24.2.2010 | 18:47
Síldin kemur, síldin fer
Þær eru svolítið að rifjast upp fyrir mér núna síldarfréttirnar frá fimmta áratug síðustu aldar. Þær voru í hverjum hádegisfréttatíma útvarpsins allt frá því síldin fór að veiðast og þar til síldveiðum lauk síðsumars. Þarna voru lesin upp nöfn bátanna sem höfðu landað Norðurlandssíldinni daginn áður á Siglufirði, Raufarhöfn og hinum ýmsu söltunarstöðvum víðs vegar norðan-og norðaustanlands. Þetta var langur lestur þegar vel veiddist og nöfn þessara báta festust í minni fólksins.
Og svo tengdust þessar söltunarstöðvar nöfnum manna sem jafnframt urðu þjóðkunnir líkt og umtöluðstu útrásarvíkingar í dag. Þessir menn voru kallaðir "síldarspekúlantar" og það birtust af þeim myndir þar sem þeir stóðu á síldarplönunum með vindil í munninum og hatt innan um söltunarkerlingarnar. Þetta voru alþýðlegir mann að sjá og sumir í holdum og sumir sagðir svolítið drykkfelldir.
Þetta voru skemmtilegir tímar og oft var gaman að sjá tugi þessara báta að snurpa síld inni á Skagafirðinum sem kraumaði af vaðandi síld í torfum.
Fréttir af síld fylla ekki fréttatíma útvarps í dag enda sést nú ekki lengur vaðandi síld á fjörðum norðanlands yfir sumartímann.
Í stað síldarfréttanna eru nú komnar aðrar fréttir af umsýslu verðmæta og öðruvísi í laginu. Lyktin er ekki neitt áþekk síldarlyktinni á plönunum sem kitlaði þefskyn og kom jafnvel róti á hormónastarfsemi ungs fólks að sögn kunnugra. Mörgum finnst þessi nýja lykt vond og ég er einn í þeim hópi. Sumir nefna þetta peningalykt og aðrir kalla þetta þjófafýlu.
Enginn myndi í dag vita hvaðan á hann stæði veðrið ef útvarpið færi að segja frá því hvað Valurinn, Dröfnin, Stígandinn hefði landað mörgum málum og tunnum á Siglufirði þann og þann daginn enda engin von á slíkum fréttum.
Nú er sagt frá því hvað Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn hafi afskrifað marga milljarða. marga tugi milljarða, eða mörg hundruð milljarða í gær af skuldum Haga, Ólafs í Samskipum, Milestone eða hvað nú öll þessi metnaðarfullu umsýslufyrirtæki og fjárglæframenn allir heita. Jafnframt er svo skilmerkilega sagt frá því að stærstu nöfnin í stærstu fyrirtækjunum hafi tekið við rekstrinum eftir ormahreinunina, enda hafi það verið krafa "nýrra eigenda!"
Þjóðinni sýnist vera ofboðið og fréttamenn skynja þjóðina enda eru flestir fréttamenn hluti af þjóðinni. Og fréttamenn kalla til viðtals ráðherra ríkisstjórnar sem mæta góðfúslega. Þeir svara aðspurðir hvernig á því megi standa að menn sem tapað hafi hundruðum milljarða í rugl og fjárfestingafyllirí fái fyrirtækin aftur og ruglið afskrifað.
Ja, bankarnir hljóta að hafa sínar eðlilegu skýringar á því segir viðskiptaráðherra hæstvirtur.
Hvort honum finnist þetta eðlilegt?
Hæstvirtur segir að honum finnist þetta kannski svona svolítið undarlegt líka ef grannt sé skoðað en málið komi honum eða ríkisstjórninni ekki neitt við. Ef eitthvað kynni nú að vera við þessar vingarnlegu ráðstafanir á milljörðunum að athuga þá sé það Fjármálaeftirlitsins að kanna það.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins er skjótur til svara og segir að þá stofnun varði ekki um svona mál. Allar þessar ákvarðanir séu í höndum skilanefnda bankanna sem fari stundum í kaffi með nýrri stofnun sem ríkisstjórnin setti á laggirnar til að eyða tekjuafgangi ríkissjóðs og heitir Bankaumsýsla ríkisins ef ég man rétt.
Má ég biðja um að Rúv hætti að storka þjóðinni með fréttum á borð við svona fréttir af íslenskum ræfildómi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Árni, fyrri hluti þessarar færslu er notalegur og í rómantískum stíl. Silfur hafsins hefur alltaf kveikt glampa í augum allra sem til þess þekkja.
Seinni hlutinn er að mínu mati hárrétt greining og ég tek undir hvert orð.
Björn Birgisson, 25.2.2010 kl. 16:37
Það er ævintýraljómi yfir síldarárunum í minni sál þót aldrei kæmi ég á síldarplan á árum norðurlandssíldarinnar. En þá rak öll ósköp af hinu og þessu góssi frá skipunum upp á Sandvíkina og það var mikil eftirvænting þegar gengið var á rekann. Ekki get ég reiknað með að á nokkrum bæ á Íslandi hafi verið til jafn margir sexpensarar og hjá okkur á Reykjum. Ásamt sjóhöttum í tugatali og svo tágakörfum sem nægt hefði síldarplani á vegum Óskars Halldórssonar.
Og svo gat nú verið lokkandi að losa um tappana á flöskunum sem lágu þarna sakleysislegar í röðum og mikið var nú þessi lykt oft góð.
Minnisstæðast er mér hvað ég skipti oft um sixpensara þegar ég var tíu ára og mátaði þá alltaf vandlega frammi fyrir stóra speglinum. Ég komst að því að það færi mér best að halla sixpensaranum dálítið út að hægri vanganum. Þá væri ég mannalegastur.
Eiginlega finnst mér ég vera hauslaus eftir að konan bannaði mér að ganga með sixpensara.
Árni Gunnarsson, 25.2.2010 kl. 20:58
"Eiginlega finnst mér ég vera hauslaus eftir að konan bannaði mér að ganga með sixpensara."
Faðir minn er einn þeirra sem alltaf hefur verið illa sýktur af síldarsýkinni. Á þeim tímum sem þú nefnir var hann ýmist "starfsmaður á plani" eða síldarsjómaður fyrir Norðurlandi. Samvinnufélag Ísfirðinga var nokkuð stórtækt í síldarævintýrinu á Siglufirði. Hann varð síðar formaður Síldarútvegsnefndar um árabil. Nú (93) kemur alltaf glampi í árvökul augu öðlingsins, þegar síld ber á góma. Þannig er nú það.
Svo saltaði ég síld hér í Grindavík um árabil, sem aðstoðarmaður minnar ágætu konu, en hún var röskur og handfljótur hausskurðarmaður og saltari. Mín ætlan var alltaf að hjálpa henni, held þó að ég hafi meira þvælst fyrir í öllum hamaganginum!
Ég geng núorðið alltaf með sixpensara. Á tvo. Svartan og gráyrjóttan. Fengi ég bannskipun við notkun þeirra yrði ég all ferkantaður í framan. Áleitin spurning myndi vakna.
Hvort er auðveldara að skipta um konu en höfuðfat?
Ég veit svarið!
Björn Birgisson, 25.2.2010 kl. 21:18
Nýir siðir með nýjum herrum
Sigurður Þórðarson, 26.2.2010 kl. 10:58
Ég þakka fyrir frábært blogg.!!
Það er ljúft að rifja upp gamla tíma. Ég minnist Hvalfjarðar síldarinnar....Þegar höfnin í Reykjavík var full, dag erfir dag, af drekkhlöðnum síldarbátum. Ég man eftir Ingvari Pálmasyni, sem var skipstjóri á Rifsnesinu. Þá fór hann í löndunar- biðinni, sem nótabassi á Andvara RE8. Hann var rosalegur aflamaður. Það var svo gaman að fylgjast með.... Og lyktin í loftinu var yndisleg.....Takk fyrir.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 00:11
Nú ætti fólk að vera í fasta svefni en eitthvað heldur fyrir mér vöku-þá læðist maður í tölvuskrattann og les sér til skemmtunar þar til blöðin detta í lúguna -Mér finnst alltaf gaman að lesa bloggin þín Árni-svona ef þú ristir ekki of djúpt-þú kannski skilur ekki hvað ég meina ,en það er önnur saga --------------------
Það er þetta með síldina og sixpensarann þeir voru flottir strákarnir með pensaranna á síldinni í þá gömlu góðu -en ég varð einhvernvegin utan við það ævintýri nema sem áhorfandi á plani þar sem systir mín hafði snör handtök og sú fljótasta á planinu -eitthvað var ég nú að burðast við að leggja niður fyrir hana á meðan hún skar ---En að pensaranum þá sýnist mér eftir myndinni að dæma að hann myndi sitja laglega á höfðinu á þér -að ég tali nú ekki um ef hann hallaði aðeins til vinstri -held að það færi þér betur ---Góðan dag ------
Karen Karlsdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 06:40
Ég þakka hlý orð og ekki síst þegar ég er nývaknaður og ekki einu sinni kominn með kaffið. Ég hef komist að því að það er mikilvægt að sýnast vera djúpvitur og helst óskiljanlegur þegar maður hefur ekki vit til að segja neitt.
En nú fer að "blæða úr morgunsárinu" hjá einhverjum hér á blogginu eins og hann Jónas Svafár orðaði það forðum.
Góðan dag elskurnar mínar og takk fyrir innlitið!
Árni Gunnarsson, 27.2.2010 kl. 07:34
Kæri frændi, gaman að lesa beitta pistla þína kæri Íslendingur, segðu mér Árni: Áttu enn hross og ferðu á bak kæri Skagfirðingur?
Snortinn Spéfugl (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 21:09
Gaman að geta snortið jafnvel spéfugla með þessu fylliríisrausi. Nú á ég svo marga frændur að ég er engu nær, enda skiptir það víst ekki öllu máli.
Núna er svo komið fyrir mér að ég á enga hesta enda kominn inn í miðborgina og engin hesthús fyrr en í fjarlægum kirkjusóknum.
Og hættur að fara á bak þar með. Læt mér nægja að gleðjast yfir velgengni hrossanna úr ræktun sem ég fékk að tengja nafn mitt við. Ræktunargæfa er dýrmæt gæfa.
Takk fyrir innlitið og áhugann.
Árni Gunnarsson, 27.2.2010 kl. 22:22
Góður pistill Árni. Lýsingin frá síldarárunum kallar fram góðar minningar, ég finn enn í minningunni lyktina af rauða kryddinu sem notað var í kryddpækilinn á síldina, einhver besta lykt sem ég hef fundið. Það sama verður ekki sagt um þann fúla kryddpækil sem þjóðinni hefur verið lögð í.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.2.2010 kl. 17:19
Axel. Nú er svo komið að hinir svonefndu Íslendingar eru farnir að tala um þessi rómantísku hughrif sem einhverjar leifar af niðurlægingu íslensku þjóðarinnar undir stjórn dönsku krúnunnar.
Árni Gunnarsson, 1.3.2010 kl. 00:00
"Fannar frá Rifi er í Securitas deild markaðsins og meira að segja að útskrifast í pólitískri alvisku frá Háskóla Hins Eilífa Vísdóms ESB á Bifröst. Honum ber að bregðast hratt við ef fólk fer að efast um lausnir græðgi og sóðaskapar í umhverfinu. Og hann veit líklega eins vel og rektorinn að við þurfum að flytja til Íslands svona sirkabát 3 milljónir útlendinga til að byrja með svo þessi guðsvolaða þjóð geti talist sjálfbjarga og komist upp úr örbirgðinni sem fámenni skapar. "
þetta eru þín orð á loftslag blogginu.
ertu að segja að ég af öllum mönnum sé ESB sinni?
að ég sé hlynntur stórfeldum innfluttningi á fólki til landsins?
að ég sé hlynntur menguðu umhverfi og sóðaskap?
byrjum á byrjuninni. Ég er harður ESB andstæðingur. Ég vil fjölga þeim sem búa á Íslandi, það er rétt. Hingað til hef ég nú bara talað um að nota gömlu góðu aðferðina en ekki standa í stórfeldum fólksfluttningum. Ég er skotveiðimaður, berjatínslumaður og skógræktandi (smá hobbí) og það er fátt sem mér finnst betra en að ganga um fagra náttúru Íslands. ég vil einnig geta nýtt mér þau gæði sem landið hefur upp á að bjóða. fengið hreint kjöt af rjúpu eða svartfugli og týnt ómenguð ber úr lynginu.
það eina sem ég er ekki er blindur ofsatrúarmaður á trúarboðskap Al Gores og annara dómsdagsspámanna. Jörðin hitnar og kólnar til skiptis. Sannast best á því að nú fyrir skemmstu var sögufrægur bær Kára Sölmundarsonar (að mig minnir) að koma undan jökli. ekki var mikið um reykspúandi verksmiðjur á Landnámsöld sem ullu því að jöklar voru litlir sem engir hér á fróni á þeim tíma. er það nokkuð?
Fannar frá Rifi, 1.3.2010 kl. 20:00
Fannar frá Rifi. Ég fagna því að þú skulir lýsa þér sem náttúrubarni því það er forsenda þess að bera virðingu fyrir náttúrunni. Ég er óvæginn og orðhvatur og nenni ekki að leika tveim skjöldum í neinni umræðu og legg miklu meira upp úr þeim niðurstöðum sem pólitísk umræða lýsir en hinu sem sagt er að liggi að baki.
Það má einu gilda þótt hægt sé að finna veilur í boðskapnum um hnattræna hlýnun eða ekki. Það sem við sjáum er að ísinn á pólunum er að losna, þynnast og afleiðingarnar eru farnar að vekja ótta. Það ég best veit þá er mengun hafsvæða orðin hættuleg jafnvægi lífríkis þar er stórlaga raskað. Innhöf eru jafnvel jafnvel ekki nýtt til veiða.
Ég sé að þú ert í hópi þeirra sem ert reiðubúinn til andsvara þegar á það er bent að mannkynið sé á einn eða annan hátt farið að verða ógn við jafnvægi lífríkisins. Málið er bara svo einfalt að í þessum alvarlegu efnum ber okkur ævinlega að láta umhverfið njóta vafans. -Dálítið frasakennd ályktun en í þessu tilviki á hún svo sannarlega við.
Við getum ekki hvorttveggja; sagt að við séum náttúruunnendur og nauðgað lífríkinu með þóttasvip og háðsyrðum í garð þeirra sem segja að varkárni megi kosta peninga.
Háskólinn á Bifröst ásamt rektornum er í mínum huga útungunarstöð fyrir ESB trúfélagið sem ég hef meiri óbeit á en flestu öðru trúarbragðarugli sem þessi þjóð er búin að blanda inni stjórnmál.
Ísland er ekki flókið rekstrardæmi fyrir sæmilega skynsaman framkvæmdastjóra. Hann þarf bara að vera óskemmdur af trúarbragðarugli.
Ég vona að þú skemmist ekki af náminu í Bifröst. En mundu að langskólanám er ekki- eitt og sér- ávísun á góða menntun.
Ályktun þín um að þessa þjóð vanti fjölmenni sýnist mér benda til þess að þú hafir hlustað of lengi á þriggja milljóna fjölgunar predikarann. Þrjár milljónir fólks sem kunna ekki að lifa í þessu landi og lifa á þessu landi án þess að nauðmjólka allar orkulindir þess á tíu árum eru Íslandi tíu sinni hættulegri en þau þrjú hundruð þúsund sem kunna það ekki.
Kunna það ekki og eru örbjarga í dag vegna þess að þau héldu að hagsældin byggi í exel forritinu og fóru að verðleggja tölvupósta.
Og eyddu hagsældinni áður en hún varð að raunveruleika.
Yfir 90% þessara fávita voru með háskólapróf og diploma í hagfræði og viðskiptafræði.
Árni Gunnarsson, 2.3.2010 kl. 00:16
Árni Gunnarsson, þú ert gáfaðasti hálfviti sem þjóðin á. Berð þar af sem gull af eiri.
Björn Birgisson, 2.3.2010 kl. 00:56
hehe.
námið hjá mér á bifröst er senn á enda og ég stunda nú bara einn áfanga í fjarnámi þannig að ég er komin yfir hættulegasta hlutann. þó hef ég setið allavega tvo áfanga hjá yfir trúboðanum sjálfum Eiríki Bergmann.
og kannski ég skýri aðeins betur hvað ég á við með fjölgun Íslendinga. ég lýt á það sem nauðsyn hinna dreifðu byggða að íbúum þar fjölgi. það verður hinsvegar að gerast með eðlilegum (náttúrulegum) hraða. svo ég taki dæmi af minni heimabyggð Snæfellsbæ, þá þyrfti til lengri tíma að vera yfir 2000 manna byggðar kjarni (er í kringum 1500 í dag á Hellissandi, Rifi og Ólafsvík) bara til þess að halda uppi þjónustu fyrir íbúanna svo að það haldist byggð. að Ísland verði að milljóna ríki er frekar fráleit hugmynd.
ég lýt á málið með hnattrænahlýnun sem öfga umræðu sem kemur í veg fyrir alla umræðu um alvöru mengun og aðgerðir geng henni. á meðan við rökræðum um keisarans skegg um að jöklar hopi núna af mannavöldum (jöklar sem hafa skriðið fram og hopað með reglulegu millibili í árhundruðir) þá er engri orku varið í það að berjast gegn alvöru menngun. þú bendir réttilega á mengun sjávar. þungamálmsmengun er einhver hættulegasta mengun sem til er. öfgarnar um hnattræna hlýnun eru nú farnar að valda því að lög eru sett um að allir noti sparperur. þessar sömu perur eru fullar af kvikasilfri og ef þeim er hent eða urðar í náttúrunni þá er búið að eyðileggja hluta af landinu um ókomnatíð.
ég vil leggja áherslu á að berjast gegn menngun sem við getum barist við. ekki vindmyllur og dómsdagsspádóma sem við vitum ekki hvort séu sannir fyrr en eftir þúsund ár. þungamálmamenngun og loftmenngun eru vandamál sem við getum tekið á í dag og leyst ef við notum þá peninga sem nú fara í lofstlagsbullið.
og að auki. hitastig hækkar og það lækkar. það hitnar og kólnar. ísaldar jökull lagðist yfir Ísland og hann fór. hvergi kom maðurinn þar nálægt. núna hitnar en enn er ekki orðið eins heitt og var áður en jökullinn lagðist yfir eyjuna okkar sem áður hýsti risafurur og dádýr. hlýnun er ekki slæm nema þú sért almennt á móti breytingum og teljir að það sé ekki náttúrulegt að hitastig jarðar breytist.
Fannar frá Rifi, 2.3.2010 kl. 10:36
Björn. Seint kemur þakklæti mitt fyrir að velja mig í þetta tignarsæti, betra þó seint en aldrei. En þetta setur mig auðvitað í þá stöðu að vanda mig og standa mig í hlutverkinu. Reyndar kom það flatt upp á mig að sjá að ég væri þjóðareign og nú þarf ég að athuga hvort verðmæti mitt er viðunandi í ríkisbókhaldinu.
Fannar minn. Ég held að kannski hafi ég nú gert full harða hríð að þér á stundum og þá helst þegar stjórnun fiskveiða og framsal aflaheimilda hefur borið á góma. Þú ert skiljanlega ekki fullmótaður ennþá og hefur tekið markaðsfræði frjálshyggjunnar sem Hið Eina og Sanna vegnesti.
Ég er eldri en þú og hef séð samfélög þróast og hrynja. Ég gat fylgst ótrúlega vel með því hvernig kommúnistarnir í Sovétinu byggðu upp sín lönd með svonefndum áætlunarbúskap ámóta þeim sem þig dreymir um að skipuleggja í byggðakjörnum á norðanverðu Snæfellnesi. Ég fylgdist líka með því þegar þetta móverk sósíalismans hrundi yfir fólkið og valdstjórnina og þessi vel útreiknuðu dæmi þar sem mannlífið var orðið að tölum í prótókollum varð hlátursefni okkar á vesturhvelinu.
Frjálshyggu-og markaðshugsuðir tóku þetta dæmi hinsvegar inn í sitt kerfi án þess að viðurkenna það og flestir ykkar skilja þetta ekki ennþá.
Eitt sárasta dæmið sáum við í kvöldfréttum Sjónvarps í kvöld. Þar var viðtal við framkvæmdastjóra Íbúðarlánasjóðs og myndirnar af íbúðarblokkunum á Reyðarfirði ásamt tölum um óseldar/óseljanlegar íbúðir á næstu árum ættu að segja ykkur sem trúið ennþá á tölvustýrt mannlíf í exel að kommúnismi gengur ekkert betur á Íslandi en í Sovétríkjunum.
Hafðu mín ráð Fannar og segðu þínum mönnum á Nesinu að láta fólkið og mannlífið í friði og leyfa því bara að þróast innan frá á eigin forsendum.
Það gæti forðað ykkur frá vondum timburmönnum síðar.
Áætlunarbúskapur og forsjárhyggja er það sem okkur Íslendinga vantar síst í dag. Okkur vantar meira frelsi fyrir einstklingana og eigum að kappkosta það eitt að láta fólkið um að stjórna lífi sínu og búsetu á eigin forsendum.
Og að lokum: Það er misskilningur að sjávarbyggðir við Breiðafjörð leggist í auðn þótt fólkið sem þar býr fái leyfi til að veiða hann sjálft í friði.
Árni Gunnarsson, 3.3.2010 kl. 23:35
svona í lokinn.
ég er ekki að segja að það eigi að fara í beinar aðgerðir í áætlun hvar hver eigi að búa. þó svo að mér hafi oft fundist það vera undirliggjandi í tillögum og hugmyndafræði kvóta andstæðinga. ég vil náttúrulega fjölgun sem er og kemur eðlilega. eina sem ég vil gera er að gera barna fólki auðveldara að eignast börn og þar með gera það líklegra að fleiri börn fæðist enn færri. ástandið í Japan og Ítalíu er eitthvað sem við viljum ekki hérna. þegar það er svo komið að það eru helmingi færri í kynslóð heldur en þeirri sem kom á undan. ef það er einhverstaðar gott að búa og gott að eiga börn þá skapar fólkið atvinnuna sjálft ef atvinnu vantar.
af frjálshyggju, þá hef ég eina tilvitnun: "Fannar þú ert engin frjálshyggjumaður, þú ert íhald og jafnvel framsóknarmaður". varðandi blokkirnar þá hef ég alla tíð verið á móti Kárahnúkavirkjun. bara ekki endilega á sama hátt og græningjarnir.
Árni. þau vandamál sem eru í dag varðandi fiskveiðar eru varðandi stofnstærð. þar getum amast saman í Hafró og deilum ekki mikið um það. en það er ekki hægt að kenna reglunum (aflamarkskerfinu) um lélega dómgæslu (Hafró). aflamarkskerfið skapað verðmæti og rekstrargrunndvöll. ef kvótakerfið hefði ekki verið komið á þá hefðu öll fyrritækinn farið á höfuðið í góðærinu.
nei sjávarbyggðir leggjast ekki af. en verðmætasköpunin minnkar. því eins og ég hef reynt að segja við ykkur aflamarksandstæðinga, það þarf að selja fiskinn. það eru til miklu ódýrari fiskur sem getur á góðum degi slagað upp í gæði íslenska fisksins. tala nú ekki upp þann víetnamska eldisfiskinn sem er ódýrari heldur en beitan sem við notum.
aflamarkskerfið hefur verið gefið íslenskum útgerðum tækifæri á að skipuleggja sínar veiðar og sókn. skipuleggja þær útfrá því hvað markaðurinn biður um. þar felast mestu verðmætin.
og fólkið sem þar býr sækir hann í friði. eða gerði það allavega áður en frú Mugabe komst á þing (Ólína). mýmörg dæmi er um nýjar útgerðir í minni heimabyggð og víðar á nesinu. þetta viljið þið samt ekki tala um. enda á bara að hefja óhefta sókn. það má ekki minnast það öryggi sem aflamarkskerfið veitir við veiðar. öryggið að ef illa fer eða að viðkomandi vilji skipta um starfsvettvang, þá geti hann selt sig út og nýr maður tekið hans stað. án kvótakerfið situr viðkomandi uppi með verðlausan bát því þannig er það. bátarnir eru aldrei verðmiklir þegar þeir eru notaðir. það er endalaust hægt að framleiða nýrri og betri báta.
þú verður nefnilega að átta þig á einu Árni. ef þú vilt gefa frjálsar veiðar þá verðuru að vera tilbúinn að sætta þig frjálsar veiðar allra skipa, þar með talið togara með flottrollið sem taka hálfan fjörðinn.
og svona í alveg blálokinn. hvað telur þú Íslands mið bera mikla sókn? í dag eru um 1500 skip og bátar að veiða allt í kringum landið. myndu þau þola 2000? 3000? 5000? 10.000? því þegar þú gefur frjálsar veiðar þá er ekkert stopp og þá lækka bara laun hvers og eins. enda eru sjómenn nánast allir sem einn á móti þeim hugmyndum sem hafa verið færðar fram um fyrningu. þetta er tekjuskerðing og kjaraskerðing fyrir þá. þetta er ávísun á óstöðugleika og skref aftur á bak í launamálum. tala nú ekki um þá heimskulegu hugmynd manna að fara út úr vélvæðingunni. á að manna áttæringa aftur eða? er það markmiðið? eða á bara að flytja fólk inn í stórum stíl til þess að vinna við fisk til sjós og lands þegar þessi vinna verður orðin annarsflokks illalaunað starfs sem íslendingar vilja ekki sjást koma nálægt? því þannig hefur þetta verið. það var vandamál að manna jafnvel hin bestu skip í góðærinu og þannig mun það verða um leið og batnar aftur, sérstaklega hugmyndir þínar og þinna líka ná fram að ganga.
að það skuli veltast fyrir ykkur að reyna leggja niður sjómennsku sem starf sem íslendingar vinna. hafiði ekkert betra til málanna að leggja?
Fannar frá Rifi, 4.3.2010 kl. 18:49
Fannar minn. Þú talar langt mál um lítið efni ef svo má að orði komast. Það er löngu vitað að í málum sem þessu, þar sem hagsmunir skarast þá er auðvelt að finna öllu því sem breyta skal allt til foráttu. Ég er jafn sannfærður og þú um það að ef allar hugsanlegar breytingar á fiskveiðistjórnun okkar yrðu framkvæmdar með heimskuna eina að leiðarljósi þá væri kannski hægt að sjá enn verra kerfi en það sem við núna búum við.
Þó efa ég það nú stórlega.
En margt í boðskap þínum er beinlínis rangt. Það er hægt að halda því fram að markaðir tapist ef frystitogarar í eigu tiltekinna fyrirtækja hætti að fiska!
Þessu trúir auðvitað enginn maður. Markaðir eru ekki leyndarmál og hráefni til frystingar mun koma á land eftir sem áður. Ekkert fyrirtæki á erlendan markað.
Og finnst þér sæmandi að leggja fram ályktun á borð við að fiskveiðar muni verða svo frumstæðar eftir breytingu að áttæringum verði beitt til sjósóknar?
Fiskmarkaðirnir breyttu allri meðferð á fiski. Allir sjómenn vita það að fiskur er verðlagður eftir þeirri reynslu sem kaupandi hefur af útgerðinni. Svo einfalt er það. Og það hefur mikið verið rætt um að skipta aflaheimildum niður í þrjá eða fleiri flokka fiskiskipa. Það er ekki mikið vandamál né erfitt að breyta sókninni í fiskimiðin þannig að arðsemi veiðanna haldi sér.
Og það er skelfileg ályktun af landsbyggðarmanni eins og þér að tala um að í því felist einhver aðgerðaáætlun um byggðaþróun að gefa fólki í sjávarþorpunum kost á því að veiða fisk! Tali hver fyrir sig en mín rök hafa alltaf verið þau að fólk eigi að hafa leyfi til að bjarga sér. Það er allt annað en að segja fólki á hverju það eigi að bjarga sér.
Það er rangt að í því felist hagræðing að sækja fisk á stórum togskipum. Það er hinsvegar nauðsyn að nota þau til sóknar á fjarlæg mið. Kostnaður er hinsvegar margfaldur á hvert landað kíló ef miðað er við trillubáta á grunnmiðum. Trillurnar skila öllum aflanum í land en frystitogararnir ekki nema verðmætasta hlutanum. Þó eru dæmi um annað en því miður ekki næg.
Það verður hrun í byggðarlaginu ef frystitogari er seldur. Ekkert hrun verður þó trillukarl selji dolluna. Svona má lengi telja.
Auðvitað verður að stilla veiðum í eitthvert hóf en í dag eru greinilega of ströng höft á aflaheimildum eins og við báðir vitum.
Breytingar strax. En ekki endilega með heimskulegustu aðgerðum sem bjóðast.
Árni Gunnarsson, 5.3.2010 kl. 00:04
Ég velti því fyrir mér Árni, skyldi íslenska vera kennd við Bifröst?
Skondinn Spéfugl (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 19:57
Áttu við íslensku á háskólastigi, menntaskólastigi, grunnskólastigi eða leikskólastigi? Varla átt þú við gullaldaríslensku, Skondni Spéfugl?
Björn Birgisson, 5.3.2010 kl. 20:41
Skondinn Spéfugl og Björn Birgisson. Ekki er mér kunnugt um íslenskukennsluna á Bifröst en gef mér að einhver fagleg tungumálakennsla þurfi að fylgja náminu. Ágúst rektor talar allgóða íslensku að forminu til en þó tel ég nú að því minna sem nemendurnir hlusta á hann þeim mun betur séu þeir settir þegar út í lífið er komið.
Til þess að læra góða íslensku þarf áhuga á þjóðtungunni. Komi hann ekki við lestur góðra bóka þá er vonlítið um mikinn árangur. Sá sem hefur kynnt sér og lesið af græðgi rit stórskálda á borð við Stephan G. Guttorm J. Guttormsson og nokkra aðra nútímahöfunda ónefnda Þarf ekki langa kennslu í íslensku.
Auðvitað skiptir það máli fyrir alla sem vilja taka þátt í þjóðmálaumræðu eða hverri annari umræðu að temja sér í það minnsta hnökralaust málfar.
Engan þarft þú nú að öfunda þar Björn minn Birgisson.
Árni Gunnarsson, 5.3.2010 kl. 23:46
Bara þig! Með kveðju!
Björn Birgisson, 6.3.2010 kl. 13:39
Já það er víst sagt að aumur sé öfundlaus maður!
Árni Gunnarsson, 6.3.2010 kl. 14:01
gaman að sjá að menn nýðist að þeim sem eru skrifblindir.
Fannar frá Rifi, 9.3.2010 kl. 10:33
Fannar: Þessi athugasemd þín er réttmæt og ekki vonum fyrr að hún sjáist hér á þessum vettvangi. Ég hef þóst taka eftir þessu í þínum skrifum og ég minnist þess nú ekki að hafa beitt þig neinum háðsyrðum í tengslum við það. Vona að ég muni það rétt. En ég vil benda þér á að prófa að nýta þér boðið um prentvillupúkann svonefndan sem mér skilst að hægt sé að fá afnot af gegn gjaldi. Reyndar hef ég ekki kynnt mér það neitt sjálfur.
Fæst erum við nú svo fullkomin að ekki finnist hjá okkur fötlun í einhverja veru og eiginlega ættum við að eiga rétt á því að sleppa við áreitni vegna þess. Þar átt þú í það minnsta allan minn stuðning.
Árni Gunnarsson, 9.3.2010 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.