18.4.2010 | 22:55
Frómagerði
Margir hlógu þegar lykilmenn íslenskrar stjórnsýslu komu í viðtöl hjá fjölmiðlum á fyrstu dögum eftir hrunið 2008 og lýstu yfir algeru sakleysi af mistökum í nokkra veru. Og mörgum ofbauð víst þegar höfundar rannsóknarskýrslunnar upplýstu að af 147 miklvægum gerendum höfðu lýst yfir sakleysi.
Fyrir nokkrum áratugum kom upp grunur um fjárdrátt hjá almenningsfyrirtæki úti á landsbyggðinni. Frankvæmdastjórinn lá undir einhverjum grun enda hafði hann á þessum tíma byggt sér dýrt og vandað hús sem mörgum fannst að hlyti að vera jafnvel launum hans ofviða.
Framkvæmdastjórinn sór og sárt við lagði að þessi fjárdráttur væri sér hulin ráðgáta því hann hefði á allri sinni stjórnartíð eytt miklum tíma við að tryggja sem best að ekkert færi forgörðum af verðmætum fyrirtækisins. Framkvæmdastjórinn slapp við dóm ef ég man rétt. En þetta varð hagmæltum galgopa i byggðarlaginu efni til eftirfarandi vísu:
Að eigin dómi ekkert hvarf
en eyddi skóm á verði.
Og eftir rómað ævistarf
eignaðist Frómagerði.
Hús framkvæmdastjórans gekk þaðan af undir nafninu Frómagerði.
Hversu margar glæsihallir gætu borið þetta nafn í dag?
Gæti einhver þeirra jafvel verið skráð á nafn maka einhvers af þessum 147 blásaklausu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er margslungin list að stela og sannleikurinn er með því verðmætasta sem við eigum. Því ber að fara varlega og sparlega með hann.
Björn Birgisson, 19.4.2010 kl. 01:02
Það sem ýtir undir "sakleysi" þessara hunda er náttúrlega klæðskerasniðin hvítbókin, sem menn kalla rannsóknarskýrslu. Hún gengur aðeins nógu langt til að kallast gagnrýnisrödd á stjórnendur. Ráðamenn í bullandi bissness og hluti í bönkum auk milljarða í frjálsu lánaflæðis frá sömu stofnunum, fá bara æ,æ skamm. Peningjagjafir upp á tugmilljónir frá glæpastofnunumtil stjórnmálflokka, skoðastsem óæskilegt íljósi þess sem síðar kemurí ljós. Össur notar innherja upplýsingar til að selja bréfin í spaisjóðnum kortér fyrir hrun, eins og ráuneytisstjórinn ógæfusami, en situr enn sem ráðherra. Enginn æmtir.
Ég man þá tíð að einhver sænskur ráðherra þurfti að taka pokann sinn fyrir að kaupa toblerone súkkulaði á kort ríkisins og átti sér aldrei viðreisnar von. Dugnaðarforkur og vinsæll frambjóðandi í Noregi dró sig úr kosningaslagnum þegar í ljós kom að hann hafði gert út trillu fyrir 20 árum og gleymt að borga kostinn í eitt skipti. Sennilega er hann aftur kominn á tillu.
Maður spyr sig. Hvað þarf til hér? Hafa aldrei verið til neinar siðareglur, sem menn miða sig við, strangar eða slakar? Það virðist bara ekki vera. Hér er það frumskógalögmálið óskráða sem er í hávegum haft. Survival of the fattest.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.4.2010 kl. 01:47
Björn. Mér hefur nú sýnst að flestir beri svo mikla virðingu fyrir sannleikanum núorðið að hann hafi verið læstur inni í skáp. Í staðinn hefur svo verið búinn til annar sannleikur sem er miklu sveigjanlegri og huggulegri.
Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 07:25
Jón Steinar. Rannsóknarskýrslan er langt frá tæmandi og kannski er það ástæðan fyrir því hversu margir pólitíkusar bera á hana svona mikið lof.
Nú reynir á hvort kjarkur og heiðarleiki stjórnvalda nægir til þess að bregðast við þeim fjölmörgu verkefnum til rannsóknar sem skýrslan tekur ekki til.
Það mun koma í ljós hvort stjórnendur lífeyrisstjóða hafa komið sér svo vel fyrir í þessu þöggunarkerfi að starfsemi þeirra verði hlíft við opinberri rannsókn.
Kjarkleysi ríkisstjórnarinnar þegar að frumkvæði kemur er altækt enda er stjórnmála-og embættismannakerfið skipað klúbbfélögum og kviðmágum svo langt sem augað eygir.
Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 07:36
Það er athyglisvert að þetta fólk sem (nauðugt) segist vera að axla ábyrgð þessa dagana er að gera það fyrir flokkinn sinn! Það telur sig greinilega ekki skulda þjóðinni neitt.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 19.4.2010 kl. 12:46
Já, Axel og svo er það nú ekki trúverðug iðrun sem kemur eftir þrýsting utan frá.
En forgangröð er auðvitað alveg skýr hjá siðleysingum í pólitík. þar kemur samfélagið síðast.
En nú er ég farinn að óttast það að Vinstri gænir láti sér nægja að vera ekki sakaðir um afglöp. Og að þeir bara átti sig ekki nægilega vel á því að þeirra hluverk er nnað og verkefnin stærri en svo að það eitt nægi að vera laus við ákærur.
Einar Benediktsson skáld nennti ekki að hlusta lengi á mikið lof sem viðstaddir báru á þekktan bindindismann. "Ég veit nú ekki til þess að annað liggi eftir hann en það að hafa alla ævina stritast við að vera ófullur."
Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.