Pólitíkusur

Pólitíkusar svonefndir eru afmarkaður hópur fólks sem eyðir mestallri orku sinni í að skilgreina þau viðfangsefni samfélagsins sem flokkast undir pólitík í daglegu tali fólks. Mest af orkunni fer þó í að finna klókindalegar aðferðir til að benda kjósendum á heimsku svonefndra pólitískra andstæðinga og þá í samanburði við raunhæfar leiðir sem þeir sjálfir hafi rakið sig eftir til að finna hið rétta í hverju máli.

Kýrnar hafa þá áráttu að seilast í jötunni eftir því sem næsta kýr er að éta þar til ekki er meira að hafa. Þá fyrst snúa þær sér að eigin fóðri.

Og af því að kýr eru taldar heimskar (sem er misskilningur) finnst mér að meiri virðing hæfi ekki okkar pólitíkusum en að kalla þá pólitíkusur sem er kvenkynsnafnorð í nefnifalli fleirtölu. Þessi kvikindi hafa haft sig mest í frammi við að éta frá öðrum og þjóðin er ekki orðin aflögufær eftir að pólitíkusurnar hafa gengið eftirlitslausar í fóðurbirgðirnar.

Mér sýnist að mörg undanfarin ár og áratugi höfum við valið af kostgæfni undirmálsfólkið í samfélagi okkar til að vísa okkur veginn til framtíðar.

Þessu fólki hæfa ekki tignarnöfn.

Mikla orku þurfum við að vera reiðubúin til að leggja í þá vinnu að losa okkur við allar pólitíkusur þjóðarinnar út af stjórnsýslustofnunum.

Og við þurfu að hefjast handa þegar í fyrramálið við undirbúninginn því við megum engan tíma missa og hver dagur er dýr. Það ættum við að vera búin að sjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Pólitíkusur er gott nýyrði.  Ég verð að muna þetta.

Jens Guð, 24.1.2010 kl. 22:30

2 identicon

hahaha!!! pólitíktu....hver er munurinn ??

Karen Karlsdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 21:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Munurinn er nú bara sá að pólitíkusar hafa verið settir á einhvern merkilegan bás í umræðu okkar. Kusur eru bara beljugrey sem notaðar eru til að framleiða mjólk og svo þarf alltaf einhvern til að moka flórinn.

Pólitíkusar framleiða næringu fyrir fyrir þá sem kosta þá til framboðs og svo þarf alltaf einhver að moka flórinn eftir þessi kvikindi. Þeim hæfa ekki virðulegri nöfn en kusunum, enda sýnir reynsla okkar í dag að þetta eru skaðræðiskvikindi.

Árni Gunnarsson, 25.1.2010 kl. 22:03

4 Smámynd: Björn Birgisson

Hvers konar kusa er Friðrik Sophusson, nýráðinn stjórnarformaður Íslandsbanka? Án nokkurrar þekkingu á bankamálum, að eigin sögn í sjónvarpinu í kvöld.

Björn Birgisson, 25.1.2010 kl. 22:42

5 Smámynd: Björn Birgisson

þekkingar, vildi ég sagt hafa

Björn Birgisson, 25.1.2010 kl. 22:42

6 identicon

Ætla mér nú ekki að fara í skilgreiningu á beljum og pólitíkusum það er nú alltof langt kafað fyrir mína vitund -En mér er í fersku minni beljufjandi sem foreldrar mínir fengu frá Hvalsnesi -Hún var stórbeinótt og þar að auki mannvíg og ekki fyrir sjálfan fjandann að nálgast hana -Nema hún amma mín lítil og nett kona með frekar mjúka rödd hafði lag á ná úr henni afurðinni -Svo að næringu fengum við úr henni og engum varð illt af því --En úr pólitíkusunum fær maður allskonar vírusa og uppþembu með tilheyrandi kvoðnun-Pólitík er eins og óðagot í brennandi leikhúsi

karen karlsdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 23:26

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn: Friðrik er bráðglöggur skratti en afleit pólítíkusa á sinni tíð í því hlutverki. Yfirlýsing hans minnir mig á orð Davíðs nokkurs Oddssonar sem kom í viðtal í Kastljósi, eða einhversstaðar í fjandanum fljótlega eftir að hann tók til starfa í Seðlabankanum. Hann sagðist hafa verið vitlausasti maðurinn í bankanum þegar hann byrjaði.

Kotroskinn svipurinn benti til þess að hann teldi að sá tími væri nú liðinn. Að lokum kom í ljós að þegar eftir illan leik tókst að þoka honum út úr bankafjandanum var hann líklega enn vitlausasti maðurinn sem þangað hafði komið og skildi bankann eftir gjáldþrota.

Karen Karlsdóttir. Engin ástæða til flokka það undir fávisku að gefast upp við að skilgreina beljur frá pólitíkusum því það er flókið nema þá að í sumum tilfellum sést örlítill munur á limaburði og þá helst úr nokkurri fjarlægð.

Beljufjandinn sem foreldrar þínir fengu frá Hvalnesi hefur reyndar verið alveg dæmigerður samnefnari fyrir pólitíkusur og kemur gleggst fram í því að þú segir hana hafa verið mannýga.

Mikið lán hefur það verið að þessi kusa fór ekki í pólitík. Þá hefði hún amma þín ekki verið nærstödd með sína mjúku rödd til að forða því að hún yrði mannsbani og jafnvel stórvirk. En vel að merkja. Íslenskt samfélag er farið að minna óhugnanlega á óðagot í brennandi leikhúsi. Og það megum við þakka okkar vel fóðruðu pólitíkusum.

Árni Gunnarsson, 26.1.2010 kl. 01:07

8 Smámynd: Auðun Gíslason

Hvort er þá Alþingishúsið gripahús eða fjós?

Auðun Gíslason, 27.1.2010 kl. 19:46

9 Smámynd: Björn Birgisson

Alþingi er hvorki gripahús né fjós. Alþingi verður fangelsi þegar almenningur varnar þingmönnum útgöngu í kjölfar birtingar skýrslunnar sem allir bíða eftir. Um sumt keimlík hús, þinghúsið og Hegningarhúsið við Skólavörðustíg.

Björn Birgisson, 27.1.2010 kl. 19:53

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðun og Björn. Alþingi setur þjóðinni lög eins og við vitum. Viss hópur manna þarf að - annað hvort búa við lög sem beinlínis gefa þeim tækifæri til misskilnings - eða hafa eyður í lög á heppilegum stöðum. Alþingi hefur lengi verið einskonar kvíaveggur smalamanna þessa hóps. Hér er ég að vitna í ráð Sighvatar á Grund sem hann gaf Sturlu syni sínum er hann var að reisa bú á frægu stórbýli.

"Smalamann þarft þú að hafa frændi. Hann skal vera lítill, léttur á baki og kvensamur og liggja löngum á kvíavegg." Einhvern veginn kemur mér alltaf Pétur Blöndal í hug þegar ég í seinni tíð minnist þessara ráða gamla höfðingjans þeirra Sturlunga. Pétur sat á Alþingi þegar honum kom það snjallræði í hug að koma í hús öllu finnanlegu fé án hirðis. Og Pétur reyndist mörgum góðvinum sínum hinn traustasti smalamaður á sínu leitarsvæði.

Aðra skoðun hafði hinn aldni bændahöfðingi Sigurður hreppstjóri Guðmundsson á Heiði í Gönguskörðum sem orti langa heilræðadrápu handa bændum og endaði eina vísuna svona:

Vandaðan smalann velja skal,

vitran hal og merkan.

Tíðarandinn hefur í seinni tíð sveiflast meira í átt til ályktana Sturlungaaldar.

Það er ljóst ef skoðaður er svipur Alþingis og heimsóknir fulltrúa þess í Kastljós. 

Árni Gunnarsson, 27.1.2010 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband