Musteri óttans í sjávarútvegsráðuneyti

Nýlega gaf ráðherra út 3000 tonna makrílkvóta fyrir smábáta og glaðnaði þá yfir mörgum eigendum trillubátanna. LÍÚ hafði í hótunum og hætti nefndarstöfum í sáttanefndinni og stöðvaði vinnu hennar. Komst upp með það. Núna voru sjómenn farnir að undirbúa makrílveiðar í net og farmur af netum er á leiðinni til landsins. En nú er komið babb i bátinn. Yfirmaður allrar laxveiði við Atlantshaf tók að óróast og sagði sjávarútvegsráðherra að það gæti hæglega slysast lax í þessi makrílnet og mæltist til þess að ósóminn yrði stöðvaður áður en laxastofninum í Atlantshafi yrði tortímtt.

-Það er nú barasta alveg sjálfsagt maður! svaraði Jón og gaf út reglugerð samstundis þar sem allar netaveiðar á makríl jafngilda mannsmorði eða nauðgun.

Fyrir allnokkrum árum urðu tveir trillukarlar uppvísir að því að hafa lagt ýsunet í ósastaumana svonefnda norður með Hegranesinu vestanmegin og fengið þar eitthvað af laxi handa sér í matinn. Lax gengur að sjálfsögðu upp í vesturós Héraðsvatna þarna og dreifist um hinar ýmsu veiðiár.

Við þessu var brugðist með því að banna ýsunet vestan við Hegranesið og málið var dautt.

Vandalaust hefði verið að banna makrílveiði í net á þeim svæðum þar sem lax gengur að hrygningarstöðvunum í ánum.

Óttinn við hina og þessa þrýstihópa virðist hafa tekið öll völd af þeim ágæta dreng Jóni Bjarnasyni. Það var mikið slys því hann á marga vini sem væntu mikils af honum og hann átti þess kost að breyta mannlífinu á landsbyggðinni frá örbirgð til hagsældar. Nú eru vonbrigði okkar vina hans orðin hálfgerð þjáning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Árni; æfinlega !

Skolli er Jón - og Skolli skal hann nefnast, helvízkur ódrátturinn.

Má vera; að hann þekki lambsauð frá hrossi, en mér til efs, að þetta fífl þekki muninn á Þorki eða Keilu.

Hann sæmir sér bezt; í röðum hinna skriftlærðu hvítflibba - ekki; á meðal sjómanna og bænda, að minnsta kosti.

Hitt er annað mál; að íslenzkir sjómenn og fiskverkendur, ættu fyrir löngu, að vera búnir að hunza; alfarið, flónið Jóhann Sigurjónsson, á Haf rannsókna stofnun, frænda minn, svo og Fiskistofu grútar yrðlingana, og hefja veiðar, á ÖLLUM tegundum, á sínum eigin Landnáms forsendum, Skagfirðingur góður.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 21:20

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og nú segi ég eins og hann Ottó heitinn frændi minn í Viðvík:

"Og þetta eru lög!"

Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 21:55

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

 Þetta er alveg ótrúlegt að þetta skuli gerast. Hvað með brot á mannréttindum á sjómönnum sem Ráðherrann ætlaði að taka fyrir, og hamraði á fyrir síðustu kosningar. Maður hafði svo mikla trú á að þetta væri nú að breytast með öðrum áherslum og mönnum? Ráðherrann er búinn að vera með þessum gjörningi, hann er að verða fallbyssufóður hagsmunasamtaka og frekjuhunda.

Bjarni Kjartansson, 19.4.2010 kl. 22:43

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Vinastjórnmál eru alls ekki hætt. Það er alveg glás af fólki sem ennþá er að kippa í spottana.

Væri ekki ráð að fá eina svona skýrslu yfir vina og frænapot. Þá færu margir að ganga með veggjum.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 19.4.2010 kl. 23:03

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já Bjarni. Svona viðbrögð ráðherra eru svo raunaleg að manni fallast hendur. Líklega er skýringanna þó ekki að leita í ótta laxveiðimanna eins og opinbera skýringin gaf til kynna. Miklar líkur eru á að þetta sé klókindaleg skákflétta leikin í þágu LÍÚ.

Það var nefnilega ljóst að þessar veiðar á makríl í reknet hefðu skilað sjómönnum umtalsverðum tekjum og þá hefði þeim verið haldið áfram og mjög sennilega auknar. En með því að hreinsa þetta út eru meiri líkur til að handfæra -og línuveiðarnar verði ekki nægilega ábatasamar til að halda þeim áfram.

Þá mun LÍÚ taka við þessum kvóta. Þeir kunna að tefla skákirnar en Jón er greinilega ekki sterkur skákmaður.

Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 23:10

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún: Það myndi enginn ein nefnd komast yfir slíkt risaverkefni. Kerfið okkar gengur fyrir mótor vinatengslanna.

Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband