans. 

Ég er á hinn bóginn í flokki með þeim sem kveðja þennan þjóðarleiðtoga okkar með nokkrum söknuði.

Ólafur Ragnar breytti forsetaembættinu eftir nokkrar sviptingar og þrátt fyrir gildishlaðnar fullyrðingar af pólitískum toga um að til þess væri engin stoð í lögum.

En með þessu breytti hann vissulega stöðu embættisins og staðfesti að mínum dómi jafnframt hversu brýnt það er að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og festa í lög ákvæði um heimildir tilgreinds minnihluta Alþingis og einnig tilgreinds hluta kjósenda, til að vísa umdeildum tilskipunum og lögum Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Öllum má vera ljóst að það er ótækt að eiga þennan synjunar-og málskotsrétt undir geðþóttaákvörðun eins embættismanns eftir heiftúðug átök og illdeilur.

Ólafur Ragnar átti að baki nokkurn feril pólitískra átaka í stjórnmálum er hann settist í embættið. Og ásamt því að vera hvorki geðlaus né gallalaus, hlaut það að afla honum nokkurs mótbyrs í pólitísku andrúmi samfélagsins þegar mestur varð gusturinn.

Sameiningartákn varð Ólafur forseti aldrei í þeim hefðbundna skilningi og sóttist kannski ekki svo mjög ekki eftir því. 

Ég þakka honum fyrir mig og óska honum góðs farnaðar um ókomin ár.

Ég vona jafnframt að við fáum góðan forseta í hans stað á Bessastaði.

Ekki þarf hann að verða gallalaus.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband