Opið bréf til Björns Vals Gíslasonar

Sæll vertu!

Grein sem þú skrifar í dag í Fréttablaðið undir titlinum Sáttanefnd um stjórn fiskveiða hefðir þú betur sleppt að skrifa. Það versta af mörgu slæmu sem sýnilega er hvati að þessum dæmalausa pistli er sú trú að hann lesi ekki aðrir en þeir sem auðvelt sé að blekkja. Það er misskilningur.

Í þessari grein kemur fram sú bjartsýni að sáttanefndin muni ná lendingu um samkomulag og niðurstöðu. Það sem greinin segir frá er á hinn bóginn sönnun þess að svo mun ekki verða.

Það vissu það flestir um leið og þessi sáttanefnd var skipuð að hennar hlutverk væri ekki annað en að drepa á dreif einu sinni enn því fyrirkvíðanlega verkefni sjávarútvegsráðherra að takast á við þetta mál og leysa það í ríkisstjórn. Nú hefur þú staðfest það og það er þitt skársta innlegg.

Þú nefnir- og raðar niður- því sem nefndin hafi komið sér saman um. Afar fáa varðar neitt um þau atriði því verkefnið var að leysa heitasta pólitíska ágreiningmál þjóðarinnar um áratuga skeið. Og þú greinir frá því að þau tvö pólitísku aðalatriði málsins séu að vísu enn óleyst!

Það sem upp úr stendur í allri þeirri holtaþoku orðhengilsháttarins í nefndum greinarstubbi þínum er:

LÍÚ hefur ekki tekið þátt í starfi nefndarinnar síðustu mánuðina og nú hafa Samtök fiskvinnslustöðva ákveðið að gera slíkt hið sama. Vonandi koma þessir aðilar þó aftur til leiks og ljúka með okkur því starfi sem lagt var upp með í upphafi, þ.e.að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða til framtíðar.

Ekki er með nokkru móti unnt að staðfesta betur en þarna er gert þann bitra veruleika að í stað þess að ríkisstjórn setji hagsmunasamtökum skilyrði í samningavinnu um pólitískt hagsmunamál þá setja hagsmunasamtökin ríkisstjórninni skilyrði og komast upp með það!

Verður pólitískur vesaldómur dýpri og átakanlegri en þetta?

Sáttanefndin átti að ljúka störfum og komast að niðurstöðu fyrir lok vorþings til þess að hægt yrði að leggja fram í tæka tíð og samþykkja breytingar sem tækju gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs. Nú veist þú að svo verður ekki og þú mátt vita að við sem með þessu höfum fylgst vitum það líka.

Þessi grein þín Björn Valur er skelfileg og þér tókst ekki að þyrla með henni ryki í augu nokkurs manns.

Kveð þig með ósk um vaxandi þrótt til pólitískrar vinnu í þágu þinna umbjóðenda.

 Árni Gunnarsson frá Reykjum á Reykjaströnd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

LÍÚ hefur, með útgöngu sinni, afsalað sér rétti og tækifæri til  að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu þessa úldna máls. Það er því fráleitt að stjórnvöld eða fulltrúar þeirra viðhafi einhverra tilburði til að troða hagsmunum LÍÚ inn í dæmið, hafi þeir ekki áhuga á því sjálfir.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.4.2010 kl. 16:18

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Axel. Fulltrúum LÍÚ tókst það sem þeir í upphafi ætluðu sér. Með því að tefja málið tókst þeim að verjast lagabreytingunni í eitt ár það minnsta. Þetta kostaði þá enga fyrirhöfn. Þeir bara einfaldlega mættu ekki á fundi og það stöðvaði alla vinnu "sáttanefndarinnar!"

Tuttugu fulltrúar skipaðir úr hinum ýmsu hagsmunahópum auk fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum sátu og horfðu í gaupnir sér vegna þess að fulltrúar þeirra sem skipuðu aðalhlutverkið gáfu sjávarútvegsráðherra einfaldlega langt nef og sögðu:

"Hér verður ekkert gert fyrr en við kærum okkur um, því það erum við sem ráðum en ekki ráðherrann." (það vissi hann reyndar sjálfur allan tímann)

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 16:42

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mér hefur fundist ráðherra málaflokksins hafa sýnt af sér nokkurn gunguhátt í þessu máli og skýlt sér á bak við þá firru að hægt sé að fara bil beggja. Það verður aldrei hægt í þessu máli og hann veit það örugglega manna best. Mér er hulin ráðgáta hvernig mönnum datt í hug að fela honum þennan málaflokk, vitandi að ekki yrði átakalaust að ná fram nauðsynlegum breytingum. 

En það má LÍÚ eiga að þeir kunna að velja sér forsvarsmenn. Kristján nokkur Ragnarsson grét á öllum samningafundum uns allir grétu með honum, það hef ég reynt á eigin skinni. Ekki gátu þeir valið einlægari LÍÚ mann en Friðrik J. Arngrímsson til að fylla hans skarð. Við Friðrik vorum skipsfélagar um áraskeið á Örvari HU 21 þar sem hann var 2. stýrimaður. Þá þegar var ljóst hvar hugurinn var og hvoru megin hjarta hans sló. Ef upp kom ágreiningur um samning, þá brást það ekki að Friðrik tók málstað útgerðarinnar, gegn skipsfélögum sínum og sjálfum sér. Þetta var af okkur kallað að fórna sér fyrir málstaðinn með öfugum formerkjum. Friðrik fór síðan í lögfræðina, eflaust með þetta göfuga starf sem takmark, enda trúr sínu og ekki með annan metnað.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.4.2010 kl. 17:23

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þau ná nokkuð aftur skipstjóragenin í Friðriki og ekkert er neinum skipstjóra traustari bakhjarl til að að tryggja góðar tekjur en gott pláss hjá öflugu útgerðarfyrirtæki.

Ég hef góðan hug til Jóns míns Bjarnasonar en þykist sjá að hann vanti bakfiskinn í sálina til að ganga á hólm við úlfahjörðina hjá LÍÚ. Verði ekki breyting þar á og það fyrr en seinna mun hann verða hrakinn úr þessu embætti af þjóðinni. Það er nefnilega komið alveg að suðunni.

Og ég mun ekki spara mig við að afla kolanna til að kynda þann eld.

Nógu lengi er fólkið á landbyggðinni búið að vera soltið leiguþý kvótagreifanna.

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 17:39

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það er grundvallarregla að semja aldrei við hryðjuverkamenn. Fyrst verða þeir að leggja niður vopn, sleppa gíslum og haga sér eins og siðað fólk, síðan má ræða við þá. Sægarpar Íslands gera rétt í því að ræða ekki við þessa vinstri vitleysinga sem nú sitja í stjórnarráðinu. Ríkisstjórnin, undir forystu Jóns beinlausa Bjarnasonar, hefur svívirt áratuga samstarf og samkomulag við sægarpana, hunsað stöðugleikasáttmálann ítrekað og vaðið fram með slíku offorsi að henni treystir enginn maður lengur.

Náhirð Jóhönnu verður að virða stöðugleikasáttmálann, virða samkomulag og hefðgróið verklag við úthlutun kvóta, og þá er hægt að tala við hana - ekki fyrr.

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 18:01

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur.Ertu að bera þessari ríkisstjórn okkar á brýn einhverja vinstri villu?

Annars er rétt að þið vitið það flóttalið bláhersins að þessi síða mín er virðulegur samskiptamiðill en ekki vettvangur fyrir útrás ykkar við drykkjuraus.

Meðferð Baldur minn. Meðferð!

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 18:15

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hehe ég get aðeins svarað því til að hefði ég haft vit á því að hætta EKKI að drekka fyrir 38 árum væri ég sjálfsagt lífsglaðari maður núna. Meiri vitleysan að hætta áfengisneyslu. En sumum mönnum er hreinlega ekki viðbjargandi.

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 18:24

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, ég get alveg sett mig í þín spor kæri vinur. Ekki vildi ég vera sjálfstæðismaður í dag og ófullur í þokkabót!

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 18:35

9 identicon

Sæll Árni og takk fyrir „bréfið“! Ég verð að vera þér ósammála um að það hafi flestir vitað að hlutverk nefndarinnar hafi verið að drepa málinu á dreif, eins og þú segir. Ég trúi því að allir þeir sem settust við þetta borð á síðasta ári hafi gert það í góðum hug og með það að markmiði að leysa málið. Það gerði ég í það minnsta og er þar enn á sömu forsendum. Ég verð líka að vera þér ósammála um að grein mín sé einhverskonar staðfesting á því að hagsmunasamtök komist upp með að setja ríkisstjórninni skilyrði í þessu máli. Ég þekki engin dæmi um slíkt að hagsmunaaðilar hafi tekist það, þó vissulega reyni margir að hafa áhrif á störf stjórnarinnar, innan sum utan sjávarútvegsins. Ég verð sömuleiðis að vera þér ósammála um að til hafi staðið að breytingar þær sem nefndin á að leggja til á lögum um stjórn fiskveiða eigi að taka gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að áætlun um breytingar á stjórn fiskveiða eigi að liggja fyrir 1. september 2010. Ég vona svo sannarlega að það takist.
Það getur hinsvegar vel verið að mörgum finnist grein mín vera skelfileg og ég hafi með henni reynt að slá ryki í augu fólks. Það var hinsvegar alls ekki ætlun mín að slá ryki í augu nokkurs manns og fagna því að það hafi ekki tekist, eins og þú reyndar staðfestir. Með greininni vildi ég einfaldlega varpa ljósi á stöðu þeirrar vinnu sem fram hefur farið í nefndinni, nefna annarsvegar þau atriði sem við erum nokkuð sammála um og hinsvegar það sem okkur greinir á og þurfum að einbeita okkur að. Það er rétt hjá þér að samtök fiskvinnslustöðva hafa sagt sig úr nefndinni og LÍÚ hafa ekki mætt til funda síðan í haust. Eigum við þá að hætta? Láta þessa aðila beygja okkur til að leysa starfið upp? Kúga okkur til hlýðni? Hvað með alla hina sem sitja í nefndinni – eigum við að hætta að tala við þá vegna þess að LÍÚ og fiskvinnslustöðvar vilja ekki vera með? Hvað með sveitarfélögin, smábátaeigendur, fiskframaleiðendur, stéttarfélögin og fleiri? Eigum við öll að láta stjórnast af duttlungum annarra hvort við tölum saman og leitum lausna á málum? Ég get ekki verið sammála þér um það og held því ótrauður áfram mínu starfi á þessum vettvangi með þá óbilandi trú í farteskinu að hægt sé að leysa öll mál sé til þess vilji.

Björn Valur (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 18:45

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Árni,

gótt bréf hjá þér.

Það á bara að innkalla kvótann með tilkynningu, málið dautt.

Gunnar Skúli Ármannsson, 15.4.2010 kl. 18:59

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

Gunnar, viltu ekki líka innkalla kvóta kúabónda og fjárbænda með tilkynningu?

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 19:40

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér svarið Björn Valur. Með þeim orðhengilshætti að auðvitað þyrfti að nást sátt um stjórn fiskveiða drap Halldór Ásgrímsson málinu á dreif um áraraðir og sótti atkvæði handa flokknum út á það eins og vörur í kjörbúð í hverjum kosningum eftir aðrar.

Þetta snýst um þá einföldu staðreynd að enginn afhendir mótþróalaust það sem hann hefur fengið að nýta án endurgjalds. 

Málið strandar vegna þess að LÍÚ forystan kemst upp með að stöðva það. Ráðherra setti þetta mál í farveg s.l. haust og ráðherra hefur stöðu til að setja samningsaðilum tímamörk. Einfalt.

Þetta mál er ekki án undrbúnings Björn Valur og það vitum við báðir. LÍÚ hefur um áratugi haft frítt spil í þessu máli í boði D og B flokkanna. Sjávarútvegsráðherrarnir hafa verið grímulaust handbendi þessara samtaka sem árlega eru að misbjóða fólki með því að hirða út úr rekstrinum milljarða að eigin geðþótta. Hafa haldið uppi leiguverði á kvóta með skorttöku í aflaheimildum þvert á allan skilning reyndra skipstjórnarmanna og nú er ég að segja þér það sem þú veist betur en ég.

Undarleg spurning hvort ég telji að nú eigi þá bara að stöðva störf nefndarinnar! Það væri skrýtin stjórnsýsla ef stjórnvöld heyktust á því að breyta lögum vegna þess að þeirra sem slógu á sáttahöndina með hroka.

Lög um stjórnun fiskveiða á Islandi verða ekki sett með vissu um að þau séu jafngildi einasannleika. Þessi lög þarf auðvitað að endurskoða í nýju ljósi þegar því er brugðið á loft. Til þess er stjórnsýsla þjóðarinnar og hún er ónýt ef hún skelfur af hræðslu við hagsmunasamtök.

Einboðið er að sáttanefndin haldi sínu starfi áfram og þeir sem gengið hafa á brott eiga ekki við aðra að sakast en sjálfa sig ef þeir telja á sér brotið. Það er spurning um pólitískan þrótt að ljúka þessari vinnu og loka málinu með þeim breytingum sem þurfa þykir.

Það er bull að halda því fram að útgerð sé stefnt í voða með innköllun kvótans og jafnt þó það yrði gert á morgun með lögum. Fiskur mun halda áfram að veiðast við Ísland eftir sem áður og veðsetningar útgerða er viðfangsefni til að leysa með samvinnu við stjórnvöld. Margar- fjölmargar leiðir til að leysa öll þau mál sem á annað birð eru ekki orðin óleysanleg vegna vanburða eð óheiðarleika.

Og það er ekki einu sinni hægt að hlægja þegar LÍÚ setur málið í uppnám vegna þess að ört vaxandi flökkutegund eins og skötuselurinn er var ekki viðurkennd eign þeirra örfáu útgerða sem höfðu fiktað við að veiða hann. 

Svo get ég ekki stillt mig um að benda þér á að það er engin hætta á ferðum þó tekið verði til við að rýmka allar reglur um handfæraveiðar á grunnmiðum og þreifa sig svo bara áfram eftir þeirri reynslu sem þar fæst.

Það eru mannréttindi einstaklinga og fjölskyldna sem hafa orðið að víkja fyrir hagsmunum sameinaðra auðmanna. Ef vinstri stjórn treystir sér ekki til að verja réttindi fólks í stríði við réttindi auðmagns þá á hún að segja fólkinu það undanbragðalaust.

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 20:06

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur: Ef þú hefðir spurt mig í stað Gunnars hefði ég svarað þér því til að það kæmi auðvitað vel til greina. Ég sé enga ástæðu til þess að ég þurfi að kaupa af Li ju Gong á Efri Rotþró í Eyðikotasveit leyfi til að framleiða lambakjöt eða mjólk til að framleiða og selja.

Ekki fremur en að kaupa leyfi af Baugi til að setja upp matvöruverslun. Ég er svo líkur þér í hugarfari að því leytinu að ég sætti mig ekki við að frelsi einstaklingsins sé skert af kommúnistum eins og gert er nú í stjórnun fiskveiða og sjálfstæðismenn hafa varið með oddi og egg og gera enn. Að sjálfsögðu!

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 20:21

14 Smámynd: Grétar Mar Jónsson

Sæll Árni .

Þetta er gott brét hjá þér.

Ég vildi einnig benda á að Björn Valur, Ólína og Guðbjartur eru skoðunarsystkini um það að hafa óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Þau eru að boða það að þjóðin eigi fiskinn en útgerðarmennirnir hafi áfram nýtingarréttin, miðað við veiðireynslu sem þýðir ekkert annað en óbreytt kerfi, engin nýliðun, engar auknar tekjur fyrir ríkissjóð, áfram leiguliðar og áfram brot á mannréttindum.

Bestu kveðjur,
Grétar Mar.

Grétar Mar Jónsson, 15.4.2010 kl. 20:43

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú segir nokkuð Grétar! Eiginlega er ég ekki tilbúinn að trúa því að Ólína leiki tveim skjöldum í þessu máli. En þessi grein hans Björns virkaði nú fyrst á mig svona ámóta og ef ég hefði verið barinn í hausinn með golfkylfu. Þegar ég fékk svo svarið í ofanálag með spurningunni um "hvort ég teldi þá að nefndin ætti að hætta störfum vegna fjarveru þessara hagsmunasamtaka" áttaði ég mig enn betur en áður á því að fulltrúar ríkisstjórnar í nefndinni ráða ekki ferðinni. Það gerir LÍÚ rétt eins og verið hefur.

Það reyndist vera lítið á bak við þóttafulla yfirlýsingu Jóns míns Bjarnasonar þegar hann sagði eftir viðbrögðin við úthlutun skötuselskvótans að "LÍÚ væri ekki í ríksisstjórn." Eða var það ekki orðalagið?

Það var haft eftir grátmeistaranum Kristjáni Ragnarssyni að hann hefði aðspurður um af hverju hann færi ekki í stjórnmálin og settist inn á Alþingi gefið eftirfarandi svar:

"Af því ég hef meiri völd þar sem ég er í forsvari fyrir LÍÚ."

Það þarf áreiðanlega að herða reglur um styrki til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka að mun. 

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 21:26

16 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Árni, Gott framtak hjá þér og enn betra hjá Birni Vali að svara. En stundum fáum við ekki þau svör sem við óskum eftir og svo mun vera í þetta sinn. Ég er sammála Grétari Mar, og segi bara , þeir eru viðar framsóknarmennirnir en í Framsóknarflokknum.  Og skötuselsfrumvarpið og strandveiðarnar áttu aldrei að vera annað en smjörklípa. Hér breytist ekkert varðandi eignarrétt eða nýtingu á fiskinum okkar nema við losum okkur við fjórflokkinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 15.4.2010 kl. 23:10

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jóhannes. Þakka þér innlitið og vingjarnlega ályktun í minn garð. Ég lít svo á að þessi þjóð sé á tímamótum og nú sé að hefjast barátta upp á líf og dauða í næstum eiginlegri merkingu. Stór spurning er á skjánum: Eigum við að sætta okkur áfram við griðrof, siðrof og pólitíska úrkynjun eða rísum við upp og krefjum stjórnvöld um að nýta tækifærið sem hrunið gefur okkur til þess að byggja upp samfélag á forsendum fólksins?

Ef vð gerum það ekki núna og verðum hávær og samhljóma þá fáum við ekki tækifæri seinna.

Munum að "það eru verst hin þöglu svik/ að þegja við öllu röngu.

Mikill hluti kjósenda batt vonir við Vinstri græna og höfðu til þess ríkar ástæður. Þetta stjórnmálaafl hafði verið sjálfu sér samkvæmt í heiðarlegu andófi gegn spillingu og græðgi. Og formaðurinn hafði sýnt að hann greindi stöðuna rétt þegar hann leyfði sér "að vera á móti öllu" þegar kappakstur græðginnar fram af brún hengiflugsins hófst. Vistri grænir komu eins og ferkur andblær vonarinnar inn í svartnætti pólitískrar heimsku á Íslandi og þjóðin hreifst með.

Sá andblær má ekki breytast í sífelldan áttabarning.

En því miður þá sýnist mér vanta pólitíska djörfung í forystuna.

Þetta er auðvitað mitt viðhorf sem ég geri ekki ráð fyrir að allir taki undir.

En eftir stendur samt sem áður að krafan um siðbætt samfélag verður að fá þann þunga sem hún þarfnast. Það er mikið í húfi og sljóleikinn sækir á ef bardaginn linast.

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 23:39

18 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Árni , maður hressist allur við að heyra þessi frýjunarorð   Ekki skorast ég undan ef orð mín mega sér einhvers.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.4.2010 kl. 01:07

19 Smámynd: Kristinn Pétursson

Mér finnst nú margt gott í þessu hjá Árna.

Gallinn við fiskveiðistjórnina er mestur sá - að grundvallarforsendan er haugalygi.  Það er ekki "árangur" af  niðurskurði veiða - það er stórtjón - afrakstur fiskimiða í þorski,  ýsu o. fl. bolfiski er í sögulegu lágmarki....

hvernig geta menn kallað slíkt "árangur".

Besta lausnin virðist að taka við af Barentshafinu  s.l. 10 ár - nýta þá reynslu - og nýta verðlagningu aflaheimilda í þorski ´´i Barentshafi  til að "núllstilla" veðsetningu aflaheimilda hérlendis....

hafa veðsetninguna 70% af verðlagningu aflaheimilda í Barentshafinu - og "núllstilla" og gera upp eftir því....

Kristinn Pétursson, 16.4.2010 kl. 12:38

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kristinn. Kannski er enginn með bestu lausnina en hún er áreiðanlega til hvort sem hún finnst. En sú lausn mun aldrei finnast nema að henni sé leitað og hennar verður ekki leitað á meðan pólitískt samþykki er fyrir því að sleppa allri gagnrýni.  Það sem við búum við í dag getur ekki verið langt frá því að vera versta aðferðin til að nýta þessa auðlind og því megum við aldrei una þegjandi.

Ótal margar aðferðir eru í boði til að prófa sig áfram við aukningu aflaheimilda og það án þess að hætta nokkra áhættu.

Árni Gunnarsson, 16.4.2010 kl. 12:55

21 Smámynd: Auðun Gíslason

Ágætt framlag hjá þér, Árni minn!  Gott fyrir Kallinn (Björn Val) að vita að það er fylgst með honum og þessari nefndarómynd!  Þessi svokallaða fyrningarleið er í besta falli rugl!  Það á einfaldlega að gera allan kvótann upptækan á einu bretti, ekki seinna en núna!  Allt einkaeignarkjaftæðið (ær og kýr gosanna í Sjálfgræðisflokknum) á að hunsa!  Niðurrifsöfl einsog LÍÚ, D-listann og Farmsókn uppræta og banna með lögum!  Þjófaflokkar hafa fengið að þrífast hér á landi alltof lengi!

P.s. Hvað varðar Baldur þennan vin þinn, þá sýnist mér á skrifum hans, að hann hafi hætt að drekka þegar það var orðið um seinan fyrir hann!  Siggi Gunnsteins, staðarhaldari á Sogni og á Vík, lýsti því þannig, að hann hefði sjálfur verið í sama kántrí-rokk gallanum, þegar hann hætt að drekka og þegar hann byrjaði!  Baldur virðist ekkert hafa þroskast á þessum 30 þurru árum sínum!  Er sem sagt enn í kántrí-gallanum, eða með öðrum orðum, enn í viðjum hugarfarsins!  Á bólakafi í fjóshaugnum!

Auðun Gíslason, 16.4.2010 kl. 19:10

22 Smámynd: Auðun Gíslason

"...á að uppræta og banna..."  átti það að vera!

Auðun Gíslason, 16.4.2010 kl. 19:11

23 Smámynd: Björn Birgisson

Árni Gunnarsson frá Reykjum á Reykjaströnd. Í baráttu þinni fyrir breytingum á því, sem gerist milli flæðarmálsins og landhelgislínunnar og í ráðuneyti sjávarútvegsmála, áttu þér marga stuðningsmenn. Alla vega veit ég dável um einn. 

Björn Birgisson, 16.4.2010 kl. 19:14

24 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðun. Ég held að þessu landi verði bara ekki bjargað á meðan Baldur er á lífi.

Árni Gunnarsson, 17.4.2010 kl. 00:05

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn B. Ég veit að ég er ekki einn í þessari baráttu og jafnframt að þar eru margir öflugir baráttumenn að vinna. En það er óskiljanlegt að þessi hagsmunaklíka skuli vera búin að taka völdin af ríkisstjórninni og stjórni nú vinnu þeirrar nefndar sem skipuð var til að vinna tiltekna vinnu á tilsettum tíma.

Björn Valur sættir sig við þetta og vonar að mennirnir átti sig nú kannski svona einhvern tímann. 

Árni Gunnarsson, 17.4.2010 kl. 00:20

26 Smámynd: Baldur Hermannsson

Baldur er í kántrý-gallanum. Baldur er í viðjum hugarfarsins. Baldur er á kafi í fjórshaugnum. Baldur er á lífi. Minna má nú gagn gera strákar mínir, svo ég leyfi mér að vitna í Snorra :)

Baldur Hermannsson, 17.4.2010 kl. 13:44

27 Smámynd: Baldur Hermannsson

En mér sýnist niðurstaðan úr þessu spjalli manna vera sú að ekki sé ráðlegt að hrófla við kvótakerfinu að sinni. Hyggilegra sé að sjá til hvort ekki komi sterk ríkisstjórn eftir þessari, þá verður efnahagslífið vonandi komið á kjöl og þá mætti huga að einhverjum breytingum ef menn eru enn á því að þeirra sé þörf.

Baldur Hermannsson, 17.4.2010 kl. 13:46

28 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur. Enda þótt maður leyfi sér galgopahátt, smekklegan eftir atvikum þá er það efni sem hér er lagt upp með til umræðu langt ofan við allan galgopaskap. Við erum að tala um að örlög fólks og heilla landshluta hafa verið niðurlægð. Og þessi niðurlæging mannlífsins var í þágu einhverra góðvina spilltra pólitíkusa.

Öll þjóðin hefur beðið fjáhagslegt tjón. Engin kómik í samfélagslegum óþverraskap.

Árni Gunnarsson, 17.4.2010 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband