Hver fj. er eiginlega í gangi hér?

Tugir starfsmanna ráðnir til sérstaks saksóknara

Dómsmálaráðherra leggur fram tillögu um að efla embætti sérstaks saksóknara fyrir ríkisstjórn í vikunni. Tugir starfsmanna verða ráðnir. Saksóknari hyggst yfirheyra á þriðja tug manna á næstu dögum.

Hefur einhver étið óðs manns skít? Það er 8. maí 2010. Það eru liðnir 19 mánuðir frá hruni bankanna á Íslandi. Man ég það ekki rétt að skömmu eftir það hafi starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra verið fækkað verulega?

Er það misminni að það hafi verið fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason sem kom því til leiðar að Eva Joly var fengin til að aðstoða við rannsókn efnahagsbrota? Man ég það ekki rétt að allan þann tíma sem liðinn er frá hruni bankanna hafi næstum daglega komið vísbendingar um að bankarnir hafi verið rændir innan frá af eigendum og stjórnendum? Hvað kemur á óvart? Hvað upplýsti rannsóknarnefndin sem þjóðin vissi ekki áður og hafði rætt um mánuðum saman?

 Héldu ekki forsætisráherrann og viðskiptaráðherrann blaðamannafundi daglega á fyrstu vikum eftir hrunið og endurtóku að ekkert yrði til sparað að leiða allan sannleika um aðdragandann í ljós og að hverjum steini yrði velt við?

Erlendis eru blaðamenn og stjórnmálamenn agndofa yfir seinagangi við rannsóknina og undrast að enginn hafi enn verið settur í gæsluvarðhald- engar eignir verið kyrrsettar. Og enn einn erlendur rannsóknardómari kemur í viðtal hjá Agli Helgasyni í sjónvarpsþátt og  nálgast þetta undarlega mál svona eins og hálfgert gamanleikrit.

Ríkisstjórn og Alþingi semur við Björgólf Thor um fjárfestingu og Jón Ásgeir er starfsmaður skilanefndar Landsbankans við eignavörslu? Báðir þessir menn voru eigendur fyrirtækja sem fengið hafa afskrifaðar skuldir sem nema hundruðum milljarða!

En nú er einhver farinn að rumska. Kannski fer ég að sjá hvers vegna viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra eru svona vinsælir í skoðanakönnunum. Ég viðurkenni að það hefur nú vafist fyrir mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér láðist að gæta þeirrar sjálfsögðu skyldu að skýra frá því að feitletraði textinn efst er tekinn af forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 09:18

2 identicon

Sæll Árni.

Ég segi nú bara eins og kerlingin forðum daga sagði, um  leið og hún "sló sér á lær " 

Ja, hjálpi oss Guð næstur .

Því nú eru vinnuhjúín orðin æst.......hvað er þá  næst?

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 09:18

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski er annað gos bara í nánd Þórarinn!

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 09:19

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Í alvöru talað. Þá er verið að eiga við harðsnúna gangstera með aðgang að siðlausum lögfræðingum sem hefðu getað eyðilagt málið ef farið hefði verið vitlaust í það í byrjun. Svo eru þetta mál sem verður að vera hægt að sanna 100%. "Lítill fugl" hvíslaði að það ættu eftir að koma mjög óvenjulegar fréttir og ljótar upp úr þessari rannsókn. Miklu verri enn nokkur maður hingað til hefur getað ýmindað sér eða bloggað um nokkurn tíma. Ég held að þetta sé nefnilega í ágætum farvegi...og það er fyrir löngu búið að staðsetja eigmir og peninga eftir því sem sagt er, um allan heim.

Óskar Arnórsson, 8.5.2010 kl. 12:21

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Smá leiðrétting: orðalagið var upphaflega á þeið að nú skyldi hverjum steini "flett"........

Baldur Hermannsson, 8.5.2010 kl. 13:26

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar. Þetta bankahrun og allur adragandi þess ásamt tengdum hlutabréfasjóðum og fsteignabröskurum er ekki einsdæmi bundið við Ísland. Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að rannsóknarvinna hér hafi verið meira en lítið viðvaningsleg og mig grunar að það hafi ekki allt snúist um mistök.

Var það eðlilegt að skipta bönkunum upp í tvennt og setja gömlu bönkunum skilanefndir með lykilmönnum innan úr þeim sjálfum? Mér er ekki kunnugt að neinum viðskiptareikningum hafi verið lokað og rannsókn sett í gang samstundis af fagmönnum.

Fréttir bárust og eru enn að berast af því að ofurfjármunir hafi horfið til góðra og gamalla viðskiptavina eftir hrun bankanna!

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 14:01

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur: Núna rifjast þetta allt saman upp. Það er ekki einleikið með þetta minni gamals fólks hvað það er ótraust. En ég man þetta líka vegna þess að ég lærði aldrei að fletta við steinum.

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 14:04

8 identicon

Heill og sæll Árni; æfinlega - líka sem og, þið aðrir, hér á síðu hans !

Firna góð útfærzla; hér hjá þér Árni, á kjarna þessarra mála, sem við mátti búast.

Það eru; ákvein öfl, hér á landi, sem mega ekki hugsa til þess, að grafið verði dýpra, ofan í mykjuhauga spillingarinnar. Þess vegna; er þýðingarmikið, að hvetja Ólaf Þór Hauksson, og slekti hans, til allra þeirra dáða, sem mögulegast má verða, á komandi misserum.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 16:20

9 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Afhverju skyldu menn hræðast slynga lagatækna ef dómarar dæmdu eftir réttum lögum og sérstaklega anda þeirra laga sem málin varða? En við skulum bara treysta að verkstjórn Evu Joly dugi hér og hennar ráðum sé hlýtt í hvívetna.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.5.2010 kl. 16:36

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar Helgi: Mér var það ljóst frá fyrsta degi að nákvæm rannsókn væri ekki það sem ákveðnir hópar höfðu lagt mikið kapp á. Óttinn við Evu Joly var utanáliggjandi og nokkrir einstaklingar gátu ekki leynt andúð sinni á ráðningu hennar.

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 19:19

11 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Það er mikill skjálfti víða núna

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 8.5.2010 kl. 19:28

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jóhannes, svarið við spurningu þinni er nokkuð augljóst. En nú skulum við bara reyna að vera bjartsýnir. Í það minnsta er ljóst að kaflaskil hafa orðið í rannsókninni og einurð sérstaks saksóknara sýnist mér vera sannfærandi og trúverðug.

En fyrstu viðbrögð stjórnvalda mun ég aldrei ná að skilja nema á einn veg.

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 19:29

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já það er víða skjálfti Sigurbjörg. Og greinist ekki allur á jarðskjálftamælum.

Árni Gunnarsson, 8.5.2010 kl. 19:31

14 Smámynd: Auðun Gíslason

Auðvitað hefur verið einhver viðvaningsbragur á vinnunni framan af.  Sem von er.  Hér hefur "góða fólkið" trúað því fram að þessu, að svik og þjófnaðir væru ekki stundaðir í stórum stíl á Íslandi!  Og menn því óvanir að eiga við aðra þjófa en smáþjófa með lifrapylsukepp og viskípela á samviskunni.

Aðall útrásarvíkinganna var að vera fljótur til ákvarðanna og verka, m.ö.o. óðagot. Það reyndist ekki mjög vel!  Bent hefur verið á óvönduð vinnubrögð embættis- og stjórnmálamanna, því er gott að vita að hinn sérstaki fer sér engu óðslega en vandar til verka sinna.  Hann hefur ráðgjafa góð, Evu Joly og fleiri útlendinga sem vanir eru að eiga við stórþjófa úr yfirstétt.  "Við munum ná ykkur á endanum."  Eva Joly.

Og að síðustu má benda á, að það var broddgölturinn sem vann kapphlaupið í ævintýrinu en ekki hérinn!

Auðun Gíslason, 9.5.2010 kl. 01:24

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski er eitthvað til í þessu Auðun og sannarlega ástæða til að leyfa sér að vona. En mér finnst nú að óþarflega margir broddgeltir hafi þá komið að þessu máli.

Ekki hefur hann nú verið upp á marga fiska þessi héri!

Árni Gunnarsson, 9.5.2010 kl. 08:38

16 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það hefur vart þótt tiltökumál eða í frásögur færandi þótt einhverjir smákrimmar væru í varðhald settir og að þeim saumað. En nú þegar jakkafataliðið er tekið í tukthúsið er allt gert tilfinningaþrungið og erfitt.

Aðal stjörnulögfræðingur landsins segir gæsluvarðhald ekki vera neitt grín og hann hafi séð það buga hina hörðustu og forsvíruðustu glæpamenn. Sem er skrítið því ég hélt að gæðingurinn sá hefði einungis varið saklausa menn! Hvar og hvenær ætli hann umgangist þá hina meintu glæpamenn?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 9.5.2010 kl. 14:52

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta vekur mann til umhugsunar um ágreiningslaust hlutleysi þegar stjörnulögmenn taka sæti í Hæstarétti og fella dóma yfir þeim tegundum meintra afbrota sem þeir hafa mesta þjálfun í að verja?

ÞEKKJUM VIÐ DÆMI UM SLÍKT?

Árni Gunnarsson, 9.5.2010 kl. 15:19

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

http://juliusbearsson.blog.is/blog/juliusbearsson/entry/1051303/

Hér er alþjóðleg sönnun þess að meintir snillingar voru aldir upp í efnahagslegri fábjána  stjórnsýslu. Lámarks forsenda er að taka hér upp þroskaðan grunn og rækta upp nýja kynslóð athafna manna sem byggja á hefbundum grunni þrokaðra efnhagssamfélaga í aðalatriðum.

Óhæfir matsmenn meta sína líka hæfa, ekkert óeðlilegt við það. Hinvegar byggir matið á íslenskum efnafhags og fjármála sérfræðigrunni sem í Alþjóðlegum samanburði er siðlaus, siðblindur, eða siðlaus.  

Júlíus Björnsson, 9.5.2010 kl. 19:44

19 Smámynd: Auðun Gíslason

 Nei, Árni minn, hann var óttalegur héri,  líkt og stórgrósserarnir og embættismennirnir sem þjóna þeim. 

Auðun Gíslason, 9.5.2010 kl. 20:10

20 Smámynd: Ómar Gíslason

Ef það tók 19 mánuði að taka skýrslutöku af Hreiðari og Magnúsi sem eru litlu peðin, hvað tekur það þá langan tíma að taka stóru peðin í skýrslutöku?

Ég hef það á tilfinningunni að hver einasti vitleysingur sem kemur í Silfur Egils og talar ensku og segist vera sérfræðingur í einhverju verður ráðin af Ríkisstjórninni.

Hvernig væri að leita til fagmanna á vegum Bresku- og Bandarísku stjórnarinnar þær deildir vita nákvæmlega hvað á að gera og hvernig á að vinna málið. Það er miklu betra að verja peningum á rétta aðila sem kunna til verka og vinna auk þess með manni. Hvað annars gerir Eva Joly annað en að taka við 170 milljónum?

Ómar Gíslason, 10.5.2010 kl. 13:39

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Svakalega er fólk ruddalega neikvætt og furðulegt. Ómar hér kallar eina fólkið sem hefur sagt það opinberlega sem er bannað fyrir íslendinga, vitleysinga. Ekki einu sinni vesælir blaðamenn þora að tala um bankahrunið skýrt og greinilega. Nema i Silfri Egils. Og svo kemur milljón dollara spurningin! "Hvað gerir Eva Joly við kaupið sitt"? Og hverjum kemur það við og hvernig tengist það umræðunni?

Óskar Arnórsson, 10.5.2010 kl. 14:15

22 Smámynd: Ómar Gíslason

Ef það tekur 19 mánuði að taka sýrslu af 2 einstaklingum sem vorur í framvarðarsveit sem mér finnst allt of langt um liðið. Reyndar var í byrjun mjög fáliðaðar mannskapur. En stjórn fyrirtækis hefur valdið þannig að þetta er bara byrjun.

Ef þú ræður starfsmann í vinnu þá átt þú kröfu á hann að hann vinni fyrir þig og geti gefið þér grein hvernig vinnuvikan var. Þess vegna spyr ég aftur hvað í raun gerir Eva July? Fyrir hvað erum við að borga henni eru þessir peningar betur borgið að semja við sér deildir sem kunna að meðhöndla svona mál og hafa mannskap, tækni og þjálfun? 

Silfur Egils er ekki eini þátturinn sem hefur fjallað um þetta þú getur farið á vald.org og eins sagði Davíð Oddsson 28. mars 2008
http://sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1704

"Auðvitað er það enn ekki óhugsandi, að sterkir vindsveipar komi úr óvæntri átt og hrindi óveðurskýjunum á augabragði af himni markaðarins og skuldsettar yfirtökur skuldsettra fyrirtækja undir umsjón lánastofnana, bjóðandi lágmarkskjör og liprar tryggingar, komi á ný og þá muni aftur morgna á markaði íslenskum, sem öðrum. En þótt þetta sé ekki óhugsandi og dæmi sögunnar sanni að markaðurinn sé ólíkindatól, er hætt við að vinningshlutfallið í biðinni og voninni sé lakara en í Lottóinu. Því er rétt að ganga út frá því sem vísu, að ástandið muni lítið lagast í bráð..."

Ómar Gíslason, 10.5.2010 kl. 16:24

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Allar mínar ályktanir um þessa rannsókn byggjast á djúpstæðri tortryggni. Sú tortryggni hefur nú stuðning við rannsóknarskýrsluna alkunnu. Okkar fámennisamfélag er svo örsmátt og vanburða gegn þeirri spillingu sem nú er viðurkennt að hafi þróast um áratuga skeið og ekki hefur enn verið tekist á við.

Fámenni þjóðarinnar hefur það í för með sér að hóparnir sem ráða viðskiptalífi og  pólitiskum ákvörðunum ásamt spilltu embættismannakerfi eru svo átakanlega fámennir og samtengdir aðöll stjórnsýsla snýst um átök milli þessara hópa.

Kjósendur eru fjölmennur hópur en vanburða vegna flokkstryggða okkar sem í raun ráðum ferðinni. Við höfum ekki haft þroska til að skilja að atkvæði okkar gerir okkur ábyrg fyrir vinnu þess flokks og þess einstaklings sem vinnur í umboði okkar.

Stundum er þetta fulltrúaval erfitt. Það reyndist þeim erfitt sem völdu Vinstri græna í trausti þess að með því yrði umsóknarferlið um aðildarumsókn að ESB stöðvað. Þar var allt svikið sem lofað var. Og bæði Samfylking og V.g. hafa ennþá svikið það heit sem sett var í stjórnarsáttmálann og snýr að innköllun aflaheimilda og breyttri stjórnun fiskveiða.

Árni Gunnarsson, 10.5.2010 kl. 17:03

24 Smámynd: Baldur Hermannsson

Samfylkingin og VG hafa svikið flest sem hægt var að svíkja, en hafi þau heitið stórfelldum breytingum á stjórnun fiskveiða hafa þau einfaldlega lofað upp í ermina á sér. Slík breyting er gríðarlegt verk og mun útheimta víðtæka samstöðu stjórnmálaflokka og atvinnurekenda. Þetta loforð gátu kommarnir hreinlega ekki efnt. Hins vegar geta þeir ennþá efnt loforð sitt um að úthýsa Jóni Bjarnasyni og þeir eru að vinna í því núna, svo ekki er þeim alls varnað greyjunum.

Baldur Hermannsson, 10.5.2010 kl. 20:06

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur: Það er alþekkt að draumspakir menn - og konur líka fái vitranir í aðdraganda kosninga. Þá vitrast þeim venjulega að vinda þurfi að því bráðan bug að takast á við þau verkefni sem þeir sjálfir hafa vanrækt á fjögurra ára valdatíð.

Og þá lofast þeir til að koma þessu í lag hið snarasta ef: "kjósendur veita mér til þess umboð sitt."

Í öðru lagi er það ekki rétt hjá þér að til þess að framkvæma boðaða innköllun aflaheimilda þurfi samstöðu allra stjórnmálaflokka. 

Í þriðja lagi er það hefðbundinn kjaftháttur að til þess þurfi samstöðu með arvinnurekendum- útgerðarmönnum - því öllum má ljóst vera að sú samstaða verður aldrei í boði.

Í þriðja lagi þá vil ég heldur trúa því að þrátt fyrir að hafa oft talað ógætilega um Jón Bjarnason í tengslum við tregðu hans við að auka aflaheimildir, þá vil ég heldur vona að hann"fái vitrun í draumi" en að leysa upp ráðuneyti hans og setja það undir einhvern kontóristapípuhatt Samfó.

Við þurfum að hafa landbúnaðar-og sjávarútvegsráðuneytið í höndum Jóns Bjarnasonar komi til samninga við ESB um aðild Íslands.

Jón hafði djörfung til að greiða atkvæði á Alþingi gegn aðildarumsókn.

Það virði ég við hann.

Árni Gunnarsson, 11.5.2010 kl. 09:20

26 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ath. Þarna hefur mér orðið það á að tvítaka:Í þriðja lagi! og það var við síðustu tölusettu ályktunina og jafnframt þá gáfulegustu! Ég er aldrei öruggur við að telja nema upp að þrem.

Árni Gunnarsson, 11.5.2010 kl. 09:23

27 Smámynd: Baldur Hermannsson

Jón hafði djörfung til að greiða atkvæði á Alþingi gegn aðildarumsókn.

Það virði ég við hann.

Tek undir það.

Baldur Hermannsson, 11.5.2010 kl. 10:50

28 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ómar Skapti: Ég held að Eva Joly sé að vinna góða vinnu þótt sú vinna sé ekki daglega í fréttum fremur en aðdragandi þeirra tíðinda sem nú berast af vinnu sérstaks saksóknara. Það hefur aldrei verið efi í mínum huga um að okkur vantaði sárlega erlenda sérfræðiaðstoð allt frá falli bankanna.

Það vekur athygli mína að í umræddri ræðu Davíðs Oddssonar skautar hann framhjá ýmsu því sem skipti máli og síðar kom í ljós. Hann talar um hækkun á skuldaálagi um 400 punkta sem er fráleitt!

Á meðan Davíð tók þátt í því með stjórnvöldum að forðast illt umtal út á við um dauðastríð bankanna "til að forða því að gert yrði run á bankana" héldu stjórnendur bankanna áfram við að ræna fólk og ræna svo bankana innan frá.

Þarna virtist það eitt skipta máli að verja bankana en engu máli skipti þótt efnahagsleg framtíð tugþúsunda einstaklinga og heimila væri lögð að veði!

Árni Gunnarsson, 11.5.2010 kl. 22:10

29 Smámynd: Baldur Hermannsson

Árni, gættu þín nú. Innistæður voru tryggðar af ríkinu. Menn ólu alltaf í brjósti von um að unnt yrði að bjarga bönkunum, ef ekki öllum þá alla vega einum eða tveimur. Það er makalaus fullyrðing að efnahagsleg framtíð einstaklinga og heimila hafi ekki skipt máli.

Baldur Hermannsson, 11.5.2010 kl. 22:27

30 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur: Við skulum báðir gæta okkar. Innistæður voru ekki tryggðar af ríkinu fyrr en sett höfðu verið um það neyðarlög. Þessi neyðarlög eru núna í meðferð dómstóla og óvíst ennþá hvort þau standist. Sé þetta rangt þá biðst ég afsökunar en ég hef ekki fengið það staðfest til fulls.

En svo má hver sem er hæla þeirri stjórnsýslu sem tryggir innistæður tveggja prósenta þjóðarinnar og innheimtir tryggingargjaldið sem nemur á annað þúsund milljörðum hjá skattgreiðendum.

Árni Gunnarsson, 11.5.2010 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband