21.4.2010 | 12:23
Dapurleg tíðindi frá Þorvaldseyri
Á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur um áratugi verið rekið bú af meiri metnaði og glæsibrag en dæmi eru til á Íslandi að minni hyggju. Nú hafa ábúendurnir Ólafur Eggertsson og eiginkona hans Guðný Valberg Andrésdóttir lýst yfir að þau hafi tímabundið ákveðið að hætta búrekstri á jörðinni. Það var ekki vandalaust hlutverk að taka við búi af foreldrum Ólafs sem höfðu sett markið hátt og lagt grunninn að þeim brag sem síðan hefur einkennt allar sögur af þessu búi.
Þau brugðust ekki því hlutverki.
Ég óska þeim hjónum farsældar við ný verkefni og bind vonir við að þess verði ekki langt að bíða að þau hjón og aðrir sveitungar þeirra sjái aðstæður batna nægilega til að hefja búskap að nýju. Og samúð mín vegna þessarar skelfilegu reynslu er heils hugar.
Ísland þarf á þessu fólki að halda og þeirri reisn sem sveitin þeirra hefur lagt þessu landi til með þeirra hjálp.
Þetta eru mikil tíðindi og vond og munu verða eftirminnileg þessari þjóð um ókomna tíð.
Og ég vitna til orða Þórhalls biskups frá síðustu öld:
-Bændurnir, það eru mennirnir sem hjálpa Guði til að skapa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tek heils hugar undir þessi orð.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 21.4.2010 kl. 13:14
Hjartanlega sammála þér Árni.
Haraldur Baldursson, 21.4.2010 kl. 15:03
Það er verkefni allrar þjóðarinnar að koma sveitinni aftur til fyrra horfs. Það ætti að takast á skömmum tíma ef menn kæfa verkefnið ekki með einhverju nefndafargani þvers og kruss.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.4.2010 kl. 22:49
Ég er ekki bjartsýnn á að mikið verði gert. Ríkisstjórnin hefur sýnt þessum hamförum mikið tómlæti. Ekki hefur frést af neinum ráðherra á hamfarasvæðunum utan Steingrím J. Sigfússon sem var þar í upphafi fyrir hreina slysni. Jón Bjarnason mætti tafsandi í viðtöl og mumlaði eitthvað um bjargráðasjóð og þar með er það upptalið. Dáðleysið og ráðaleysið virðist algert. Ekki virðist mega flytja skepnur, og sauðfé skal verða þarna vegna þess að menn setja fyrir sig einhverjar sauðfjárveikigirðingar. Þetta land er sannanlega á leiðinni til andskotans.
Magnús Þór Hafsteinsson, 22.4.2010 kl. 12:40
Magnús Þór. Við verðum að hafa það í huga að ennþá liggur ekki fyrir að meta það ástand sem fólkið stendur frammi fyrir þegar þessum djöfulskap lýkur.
En nú liggur fyrir að hraða viðbrögðum sem snerta sumarbeit fyrir sauðfé. Þar þarf að vinna af snerpu ef ekki á að skapast klúður sem vandalítið er að forða.
Árni Gunnarsson, 23.4.2010 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.