22.2.2010 | 19:41
Konan virkar normal í útliti en hlýtur að vera biluð
Var að lesa þessa frétt af undarlegu konunni sem setti upp ísbúð og selur framleiðslu frá nokkrum búandkörlum og kellum þeirra. Sýnist þessi kona virka svo vel á mann og vera einkar geðug í útliti.
En auðvitað er eitthvað mikið að svona fólki.
Kannski er eitthvað ekki í lagi heima hjá henni.
Af hverju bíður manneskjan ekki átekta og bíður eftir því að ríkisstjórnin geri eitthvað?
Heyrði líka í ungri konu á Gufunni í dag sem er með óvenjulega og ögrandi myndlistarsýningu hérna í hreppnum.
Stórskrítin.
Hún sagðist hafa fundið einhverja ögrun og áskorun í kreppunni! Þessi var nú góður, kanntu annan kona góð!
Til hvers höfum við haft hér í áraraðir stjórnvöld sem hafa haft að leiðarljósi stjórnvisku kommúnistanna í Ráðstjórnarríkjunum marglofuðum ef við förum allt í einu að hugsa eins og fólkið sem barðist til efnahagslegs sjálfstæðis á fyrri hluta síðustu aldar? Þess fólks sem nýtti sér vaxandi þekkingu og skólagöngu til að nýta hvert það tækifæri sem þessir nýju tímar buðu fólk að nýta sér?
Látum ekki blekkjast af bulli ruglaðra ungkvenna sem þekkja ekki pólitík.
Höldum áfram að syngja þjóðsönginn geðþekka:
Ætlar ekki þessi helv. rikisstjórn að fara að drullast til að gera eitthvað?
Ísland komið á skrið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vá hvað þú ert bitur. ,,látum ekki blekkjast af bulli ruglaðra ungkvenna sem þekkja ekki pólitík"
Ég spyr hvað heldur þú að ein helvítis ísbúð komi allri þessari pólitík við eiginlega. Fólk borðar enn ís, allavegana ég og þeir sem ég þekki.
Gústaf Reynir Gylfason (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:03
Haha góður!
Kristinn (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:20
Hverju orði sannara Árni, stórfurðulegt þetta fólk sem ákveður að gera eitthvað.
Björn (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:24
Gústaf Reynir. Þetta kemur þessari pólitík alveg heilmikið við. Það býr nefnilega heil þjóð af gapandi mannleysum innan um fáeinar dugandi manneskjur sem skilja að ríkisstjórnir eiga ekki að búa til störf handa fólki. Það er bullandi pólitík ræfildóms á bak við svpnefnda kreppu þessarar auðugu þjóðar.
Þessi pólitík ræfildómsins er mesta mein allrar okkar stjórnsýslu í dag og hefur verið það í flestum ríkisstjórnum á undan þessari. Að ógleymdum ræfildómi fólksins sem heldur að öll tækifæri í samskiptum við þetta ótrúlega auðuga land okkar séu lokuð niðri í skúffum ráðuneytanna. Af hverju fer mestur hluti háskólamenntaðs fólks í vinnu hjá ríkinu?
Og svarið er einfalt. Þetta dót er orðið að svo náttúrulausum mannleysum að það hefur ekki einu sinni næga meðvitund til að skapa sér og fjölskyldum sínum störf sem duga til framfærslu einnar fjölskyldu.
Stjórnvöld hafa að vísu eina skyldu umfram aðrar skyldur. Og það er sú skylda að gefa fólki tækifæri til að bjarga sér í stað þess að búa til endalausar lagareglur sem hreinlega banna fólki að bjarga sér: "Að viðlagðri aðför að lögum."
Ég held að þú sért sjálfur svo vanaður af þessum kerfislæga hugsunarhætti að þú þurfir hjálpar við. Mér sýnist það á viðbrögðunum.
Árni Gunnarsson, 22.2.2010 kl. 20:38
Árni minn, stundum held ég að þú sért snillingur allra snillinga, en mikið voðalega er ég mikið sammála þér núna.
PS. Held ég hafi keypti bók í dag sem þú hefur skrifar, ætla taka hana með mér í rúmið
(IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:42
Þetta blogg um þessa frétt hjá þér lýsir nákvæmlega vandanum sem við eigum við að etja. Það er alltaf verið að bíða eftir að það verði gert eitthvað fyrir okkur. Þess vegna er fréttin svo mikilvæg og jákvæð, það eru einhverjir að framkvæma góðar hugmyndir.
Hafðu bestu þakkir fyrir þessi skrif.
Stefán Már Ágústsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:54
Sigurlaug Inga. Þakka þér innlitið og falleg orð. Skilaðu til bóndans að hann eigi að kyssa þig frá mér.
Árni Gunnarsson, 22.2.2010 kl. 20:55
Sammála þér Árni. Ég held að Gústaf Reynir hafi eitthvað misskilið þig illilega -meðvitað eða ómeðvitað- það ætla ég ekki að dæma um. Það er þróttur í þessari konu og "búandkörlum og kellum þeirra". Þau eru lýsandi dæmi þess, að fólk verður að skapa sér sjálft framtíð sína í stað þess að bíða eftir ofvaxinni og trénaðri stjórsýslunni, sem sligar nú allt.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:56
frábær frétt
kom mér til að taka upp gamalt bros þannig að báða varir eru sprungar eða punteraðar ein og norðanmenn tala
skemmtilegagra að sjá svona fréttir en vælið
4og 1/2 broskalla af 5
kveðja maggi
Magnús (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:58
Velkomnir í aðdáendahóp þessara yndislega gefandi ungu athafnakvenna, Magnús, Stefán Már og Pétur Örn, gamall Króksari sem hefur fengið heilbrigt andrúmsloft í vegnesti af Hólaveginum í nágrenni Gvendar dýra.
Það þarf að hrista upp í þessu vonleysigólandi liði sem steypir sér kollhnís í öllum fjölmiðlum þjóðarinnar þessa dagana. Við ættum að vera farnir að skilja það Íslendingar að við fáum enga aðstoð við að eiga fyrir mat fyrr en eftir læknisrannsókn.
Ríkisstjórnir okkar eru aldrei neinum öðrum kostum búnar en þeim kostum sem þjóðin hefur búið við af hálfu eldstöðvanna,- og er sá kostur sem felst í því að læra að herða sig og reyna að lifa þær af.-- Lifa þær af óbugaður, bjóða hver öðrum í nefið ef gott er í ári og einhver á fyrir tóbaki og setja saman þokkalegar klámvísur með áherslu á miðrímið.
Árni Gunnarsson, 22.2.2010 kl. 21:41
Skila því Árni minn, alveg viss um að bóndinn tekur vel í það
(IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 21:49
Árni, þú átt inni einn ~Eyferzkann íz~ á minn koztnað fyrir greinarbútinn þennann...
Steingrímur Helgason, 22.2.2010 kl. 22:24
Þvíllíkt og annað eins.....Hvað segir Umhverfisháðherrann???
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 22:52
Steingrímur Z. Helgason. Ekki afþakka ég Eyferzkan íz í þínu höfðinglega boði þegar ég kem því við að þiggja hann.
Þórður Sævar. Nú er ég dálítið á báðum áttum með það hvernig beri að skilja þitt innlegg í þessa stórgáfulegu umræðu. Ég held að það sé öllum ljóst sem hafa fylgst með málflutningi mínum og Svandísar stórvinkonu minnar í umhverfinu að við fögnum hverju því starfi sem unnið er án þess að sækja til þess orku á kostnað íslenskrar náttúru að neinu ráði.
Árni Gunnarsson, 22.2.2010 kl. 23:16
Sæll Árni
Já, það var ekki amalegt að alast upp á Hólaveginum, með þá Nonna í Nesi og 7+1 handan rifsberjarunnanna:). Til gamans má geta þess, að ég held að "fíkjur" 7+1 hafi verið í hans huga önnur hver kona á Króknum á þeim tíma, en ekki er ég viss um að "búandkarlar" kvennanna hefðu samsinnt því. En Gvendur dýri hjólaði bara á brott á sínu DBS dömuhjóli með blístur á vör, ef ég man það rétt. Hugurinn bar hann þó alltaf amk. hálfa leið. Og nú er ég búinn að gleyma mér í fortíðinni. Kveð að sinni.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 00:32
Ég reikna með að Gústaf Reynir sé nýr á þessari síðu og því við hæfi að fyrirgefa honum misskilninginn
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 01:07
Árni já ég misskildi heldur betur þarna. Ég las þetta betur yfir núna áðan. Ég hélt að þú værir að niðurlægja greyið konuna fyrir að reyna að gera eitthvað sjálf í málunum og ætlaði að taka hennar málstað. Ég er ekki vanaður af kerfinu og er fullfær um að sjá um mig og fjölskyldu sem og ég geri, held samt að þú hafir enga hugmynd um það eða hvort ég sé vanaður af þessu kerfi eins og þú talar um.
Gústaf Reynir Gylfason (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 02:25
Aðeins ein skýring hugsanleg: "Flagð undir fögru skinni og á styrkjum frá ríkissjóði OG "fjórflokknum""
Eygló, 23.2.2010 kl. 03:01
Skemmtileg færsla Árni!
Kveðja af Suðurnesjum.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 23.2.2010 kl. 08:17
Gústaf Reynir. Nú er það upplýst sem Gunnar T. benti mér á að þú misskildir túlkun mína á framtaki þessara ungu athafnakvenna. Ég á enga heimtingu á því að allir skilji samstundis þá kaldhæðni sem ég hef stundum tamið mér að nota við að koma skoðunum mínum á framfæri.
Nú hefur þetta verið upplýst og ég hlýt einfaldlega að biðja þig afsökunar á hvatvísi minni í þinn garð og geri það hér með.
Árni Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 12:38
Árni, góð færsla, sem stundum fyrr. Einhvers staðar í fórum mínum á ég pistil, í hverjum ég færði nokkur rök fyrir þessari einföldu en dapurlegu staðreynd: Því meiri menntun einstaklings, þeim mun minni lýkur á sjálfstæðum atvinnurekstri hans. Alltaf gott að skríða í jötuna!
Björn Birgisson, 23.2.2010 kl. 15:48
Takk fyrir Árni og sömuleiðis. Allt er gott sem að endar vel :)
Gústaf Reynir Gylfason (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 16:43
Því meiri menntun einstaklings, þeim mun minni lýkur á sjálfstæðum atvinnurekstri hans. Alltaf gott að skríða í jötuna!
Tek heilshugar undir þetta hjá Birni.
(IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 20:17
Sigurlaug mín, fjölmörg dæmi sanna þetta, því miður verð ég að segja. Ég hef fylgst all náið með atvinnumálum, fyrst vestur á Ísafirði, síðan í Grindavík. Burðarásar atvinnulífsins á báðum þessum stöðum hafa verið stórhuga víkingar, með saltblandað blóð og saltbragð á hörundi, skólagöngu skyldunnar, stórt hjarta og ríka þörf fyrir framfærslu fjölskyldna sinna og fjölmargra annarra í leiðinni. Slíkir menn eru alvöru Íslendingar. Jötulakkarnir eru auðvitað líka Íslendingar, en minna spennandi.
Björn Birgisson, 23.2.2010 kl. 20:30
Ekki er ýkja langt síðan að góðar beitarjarðir voru verðlagðar hærra en snjóþungar bújarðir þar sem innistaða var löng og lítil von um að hægt væri að nýta vetrarbeitina til fóðursparnaðar. Fjárhirsla ríkisins er núna í stöðu bóndans sem ævinlega varð -og verður enn- að takmarka stofninn við það vetrarfóður sem aflað hafði verið um sumarið.
En fjárhirsla ríkisins er með á fóðrum stofn sem skilar að mestum hluta litlum afurðum en er með ævilangan samning um ríkulegan hádegsverð og að lokum rólegt bæli þar sem fóðrið er fært til þeirra og ekki skorið við nögl.
Nú sýnist mér að þeir tímar geti verið skammt undan að íslenska ríkið verði úrskurðað í greiðsluþrot. Hvað gera Danir þá?
Þá verður hver að bjarga sér sjálfur eftir getu og þeir sem enga hafa getuna verða ekki ofsaddir. Við skulum gleyma því að það sé náttúrulögmál að Ríkið sjái fram úr öllum vanda.
Og gleymum því ekki að það var hið alsjáandi auga ríkisins sem lokaðist þegar þjóðin var rænd af eigin þjófum. Nú keppast skilanefndir bankanna sem stýrðu ránsförinni við að afskrifa skuldir þróttmestu gerendanna og sér ekki fyrir endann á því krefjandi og bráða verkefni.
Forstjóri fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðherra HÆSTVIRTUR segjast ekki hafa valdheimildir til að stöðva þetta athæfi.
Alþingi er víst ekki lengur löggjafarþing. Löggjafarþingið er í bönkunum og í höndum skilanefndanna jafnframt.
Það mun enginn sendimaður ríkisins góða mæta til ykkar á næstunni börnin mín góð og kalla: Ræs- vinna í fyrramálið!
Árni Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 21:12
"Nú sýnist mér að þeir tímar geti verið skammt undan að íslenska ríkið verði úrskurðað í greiðsluþrot. Hvað gera Danir þá?"
Nú er karlinn að verða svartur til skoðana! Mér er slétt sama um þrot eða ekki þrot, af mínum bæjarhóli séð. Ég bjarga mér. Hef alltaf gert það og mun alltaf gera. Er með stútfulla frystikistu af eðallambakjöti úr Meðallandinu og úrvals ýsu úr gullkistu Grindavíkurdýpis. Það dugar mér eitthvað! Hef þó áhyggjur af skuldsettum löndum mínum.
Svo erum við ekkert að fara endanlega á hausinn! Láttu ekki svona karl andskoti!
Björn Birgisson, 23.2.2010 kl. 22:01
Nú kemur mér í hug gömul vísa sem hún amma mín raulaði oft við mig á kvöldin:
Köld er vist og kýrin dauð.
krókna lömb og deyja.
Afi fullur- enn á Rauð
í átt til Jómfrúreyja.
Sjálfur geturðu verið karl andskoti!
Árni Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 22:32
Hugan angrar margt til meins
mjög er hofið slitið.
Aldrei hef ég lífið eins
augum dökkum litið.
Verið nú góðir hver við annan kallarnir mínir
(IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 23:25
Sigurlaug, þú ert algjör dúlla, ekki Valhallardúlla þó! Árni þú ert frábær karl. Svakalega þykir mér vænt um orðin þín, karlandskotinn þinn Koss á vanga? Jómfrúreyja? Ertu viss um það? Hvers konar hross var þetta? Ég hefði viljað hitta hana ömmu þína og eiga létt spjall við hana! Líklega full seint í þann rassinn gripið!
Björn Birgisson, 23.2.2010 kl. 23:56
Þetta eru ágæt lokaorð inn í þessa færslu sem var nú aldrei ætlað stórt hlutverk. Ég sé að karluglan hennar Sigurlaugar hefur orðið við minni frómu ósk og innt hana svo rækilega af hendi að hún fór að hugsa í bundnu máli á eftir.
En þetta með Ömmu mína og vísukornið um afa og hann Rauð hefur kannski eitthvað brenglast í hausnum á mér. Það er svo margt sem glepur. Annars var hún Ingibjörg Björnsdóttir föðuramma mín merkiskona á marga lund. Jón Normann kennari og fræðimaður á Selnesi, sem þýddi Hávamál á ensku á gamals aldri þóttist finna þeirri tilgátu stað að nún amma hefði verið síðasta selráðskona á Íslandi. Hún var fædd 1854 og lést 1947 ef ég man rétt. Og selið var Hafragilssel í Laxárdal í Skefilsstaðahreppi hinum forna norður þar.
Árni Gunnarsson, 25.2.2010 kl. 18:37
Aldeilis er það merkileg upplýsing um Jón Norðmann, föðurbróður minn, að hann hafi snarað Hávamálum á ensku á gamals aldri, hann sem aldrei setti saman vísu alla sína ævi svo vitað væri. Amk. héldu bræður hans þeim þá ekki á lofti oig spöruðu þó ekki að fara með vísur ef vel stóð á. Og ekki minnist ég þess að hafa heyrt hann fara með vísu og dó hann þó ekki fyrr en ég stóð á tvítugu. Hitt er svo rétt að Jón fór vestur um haf og hélt fyrirlestra um seið við Harvard háskóla. Sömuleiðis tók hann saman skýringar við Hávamál. Kann eitthvað að vera frumlegt í þeim. Vísast er þó að hann hafi vitað nokkur deili á kellingum á Skaga og farið rétt með ævistarf þeirra.
En þetta með Hávamálin og þýðinguna kemur fremur flatt upp á mig.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.