7.2.2010 | 01:49
Eftir skyssur, arg og nauð...
Samkvæmt bestu heimildum sem mér eru tiltækar var það á árshátíð Hestamannafélgasins Stíganda í Skagafirði sem hagyrðingar héraðsins spreyttu sig á að lýsa í bundnu máli ástandi bónda sem kæmi heim eftir slarksaman réttardag. Tvær af þessum vísum hef ég lært af munni þeirra sem þarna voru viðstaddir. Hjálmar Jónsson, þá prófastur á Sauðárkróki og nú Dómkirkjuprestur skilaði sínu svari svona:
Eftir skyssur arg og nauð,
ekki viss að tjá sig;
búinn að missa Brún og Rauð;
búinn að pissa á sig.
Og Sigurjón Runólfsson bóndi á Dýrfinnustöðum:
Andlitið er örum skreytt
eftir ráttarbrasið
og það vantar yfirleitt
alla reisn í fasið.
Það var að nýafstöðnum réttum haustið 2008 að forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar ávarpaði landsmenn af nýgefnu tilefni. Erindi mannsins var að tilkynna þau grábölvuðu tíðindi að nú hefði það gerst sem enginn hafði séð- eða getað séð fyrir! og væri nebblega það að íslenska þjóðin væri ja, eiginlega bara líkastil komin á hausinn! Hann bað fólk að halda ró sinni enda hefði þessi þjóð reynslu af því að berjast við manndrápspestar og eldgos og alltaf hefðu þeir sterkustu lifað af og haldið áfram að tímgast og tigna sitt vald. Hann bað Guð að blessa þetta land og þjóðina þess lengstra orða að falla ekki í þann fúla pytt að persónugera vandann "sem enginn hefði getað séð fyrir!"
Það var mín tilfinning eftir þessa dæmalausu ræðu að "alla reisn hefði vantað í fas" þess sem flutti, og ekki fjarri lagi að líkja honum við bóndann sem hafði lent í því sem hann hafði ekki séð fyrir að morgni réttardagsins.
Nú ætla ég að gerast svo djarfur að brjóta gegn boðorði umrædds ávarps eða öllu heldur boðorði þess erindis sem það flutti þjóð hans og okkar beggja. Ég ætla að gerast skáldlegur jafnframt þegar ég: "persónugeri vandann" og færi hann um leið inn á brautir hins slarksama réttardags.
Það reyndist hafa verið fjallkóngurinn sem kom heim án reisnar í fasi og búinn að pissa á sig jafnframt því að týna bæði Brún og Rauð. Gangnamannahópurinn allur með tölu hafði drukkið frá sér ráð og alla rænu eftir að vera búinn jafnframt að hella fjallkónginn fullan.
Öllu fénu sem náðst hafði á afréttinni og var jafnframt allur fjárstofn hreppsins ásamt fjölda fjár úr öðrum hreppum höfðu gangnamennirnir týnt í leitinni og síðan brotið niður skilaréttina í dagslok.
(þetta hafði auðvitað enginn séð fyrir)
Eftir nokkuð langan mótþróa tókst hreppsbúum að losa sig við fjallkónginn og hluta leitarmanna fyrir næstu réttir. Og eftir að réttinni hafði veriða tjaslað saman af vanefnum var lagt af stað í næstu leitir og nýr fjallkóngur sem reyndar var álpast til að ráða úr fyrri hópnum og hluti hans að auki lagði af stað nýjar leitir. Eftir fyrstu leit kom í ljós að ekki hafði náðst nema lítill hluti þess fjár sem týnst hafði árið áður.
Nú urðu tíðindi öll með ólikindum nokkrum í umræddum hreppi. Fyrrum liðsmenn fjallkóngsins fallna slógu hring um réttina, allir ríðandi á hvitum glæsifákum og höfðu uppi digurmæli við nýja leitarflokkinn og fjallkónginn ásamt aðstoðarkóngi. Þessir menn voru búsettir í þeim hluta hreppsins sem líkt og hinir hlutarnir voru sauðlausir að kalla en lifðu alla daga sældarlífi og rifu í sig spikfeitt sauðaketið sem eftir öllum sólarmerkjum átti að vera uppétið fyrir margt löngu eins og gefur að skilja.
En nú öskruðu þeir ókvæðisorð til nýja leitarflokksins fyrir þann ónytjungshátt að skilja ekki ástand sveitarinnar og skila tafarlaust öllu því fé sem týnst hafði ásamt eðlilegum arði að sjálfsögðu. Þeir gengu svo langt að kalla aðstoðarfjallkónginn því versta og snautlegasta nafni sem íslensk tunga geymir: Kommatitt og kommadjöful að því viðbættu að vera landráðamaður og brottrækur af því ágæta landi sem hann hefði svikið ásamt náttúrlega yfirboðara hans fjallkónginum.
Undir þessu ómaði svo kunnuglegt rímnalag við erindi úr Pontusrímum eldri sem finna má í Íslandsklukku Laxness.
Dagur er liðinn. Hátt skal hefja
hunangsbikarinn enn.
Heill þér menglöð minna stefja
Mannsblóð fagurt renn.
Ekki nenni ég að flytja lengur þetta sögulega skáldverk mitt að sinni enda sækir mig svefn.
En þær raddir gerast nú áleitnar með þessari þjóð sem spá því að nú fari að styttast í hýðingu á Kjalardal - hina seinni. Hverjir þar verði hýddir kemur fólki ekki saman um.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Árni; og þakka þér, fyrir þessa Skagfirzku króníku - upp á Ísland snúna; réttilega, einnig !
Þó Kjalardal fyllti; hýðingar svæðið allt, kemur sér, að nægilegt viðbótar rýmið mætti finna, til beggja handa, á Uxahryggjum suður, án stórra vandkvæða.
Langur er; Lundarreykja dalurinn - þó; hlykkjóttari sýnist Þingvallla sveitin, fræðaþulur góður - sem spjallvinur forni.
Með beztu kveðjum; sem áður og fyrri /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.2.2010 kl. 02:30
Afsakið; Árni og þið önnur !
Viðmið mitt; var að sjálfsögðu KALDIDALUR, og syðsti hluti hans, vitaskuld.
Bið ég ykkur; vel að virða, gott fólk.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.2.2010 kl. 02:51
Hamast máttu á Geir eins og þér sýnist, Árni minn.
Hitt veiztu, að við eigum ekki að borga Icesave.
Góðar stundir.
Jón Valur Jensson, 7.2.2010 kl. 03:26
Takk fyrir mig, það er víst ekki hægt að skilja Ísland eftir í höndum Guðs, við þurfum að vinna fyrir okkur sjálf, en hafa Guð sem meðvind er ekkert verra.
Jóhanna Magnúsdóttir, 7.2.2010 kl. 10:09
Snilldarpistill Árni.
Anna Einarsdóttir, 7.2.2010 kl. 10:45
Takk Árni, en:"Þú verður áreiðanlega brenndur."
Erlingur Sigurðarson (IP-tala skráð) 7.2.2010 kl. 11:00
Félagi Árni mér fannst saga þín svo GÓÐ að ég ákvað að birta hana hjá mér (www.fun.blog.is) og ég varð að bæta aðeins við söguna! Auðvitað gerði ég þig að sýslumanni í sögunni og BófaFLokkurinn (minnkurinn) - Samspillingin (refurinn) og Húsdýragarðurinn (alþingi) lýsi ég sem "verndaður vinnustaður" & mér urðu á þau mistök að líkja okkur stjórnmálafólki við SVÍN (svínslegt eðli) og mér sýnist að það sé "svínaflensa í sveitinni" - GUÐ sendi svo í sveitina Evu Guðsdóttir til að "leita uppi týnt FÉ & koma okkar útvöldum bófum bak við lás & slá...! Þegar þú sem sýslumaður reynir að handtaka þetta "innmúraða lið" þá mistekst það ávalt, þeir bera við frábæri lagalegri speki svo sem: "...mér urðu á tæknileg mistök...-...ég misskildi lögin..-..ég hef skilað tilbaka illa fengnu FÉ..-..ég vissi ekki betur..!" Ekki gefa upp VONNA tími BÓFANNA er vonandi liðin, farið hefur FÉ....betra...lol...!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 7.2.2010 kl. 16:46
Ágætu mótsgestir! Afsakið hversu ég er seinn fyrir til að þakka ykkur fyrir komuna. Ég reis seint úr rekkju og eftir að hafa lokið morgunverkum fór ég að viðra hundinn sem þarf að sinna af alúð enda veit ég að hundlaus verð ég illa staddur eins og Bjartur í Sumarhúsum. Að því búnu lentu húsráðendur í sukki og eru nýkomnir heim úr félagsvist í Breiðfirðingabúð.
Óskar Helgi: Ég þakka þér fyrir að halda áfram að rifja upp fyrir mér og mínu fólki þá kima íslensks tungutaks sem nú eru flestum gleymdir að mestu.
Jón Valur: Þú ert alltof skarpur til að halda því fram að Geir þessi eigi að fá að standa utan við öll ámæli vegna þess ástands sem pólitísk heimska og andvaraleysi stjórnvalda voru búin að leiða yfir þessa þjóð þegar landráðamaðurinn og kommadruslan Steingrímur J. gekk til hreinsunarstarfa. Ég hef lítið hamast á Geir enda hef ég reynt að fylgja þeirri góðu reglu að stanga ekki dauða menn með spjótum.
Geir Hilmar Haarde laug að þjóð sinni í sínu dramatiska hlutverki við að flytja þjóðinni mestu ótíðindi í sögu margra kynslóða. Hann hafði margsinnis verið varaður við af málsmetandi fólki sem hafði séð fyrir ókomna atburði. Hvorki Geir né aðrir þeir sem síðan hafa reynt að skrifa sögu hrunsins út frá þessari blekkingu þurfa að skrifa söguna fyrir mig; ég var nefnilega viðstaddur alla atburðarásina og oftast ófullur.
Jóhanna og Anna. Gaman að sjá ykkur hér og- takk fyrir.
Erlingur Sigurðarson. Áreiðanlega finnast þeir sem ég hef riðið svo ógætilega utaní með ógætilegri reiðmennsku um sléttar götur þessa vettvangs að þeir gætu hugsað sér að sjá mig brenndan í einhverjum skilningi. Þeir um það. Ég reyni að hanga á reiðskjótanum þótt hann sé stundum stífur upp á annan tauminn eins og gengur með illa tamda hesta.
Ekki veit ég með vissu hver þú ert en nú rifjast upp fyrir mér ljúf minning frá síðasta áratug næstliðinnar aldar. Sviðið er björt og lognkyrr sumarnótt á Landsmóti hestamanna norður á Melgerðismelum. Ég rölti aðsteðjandi gestur inn í hóp syngjandi fólks sem stýrt var af manni stjandi í stól útifyrir veitingatjaldinu. Ég blandaði mér í sönginn sem var svo fallega raddaður að ég stóðst ekki mátið og raulaði með þeim sem sungu bassann. Þetta var góður kór og hefði sómt sér þokkalega hvar sem var. Engum man ég eftir sem ég kannaðist við nema Ármanni dýralækni úr Svarfaðardal.
Takk fyrir síðast hafi ég rétt fyrir mér um þig og takk fyrir komuna.
Þrátt fyrir ágæta meðfædda vitsmuni hefur þér ekki tekist að hreinsast frá þeirri fötlun að skoða orð og athafnir á pólitískum vettvangi út frá hægri/vinstri þvættingnum sem búinn er að skaða alla pólitíska dómgreind fólks svo að fæstir eru nú færir um að tjá sig skammlaust um ástand og horfur í samfélaginu.
Árni Gunnarsson, 7.2.2010 kl. 17:21
Jón Valur. Fyrirgefðu að ég gleymdi aðalatriðinu í þínu örstutta svari.
"Hitt veiztu að við eigum ekki að borga Icesave."
Þetta er bara ekki rétt hjá þér. Ég veit nákvæmlega ekkert um það stóra mál hvort við eigum eða eigum ekki að borga Icesave. Það eina sem er á hreinu í því máli er að ég vil ekki borga skuldir sem ég stofnaði ekki til.
Og það sem meira er Jón minn Valur. Þú veizt ekki heldur hvort við eigum að borga þessar skuldir eða ekki.
En ef við sleppum við að borga þennan reikning, annað hvort að hluta til með nýjum samningi eða þá með dómi þá þarf að ryðja úr vegi ekki minna en þrem staðfestingum á greiðsluskyldu okkar undirrituðum af Geir H. Haarde og hyski hans.
Og þar er meðal annars um að tefla minnisblað svonefnt þar sem gert er ráð fyrir öllu ríflegri vöxtum en þeim sem nú hafa verið staðfestir af Alþingi og taka mið af samningi sem kommafíflin Svavar og Indriði komu með til landsins.
En svo leyfi ég mér að benda þér og öðrum lesendum þessarar færslu á bloggsíðu Auðuns Gíslasonar hér á þessum vettvangi þar sem birtar eru gamlar fréttir úr Morgunblaðinu um áminnsta samninga sem gerðir voru og undirritaðir af margnefndum Geir. Auðun sem skrifar undir bloggnafninu Skarfur er mikill afbragskommúnisti og stórhættulega greindur eins og margir í því voðalega umhverfi.
Enda sýnist mér að ég verði að gerast kommúnisti. Alla vega næstu vikurnar að minnsta kosti. Ég er nefnilega að verða svolítið snobbaður í seinni tíð.
Árni Gunnarsson, 7.2.2010 kl. 18:36
Flott færsla hjá þér kæri Árni og hverju orði sannara.
Sigurður Árni, áður Lund Hervars
Sigurður Árni (IP-tala skráð) 7.2.2010 kl. 18:40
Þessi skrif þín eru, nú sem endranær, ofar öllu venjulegu máli. Gullöldin í endurreisn hér í Stórholt? Hér búa allavega menn, sem gnæfa að andlegu atgervi yfir aðra kirkjugesti, og jafnvel yfir Jón Gjallarhorn herprest líka! Hér kemur umrædd færsla:
Var ekki búið að leysa þessa deilu? Það sagði mogginn 16. nóvember 2008!
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/16/icesave_deilan_leyst/
Þar er ekki þorandi að copy-pasta fréttir af mogga. Þar er allt orðið sérstaklega merkt höfundarréttarvarið!
Leyfi mér samt að copy-pasta þessa snilld eins Sjálfstæðismannsins á blogginu, sem nú hamast einsog óður á móti Icesave samningum núverandi ríkisstjórnar. Það er mjög fyndið að lesa sum bloggin við fréttina í ljósi stöðunnar í dag! Einsog sjá má spyrja sumir bloggarar, hvort hægt sé að gera svona samning án þess að bera hann fyrst undir Alþingi!
"Íslenska þjóðin hefur vaxið í alþjóðlegu tilliti vegna þessarar gjörðar, nokkuð sem bera að virða við Geir og hans Ríkisstjórn. Batnandi manni er best að lifa. Smásigur í alþjóðlegu tilliti er betri en enginn."
Hér viðhengið við frétt moggans:
RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS
FRÉ T TAT ILKYNNING
Samkomulag næst við Evrópusambandsríki
Greiðir fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF)
Mikilvægur áfangi að lausn deilunnar um innstæðutryggingar
Mikilvægur áfangi hefur náðst til lausnar deilunnar um innstæðutryggingar vegna íslenskra
bankaútibúa á Evrópska efnahagssvæðinu og stöðu sparifjáreigenda í þeim. Viðræður Íslands við
nokkur Evrópusambandsríki, sem komust á fyrir tilstilli Frakklands sem nú fer með formennsku í
Evrópusambandinu, leiddu til samkomulags um viðmið sem lögð verða til grundvallar frekari
samningaviðræðum.
Samkomulagið felur í sér að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur
mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Endanlegur kostnaður ríkissjóðs
vegna þessa mun ráðast af því hvað greiðist upp í innstæðutryggingar af eignum bankanna.
Einnig er kveðið á um að Evrópusambandið, undir forystu Frakklands, taki áframhaldandi þátt í
að finna lausnir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármálakerfi og efnahag.
Aðilar eru ásáttir um að hraða fjárhagslegri aðstoð við Ísland, þar með talið samþykkt lánafyrirgreiðslu
sem beðið hefur samþykktar stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) undanfarnar vikur.
Erindi Íslands hjá IMF verður tekið til afgreiðslu hjá sjóðnum miðvikudaginn 19. nóvember.
Umsamin viðmið
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og
hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um
Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/EB.
Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina
um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið
og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna
þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum
hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og
knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármálaog
efnahagskerfi sitt.
3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt
í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.
Reykjavík, 16. nóvember 2008
Auðun Gíslason, 7.2.2010 kl. 19:04
Árni! Það er vert að athuga, að þó Jón Gjallarhorn segi, að við eigum ekki að borga, þá snúast öll skrif hans nú um vexti. Það er eina breytingin, sem hann vill nú á samningnum, sem Svavar rumpaði saman með Bretum og Hollendingum. Þannig að það eiginlega allur vindur úr kauða í þessu máli öllu!
Auðun Gíslason, 7.2.2010 kl. 19:24
Auðun. Þakka þér fyrir ágæta innkomu í þessa umræðu. Sagan getur orðið óljós þegar aldir renna. Hún á ekki að vera óljós um atburði sem við sjálf lifðum og fylgdumst með. Þess vegna er mikið óráð að endurskrifa atvik og viðburði fyrir þá sem voru viðstaddir.
Alltof margir leggja nú í það mikla vinnu að skrifa fyrir okkur þá þætti hrunsins sem við horfðum á og fylgdumst með. En Það er auðvitað alltaf til fólk sem fagnar því þegar aðrir segja því þá útgáfu sögunnar sem hljómar betur en raunveruleikinn.
Árni Gunnarsson, 7.2.2010 kl. 21:35
Þvílík þvæla, sem hér má lesa, bara af því að maður lítur af síðunni allan daginn og fram á nótt! Rugið síðasta í Auðuni yfirgengur allt: að ég berjist bara fyrir einhverjum lægri vöxtum!!!
1) VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA NEITT samkvæmt því tilskipunarákvæði Evrópubandalagsins, 94/19/EC, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu;
2) Evrópubandalagið er bótaskylt við Icesave-innlagnarmenn vegna tilskipunar 94/14/EC!;
3) endurskoðunarskrifstofur og nýir staðlar þeirra á ábyrgð Evrópubandalagsins ollu hruninu; Íslendingar eru saklausir, a.m.k. fremur fórnarlömb en gerendur (já, alþjóðlegu endurskoðunarskrifstofu-risarnir bera þunga ábyrgð á kerfislægri orsök fjármálabólunnar sem sprakk – hér jafnvel fremur en erlendis);
4) Icesave-samningarnir voru stjórnarskrárbrot (sjá nánar þessa grein eftir Loft Þorsteinsson verkfræðing: Icesave-samningarnir brjóta gegn stjórnarskránni);
5) fremur en að borga vilja færustu lögfræðingar (í þessu greinda tilviki Jón Steinar Gunnlaugsson og Sigurður Líndal) krefjast réttar íslensku þjóðarinnar til meðferðar fyrir dómi – af því að þeir vita um rétt okkar og sakleysi að lögum og eru því óhræddir að taka þv+i domsorði, sem brezk og hollenzk stjórnvöld forðast hins vegar eins og heitan eldinn!
6) Vegna margháttaðra réttarbrota Breta og Hollendinga gagnvart okkur í ofanálag við þá svívirðu að láta okkur ekki njóta réttar okkar samkvæmt óumdeilanlegu atriði nr. 1), þá hafa þeir áunnið sér ýtarlega opg ítrekaða gagnrýni lögfræðinga sem og annarra vegna aðskiljanlegs yfirgangs sem lesa má um í "samningunum" (nauðungarplöggunum Icesave1 og Icesave2). Ýmislegt af því, en þó fyrst og fremst eitt, var tekið fyrir í þessari grein eftir Ragnar H. Hall hrl.: Er rétt að samþykkja þetta frumvarp?
7) Dr. Daniel Gros benti líka á hróplegt ranglætið, sem framið var með vaxta-álagningunni, sjá þessar greinar mínar: Enn um Icesave-vexti: Í yfirgangi sínum brjóta Bretar lög um jafnræði í EES: snuða okkur um (185 til) 270 milljarða fyrstu sjö árin! og þessa á sama vefsetri Kristinna stjórnmálasamtaka: Það skeikar hundruðum milljarða í Icesave-vaxtaútreikningum fjármálaráðherrans!; það er stór munur á 920 milljónum og rúmum 40.000 milljónum!
Það er raunalegt að sjá þig í liði með þessum Auðuni, Árni. Ég veit ekki hvað þú varst þá að gera niður á Austurvöll í sumar, ef hans málstaður er þinn málstaður. Ætlarðu þá í alvöru að segja þér, að þið eigið báðir bezt heima hjá gamla kommúnistanum úr Þistilfirði?
Jón Valur Jensson, 8.2.2010 kl. 00:45
Það er greinilegt, að Jón Gjallarhorn hefur ekki haft fyrir því að lesa fréttina úr mogga frá 16. nóvember 2008. Enda ekki von. Hann veit skv. venju allt betur en allir aðrir! Því miður er það þannig, að allur hans málflutningur í málinu er á skjön við veruleikann! Hvort það segir eitthvað um heilsufar Jóns, skal ósagt látið!
Varðandi síðustu málsgreinina: Hún er í sama dúr og annað hjá Jóni! "Ég veit ekki hvað þú varst þá að gera niður á Austurvelli í sumar, ef hans málstaður er þinn málstaður." Það er greinilegt, að Jón er enn á skjön við veruleikann. Við Árni vorum saman á göngu á Austurvelli í a.m.k eitt skipti og skiptumst á orðum við Jón. Það er þetta með veruleikann, Jón.
Daniel Gros? Er það ekki sami maður, sem sagði að við ættum ekki að borga skuldir okkar, hvorki Icesave né aðrar skuldir?
Auðun Gíslason, 8.2.2010 kl. 09:14
Alltaf gleymist eitthvað. "...hjá gamla kommúnistanum úr Þistilfirði." Segir Jón. Hann hlýtur að eiga við Steingrím þennan J.. Mér hefur nú sýnst Steingrímur helst til hallur undir hina miður geðfelldu markaðshyggju, svona uppá síðkastið allavega. Steingrímur hefur aldrei verið kommúnisti eða sósíalisti, mesta lagi framsóknarmaður! Aðspurður á Austurvelli í sumar hvort hann væri sósíalisti, svaraði Steingrímur: Ég myndi nú ekki orða það þannig! Ansi hreint framsóknarlegt!
Auðun Gíslason, 8.2.2010 kl. 09:23
"Ég var nú og er rauður," heyrði ég Steingrím J. segja (nokkurn veginn þannig) í útvarpsviðtali á Rúv fyrir allmörgum árum, ca. áratug). Hvað þýddi það í munni Alþýðubandalagsmanna?!
Veit ég vel, Auðun, að Árni mætti ítrekað á Austurvöll. Það, sem ég er farinn að efast um eftir lesturinn á síðu hans, er þetta: Var hann þá ekki að mótmæla Icesave-samningunum og lagasetningunni, eða er hann farinn að sjá eftir þeim mótmælum nú eftir á?
Læt þetta nægja í bili, verð að sinna öðru aðkallandi fram eftir síðdeginu, áður en ég held áfram umræðunni.
Jón Valur Jensson, 8.2.2010 kl. 13:50
PS. Og ég sagði ekki: "nýi kommúnistinn úr Þistilfirði, heldur "gamli"!
Jón Valur Jensson, 8.2.2010 kl. 13:51
Ég og Árni erum alfarið á móti því að borga einn eyri vegna Icesave! Hitt er svo annað mál, að stundum þarf að gera fleira en gott þykir! Og óþarfi að berja höfðinu við steininn. Ekki að við séum jafn æstir í það og sumir flokksbræður þínir, Jón, voru haustið 2008, og þóttust góðir og hafa vel að verið!
Undirritaður spurði Steingrím J. þessarar spurningar í sumar á Austurvelli í vitna viðurvist: Ertu sósíalisti, Steingrímur? Svar: Ég myndi nú ekki orða það þannig!
Auðun Gíslason, 8.2.2010 kl. 14:39
Hverju gleymir Kristrún? Snaran hnýtt um háls þjóðarinnar!
Umræðan hefur verið furðuleg um Icesave-mylluna. Einn þeirra ráðuneytismanna, sem hnýttu snöruna um háls þjóðarinnar, Kristrún Heimisdóttir tók nýverið til máls í fréttablaðinu. Þar segir hún, að Svavarsnefndin svokallaða hafi ekki notast við hin svo kölluðu Brüssel-viðmið við samningsgerðina. Þar vísar Kristrún til samnings, sem undirskrifaður var 15. nóvember 2008. Horfi maður framhjá "Memorandum of understanding", kallað minnisblað eða minnismiði af sumum, þá er samningurinn frá 15. nóvember 2008 fyrsti Icesave-samningurinn. Margir hafa vilja afneita þessu plaggi og telja það ómark. En aðrir, þar á meðal þjóðréttarfræðingar, halda því fram, að með þessum samningi hafi snaran verið hnýtt um háls þjóðarinnar. Úr þessari snöru höfum við ekki komist. Og enginn hefur boðist til að skera okkur úr snöru þessa Icesave-samnings númer 1. Hér má sjá frétt á mbl.is af samningnum. Ljóst er, hvernig litið var á samning þennan á stjórnarheimilinu :
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/16/icesave_deilan_leyst/
Skoðið endilega viðhengið með fréttinni. Það hefur sést víða, meðal annars hér á blogginu og verið kallað rugl og gömul tugga af sumum. Sem eru nú í önnum við að ritskoða söguna!
Hér er svo fréttatilkynning ríkisstjórnarinnar frá 11. október 2008: þetta samkomulag er hið svokallaða "Memorandum of understanding."
“Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans.
Fjármálaráðherra Hollands, Wouter.J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen tilkynntu þetta.
Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter. J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.
Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.”
Framhjá þessu skautar Kristrún léttilega. Telur kannski rétt að fegra hlut ISG, og þar með sinn í málinu! Þarna er talað um lánafyrirgreiðslu Hollendinga til Íslendinga!
Auðun Gíslason, 8.2.2010 kl. 18:33
Gerðist svo djarfur að setja þessa færslu hér inn. Meðan Jón Gjallarhorn herprestur er fjarverandi!
Auðun Gíslason, 8.2.2010 kl. 18:37
Jón Valur Jensson: Ég sleppi því að þakka þér heimsóknina hingað á bloggsíðuna mína en get ekki látið hjá líða að ávarpa þig og reyni að vera kurteis eftir fremstu getu.
Þar er fyrst til að taka að ég ætlast til þess að þú biðjir okkur Auðun Gíslason afsökunar á dónaskap þínum í tilvitnuðum orðum:
"Það er raunalegt að sjá þig í liði með þessum Auðuni Árni."
Þú hefur ekki stöðu til að niðurlægja gesti mína hér á minni bloggsíðu fremur en nokkur annar og þú hefur enga stöðu til þess heldur að tala niður til mín með neinum föðurlegum ábendingum um hverja ég umgengst, hvorki hér né annars staðar. Ég var orðinn fullorðinn maður þegar þú varst öskrandi krakki með bleyju. Ég ætla að gefa mér að þú sért fyrir nokkru laus við bleyjufjandann en þegar þú kveður þér hljóðs um pólitísk efni samfélagsins og vefur þig inn í maníska kommafóbíu frjálshyggjunnar ert þú enn í hlutverki öskrandi krakka.
"Ég veit ekki hvað þú varst þá að gera niður á Austurvöll í sumar ef hans málstaður er þinn málstaður." Þar er fyrst til að taka að í mörgu efni pólitískts toga eigum við Auðun samleið, í öðrum efnum af sama toga fer hvor sína leið og hvorugur sér ástæðu til að grípa til fáryrða af jafn ómerkilegu tilefni. Á sömu lund fer í samskiptum mínum við góðvini og afbragsmenn úr Sjálfstæðisflokki.
Þar að auki frábið ég mér að þú ályktir um skoðanir þínar á því hvað ég sé að gera á þessum stað eða hinum. Hafir þú verið beðinn um að hafa vakt á mér á ég rétt á að fá að vita um hver fór þess á leit við þig.
En hvar sem ég mæti á fundi, mótmælafundi sem aðra fundi fer ég á eigin forsendum en ekki vegna þess að ég sé í liði með öðrum. Ég hef tamið mér að hlusta á alla menn sem flytja erindi án þess að skoða áður hver talar og þó allra síst að forðast að afgreiða málflutninginn út frá því hvort viðkomandi sé kommatittur eða frjálshyggjnaut. Ég hlustaði um tíma með athygli á Hannes Hólmstein og dáðist að málsnilld og gáfum þrátt fyrir að vera öllu því sem hann sagði ósammála. Ég er hættur því vegna þess að mér leiðist að hlusta á pólitísk trúarerindi vitandi um niðurstöðuna áður en tekið er til máls.
Ég var aldrei í liði með þér Jón Valur þótt þú hafir greinilega litið svo á. Ég átti samleið með þér í baráttu fyrir siðbót í íslenskum stjórnmálum. Nú hef ég komist að því að þínar forsendur fyrir siðbót eru að hafna öllum tilburðum í þá veru ef þar koma nærri nokkrir þeir sem þú af þínu flokkspólitíska hlutleysi telur geta með einhverjum rökum spíritisma verið hallir undir kommúnisma sem í þínum huga og þinna liðsmanna eru allir þeir sem ekki hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn, sem er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur gert þá hugaróra að sínu pólitíska Evangelium.
Jón Valur. Við Íslendingar eigum sameiginlega við að etja erfiðasta efnahagsvanda sem okkar samtíð hefur kynnst. Sá vandi er allur um að kenna þeirri pólitísku hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði að meginstefnu sinni og innleiddi með stolti í viðskiptalíf þessarar þjóðar. Það er sannleikur- bitur að vísu- að umræddur flokkur á allan þann vanda skuldlaust eins og kommúnistinn Steingrímur J. sagði í ræðustóli Alþingis.
Í alvöru talað Jón Valur þá er enginn kommúnisti starfandi í stjórnmálaflokki á Íslandi, ekki einu sinni Ögmundur Jónasson. Og ég fullvissa þig um að þú getur lagst óhræddur til svefns án þess að Ogmundur leynist undir rúminu og bíði eftir því að bíta þig á barkann.
Don Kíkóti las sig vitlausan í riddarsögum, barðist hetjulega við vindmyllur og endaði á geðseikraspítala. Það eru hræðileg örlög og engum óska ég þess.
Vandamálið Icesave er grábölvað og byrjaði með þjófnaði eigenda bankans sem Sjálfstæðismenn afhentu vinum sínum fyrir togaraverð en borguðu auðvitað ekki. Sjálfstæðismenn áttu manninn sem í hlutverki forsætisráðherra laug því að þjóðinni að enginn hefði séð fyrir bankahrunið. Sjálfstæðismenn áttu ráðherrana sem með undirskrift á þremur samningum við Hollendinga og Breta samþykktu ábyrgð íslensku þjóðarinnar á skuldum einkavina flokksins í útlöndum. Enginn kommúnisti íslenskur var þar viðstaddur.
Enda þótt ég vilji ekki fyrir mitt leyti borga þennan reikning íslenskra þjófa veit ég ekkert um hvort ég á kost að öðru. En mér er ljóst að þessi reikningur þótt hörmulegur sé er ekki nema lítið brot af þeim efnahagslega óskunda sem helstu óvinir kommúnista á Íslandi ullu þjóð minni. Einfalt en satt. Það hentar reyndar miklu betur þeim sem nú eru að hraðrita nýja sögu af Steingrímur J. kommúnisti og landráðamaður = hrun íslensks efnahags, íslensks samfélags, örbirgð komandi kynslóða. Ódýrt að vísu en er að svínvirka.
Þú endurskrifar ekki þessa sögu Jón Valur. Hún er staðfest eins og vinátta G:W. Bush og Davíðs Oddssonar samkvæmt eigin orðum Davíðs í beinni.
Árni Gunnarsson, 8.2.2010 kl. 21:48
Snilldarpistill eins og þér er líkt Árni, ef eitthvað má út á setja þá er ekki fyrir neinn meðal-Jón að fara inn í umræðuna á þess að gera sig að bjána, þú og Auðun sjáið um það :) Mér finnst nú stjórnarandstaðan hafa átt það sammerkt með íslenska hestinum,að vera með fleiri gangstig og fljótir að skipta um, það verður ekki sagt um Jón (ég veit það best) það má líkja honum við staða rollu, sem ekki er alslæmt. Kosturinn við Jón Val er að þú veist hvar þú hefur hann í umræðunni og ef maður er á móti hans skoðunum er það kostur eins og fyrir mig og fleiri þannig eru öfgarnar í framsögu hans að fólk setur hljóða. Verst þætti mér ef hann á eftir að færa okkur mikið af EBSinnum, en það á hann efalaust eftir að gera!
Rannveig H, 9.2.2010 kl. 10:07
Það sem mér finnst merkilegast við Jón Val er að ég hef aldrei nennt að lesa hvorki blogg né athugasemdir eftir hann en veit þó ekki af hverju, vegna þess að ég hef aldrei lesið hann.
Anna Einarsdóttir, 9.2.2010 kl. 12:03
Rannveig. Alltaf gaman að fá að spjalla við þig og nú sé ég ekki betur en að við þurfum að fara að huga að nýrri uppreisn. Ertu með tillögur að nafni á flokkinn?
Jón Valur er mikill hugsjónamaður, einlægur og einarður í því að gera þetta samfélag að samfélagi og heiminn að betri heimi. Hann er vinnusamur og sparar sig hvergi. Við eigum samleið í sumum skoðunum en öðrum ekki og stundum neistar svolítið eins og gengur. Ég er þekktur að nokkurri óráðþægni og er ekki tilbúinn í að láta hann setja ofan í mig og ala mig upp. Við jöfnum okkur á því enda afburðamenn eins og allir geta séð.
Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 13:06
....þetta samfélag að betra samfélagi.
Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 13:14
Heldurðu ekki Árni að okkur verði boðið sem heiðursfélagar á landsþing í okkar gamla flokki í næsta mánuði til að kjósa nýjan formann og varaformann :) Ég er nú á því að við áttum aldrei að hleypa EBS umræðunni inn í stjórnmálinn þar er hver einasti flokkur margklofin í þeim málum. tvenn samtök með og móti lýðræðisleg kosning hvort við ættum að sækja um aðild hefði leyst þetta mál. Icesave er ekki heldur endir alls hér hjá okkur, þó Steingrímur hafi vissulega gert mistök að senda vin sinn Svavar í samningagerð og fært lýðskrumurum stjórnarannstöðu vopnin til að andskotans í sínum eigin skít. Það sem ég hef áhyggjur af í dag er unga fólkið! Við ætlum að fara sömu leið og Finnar í þeim málum þó svo að þeir séu búnir að vara okkur við. 100 börn eru á biðlista til að komast undir geðlæknishendur, 1-2. taka líf sitt á viku, rannsóknir sýna að það er ekki fyrr en eftir 3-5 ár sem kreppan fer að taka verulegan toll af fólki ef ekkert er að gert. Hvað gerum við, starfsfólk spítalanna reyna að koma skilaboðunum áleiðis, við hugsum "þetta er ekki okkar börn, aumingja fólkið. Hver á þessi börn sem eiga að taka við? Svona gæti ég haldið endalaus áfram enda búin að skipta um nafn. Má ég kynna þig fyrir Örg Þvargan :)
Rannveig H, 9.2.2010 kl. 14:16
Rannveig. Steingrímur gerð þau reginmistök að senda ekki Geir og Árna Matt til að semja ásamt einhverjum snjöllum fjármálagúrú úr Víkingasveitinni til að skýra fyrir þessum útlendingum dýpstu rök íslensks viðskiptalífs.
Þar var úr harðsnúnum hópi að velja. Björgólfur eldri, Ólafur Samskipalóðs, Jón Ásgeir, Finnur Ingólfs og kúlulána Finnur í bankanum og svo hefði Pési Blö mátt slást í förina til að skoða hvort ekki væri þarna eitthvert fé ennþá á rölti án hirðis.
Samninganefnd nýlenduveldanna sáu um leið og þessir kommúnistaglæpamenn birtust að á þeim væri lítið mark takandi og sneru á þá í hvelli. Útlendingar taka auðvitað ekki mark á mörlandanum nema hann sé í 30 þúsund fetum, með kókaínrörið í annari hendi og hafi tekið í það minnsta 7 kúlulán sem síðan hafi verið afskrifuð. Steingrímur gerði auðvitað mistök þegar hann sá þetta ekki og það kostaði það að Bjarni vafningur og kúlulána Katrín sáu fram á að nú væru "spennandi og skemmtilegir tímar fram undan hjá okkur Sjálfstæðismönnum." eins og kúlulánsfrúin sagði forðum eftir landsfundinn.
Sá fundur var nú samt ekki allur jafn skemmtilegur því þegar Davíð kóngur steig í pontu og lýsti yfir söknuði vegna afdrifa allra þeirra fögru tráa sem fórnað var í pappírinn sem "uppgjör Flokksins við aðdraganda hrunsins" var prentað á þá hnussaði í Villa Egils sem hafði unnið þessa skýrslu af nákvæmi.
En nú blásum við Frjálslynd til nýrrar sóknar og "tökum það" í næstu kosningum með endurnýjuðu liði. Ég ætla að verða bæði langorður og óþolandi á fundinum. Hlífi engum fremur en ég er vanur nema auðvitað þér því við erum vinir!
Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 17:35
"...FÉ án hirðis, það var eins og við manninn mælt, Dagfinnur Dýralæknir sem óvart var í hlutverki FJÁRmálaráðherra tók að sér með aðstoð Ránfuglsins (sá fugl er FJÁR - sorry - fársjúkur furðufugl) að breyta lögum & reglum Sparisjóðanna svo "útvaldir siðblindir stjórnmálamenn landsins" gætu selt sín stofnFÉ á "yfirverði...lol..!" Nú er staðan sú að hirðirinn er án fjár, flestir bestu menn & konur landsins eru án FJÁR, en siðblindir stjórnmála- & viðskiptamenn eru í fínum málum...lol....! Hérlendis hefur verið vitlaust gefið í 20 ár undir stjórn BófaFLokksins, og auðvitað hrópar þjóðin eftir "heiðarleika & réttlæti" - gildi sem okkar stjórnmálaflokkar ekki skilja. Þjóðin á skilið & verður að fá betra samfélag, okkur ber vonandi gæfa til þess síðar í sumar að stofna "Mannræktunarflokkinn" eða þá að við kjósum öll "Bestaflokkinn" - það ganga allt of margir BÓFAR lausir, en þeir sleppa flestir því þeim urðu bara á "tæknileg mistök - voru í góðri trú - vissu ekki betur og hafa skilað hluta af þýfinu" - svo er það bara "business as usual...!" hjá þessum siðblindu viðskipta- & stjórnmálamönnum.
Í USA eru spiltir stjórnendur leiddir út í handjárnum UM LEIÐ upp kemst um svikamylluna og þeir setir "bak við lás & slá" - hérlendis fá þeir ALLIR sem einn að halda áfram, sorglega fyndið samfélag. Bankastjórarnir fá sem sagt aftur blint frelsi til að bulla & rugla. Ég hef nú fært öll mín viðskipti yfir í "Blóðbankann" enda er ég gæðablóð.
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 9.2.2010 kl. 19:03
Þetta átti auðvitað Steingrímur að sjá fyrir að ef við hefðum sent skrúðkrimmanna til samninga fyrir okkur værum við ekki bara kvitt við guð og Breta, heldur að öllum líkindum í bullandi gróða. Peningarnir eru valdið, 5% þjóðarinnar eru valdið, og við aumi lýðurinn eltum eins og hundar á beini. Karlabarnið í Framsókn sver af flokknum sínum fortíðina og syngur eins og við gerðum í sunnudagsskólanum forðum " og hann kastar öllum okkar syndum bak við sig og sér þær ekki meir". Merkilegast er fyrirbærið Sjálfstæðisflokkurinn og spurning hvort það sé ekki komin tími á sérstaka mannfræðirannsókn þar innanborðs, en sá flokkur er fyrrverandi, núverandi, tilvonandi og ævarandi hjá rúmlega 30% þjóðarinnar, með blessun upp á að meiga ljúga,stela meir í dag en í gær. Nú hrópar fólk hátt og snjallt að Jóhönnu og Steingrími og ásaka um skítlegt eðli. Ég fór á góðan fyrirlestur um siðblindu,ég vildi skikka alla stjórnmálamenn á þann fyrirlestur, sömuleiðis vildi ég að skilgreint væri fyrir öllum stjórnmálamönnum hvað ÞJ'OÐARHAGUR væri. Árni við stöndum saman í þessu nú sem endranær :)
Rannveig H, 9.2.2010 kl. 21:19
Þakka fróðleik og skemmtun
Bjarni Pálsson Flóa (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 14:35
Ekkert að þakka Bjarni minn. Í minni ætt er mikið um fróða menn, lygna og afburða skemmtilega. Hjá mér hefur húmorinn svolítið verið misskilinn af fólki af öðrum ættum og óskemmtilegri. Það er ekki hægt að kenna fólki hugarástand sem hentar þessu fyrirbæri eins og þeir vita Spaugstofumenn.
En nú er ég í örgu skapi, bíllinn þurfti í andlitslyftingu eftir að ég keyrði aftan á stepukjána sem hafði stoppað á ljósum einmitt þegar þannig stóð á að þau voru rauð. Og á leit hann út í framan eins og ég get ímyndað mér útrásarvíking sem búinn er að vera þrjár vikur á Hrauninu þarna í þínu nágrenni Flóanum.
Og það er hundur í mér út af því ofaná allt mávagargið um æsseif sem búið er að rugla þjóðina þrátt fyrir að hér á þessum samskiptavettvangi séu saman komnir nokkrir tugir sérfræðinga í alþjóðarétti.
Ekki vænti ég að þú sért afkomandi Kambránsmanna?
Þeir voru ekki huggulegur klúbbur.
Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 15:45
Ekki er laust við Kambsránsmenn í minni ætt, en Sigurður Gottsveinsson var langa langa langafa bróðir minn.
Bjarni (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 16:36
Ég hafði ekkert litið á þessa síðu þína Árni eftir innlegg mitt í fyrradag, en sé nú, að þú hefur farið geyst. "Where there is smoke, there is fire," sýnist mér! Ekki mátti ég minnast þeirra sanninda, að Steingrímur hafði málað sig rauðan í huggulegheitaviðtali við hann á einni útvarpsstöðinni nokkru fyrir kosningar, þá varð mikill partur af svari þínu að fara i andkommúnistamaníu-yfirlýsingar um mig og aðra. Vitanlega er ég andkommúnisti, hvað annað? En spar er ég á fullyrðingar um það, hverjir eru kommúnistar, og aldrei dytti mér í hug að kalla Framsóknarmenn og flesta aðra slíka. Ég talaði reyndar um engan sem slíkan í nútíðinni, heldur Steingrím J. í þátíðinni, en það þótti þér greinilega yfirgengilegt. Var hann þó sennilega alinn upp við Magnús Kjartansson og Svavar Gestsson í Þjóðviljalestri sínum. En velkomið er honum að sverja af sér allan sósíalisma. Eiginlega hlakka ég mjög mikið til að heyra hann gera það.
Þetta er raunar allt aukaatriði miðað við það (í mínum huga), sem ég vildi ræða hér. Ég hafði talið þig hafa gerólíka, nánast andstæða skoðun á við Auðun þenna, hvað varðaði meinta (upplogna) greiðsluskyldu Íslendinga til að troða í vasa Browns og Balkenende. Og ég hafði fyrir þessu mati mínu ekki minni mann en Árna nokkurn Gunnarsson bloggvin minn – ekki þennan í Hveragerði, heldur þig sjálfan, herra minn, í innleggjum þessum á vefsíðu minni:
"Sammála: Það sýnir ekki kjark en er einfaldega ósvífni ef Alþingi samþykkir skuldbindingar af þessari stærð fyrir hönd sinna umbjóðenda.
Í öllu ferli þessa máls hafa "vinaþjóðir okkar" svonefndar sparkað í okkur liggjandi. Þessu verður að linna.
Auk þess eru þessar skuldir þjóðinni ofviða að dómi of margra hagspekinga.
Árni Gunnarsson, 11.12.2009 kl. 17:24"
Og annað innlegg:
"P.s. Þjóðin stofnaði aldrei til þessara skulda og vissi auk þess aldrei af því að til hennar yrðu meintar ábyrgðir sóttar.
Árni Gunnarsson, 11.12.2009 kl. 17:26"
Tilvitnun lýkur. Þetta voru innlegg þín á vefsíðu minni: 'Vitaskuld á þjóðin að fá tækifæri til að kjósa um Icesave' = http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/991201/. Forláttu mér, hafi ég misskilið þig!
Jón Valur Jensson, 10.2.2010 kl. 16:47
Smá glaðningur Árni minn!
Ósvífni RÚVara! Og tilræði við hina einsleitu umræðu lægsta mögulega meðaltals Íslendinga. Sem fram fer á bloggsíðum manna, sem ég hirði ekki um að nafngreina. !
Það er náttúru alger ósvífni RÚVara að hleypa Indriða og Svavari Gestssyni á ljósvakann. Sama gildir um alla aðra, sem hafa aðra skoðun á málinu en Indefence og Jón Gjallarhorn herprestur !
Svavari Gestssyni var hleypt í síðdegisútvarpið í gær með sína sýn á Samningsgerðina. Og svo fjallar RÚV ítarlega um grein Indriða í Fréttablaðinu í morgun.
Þetta er náttúrulega yfirgengileg ósvífni. Og tilræði við hina einsleitu umræðu lægsta mögulega meðaltals Íslendinga! Sem fram fer á bloggsíðum manna, sem ég hirði ekki um að nafngreina. Af tillitssemi við aðstandendur þeirra og með hliðsjóna af meiðyrðalöggjöfinni!
http://dagskra.ruv.is/ras2/4519057/2010/02/09/4/
http://frettir.ruv.is/frett/icesave-nanast-tilbuid-fyrir-ari
Auðun Gíslason, 10.2.2010 kl. 16:55
Einsleit umræða? Hvað segir Auðun um Baugsmiðlana? Og hefur ekki Rúv verið á fullu að standa með Steingrími og Jóhönnu lengst af? T.d. í Speglinum og í fréttum o.fl. Og hvar var ég að leggja til ritskoðun eða málfrelsisbann á Indriða? Ég var hins vegar að amast við því, að Rúv útvarpi út í loftið fullyrðingum í fréttayfirliti á borð vi þetta: "Í fréttum var það helzt að nánast fullkláraður Icesave-samningur var tilbúinn fyrir rúmu ári, gerður í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og með mun hærri vöxtum en síðar varð." Þetta var sagt á þennan veg, ÁN ÞESS AÐ TEKIÐ VÆRI FRAM, að þetta væri málflutningur eins manns, Indriða H. Þorlákssonar! Þetta jafngildir því, að Rúv geri orð hans að sínum. Samt er Rúvið í "vinstrimennskunni", ef þetta framferði verðskuldar þá það heiti! Sannir vinstri menn ættu að stofna nýja flokk og segja skilið við svikaflokkana.
Jón Valur Jensson, 10.2.2010 kl. 17:03
"Samt" – ég á við: Samt við sig.
Jón Valur Jensson, 10.2.2010 kl. 17:04
Og nú er enn einn VINSTRI-MAÐURINN á leiðinni í Siðdegisútverpið! Þetta náttúrulega getur ekki gengið svona!!!
Auðun Gíslason, 10.2.2010 kl. 17:08
Jón Valur. Allar eru þessar tilvitnanir mínar sem þú vísar til vafalaust réttar enda hefur mín afstaða í engu breyst síðan. Ég taldi- og tel ennþá að það hafi verið ósvífni að samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar greiðslur á skuld sem ekki var stofnað til af henni heldur ósvífnum frjálshyggjuræflum í boði Sjálfstæðisflokksins. Hverjar sem afleiðingarnar kunna að verða á þjóðin heimtingu á að segja sitt álit á því og nú hefur forsetinn sett þá atburðarás í farveg. Þú tekur líklega að ríkisstjórn Geirs H. hefði gert það? Ekki er hann né heldur Árni M. Mathiesen gamall kommúnisti úr Þistilfirði og þar af leiðandi líklega marktækari!
Eins og Auðun "þessi" hefur margsinnis bent á ásamt fjölmörgum öðrum var þessi samningur sem Steingrímur á sínum tíma ályktaði um að væri besti samningur sem hægt hefði verið að ná; sá besti sem unnt hefði verið að ná. Hann var með 2,2% lægri vöxtum, mun lengri greiðslutíma og mun lengri aðdraganda að fyrstu greiðslu en samningur þeirra Geirs og Árna Math. sem tvisvar var staðfestur af þeim og fulltrúum ríkisstjórnar þeirra.
"Mestu skiptir að með þessum samningi hefur allri óvissu verið eytt." sagði Árni M. um fyrsta samninginn sem nú kallast minnisblað en er þó i öllu grunnurinn að síðari gerð 3ja og þó fremur fjögurra samninga um þessa deilu.
Í dag birtist svo á síðu mbl.is sá samningur sem beið fullnustu fyrri ríkisstjórnar og síðan Alþingis. Hann munt þú líklega hafa lesið.
Á bloggsíðu Axels Axelssonar í dag sameinist þið við að staðfesta trú hvors annars á því að grein Indriða kommúnista frá Eyjarhólum sé að því leyti bull þar sem hann ályktar sem svo að IceSave samningurinn hafi verið staðfestur 8. okt. 2008. Hann hefur rétt fyrir sér um það að þá var gerður samningurinn sem Hollendingar litu svo á að væri staðfesing á greiðsluskyldu Íslands á innstæðum allt að rúml. 20 þús. evrum og í ljósi þess greiddu þeir sínum innstæðueigendum í IceSave. Mikilvægt að allri óvissu hafði verið eytt, sagði Árni M. "Þegar við tókum ákvörðun um þessa lántöku frá Hollendingum" sagði Vafninga Bjarni Benediktsson form. Sjálfsæðisflokksins (andkommúnisti) í viðtali á dögunum.
Niðurstaða: Á fyrstu dögum október staðfesti ríkisstjórn Geirs H. Ingibj. Sólrúnar og aðstoðarmanns hennar Kristrúnar Heimisdóttur greiðsluskyldu Íslands á skuldum Landsbankans í Hollandi og þáði með þökkum lán frá Hollendingum til að friða hollenska innstæðueigendum. Sú-að mati ykkar Axels- furðulega atburðarás að senda nýja samninganefnd á þá skýringu að þá hafði versta ríkisstjórn allra tíma á Íslandi hrakist frá völdum hálfu öðru ári of seint og ný ríkisstjórn þurfti að koma með þann samning sem eftir lá að fullgilda til samþykktar fyrir Alþingi Íslendinga við Austurvöll.
Einfalt.
Nú þegar íslenskir kjósendur ganga til atkvæða um þann samning eru þeir betur upplýstir vegna frábærrar greinar Indriða H. og birtingar mbl.is á þeim samningi sem fyrir lá frá ríkisstjórn Geirs H. en þeim Svavari og Indriða tókst að lagfæra að mun ásamt ágætri hjálp stjórnarandstöðunnar á seinni tímum.
Hitt er svo spurning hvort nú muni nást nýr samningur sem er það miklum mun hagfelldari að hann nái að vega upp þann skaða sem þessi töf hefur valdið.
Ég er farinn að efast um að ég hafi rétt fyrir mér um það að þjóðin eigi að fella lögin. Ég hallast að því að líklega hafi Sjálfstæðisflokknum að lokum tekist að eyðileggja efnahag þjóðarinnar um ófyriséðan tíma.
Og það hafi þeir með hjálp Samfylkingarinnar fullnustað með því að viðurkenna greiðsluskyldu íslensku þjóðarinnar vegna veislunnar sem flokkurinn bauð til óheiðarlegasta hyski allrar Íslandsögunnar. Og hrópað ferfalt Húrra!!!!
Það er alltof seint að falsa og endurskrifa þessa sögu Jón minn Valur.
Allt og seint tókst Vinstri grænum að velta því pólitíska óféti frá stjórnsýslunni.
Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 17:47
Ertu þá ekki bara á Litla- Hrauni Bjarni?
Mikið get ég verið ógætinn í kjaftinum að leiða umræðuna inn á þessar skelfilegu brautir.
Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 18:12
Varðandi "Baugs"-miðla eða miðla yfirleitt á Íslandi. Er þeim ekki öllum ritstýrt eða undir stjórn af Sjálfstæðismönnum? Nema Pressan, Smugan og Nei!? Sem teljast varla með!
Auðun Gíslason, 10.2.2010 kl. 19:14
Sæll Árni og þakka enn og aftur þína skorinorðu pistla.
Í augum Flóamanna hafa Kambsránsmenn alltaf notið meiri samúðar en nirfillinn Hjörtur í Kambi, enda áhöld um hversu vel aurarnir voru fengnir sem hann lúri á þar í lambakrónni.
Bjarni Pálsson (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 20:30
Bjarni. Stundum er best að taka gasprið mitt með svolitlum fyrirvara. Eftir að hafa hlýtt á Sigurð G. lesa á Útvarpi Sögu bók Brynjólfs frá Minna- Núpi um Þuríði formann og Kambránsmenn verður mér hugstæð ógæfa Þessarar fjölskyldu Gottsvins, Kristínar konu hans og barna þeirra. Ekki fer milli mála að þetta fólk hefur verið ríkari hæfileikum búið en almennt gerðist og það svo að líkamlegt atgervi þeirra bræðra Sigurðar og Gottsvins Gottsvinssona hefur verið með nokkrum fádæmum. Og tilsvör benda til þess að gáfur hafi verið nægar. En ekki er einhlítt að saman fari gæfa og gjörfuleiki. Því miður.
Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 20:53
Auðun. Ekki veit ég hvort fjölmiðlunum er öllum stýrt af Sjálfstæðismönnum eða öðrum siðlausum annara flokka drullusokkum. Enda er ég nú að verða búinn með minn þolinmæðikvóta sem aldrei var mikill í þorskígildum reiknað. Eftir að hafa horft á Kastljósið í kvöld er ég nánast orðlaus. Ég spyr mig hvers vegna menn eins og Finnbogi Samherjason, Ásmundur Stefánsson og aðrir slíkir voðamenn gangi lausir? Og ég spyr: Af hverju segja þessir menn ekki eins og Árni Johnsen forðum við afgreiðslumanninn sem spurði hvers vegna senda ætti efnið fyrir Þjóðleikhúsið til Vestmannaeyja: "Vert þú ekki að skipta þér af því sem þér kemur ekki við!"
Af hverju er ekki tafarlaust skutlast með Ásmund Stefánsson og aðrar þessar nýju og gömlu bankastjórafígúrur til Bessastaða og þeim "veitt uppreisn æru" þar að góðri fyrirmynd Sjálfstæðismanna. Ekki var Ásmundur Sjálfstæðismaður síðast þegar ég vissi svo ekki getur hann vænst mikillar samúðar frá því fyrirbæri.
Mikið djö. er ég orðinn þreyttur á þessu hyski sem telur sig hafið yfir siðareglur og almenna mannasiði. Greinilega verða þessi skrímsli að beita sig hörðu við að stilla sig um að segja við þjóðina það sem þeim býr í brjósti:
"Grjóthaldiði kjafti fíflin ykkar. Þið hafið ekki vit á dýpstu rökum fjármálaheimsins. Hann er flókinn og óskiljanlegur öðrum en stórþjófum."
Árni Gunnarsson, 10.2.2010 kl. 21:12
Nú erum við afkomendur Gottsveins stoltir ætterninu, en það var ekki svo í tíð langömmu minnar Margrétar Símonardóttir. Átt þú nokkrar ættir í Árnessýslu, Árni?
Bjarni (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 21:21
þAÐ ER VERIÐ AÐ RÆNA ÞVÍ SEM EFTIR ER! í BOÐIR STJÓRNMÁLAELÍTUNNAR! þAR SEM ER FJÁRMÁLALEGT VALD, ÞAR ER PÓLITÍSKT VAL. SITUR SKUGGA-RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS Í SKIPTANEFNDUNUM OG STJÓRNUM FYRIRTÆKJA? þESSIR SÖMU VÍKINGAR/RÆNINGJAR OG RIÐU HÉR ÖLLU Á SLIG Í BOÐI ELÍTUNNAR.
Auðun Gíslason, 11.2.2010 kl. 00:20
Bjarni minn góður. Uppi í Hreppunum eru kannski örfáir aðkomumenn búsettir sem eru svo stálheppnir að sleppa við að vera mismunandi mikið skyldir mér. Hún Ingunn Magnúsdóttir langamma mín var tvö ár ráðskona hjá Þorleifi ríka Kolbeinssyni kaupmanni á Eyrarbakka. Hún var dóttir Magnúsar í Syðra- Langholti alþingismanns Andréssonar. Þorleifur sagði henni að bræður hans hefðu boðið honum að taka þátt í ráninu á Kambi en hann ekki þegið það.
Hann sagði ástæðuna hafa verið þá að hann hefði talið þjófnað vera ógæfu sem legðist í ættir og í því vildi hann ekki lenda. Fróðlegt væri að rekja ættir nokkurra þekktra "fjármálajöfra" í dag og skoða hvort hugsast geti að þeir væru af þjófaættum, t.d. Kambránsmönnum? Annars sýnist mér nú ekki útlit þeirra kvikinda margra benda til að þeir séu miklir atgerfismenn líkt og þeir Gottsveinssynir.
Íslenskt samfélag var rænt öllu því sem einkavæðingin hafði komið höndum yfir á valdatíð Sjálfstæðisflokksins, ásamt lausafé þjóðarinnar að miklu leyti plús allmiklu lausafé í tveim Evrópulöndum að auki. Það er að sönnu nokkuð stærri pakki en skjóðurnar frá Kambi. Eva Joly, þótt vösk sé hefur ekki náð að koma rétti yfir þá sem stálu og helst er að sjá að þótt þýfið hafi líklega numið tvöfaldri þjóðarframleiðslu hafi enginn hafi verið þjófurinn. Miklu skarpari menn en mig þarf til að skilja slíka mystik. Ég held að Þuríður formaður hafi verið betri rannsóknarlögregla en Eva Joly. Auk þess höfðu yfirvöld Árnesinga fullan hug á að finna þjófana og rétta yfir þeim. Íslenskir valdsmenn hafa ódulda hneigð til að forða okkar þjófum frá vandræðum vegna stærra hnupls en lifrarpylsukeppa.
Slíkir ódæðismenn njóta ekki virðingar hvað þá samúðar í vorra tíma Kansellíi.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 00:43
Auðun. Ég fyrirbýð þér að reyna að koma óorði á Elítuna hér á mínu bloggi.
Sagði ekki Jón Hreggviðsson eitthvað á þessa lund: "Óvinir míns kóngs eru mínir óvinir?" Eða var það Jón Marteinsson- eða kannski Jón Ásgeir?
En sástu Bjarna Benediktsson í kvöldfréttunum? Ég sá honum bregða fyrir en talið var ekki á. Á svipnum þóttist ég þó merkja að hann hefði talað "vafningalaust" um aulana sem klúrðruðu æsseifinu fyrir þeim Geir og Árna Matth. Eins og þeir voru búnir að koma þeim samningum í traustan og auðveldan farveg með snilldartöktum og einurð við þessa flatlendisbjálfa þarna í Hollandi. Það sópar að Bjarna, því verður ekki neitað.
Mikil gæfa er það þessari þjóð að eignast slíkan mann eftir að við misstum Jón frænda minn frá Hrafnseyri Sigurðsson.
Árni Gunnarsson, 11.2.2010 kl. 01:15
Árni: Það hefur verið erfitt að vera bóndagarmurinn sem ort var um, en hann hafði þó það sér til málsbóta að hafa verið drukkin, líkast til hefur enginn þurft að pína ölið ofan í hann, en hann hefur greinilega verið viti síu fjær sökum ölvunar, þegar umræddar vísur vóru ortar.
Sú afsökun sem bóndinn hafði að mínu áliti, höfðu valdhafar ríkisstjórnarinnar ekki, varla hafa þeir-þau verið í ölvímu í 1,5 ár eða hvað?, getur það hugsast að þetta fólk sem fór með stjórn landsmálana fyrir okkar hönd, hafi verið eins og bóndinn, meðvitundarlaus og enginn sagði eða gerði neitt, enginn af réttarmönnum forðum hefur talið það koma sér við, eða talið að hemja þyrfti mangarminn, þeim hefur þótt meira varið í að níða manninn fyrir fylliríið en að forða honum frá hneisu vegna þess, sem er reyndar það sem er að gerast en, myndmálið talar sínu sko, mér finnst af lestri athugasemda að helsta vandamál Íslenskrar þjóðar sé, skortur á siðgæði, skortur á heiðarleika, og síðast en ekki síst skortur á náungakærleika, sem hefði forðað bóndagarminum frá hneisu sinni, það er að segja að eiga góða vini sem hefðu komið honum til hjálpa þegar ölið tók af honum völdin.
Magnús Jónsson, 14.2.2010 kl. 00:09
Árni, bæði Auðun og þú talið um samninga, sem fyrri ríkisstjórn á að hafa gert. En það var ekki þannig. Árni, þú segir: Sjálfstæðismenn áttu ráðherrana sem með undirskrift á þremur samningum við Hollendinga og Breta samþykktu ábyrgð íslensku þjóðarinnar á skuldum einkavina flokksins í útlöndum. Enginn kommúnisti íslenskur var þar viðstaddur. Eins og ég svaraði þér fyrr í dag, Árni, í minni síðu:
Fyrri stjórn sættist á ábyrgð með vísan í lög, Árni, en þeir skrifuðu aldrei undir neinn Icesave-samning og ekki heldur ríkisábyrgð fyrir Icesave. Þeir skrifuðu Memorandum of Understanding með vísan í lög: EEA/EU Directive 94/19 EC. En fjárkúgun Breta og Hollendinga seinna miðaðist bara alls ekki við lög. Og af hverju vilt þú hafa það öðruvísi eða misskil ég þig? Hvað ertu að verja, Árni? Ertu að meina að fyrri ríkisstjórn sé sek um Icesave-glæpinn sem verið er að fremja núna, af núverandi ríkisstjórn? Enginn getur sakað þá um þann stórhættulega Icesave samning sem Indriði, Jóhanna, Steingrímur og hollustumenn hafa barist fyrir að koma yfir okkur. Og þó fyrri stjórn hafi lofað e-i vitleysu í öngvitinu sem þau voru í við fall bankanna og ágang og yfirgang Evrópuveldanna 2ja með bakhjarlana AGS og EU, væri það ógildanlegt, bæði vegna þess að kúgun er ólögleg og vegna þess að enginn, ég endurtek enginn, hefur leyfi til að skrifa undir neina óendanlega skuld og rukka skattborgarana fyrir og ekki heldur leyfi til að skrifa undir fjárkúgun.
Enda þótt ég vilji ekki fyrir mitt leyti borga þennan reikning íslenskra þjófa veit ég ekkert um hvort ég á kost að öðru.
Ég og Árni erum alfarið á móti því að borga einn eyri vegna Icesave! Hitt er svo annað mál, að stundum þarf að gera fleira en gott þykir!
Við eigum ekki að borga Icesave, Auðun og Árni, ekki einn eyri. Lögin eru öll með okkur, eins og okkar færustu lagaprófessorar og lögmenn og erlendir lögmenn líka, hafa oft sýnt fram á, bæði í orði og skriflega. Það skemmir okkar Icesave-baráttu að menn ætli kannski að sættast á Iceave-fjárkúgun EU, Breta og Hollendinga af því þeir hötuðu Sjálfstæðisflokkinn og þeirra vitleysu. Hatur á pólitískum flokki eru engin rök fyrir að sættast á fjárkúgun núna gegn börnunum okkar og gera þau að skuldaþrælum að ósekju. Og er þar með ekki að fullyrða að Árni muni gera það á þeim forsendum, en það hefur verið augljóst að víða eru menn að verja Icesave af því Sjálfstæðisflokkurinn gerði svo mikið vitlaust.
Og í lokin vil ég segja að óskiljanlega kemst Auðun upp með rangfærslur í síðunni að ofanverðu. Og líka fékk hann óáreittur að uppnefna þarna mann. Sjálf hefði ég kastað honum beint út fyrir það og haldið honum úti. Og tek það fram að ég hef aldrei enn kastað fólki út. Og ég tek þá áhættu, Árni minn, að þú bregðist jafnreiður við mig og þú gerðir við Jón að ofan. Óskiljanlegt finnst mér comment að ofan (9.2 kl. 10:07) gegn þessum manni, einum harðasta baráttumanni landsins gegn Icesave-fjárkúguninni. Og svo ég noti nú orðalagið sem konan notaði: Getur verið að meðal-jónar og meðal-jónur skilji hann ekki? Hann sé kannski of flókinn fyrir meðalfólk? Og það er ómaklegt að ýja að því að hann ætli að endurskrifa söguna, með þessum orðum: Þú endurskrifar ekki þessa sögu.
Og þú segir, Árni: Það hentar reyndar miklu betur þeim sem nú eru að hraðrita nýja sögu af Steingrímur J. kommúnisti og landráðamaður. Hver er að skrifa nýja sögu, Árni? Ég álpaðist til að kjósa þennan mann, sem ég taldi heiðarlegan og sterkan og tryggan og hann laug miklu og sveik allt. Og ég er allavega ekki að endurskrifa neitt, heldur skrifa það eins og það er núna.
Elle_, 15.2.2010 kl. 15:03
ElleE. Ég byrja á því að bjóða þig velkomna/kominn í minn fjölmenna og fjölskrúðuga bloggvinahóp. Hér skiptir ekki máli að vera mér sammála og allir velkomnir til skoðanaskipta ef tilefni gefast. Verst er mér við fúkyrðaflaum og eins að fólk snúi málum á hvolf eða gleymi aðalatriðum og leggi mikið upp úr hinum grábölvaða orðhengilshætti. En ég hlýt að svara athugasemd þinni eftir því sem skynsemi mín dugar til og byrja aftast.
1. Það er verið að endurskrifa sögu hrunsins og Icesavesamningsins. Sá samningur var settur í farveg af ráðherrum D og S sem þá sátu í ríkisstjórn. Hann var settur í enn þrælslegri varnarstöðu með óskiljanlegum ræfildómi ríkisstjórnar Geirs H. þegar samþykkt var um miðjan nóv. 2008 að ríkisábyrgð á innstæðutryggingum yrði gildisfærður aftur á bak og færður til samningsins um EES. Enginn kommúnisti, enginn Steingrímur landráðamaður kom þar nærri.
Allir vita að þjóðréttarlegt gildi samninga verður að fullnusta með lögum frá Alþingi en það breytir engu í mínum augum um þá fyrirlitningu mína á áróðrinum gegn Steingrími að hann beri alla ábyrgð á þessum samningi sem afar margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins kalla landráð. Var þá ekki með sömu rökum öll vinna þess flokks og dindla hans í Samfylkingunni lymskulegur undirbúningur að landráðum? Svar óskast.
Sú vinna öll endurspeglast í láni ! Hollendinga til Íslendinga sem síðan var notað til að greiða hollenskum innstæðueigendum eins og allir vita.
Árni M. Math. sagði að mikilvægt væri að nú hefði náðst niðurstaða í þetta erfiða mál. Árni er ekki kommúnisti- ekki landráðamaður. "Þegar við ákváðum að taka þetta lán hjá Hollendingum....." sagði Bjarni Ben. form. Sjálfstæðisfl. nýlega. Hvað felst í þeim orðum að taka lán?
Ég ætla á meðan volgt er í mér hlandið að verja Steingrím J. fyrir þeim ásökunum þeirra "sem ekki komu nærri" þessum skelfilega landráðasamningi svonefndum. Steingrímur J. barðist gegn einkavæðingu bankanna í þeirri skelfilegu mynd sem raun varð á. Það er nefnilega mörgum gleymt að það voru margir sekir í því þjófnaðarmáli sem nú heitir Icesave og horfðu á en höfðust ekki að á meðan sú skuld var að myndast! ! !. Þeir bera auðvitað enga ábyrgð á þessari skuld! nei vitaskuld ber Steingrímu J. þar alla ábyrgð.
Finnst þér þessi málflutningur þér sæmandi ElleE?
Þú gerir þig hlægilega(n) með þeirri skelfilegu ályktun að aumingja strákarnir í ráðherraliði D og S. ríkisstjórnarinnar hafi bara verið svo hræddir og ráðvilltir að þeir hafi eðlilega ekki getað gert neitt af viti því Bretar og Hollendingar hafi verið svo ofboðslega reiðilegir á svipinn! Aftur á móti sé Steingrímur handhafi allrar ábyrgðar á hverjum þeim mistökum sem gerð voru á síðari stigum því auðvitað átti hann- fullorðinn maðurinn að lagfæra góðlátlega öll þeirra skelfilegu mistök!!
Við hverja er ég eiginlega að fást hér á mínu friðsæla heimili?
Ég ber ekki hundlega tryggð í brjósti til nokkurra pólitískra skussa hvorki til hægri né vinstri. Helli mér yfir alla jafnt og ber blak af þeim líka ef reynt er að prófa smjörklípuaðferðir til að breiða yfir skít.
Icesave er afleiðing af pólitískri heimsku vitleysinga sem nú er búið að takast það ætlunarverk að koma eigin sök yfir á aðra. Mín reiði beinist að heimsku þeirra sem trúa barnslegum andlitum mannanna sem allan þennan pakka eiga skuldlausan eins og Steingrímur J. orðaði svo skemmtilega á Alþingi í haust. Trúarbragðastjórnmál eru neðan við minn þankagang.
Ég leyfi mér að nota viðhengið kvikindi þegar ég nefni marga pólitíkusa og útrásarræningja sem og þá garma alla sem áttu að standa vakt í brúnni en svikust um á verðinum. Steingrímur J. átti ekki vakt en varaði við háskasiglingunni allan tímann og var kallaður flón af þeim sem sigldu í strand og kalla hann nú svikara í ofanálag.
Þvílík kvikindi! Þvílíkir aumingjar!
Ég mun verja Steingrím J. sem og Davíð Oddsson báða jafnt þegar/ ef á þá er ráðist ómaklega. Það er skylda mín á meðan ég tek þátt í pólitískri umræðu. Á báða hef ég ráðist með fúkyrðum og jafnvel sáryrðum þegar mér hefur ofboðið. Steingrímur J. hefur marga skyssuna gert á sínum stutta ferli í ráðuneyti og á sýnilega eftir að gera margar enn, gefist honum tími til.
Ég hef alltaf gleymt að þakka stjórnsýslunni fyrir ef hún verður fyrir því að gera eitthvað af viti. Það er nefnliega ekki þakkarvert, jafnvel þótt aðstæður séu vandasamar því hún er á launum hjá þjóðinni rétt eins og kokkurinn er á launum hjá útgerðinni. Kokkurinn er oftast skammaður fyrir vondan mat en sjaldan þakkað fyrir góðan mat jafnvel þótt um einsdæmi sé að ræða í hans tilfelli. Yfirmenn stjórnsýslu eru ráðnir til minnst fjögurra ára í senn en kokkbjálfinn bara einn túr í einu.
Að lokum: Þú segist hafa trúað Steingrími J. og treyst hans einörðu framkomu í stjórnarandstöðu. Það gerði ég líka en var þó varkárari en þú og kaus hann ekki eða hans flokk. Nú fer Þráinn Bertelsson með mitt umboð inni á Alþingi og miðað við það sem ég sé og heyri þaðan þá finnst mér ég hafa verið sjálfum mér samkvæmur: Einn á móti öllum hinum.
Ég er í svolitlum vandræðum með þig. Ég er óvanur samskiptum við nafnlausar og kynlausar persónur.
Árni Gunnarsson, 15.2.2010 kl. 21:48
Árni, svara þér á morgun, það er seint nú. Og ég er hvorki kynlaus né nafnlaus og mun skrifa þóst. Heiti að vísu það sem þú lest: Elle E, þó það sé ekki fullstafað. Eins og Árni G. Það er ekki nafnleysi, er það? Og ég er ekki karl. Takk fyrir að svara. Og góða nótt.
Elle_, 16.2.2010 kl. 00:33
Ætla að svara, Árni, þó seint sé, -málið var of erfitt. Hlægilega segir þú og kemur með lýsingar á hlutum sem ég aldrei meinti og aldrei sagði. Nei, ég meinti að bankarnir féllu og fólk var í öngviti. Og það er ekkert hlægilegt. Fólk hafði aldrei gengið fyrr í gegnum slíkt. Þannig orðaði nú Ögmundur Jónasson það sjálfur í heimasíðu sinni fyrir kannski um 1/2 ári og ekki finnst mér hann neitt hlægilegur og enn síður heimskur. Hinsvegar hefur lúmskan og óheiðarleikinn og undirferlið verið ótrúlegt í núverandi stjórn. Jóhönnu, Steingrími og co. En ég lít hlutina bara allt öðrum augum en þú, Árni. Jú, Steingrímur hefur logið og svikið endalaust. Og ekki er ég Sjálfstæðismaður að segja það, þó þú dæmir þá harkalega fyrir það. Fjöldi, fjöldi manns sem kaus hann hefur kallað hann lygara og svikara, þeir eru ekki Sjálfstæðismenn!. Frá mínum bæjardyrum skipta fyrrri orð engu máli hvað varðar ríkisábyrgð á Iceave. Og þar skilur okkur mest í sundur. Enginn getur lofað neinni ríkisábyrgð og enginn getur skrifað undir neina fjárkúgun og rukkað okkur og börnin okkar fyrir vitleysuna. Og þó það hafi verið gert, er það ógilt. Ríkið þarf að fara að lögum, Árni. Ríkisstjórnin, Jóhanna og Steingrímur, enginn, hefur leyfi til að semja framhjá neinum lögum, hvað sem menn nú lofuðu rangt og vitlaust og hvað sem menn nú vilja. Og hvað sem menn nú vilja kenna Sjálfstæðisflokknum um, sem er undirliggjandi þema hjá fjölda manns: Já, Sjálfstæðismenn eru vondir og ömurlegir og verstir + + + + + Það eru samt lögin sem gilda. Það þarf að hlusta á lögmenn, ekki hvað Jói Jóns og Pési Lákason lofuðu nú vitlaust í fyrri flokkum og stjórnum. Það er alfarið á ábyrgð núverandi stjórnar að hafa pínt stórskaðlegan Icesave-kúgunarsamning í gegnum löggjafarvaldið með ótrúlegri lymsku og ósvífni. Og Steingrímur Jóhann Sigfússon hefur verið þar aðalgerandinn. Og það finnst mér ekki hlægilegt, heldur sorglegt. Við verðum bara að vera ósammála um það.
Elle_, 16.2.2010 kl. 01:30
Það er alveg greinilegt að elleE hefur verið í öngviti haustið 2008! Það væri þér hollt að smella á tengilinn hér og lesa það sem þar stendur. Og smella á tengilinn sem fylgir fréttinni!
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/16/icesave_deilan_leyst/
Auðun Gíslason, 16.2.2010 kl. 16:12
Auðun. Þetta mál er ekki einfalt fremur en nokkur önnur þau mál sem íslenskir pólitíkusar taka til akademiskrar yfirvegunar. "Taktu aldrei mark á ófullum Íslendingi. Íslendingum hefur verið gefinn einn sannleikur og hann heitir brennivín" sagði skúrkurinn Jón Marteinsson forðum daga í Köben. "Og þetta er staðfest." sagði Vor Allranáðugasti Davíð Oddsson forðum um nokkurra ára gamla vináttuyfirlýsingu Gamla Bússa dobbeljú. Blessað verið nafn þeirra beggja ásamt vináttu þeirra lofsverðri, svo ég taki mér að láni málfar Óskar Helga bloggvinar míns sem er það ég best og sannast veit ekki beinn afkomandi Ólafs Haraldssonar hins helga Noregskóngs enda ber ekki að skilja nafn Óskars Helga sem viðurnefni.
Ólafur kóngur helgi útbreiddi kristna trú í Noregi með þeim sannfærandi aðferðum að limlesta þá trúleysingja sem hann ekki drap eins og frægt er og rómað af öllu alminlegu og velþenkjandi fólki. Óskar Helgi frá Gamla-Hrauni hefur engan drepið né kristnað svo sannað hafi verið. Stundum má þó skilja orð hans á þann veg að það væri honum ekki endilega svo þvert um geð. Kannski á hann það eftir og fær þá vafalaust viðurnefnið Óskar Helgi helgi.
Nú að öðru: Íslendingum hefur verið gefinn nýr sannleikur síðan brennivinið var dæmt frá öllum sannleika sálarinnar. Okkar nýi sannleikur kallast orðhengilsháttur og er einvörðungu brúkaður á okkar dögum í allri pólitískri umræðu. Í samanburði fellur mér öllu skár við sannleika brennivínsins, enda gat ég alltaf, eða eiginlega alltaf áttað mig á honum þegar af mér rann.
Sá sannleikur sem í dag hefur lent inni í nýjasannleika er Icesave málið svonefnt. Láttu þér ekki koma til hugar að þessi póstur þinn brjóti neitt skarð í þann sannleika sem þar hefur verið þingfestur í dómstóli orðhengilsháttar og afgreiddur.
Dómsniðurstaða: Sú ábyrgðarskuldbinding sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins marglofaðrar og blessaðrar trúarstofnunar undirrita skíthræddir, rávilltir og skjálfandi eru í skilningi dómstólsins ekki samningar og að engu hafandi. Þetta ætti öllu lesandi og skrifandi fólki að vera ljóst fyrir löngu. Hinsvegar dæmist rétt vera:
Þeir íslenskir handhafar stjórnsýslu sem taka mark á slíkum samningum- sem auðvitað eru ekki samningar eins og áður hefur komið fram- og leyfa sér með einhverjum lúalegum lymskubrögðum að fullnusta þá með lögum skulu þaðan í frá kallast þjóðníðingar og landráðamenn.
Árni Gunnarsson, 16.2.2010 kl. 17:26
Vandamálið er að haustið 2008 var Icesave-svikamyllumálið (geir)neglt í ákveðinn farveg! Það verður nú að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau rambi ekki á barmi taugaáfalls í hvert sinn sem eitthvað þarf að gera annað en að klippa á borða! Hugleysi leysir okkur frá ábyrgð á eigin gerðum, er það?
Auðun Gíslason, 16.2.2010 kl. 17:33
Hugleysi var ekki áberandi þegar forystulið þessa merkilega klúbbs hló sig út úr líkamlegu jafnvægi vegna mjög alvarlegra ábendinga um að yfirvofandi væri stórslys vegna hömlulausrar og heimskulegrar fjármálastefnu íslenskra banka erlendis.
Og þessar viðvaranir bárust meira að segja frá fjármálasérfræðingum þeirra þjóða sem nú gera kröfur um uppgjör!
Er ekki áreiðanlega bara fiskur í saltkjötinu?
Árni Gunnarsson, 16.2.2010 kl. 19:25
Maðkur í mysunni og hundur grafinn! Sigmundur Davíð vill láta reka Anne Sibert fyrir að tjá skoðanir sínar! Hún er ein af þeim sem vöruðu við! Það var ekki hlustað og nú á að reka! Hneigist Sigmundur til Stalínisma?
Auðun Gíslason, 16.2.2010 kl. 20:01
Árni Gunnarsson, ég vil þakka þér fyrir þennan frábæra pistil. Betra að gera það seint en aldrei. Hef verið fjarverandi um hríð. Með þessum pistli býður þú til veislu, en skiljanlega getur þú ekki valið þér veislugesti, eðli miðilsins sér til þess. Því er hér margur misjafn sauðurinn, ásamt prúðbúnum veislugestum.
Fyrir mörgum árum varð mér það á að skrifa upp á lán fyrir mann sem ég áleit trausts verðan, þrátt fyrir duggunarlitlar efasemdir. Nokkrum mánuðum síðar fóru mér að berast miður falleg bréf frá lánveitandanum, sem eðlilega vildi fá sitt til baka í smáskömmtum með vöxtum. Eftir dúk og disk kom í ljós að lántakandinn hafði tamið sér þá sýn á lífið að borga aldrei neinum neitt. Hvorki forgangskröfur né aðrar. Hann hafði tamið sér fullkomið siðleysi í fjármálum og komið sjálfum sér út í horn, alls staðar - og er þar enn.
Ekki vil ég að við sem þjóð lendum í horninu hjá þessum ógæfumanni.
Björn Birgisson, 18.2.2010 kl. 18:02
Björn minn Birgisson. Þú ert víst einn þeirra sem líkar það sem ég segi og það bendir líklega til að það sé eitthvað mikil að hjá þér. Ég er ekki að bjóða til neinnar veislu en stundum ofbýður mér svo málflutningur og orðhengilsháttur hjá opinberum persónum stjórnsýslunnar að ég finn hjá mér þörf til að reka upp öskur. Og ég álpast til að leita mér útrásar hér á bloggsíðunni minni.
Mér hefur sýnst það lengi og sýnist enn að fyrirtækið (rekstrareiningin) Ísland sé ósköp einfalt og viðráðanlegt viðfangsefni fyrir fullorðið fólk með svolitla reynslu af atvinnuvegum ásamt þokkalegri meðalgreind og skilning á því að þetta land er handa fólkinu sem þar býr en ekki einvörðungu fyrir fésýslustofnanir og vel klædda kókaínfíkla með þjófsaugu.
Ég kann að ég held svona sæmilega það tungutak sem þróast hefur hjá embættismönnum og svonefndu tignarfólki en mér hugnast það ekki því ég kann skýrara tungutak og nota það.
Það er skiljanlegra.
Mannlíf þróast ekki gegnum tölvur og deyr að lokum í mörgum skilningi ef því er stýrt af exelkvikindinu.
Þetta land er svo auðugt í öllum skilningi, ólýsanlega fagurt, heillandi og magnþrungið við lestur á öllum þess dýru djásnum að það segir afskaplega vonda sögu um heimsk stjórnvöld og gerspillt kerfi þegar slíkt land kemst á vonarvöl og verður öðrum þjóðum vorkunnar- og aumkunarefni.
Það gerðist reyndar nokkru fyrir daga Steingríms J. í stjórnarráðinu en ég bið þig að láta það ekki fara lengra.
En nú er þessi pistill minn sem leyst hefur úr læðingi margar skoðanir og um sumt ólíkar, til húðar genginn. Það er nóg efni til í nýjan og daglega bætist við.
ElleE, mín ágæta bloggvinkona. Þakka þér svarið sem þú sendir mér á öðrum stað og það svarar leysir úr spurningu minni um þig.
Þú ert ásamt Jóni Val og ýmsum fleirum ákveðin í þeirri skoðun að Steingrímur J. sé höfundur og líklega arkitekt að þessari Icesave kröfu. Ég er á annari skoðun en þú. Ég er sammála ykkur og ýmsum fleiri um að þessi ríkisstjórn hafi samið um greiðslu á skuld sem Steingrímur varaði við frá fyrstu sporum útrásarinnar til þeirrar síðustu, en að skattgreiðandur átti aldrei að greiða. Ég er reiður við ykkur fyrir að ávíta Steingrím fyrir sín mistök en ávíta ykkur fyrir að segja ekki forystuliði Sjálfstæðisflokksins að halda í það minnsta kjafti og skammast sín. Því það var fyrst og fremst Þessi klúbbur siðlausrar græðgi sem myndaði þessa kröfu!
Og á meðan þessi illa þefjandi kvikindi komast upp með að setja þessa skuld í þann farveg að Steingrímur J. hafi smíðað hana vegna þess að hann sé kommúnisti og vilji þessari þjóð allt það versta þá reyni ég að þoka málinu í átt til sannleikans og bið ekki um meira en þokkalega skynsemi. Það er alltaf útilokað að hafa hlutlausar skoðanir á réttmæti nokkurrar kröfu nema eftir að hafa skoðað á hverju krafan byggist.
En Steingrímur J. er líklega enginn maður til að stjórna varnarbaráttu í svona máli. Hann vantar allan undirbúning til þess. Hann hefur líklega aldrei unnið á þeim vettvangi markaðslögmálsins þar sem enginn kemst lönd né strönd án þess að gjörþekkja reynda lagarefi sem hafa þróast í þann virðingarsess að kallast stjörnulögmenn. Öll vitum við- eða ættum að vita að ármenn tiltekins stjórnmálaflokks éta oftar en ekki "Lunch"með stjörnulögmönnum í hádeginu virka daga sem helga. Hver skyldi ástæðan að baki þessara órjúfandi vináttubanda vera?
Mér er til efs að Steingrímur J. slafri í sig steikur á dýrum matsölustöðum með stjörnulögmönnum. Og þess vegna ætla ég að vera sammála ykkur Jóni Val um það að Steingrím J. vanti allan bakgrunn sem til þarf að verja íslenska þjóð fyrir klókindalegum skákfléttum ættleiddra uppeldisdrengja Sjálfstæðisflokksins sem lögðu af stað í þjófnaðarherferð á erlendri grund með farseðla frá foreldrunum ásamt farareyri frá þjóðinni.
Ég ætla að leyfa Jóni Val að bera mér það á brýn að ég sé svo heimskur að ég skilji ekki þetta mál og muni átta mig á heimsku minni þegar ég hætti að umgangast boðbera kommúnimans. Mér er orðið alveg sama hvað honum finnst um mig. Og ég er löngu hættur að hafa áhyggjur af vináttu hans við náhirðina.
Árni Gunnarsson, 19.2.2010 kl. 17:16
Varðandi ríkisábyrgð á Icesave. Þingsályktunartillaga lögð fram 5. desember. Fyrir Elle!
http://skarfur.blog.is/blog/skarfur/entry/1017026/
Auðun Gíslason, 20.2.2010 kl. 00:19
Það er ljótt af þér Auðun að vera sífellt að vitna í orð fyrrv. ríkisstjónar. Eins og margsinnis hefur komið fram hjá landvarnarmönnum sjálfstæðisflokks þá er ekki gert ráð fyrir að tekið sé mark á hræddum sjálfstæðismönnum og eiginlega ljótt að gera það.
Það er kannski svona fyrir sig að taka mark á hræddum krötum.
Við eigum að taka mark á þeim núna því nú eru þeir utan stjórnar og alls ekki hræddir.
Það sem stendur hinsvegar upp úr núna er að standa saman og fella í þjóðaratkvæðagreiðslu allt þetta andskotans samningamóverk.
Síðan eigum við að fá hingað myndarlega blökkustelpu frá BNA sem heitir Kondólísa Ræs og láta hana stjórna réttarhöldum yfir útrásarvíkingum og bankahnuplurum með aðstoð þjálfaðra fagmanna frá hundabúrinu þarna á Kúbu. Og gleyma ekki pólitíkusunum sem ræstu hundaveðhlaupið, stóðu á hliðarlínunni og öskruðu: Húrra" Húrra! Húrra! Húrra!
Hvorki hræddir né ráðvilltir á meðan hundaveðhlaupið stóð yfir.
Árni Gunnarsson, 20.2.2010 kl. 10:16
Já, það er satt! Mamma sagði mér lika alltaf að vera góður við aumingja! En það var fyrir vestan!
Auðun Gíslason, 20.2.2010 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.