Aldrei fleiri sótt um nám á Litla Hrauni

Var að hlusta í dag á þáttinn Orð skulu standa í umsjá Karls Th. Birgissonar á Gufunni í endurflutningi frá s.l. laugardegi. Samkvæmt venju bárust í tal svonefndar "fjólur" í fréttum vikunnar. Glöggur hlustandi hafði haft samband við þáttarstjórnanda og bent honum á ofanritaða fyrirsögn í Fréttablaðinu. Setti nú hlátur að gestum þáttarins og ég get mér þess til að mörgum hlustendum hafi stokkið bros og sjálfur hló ég dátt.

Vafalaust hafa nú flestir þeir sem lásu umrædda frétt skilið hvað að baki lá. Það er alkunna að fangar á Litla Hrauni hafa átt þess kost að stunda nám á vistunartíma sínum allt frá því að minn ágæti bróðir Helgi Gunnarsson tók við stöðu fangelsisstjóra þar og innleiddi þessa nýju leið til að byggja  ógæfumenn upp til að takast á við lífið að lokinni afplánun. Þeir sem við starfinu tóku eftir 11 ára starfsferil Helga hafa haldið þessum sið og nú mun þetta bundið í starfsreglur stofnunarinnar.

En þessi fyrirsögn gefur manni auðvitað leyfi til að misskilja og margir munu líklega núna hugsa til þeirrar umfangsmiklu rannsóknar á efnahagsbrotum sem áður voru í daglegu tali kölluð þjófnaður og nú berast daglega fréttir af en miðar seint. Þar er rannsakaðir þeir einir sem lengi höfðu stöðu tignarfólks og sauðsvartur almúginn hældi sér af ef hann naut þeirrar gæfu að vera málkunnugur svo ekki sé nú talað um að vera skyldur eða tengdur.

Margir úr þessum hópi eru nú taldir vera líklegir umsækjendur um langskólanám á Litla Hrauni. 

Ekki kæmi mér á óvart þótt ýmsir alræmdir lifrarpylsuþjófar á staðnum hlýddu með athygli á ef þessir nýju skólabræður tækju upp á að skemmta samföngum sínum með sögum af ævintýralegum uppákomum á lystisnekkjum með kóngafólki og eigendum mikilvirkra olíulinda í Arabaríkjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Kæri Árni ég sendi fyrir ári síðan brandar til Spaugstofunnar á þá vegu að miðstjórn Ránfuglsins (X-D) væri mætt á Litla-Hraun til að leita eftir EFNILEGUM frambjóðendum.  Atriðið tengdist því að þeim mun meira sem viðkomandi hafði "stolið, svikið & logið til sýn pening" þeim mun meiri líkur á "miklum frama innan Ránfuglsins..!"  Þarna er sem sagt rætt við nokkra endurskoðendur sem brutu "lög & reglur", en talsmenn X-D segja:  "þér urðu bara á eðlileg mistök, þú misskildir þetta allt saman, mjög skiljanlegt..!"  Nú heyrist frá Árna Johnsen: "Þér urðu bara á tæknileg mistök..!"  Bjarni Ben, tekur síðan utan um Bakkavara liðið & Milestone liðið og segir:  "....hugur okkar Sjálfstæðismanna er með ykkur..!"  Viljið þið ekki láta færa ykkur yfir á Kvíjabryggju, félagi Árni er búinn að redda þar nýjum rúmum & flattskjám..!" 

Ég gef mér svo að X-D berjist fyrir því í næstu kosningum að föngum séu greidd laun sem nema kr. 125.000 á mánuði í stað kr. 65.000 eins og mér skilst það sé í dag.  Okkar glæpamenn fá frítt húsnæði, mat, menntun og greiðslur upp á ca. 50.000 á mánuði.  Svo er til fólk sem segir að "glæpir borgi sig ekki..!"  Mér finnst að þegar myndir af síðustu stjórn Landsbankans eru hengdar upp á veg þess banka þá eiga það að vera myndir þar sem viðkomandi ræningjar í stjórn eru myndaðir með rimla fyrir andlitinu.  Fyrrverandi stjórn á auðvitað að sæta ábyrgð á sínum siðblindum gjörningum og þeir eiga auðvitað heima "bak við lás & slá" en ekki í miðstjórn SjálfstæðisFLokksins eins og félagi Kjartan.  Það liggur við að maður æli yfir allri siðblindunni.  Þjóðarógæfa að X-D skuli ekki hafa kjark & vit á því að HREINSA út SKÍTINN hjá sér.  Siðblindan er hætt að vera fyndinn, þetta er svo glæpsamlega vitlaust samfélag.

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 27.1.2010 kl. 16:29

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Ef allt gengur að óskum okkar vonglöðu verður Litla-Hraun brátt eftirsóttasti Viðskiptaháskóli landsins með stóra X-D deild!  En það er kannski borin von...

Auðun Gíslason, 27.1.2010 kl. 19:51

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jakob Þór. Kannski er nú kominn sá tími að siðblinda fjármálaheimsins hefur brotist út úr fjötrum tilgreindra stjórnmálasamtaka og reyndar flokkast það nú undir augljóst mál. Hinu mun ég samsinna að sú afar frjálslega viðskiptasiðfræði sem nú hefur orðið að siðrænni úrkynjun óhugnanlega fjölmenns hóps "framsækinna" fjármálamanna á rætur í þeim kennisetningum sem verið hafa um langa hríð aflgjafi í pólitík Sjálfstæðisflokksins.

Árni Gunnarsson, 27.1.2010 kl. 20:16

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðun. Það má hverjum manni vera ljóst að í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar felast mörg tækifæri ef "væntingar" þjóðarinnar um þær ásamt meðfylgjandi réttarhöldum. Eða eins og varaformaður Flokksins sagði við fréttamann að nýloknum fyrsta landfundi eftir hrun: "Það eru spennandi timar framundan fyrir okkur Sjálfstæðismenn!" Eða pólitísk ályktun Sólveigar dómsmála, og forseta Alþingis ásamt því að vera eiginkona Kristins alsaklausa olíufursta lét sér um munn fara þegar hún frétti af yfirvofandi styrjöld úti í löndum. En þá sagði hún eitthvað á þá leið að í þessu gætu falist ný tækifæri fyrir okkur Íslendinga og beið með eftirvæntingu eftir nánari fréttum.

Ég sé fyrir mér að hugsanlega væri jarðvegur að skapast fyrir lögfræðideild á Litla Hrauni ef þær aðstæður skapast sem nú sýnast vera í sjónmáli. Og þar yrði lögð sérstök áhersla á allt það sem góður stjörnulögfræðingur þarf að vera fær um að sinna.

Árni Gunnarsson, 27.1.2010 kl. 20:39

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Fangar á Litla-Hrauni fá vasapeninga ca. 5000 á viku. Laun voru tekin af vegna öfundsýki fangavarða fyrir mörgum árum. Nú selur íslenska Ríkið vinnu fanganna á fullu verði til fyrirtækja út um allt, enn fangarnir fá annaðhvort fyrir sígarettum eða símakostnaði. Þeir verða að velja. Sama upphæð er greidd fyrir að ganga í skóla.

Ég hélt fyrirlestur um þessi mál einu sinni á Grand Hótel og benti á þessa misnotkun á föngum þarna, við litla hrifningu yfirvalda...allavega stórgræðir Ríkið á fangavinnuni og þá eru allir ánægðir...nema fangarnir auðvitað...

Svo er þetta ólöglegt, enn við eru á Íslandi, svo þá er það í lagi.

það er bókhaldstofa þarna sem sér um bókhald fyrir fullt af smáfyrirtækjum, og ég mæli með henni.

Eina heiðarlega bókhaldsstofan á Íslandi sem ég þekki...aðalglæponarnir á Íslandi fá ekki að fara í fangelsi. Þeir eru lokaður úti. Ekki inni. Það er ýmislegt stórskrítið á þessu landi.

Óskar Arnórsson, 27.1.2010 kl. 22:05

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góð ábending Óskar þessar upplýsingar um bókhaldsstofuna. Áreiðanlega verður full þörf á að kenna viðskiptabókhald og endurskoðun þarna í náinni framtíð. Ekki svo mjög ólíklegt að finnist álitleg kennaraefni meðal nemenda.

Árni Gunnarsson, 28.1.2010 kl. 00:03

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það verður fullt af þrælmenntuðu fólki þarna. Ekki veitir af...og bókhald kunna þeir betur enn nokkur annar...það bráðvantar fínt fólk þangað svo það verði loksins breyting á högum fanga. Íslendingar eru No. 2 í mannréttindabrotum á eftir Svíum. Það kemur alla vega eitthvað jákvætt úr þessu Icesavemáli...og bankahruni...bara jákvætt...

Óskar Arnórsson, 28.1.2010 kl. 00:22

8 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Þeir verða búnir að stofna fjárfestingabanka Litla-Hrauns einhverjir afplánunarfangar ef fer sem horfir.

Guðmundur St Ragnarsson, 28.1.2010 kl. 01:17

9 identicon

Heill og sæll Árni; sem og, þið hinir, hér á síðu hans !

Ætli megi ekki; bæta við lista bókstöfunum B - S og V, til viðbótar, helvítis D inu, piltar ?

Annars; eru skapsmunir mínir, með þeim hætti - þessi dægrin, að vart get ég hripað; hnökralaust, nokkru að gagni, á síðu ræfli mínum - eða þá; hjá öðrum, ágætu drengir.

Skapferli; þeirra fofeðra minna - Kveldúlfs úr Hrafnistu, sem og Valgarðs hins gráa, sækir æ meir, til míns hugskots, svo til einhverra skýringa sé vísað.

Með; hinum beztu kveðjum, sem áður og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 01:55

10 Smámynd: Eygló

Er þeim of gott að vinna svolítið upp í kostnaðinn, föngunum?

Þurfa þeir nokkuð að kaupa nema reyk þá? Fá þeir ekki mat, húsnæði, lín og þvotta. Það er sko meira en margur fær - sem þó hefur ekkert af sér gert.

Alveg yrði ég líka haldin þessari "öfundSÝKI" ef fangatipparnir væru á svipuðum launum, eða litlu lægri en ég.

Minnir á starfsfólk sundlauga sem er á fullu að halda hreinu fyrir okkur og afgreiða og á launum sem enginn er öfundsverður af. Þau þurfa að taka á móti og afgreiða fólk sem kemur á glæsikerrum (geta auðvitað ekki selt þær þótt vildu) og fer ókeypis í líkamsræktina (framlag til atvinnulausra) og þiggja atvinnuleysisbætur sem eru litlu lægri en taxtar starfsmannanna sem hafa ekki einu sinni tök á að fara í "ræktina" - m.a. vegna vinnuálags.

Eygló, 28.1.2010 kl. 02:00

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það er nú einmitt þessi sort af viðhorfi Eygló sem viðheldur Ríkisrekinni fjöldaramleiðslu á afbrotafólki og eiturlyfjavandamálum þeim sem því fylgja.

Samt skil ég alveg þessa hugsun hjá þér. Hún er bara því miður stór misskilningur.

Maður verður að velja hvort maður vill vera hluti af vandamálinu eða lausninni á því. Maður getur ekki bæði. Það er gott að geta verið upptekin í vinnu. 

Það er engin ástæða að öfunda íslenska fanga. Ég vissi ekki að Ríkið niðurgreiddi líkamsrækt. Það er svolítið fyndið. Í gegnum líkamsræktir dreifast sterar aðallega. Og fólk verður eins og nautgripir af neyslunni. Allir hamast við að verða eins í laginu, og skemma hjartað í sér, sem verður svo að laga með niðurgreiddum spítulum.

Það er greinilega nóg af niðurgreiddum vandamálum á Íslandi...

Óskar Arnórsson, 28.1.2010 kl. 02:47

12 Smámynd: Brattur

Spái því að "nýjir" fangar verði sjálfir með bókhaldsnámskeið á Litla Hrauni fyrir alla landsmenn. Undirbúa okkur fyrir næstu spillingaröld.

Brattur, 28.1.2010 kl. 23:05

13 Smámynd: Steingrímur Helgason

Varla myndi kumpánar þezzir námazt betur en einmitt þarna, & minna koztar okkur almúgann það námerí, en það zem þeir höfðu fyrir á koztnað okkar, tvíbent...

Steingrímur Helgason, 28.1.2010 kl. 23:08

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Mér hefur fundist vanta jafnvægi í hegningar-framkvæmdum hér á landi. Byrjum nú á að taka grunaða landráðamenn í gæsluvarðhald á meðan finnst fjármagn til að taka einhvern!

Endum svo á margsviknum mönnum af kerfinu með t.d. andlegu og líkamlegu ofbeldi eins og Breiðavíkur-fórnarlambum barnaverndarnefndar sem ekki hefur ennþá þurft að taka ábyrgð á öllum þeim sálarmorðum sem hún olli þessum ágætu og sviknu drengjum. Andlega ofbeldið og hótanir auðjöfra viðgengst enn á Íslandi.

Auðvalds-svikurum leyfist allt enn þann dag í dag. Sama þótt það drepi andlega og siðferðislega sem þeir gera í fullu umboði einhverra glæpa-mútu-villamanna. M.kv. Anna

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.1.2010 kl. 18:45

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Til ykkar allra. Auðvitað höfum við tekið hér til umræðu hóp brjóstumkennanlegra kvikinda af okkar eigin tegund. Menn eru þetta ekki lengur í mínum skilningi þótt útlitið blekki. Þeir veiktust hinsvegar af þeim samfélagssjúkdómi sem hér hefur geisað og engum kom til hugar að stöðva með læknismeðferð.

Þvert á móti hefur þessi sjúkdómur- græðgin fengið öflugan "dreifingaraðila" sem á aðsetur í stjórmálasamtökum. Og það skelfilega þróunarstig sem hann var kominn á hefði gengið frá íslensku samfélagi um ókomna tíð í þeirri mynd sem við þekkjum hefði ekki hamingja þjóðarinnar gripið inn í atburðarásina áður en samfélaginu var endanlega tortímt.

Við skulum viðurkenna að ekki var hann fjölmennur í lokin hópurinn sem enn var ósýktur.  Og í stað þess að þeir heilbrigðu einangra venjulega þá sýktu þá hafði ástandið hér að lokum þann svip að þeir sýktu einangruðu hina sem neituðu að sýkjast, þeir voru hæddir og ýtt til hliðar.

Mörgum gleymist sú staðreynd, aðrir neita að viðurkenna að ástandið var  afleiðing hraðrar þróunar sem endaði í siðrænni úrkynjun.

Nú skulum við öll ganga fram fyrir spegil, horfast í augu við okkur sjálf og viðurkenna í auðmýkt með því að segja upphátt: "Ég ber mína ábyrgð á þessari þjáningu sem leidd var yfir þjóð mína. Ég horfði á stjórnmálaástandið þróast upp að því marki að öll stjórnsýslan varð svo gerspillt að embættismannakerfið, fjölmiðlar og jafnvel dómstólar var orðið handbendi hvers annars.

Fjárveitingavald Alþingis var misnotað um áratugi með því að "taka frá" í upphafi fjárlagagerðar dágóðan slatta af knöppu ráðstöfunarfé sameiginlegra sjóða þjóðarinnar og úthluta því eftir goggunarröð hverju sinni.

Til að tryggja stjórnmálaflokkunum atkvæði og áframhaldandi völd með úthlutun á peningum til útvaldra! 

Ríkisframkvæmdir voru flokkaðar í staðlaða goggunarröð þar sem þeir fengu úthlutað verkefnum sem með rausn lögðu flokkunum til fjármagn í auglýsingar.

Sá flokkur sem mest hafði völd raðaði sínum mönnum inn í öll dómstig af natni og kostgæfni því þar var mest í húfi ef auðgunarbrot enduðu þar af ógætni.

Biðröð eftir embættunum var óslitin alla tíð svo langt sem elstu menn muna og þar bitust um góðar tuggur fjármannsins hundlatir, heimskir og hundtryggir garmar sem höfðu sannað sig fyrir flokknum sínum og áttu skilð umbun fyrir.

Fjölmiðlum var stýrt með pólitíkri yfirstjórn á kostnað ríkisins."

Og við endum ræðuna einhvern veginn svona: "Mín ábyrgð er mikil í þessu máli því það óhappafólk sem þarna hafði snúið allri röðinni öfugt vann í mínu umboði sem ég veitti því sjálfviljugur og með metnaðarfullu stolti við lýðræðislegar kosningar. Ég hafði ekki skarpari siðgæðiskennd en þetta. Ég var leiddur eins og tryggurhundur í bandi á kjörstað til að bera ábyrgð á öllum þeim svikum, lygi og beinum sem óbeinum þjófnaði úr sjóðum þjóðar minnar. Ég var hundtryggur enda orðinn flokkshundur.

Mér var aldrei nauðgað ég gaf mig nauðgaranum á vald í ljúfri auðmýkt. En þjóð mín var misnotuð og ég tók þátt í misnotkuninni.

Ég heiti því hér með að þetta skal ekki endurtekið! Ég heiti því að afhenda aldrei neinum þeirra gömlu og gerspilltu stjórnmálaflokka sem lifa fram til næstu kosninga umboð mitt framar.

Þjóð mín, fyrirgefðu mér! 

Árni Gunnarsson, 29.1.2010 kl. 22:36

16 identicon

Þetta er ekki þjóð, samansafn af rusli, hyski, og þeir sem ekki samsvara sér með draslinu, ja okkur fer best að flytja af landi brott eða bara fara á hestbak og gefa skít í hyskið. Skál gamli selur!

Bárður Bringdal (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 22:57

17 Smámynd: Björn Birgisson

Minn kæri Árni, þú ert snillingur. Þú verður að setja athugasemd 15 inn sem aðalfærslu á þessu auma Moggabloggi. Eitt er að kasta perlum fyrir stök svín. Betra er að kasta þeim fyrir alla svínastíuna. Gerðu það - og hlýddu karl fjandi! Gerðu það fyrir mig sérstaklega.

Einnig vegna þessara vesælu hægri smælingja sem hér lepja þvaðrið og vitleysuna, hver eftir öðrum, úr sömu tómu skálinni.  

Björn Birgisson, 29.1.2010 kl. 23:40

18 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Ég sem aldrei hef haft efni á því að fara í háskólanám, sé nú loks örugga leið til þess að fara í námið, án þess að koma með milljónaskuldir á bakinu úr náminu.

Ég bara stel lifrarpylsukepp  og ríf svo kjaft við lögguna, verð síðan dæmdur til fangelsisvistar í nokkur ár og stunda nám á hrauninu í boði ykkar.

Málið leyst. Er á leiðinni í hagkaup í skeifunni.

Sveinn Elías Hansson, 30.1.2010 kl. 00:08

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sveinn. Ég er búinn að hringja í Hagkaup og vara þá við. Öll lifrarpylsa hefur verið fjarlægð úr hillunni.

Árni Gunnarsson, 30.1.2010 kl. 00:15

20 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Fjandinn. Þá verð ég að stela einhverju öðru.

Sveinn Elías Hansson, 30.1.2010 kl. 00:33

21 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: Ég tek heilshugar undir með Birni Byrgissini hér að ofan, færsla 15 á að vera sérstök færsla. 

Helgi bróðir þinn á heiður skilið fyrir það að hafa komið því til leiðar að refsifangar fengju tækifæri til menntunnar, það að opna dyr fyrir mönnum sem voru þeim lokaðar, vegna misnotkunar þeirra sjálfra á vímuefnum, eða virðingarleysi fyrir reglum þjóðfélagsins, ber að halda til haga, vegna þess að hver einasta persóna er dýrmæt, og að það refsa með innilokun og áþján bætir ekki þann sem fyrir verður, og gildir þá einu hvað hann sem einstaklingur hefur til unnið.

Enn eins og þú ýjar að þá er greinilega ekki öll menntun til góðs, og sú hagfræði sem kennd hefur verið í Háskólum landsins hin síðari ár, á ekkert erindi inn á námskrá hjá Litlahrauni, og ef ég réði einhverju þá yrði hagfræði bönnuð sem kennslugrein hjá Háskólum hérlendis, þar til við eignuðumst að lágmarki 1 nothæfan kennara á því sviði, þeir sem fyrir eru brugðust greinilega eða skildu ekki grunnin, því á honum stendur allt hagkerfið eins og það leggur sig.     

Magnús Jónsson, 30.1.2010 kl. 00:37

22 Smámynd: Magnús Jónsson

Sveinn: þú getur alltaf reynt að stela hjólkoppum undan bílum lögreglunar, á meðan þeir sitja undi stýri sko, klikkar ekki, verður dæmdur eins og skot, tala ekki um ef þú hótar við yfirheyrslur, að ofsækja Alþingi með háværum bumbuslætti um og eggja-akasti (ekki öruggt þetta með eggja-kastið, gæti verið misskilið sem stuðningur við landbúnaðinn), en það klikkar ekki að greiða ekki  stöðumælasektir heldur, vonandi hjálpar þetta þér að komast í framhaldsnámið sem þú þráir. 

Magnús Jónsson, 30.1.2010 kl. 00:49

23 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Takk fyrir ábendingarnar Magnús. Þetta eru að sjálfsögðu STÓRGLÆPIR sem verður dæmt í umsvifalaust.

Sveinn Elías Hansson, 30.1.2010 kl. 00:55

24 Smámynd: Árni Gunnarsson

Drengir góðir. Líklega kristallast siðleysi fjórflokksins í heimskulegustu yfirlýsingu allrar sögu íslenskra stjórnmála.

"Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan hjá okkur Sjálfstæðismönnum!"

Þarna talaði varaformaður og fyrrverandi ráðherra flokksins sem einkavæddi bankana okkar í anda þeirra kennisetninga sem hann hafði haft að leiðarljósi.

Og þjóðin hennar Þorgerðar Katrínar sat eftir í dýpstu örbirgð fátæktar.

Er ástæðulaust að tala um veikindi?

Árni Gunnarsson, 30.1.2010 kl. 11:39

25 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Best var þegar Þorgerður sagði að útlendi fræðimaðurinn sem gagnrýndi hér allt um árið, að hann þyrfyi að fara í endurmenntun.

Þetta atriði er sýnt í myndinni Maby i shoud have. Sá frumsýninguna um daginn, þegar þetta atriði var sýnt þá sprakk salurinn úr hlátri.

Þessa mynd er vert að sjá.Mæli með henni.

Sveinn Elías Hansson, 30.1.2010 kl. 12:18

26 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eiginlega þyrfti að taka allar gáfulegustu ályktanir þessara guðsvoluðu aula hagvaxtarfokksins saman í bók og gera hana að skyldunámi í grunnskólum.

Fátt yrði þjóðinni mikilvægara til framtíðar litið en að kenna ungu kynslóðinni hvaða lífsgildi hún á að varast.

Árni Gunnarsson, 30.1.2010 kl. 23:17

27 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

Verði ég rekin í "sparnaðarskyni", gæti ég þá altént sótt um nám á Litla Hrauni??  En hvurslags óáran er í gangi....veit einhver hvar ég fæ góðan lifrarpylsukepp í kvöldmatinn....fann ekki einn einasta í Hagkaup?

Sigríður Sigurðardóttir, 4.2.2010 kl. 17:35

28 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lifrarpylsa er sælgæti með rófustöppu og ekki fyrir lágstéttarfólk að bera slíkt á borð í hallæri eins og þetta sem við fengum frá vitrustu mönnum okkar þjóðar.

Mér er sagt að á Jómfrúareyjum og Tortólu sé svo hlý veðrátta að það þoli ekki nema hraustustu menn að gera hvorutveggja að græða á daginn og grilla á kvöldin. Og nú kvisast mill fólks sem hefur sambönd eins og ég að nokkur hópur eftirlifandi útrásarvíkinga sé að litast um eftir flinku fólki til að grilla.

(Þetta orðalag er varla hægt að misskilja því þessir sömu menn eru auðvitað búnir að grilla alla sem matur var í.)

Árni Gunnarsson, 5.2.2010 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband