11.9.2010 | 23:21
Land hinna klikkuðu karlmanna og kókaínæðin
Þær eru ekki margar blaðagreinarnar sem ég hef klippt út og safnað gegn um árin. Þó las ég í dag grein í Fréttablaðinu sem ég klippti út og ætla að geyma. Og að sjálfsögðu er ég að ræða um grein Andra Snæs Magnasonar sem ber fyrirögnina: Í landi hinna klikkuðu karlmanna.
Þessi pistill er auðvitað ein samfelld snilld hvað texta áhrærir auk þess að vera viturlegasta innlegg í pólitíska umræðu fjölmiðla sem mér hefur borið fyrir augu um nokkuð langa hríð.
Ég ætla að sleppa allri endursögn en hvet alla þá sem vilja skoða úttekt á stóriðjudraumum Íslendinga með einhverri gagnrýni til að lesa þessa grein Andra Snæs. Það er nefnilega afar slæmt að gera sig þráfaldlega sekan um að hylla heimskuna með húrrahrópum og gera hróp að fólki sem leyfir sér að skoða fleiri hliðar en þær sem hin altæka heimska hefur gert að trúarbrögðum heillar þjóðar.
Það er reyndar líka minnst á kókaín þarna!
Ég gef mér það - og ekki að ástæðulausu að þessi færsla mín muni af einhverjum verða færð mér til háðungar í safnrit álvera - og stóriðjuunnenda. Það eru bara hefðbundin viðbrögð margra þeirra sem setja = táknið á milli atvinnutækifæra og stóriðju og þekkja ekki önnur hugtök og skárri en ál þegar atvinna er nefnd.
Önnur spá mín og jafnvel trúverðugri er sú að fæstir hægri menn og konur hafi kjark til að lesa þennan pistil Andra Snæs til enda.
Það gæti orðið þeim svipað áfall og konunni sem búin var að eyða hálftíma frammi fyrir speglinum í forstofunni áður en hún fór í partíið og öskraði að endingu til bónda síns:
"Hvar í helvítinu gastu grafið upp þetta spegilsræksni fíflið þitt?"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
Athugasemdir
Árni ! Satt segir þú , og það svo sannarlega satt , nú , í dag , er nóg af ræðurum sem kenna árunum , en ekki áralaginu , um , allir er í Þjóðarleikhúsinu sitja , hvað þá þeir er fyrir Hrunnefndina voru kallaðir , enginn þessarra "sómamanna" bera nokkra ábyrgð á hruninu , allir sem einn bera þessi englaljós skæran geislabaug sem þeir efalaust sjá , gleraugnalaust , í hvert sinn sem þeir líta í spegil , jafnvel þótt spegillinn sýni okkur "heimskingjunum" grunnhygginn mann , jafnvel heimskingjan sjálfan sem þrásitur í Þjóðarleikhúsinu þrátt fyrir gífurháar framboðsgreiðslur sem þjóðin , oftar en ekki , fékk að lokum að greiða.
Þetta eru glæsimenni er í spegla sína líta .
Ég las þessa grein á meðan ég tók skák við páfann og satt best að segja þá fannst mér ekki margt nýtt koma þar fram , en ég klippti hana út áður en ég las hana , því mér var sagt hún væri frábær , en eins og þú segir þá var þetta ekkert annað en sannleikurinn sem þarna kom fram , nema ég náði ekki alveg einu , og það var að mér skildist að Hádegismóri (Bubbi kóngur eða Goðið) hefði átt í einum bankanum , því náði ég öngvan veginn , en ég veit að þessi grein hreifði vel við fólki - þó ekki mér , en engu að síður var hún góð - jú og ný sýn á stórmennið Einar Ben.
Hörður B Hjartarson, 11.9.2010 kl. 23:53
Árni Gunnarsson, hafðu þökk fyrir þessi skrif. Ég las pistilinn þinn þrisvar yfir. Í þrígang var ég jafn hrifinn. Takk.
Björn Birgisson, 12.9.2010 kl. 00:18
Já, Hörður. Ég fékk þarna líka nýja sýn á stórmennið E.B. Íslenska þjóðin hóf þennan mann til efstu hæða og þar situr hann fastur.
Er ekki sagan lengi búin að upplýsa okkur um þessa manngerð sem nýtir leikræna tilburði og upphafna glæsimennsku prýdda tivitnunum í orð skálda og stórmenna, sýna drambsama framkomu og fálæti í bland, spila pókerinn djarft og taka til sín pottinn án þess að sýna spilin?
Stofnaði ekki Einar Ben. öll sín hátt stemmdu útrásarfyrirtæki- jafnvel útgerð með peningum annara?
Átti hann einhvern tíman sjálfsaflafé sem hann lagði að veði fyrir öllu bullinu?
Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 01:15
Björn minn Birgisson. Þakka þér notalega heimsókn og hlý ummæli. Lengi sannast alþýðuspakmælið forna að "margur fær af litlu lof."
Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 01:18
Sæll Árni minn,
Þetta eru ágæt skrif hjá þér að vanda og greinin hans Andra Snæs er afbragð og því fleiri sem benda á hana, því betra. Ég hins vegar sé aldrei blaðsneplana, Morgunblaðið og Fréttablaðið - ég hef ekki lesið stafkrók í Mbl. eftir að ég sagði því upp þegar Davíð tók við ritstjórninni og aldrei keypt Fr.bl. eftir að það fór að kosta 100 kr hér á landsbyggðinni. Því miður veldur þetta því að ég sé ekki einstakar ágætis greinar en þessi kom á
" http://www.andrisnaer.is/2010/09/i-landi-hinna-klikku%C3%B0u-karlmanna/ "
og þaðan gat ég tekið hana og sett í sérstaka möppu á skjánum sem geymir það sem mér finnst vert að muna og rifja upp.
Ég vissi svosem af vanköntum Einars Ben. en hafði ekki áttað mig á hversu stórkarlalegir rafmagnsdraumar hans voru. En aðrir kostir hans, skáldskapurinn, hefur hann alveg fram yfir núverandi virkjunarbrjálæðinga - þar með talinn hitaveitustjórinn á Húsavík sem tók 170 mill. kr til að bora tilraunaholu!!!!
Ég er annars mikið sammála Eiði málvöndunar að skáld eiga að njóta skáldatitilsins - Eiður var að benda á að Tómas Guðmundsson væri ekki textahöfundur heldur skáld og ljóð hefðu verið samin við kvæði hans. Reyndar samdi Tómas líka ljóð við lög - reyndar fyrst undir dulnefni að ég held en þau ljóð geta alveg staðið sjálfstæð sem slík.
Annars er fátt að frétta héðan - það voru göngur hér í gær en konan mín fótbrotnaði/Hælbrotnaði) og ég fer helst ekki frá henni lengi. Þar við bætist að hófurinn brotnaði nánast alveg af reiðhestinum mínum hinum Spóa svo honum verður ekki riðið næsta árið eða svo!
Kveðja,
Ragnar Eiríksson
Ragnar Eiríksson, 12.9.2010 kl. 04:25
Sæll Ragnar minn og takk fyrir komuna! Slæmt að sjá þessar fréttir af "færleikum" þínum. Þetta eru vondar fréttir af henni Hönnu (Hanne?) því þær einu fregnir sem ég hef af hælbrotum eru á þá lund að þar er fullur bati lengi á leiðinni.
Ég vænti þess að Spói gamli nái sér nú en auðvitað tekur það sinn tíma. Ég sé það fyrir mér að þú hafir verið á baki þegar þetta gerðist og að venju beint klárnum stystu leið án þess að velta fyrir þér hvað framundan væri og svo hafi ferðin kannski verið ámóta hröð og hjá útrásarkvikindunum sem voru að verða of seinir í gullbrasaða pastað.
Og nú á dögunum fyrir norðan sagði Ingimar Páls mér að Reykja-Jarpur væri allur. Líklega hefur enginn hestur skrifað nafnið mitt jafn fallega og hann á íslenskar reiðgötur, jafnvel að systur hans Kröflu ógleymdri.
Nú er ég hættur að rækta hross og sakna þess nú hálfpartinn.
Svona geta hestarnir komið umræðunni út um víðan völl Ragnar minn og nú læt ég þessu lokið. Þú mátt skila kveðjum ef þú nennir og ég læt þig um að velja hverjir fá þær.
Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 08:42
Ef þú Hörður B. skyldir nú reka hér inn nefið aftur þá bendi ég þér á að ályktun þín um bankaeign D.O. er líklega byggð á misskilningi. Þar á ég auðvitað við það þegar þú telur að Andri Snær hafi gefið það í skyn í umræddri blaðagrein.
Mér sýnist það nokkuð ljóst að þarna hafi hann vísað til Finns nokkurs Ingólfssonar sem vermdi stól viðskiptaráðherra áður en hann var skipaður seðlabankastjóri.
B. kv.
Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 17:33
Árni ! Satt segir þú - auðvitað er þetta maðurinn sem má ekki láta sjá sig í nokkurri verslun á Selfossi án þess að vera úthrópaður þar - sem betur fer , eigi ég eftir að mæta honum - þá verður mér kannske mál .
Já framapotaraflokkurinn hefur sé' um sína í gegn um árin - sárin .
Hörður B Hjartarson, 12.9.2010 kl. 22:46
Já, Hörður, Andri Snær klikkar ekki á smáatriðum.
Og ekki var honum stamgjarnt um þessa niðurlægjandi þjóðarsturlun í spjallinu við Egil í dag í Silfrinu.
Svo fengum við veislu í boði Ómars Ragnarssonar í sjónvarpsdagskránni í kvöld. Þvílíkur maður!
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 00:04
Andri er einn landvætta okkar í dag. Og snilldarpenni. Já Ómar líka. En eiga sameiginlegt einsog röflið í okkur að vera markaðssett sem gjammandapíp stalínista, hjörleifista eða feminista.Held við þurfum að beina þjóðinni með vopnavaldi að þessum skrifum.
Ævar Rafn Kjartansson, 13.9.2010 kl. 00:10
Frábær pistill Árni, eins og ævinlega. Takk fyrir hann og kveðjur úr Norge..
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 13.9.2010 kl. 06:12
Já Ævar: Svo sannarlega eru þeir Andri Snær og Ómar komnir í lið með okkar góðu og gömlu landvættum. Gaman að þú skulir beita þessari samlíkingu sem ég hef sjálfur leyft mér stundum þegar mér hefur verið niðri fyrir í umræðunni um verndun náttúru þessa lands en man ekki til að að hafa séð aðra gera.
Sá sem ekki ber snefil af virðingu fyrir landi sínu, sögu og/eða uppruna er ekki - né verður líklegur til að verða þjóð sinni til gagns né heldur umhverfi sínu aufúsugestur.
Þú talar um að beina þjóðinni að skrifum Andra Snæs með vopnavaldi og ég gæti tekið undir það. Svo gæti ég bætt því við að það var skylda hvers Íslendings að fylgjast með sjónvarpsþættinum í gærkvöld þar sem Ómar Ragnarsson mætti í spjall um lífshlaup sitt og baráttuna fyrir Íslandi sem verið hefur svo stór hluti af ævi þessa merkilega manns.
Enda er ótti litlu hýenanna við þessa menn mikill og sýnilegur og hann birtist svo vel þegar Ómar tekur til máls á blogginu. Þá koma trítlarnir frá landníðsluhjörðinni og öskra á hann. "Alltaf á vaktinni sko."
En nú er Ómar tekinn að reskjast (hann er litlu yngri en ég) og það er kominn tími til að finna unga afburðamenn til að taka við af honum.
Við gætum byrjað með svona 12-15
Haddi minn: Ég þakka þér fyrir komuna og hlý orð. Það er óþarfi að þakka mér. Ég er skyldugur til að leggja landi mínu lið ég á því svo óendanlega mikið að þakka eftir langa samveru. Ég vildi geta gert meira og betur.
Megi ykkur báðum vegna vel á nýjum slóðum. Vonandi þurfum við ekki að vera svo lengi án ykkar að þegar þið komið til baka verðið þið nefndir "austmenn!"
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 08:38
Þetta er nú meiri halelúja kórinn sem þú safnar í kringum þig Árni minn. Hér á ég lítið erindi sýnist mér, ... tja, nema svona rétt til að láta ykkur vita að pistill Andra Snæs var fáránlega slakur og fullur af bull fullyrðingum og staðreyndavillum.
Í Silfri Egils fékk hann að láta móðinn mása gagnrýnislaust. Í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga, sat Egill fyrir framan Andra og lesa mátti barnslega aðdáun úr andliti hans, þegar hann mændi á gest sinn eins og unglingsstúlka á poppgoð.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 12:06
Hér er þér guðvelkomið Gunnar minn að hefjast handa við að rekja fyrir okkur svona í áföngum staðreyndirnar sem þú býrð yfir um bull fullyrðingar og staðreyndavillur Andra Snæs. Ég veit að þú ert meðvitaður um þá ábyrgð sem fylgir þessum orðum þínum og þó ekki síst mikilvægi þess að allt það sanna og rétta sé í heiðri haft þegar svo afdrifaríkt pólitískt málefni er í umfjöllun.
Og Það væri dónaskapur af mér að draga þessi orð þín í efa án þess að þú hefðir áður fengið tækifæri til að skýra málð sem ég veit að ég þarf ekki að efa að þú munir gera og bregða skjótt við.
Báðir vitum við að enginn niðurlægir sjálfan sig verr og dýpra en sá sem þykist geta hrakið mikilvægan fréttaflutning en lætur við svo búið standa.
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 15:37
Og Gunnar. Hér erum við eingöngu að ræða um staðreyndir en ekki ályktanir. Ályktanir,og þó einkum ályktanir um pólitíska stefnu og afleiðingar hennar til lengri og skemmri tíma verða aldrei úrskurðarefni fyrr en tímar liða fram.
Og þótt af nægu sé greinilega að taka þá mælist ég núna til þess að þú byrjir á að leiðrétta frásögnina um álverið í Helguvík, fjármögnun verksins fram til þessa og tryggingu fjármagns til verkloka. Ásamt svo samningum um orku og flutning hennar til áfangastaðar og svo fjárhagslegan ábata eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur. Hvað með öll leyfi fyrir framkvæmdinni?
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 15:56
Allar verklagsreglur hafa verið brotnar varðandi kærumál/kærufrest á umhverfismati og leyfisveitingum. "Umhverfisfólkið", þessi tiltölulega fámenni en háværi hópur, sem kærir allt sem hægt er að kæra og rúmlega það. Þett fólk hefur greiðan aðgang og tryggan bandamann í Svandísi Svavarsdóttur og fleirum úr röðum vinstri grænna og fáeinna úr röðum Samfylkingarinnar. Að pólitískir ráðamenn skuli dansa svona eftir vitleysunni í fámennu öfgafólki, skapar óróleika og efasemdir hjá fjárfestum sem kippa að sér höndum.
Þessi "hreina vinstri velferðarstjórn", hefur reynst hemill á framfarir í atvinnumálum frá því hún tók við völdum. Sporgöngumenn verkalýðsbaráttunnar á Íslandi snúa sér sjálfsagt við í gröfum sínum, vitandi af verkum þessara kyndilbera vinstri hugsjónarinnar á 21. öldinni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 17:54
Gunnar: Hér bætir þú engu við fyrri athugasemd en setur inn fullyrðingar og ályktanir.
Varla læturðu það nægja?
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 18:26
Tankurinn tómur?
Björn Birgisson, 13.9.2010 kl. 19:19
Björn. Bágt á ég með að trúa því að minn ágæti bloggvinur Gunnar Th. fylli ekki á tankinn ef það er vandamálið. það er nokkuð í húfi fyrir hann að fylgja þessu máli eftir og forða því að eina neikvæða ályktunin í þeirri umræðu sem hér var opnuð og byggð á órökstuddum fullyrðingum og gildishlöðnum athugasemdum standist þegar kallað er eftir staðfestingum.
Það væri snautleg lending sem ég á ekki von á hjá G.Th.G. í fullri einlægni talað.
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 19:48
Ef þessi ábending nægir ekki varðandi "leyfi fyrir framkvæmdinni", þá dreg ég þá ályktun að þið fylgist ekki með fréttum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 20:05
Galtómur?
Björn Birgisson, 13.9.2010 kl. 20:33
Ef það kallast fullgilt svar við skilgreindri ósk minni um rök að benda mér á að kynna mér sjálfur fréttir varðandi umræðuefnið þá er ég að kynnast nýrri rökræðupólitík.
Galtómur?
Hugsanlega
Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 22:18
Gunnar Th Gunnarss.! Hefur þú hugsað þá hugsun til enda , hve dásamlegt það væri ef þessi "kvikyndi" hefðu ekki verið fyrir í Aðaldalnum fyrir 40 árum ca. , að ég tali ekki um ef Einar Ben hefði getað sett sínar 60 (að mig minnir)virkjanir í Laxána (í Aðaldal) - ja þá væri nú aldeilis munur að vera FL- flokks maður í dag og geta migið standandi , að vísu allt út fyrir.
Hörður B Hjartarson, 13.9.2010 kl. 23:50
Gunnar: Þótt fyrr hefði verið mátti umhverfið eiga sér málsvara á stóli Umhverfisráðherra. Næga átti stóriðjan málsvara í öðrum hornum.
Það á einmitt að vera hlutverk Umhverfisráðherra að tryggja það að horft sé til umhverfishagsmuna í málum, en ekki bara að vera stimpill fyrir iðnaðarráðuneytið. Kannski er það bara stóra sjokkið fyrir stóriðjusinna að geta ekki bara gengið að því sem vísu að allar óráðsíur, sama hversu snargeðveikar þær eru, séu stimplaðar með hressu jájá í gegnum allt kerfið að hætti lýðræðis hins sterka leiðtoga.
Og bara svo þú vitir það, þá eru umhverfisverndarsinnar ekkert lítill hópur. Ég hygg að þeir séu nú bara nokkuð fleiri í þessu landi en stóriðjusinnarnir. Stóriðjusinnarnir búa hins vegar að gríðarlegum fjármunum og geta því haft óþyrmilega mikil áhrif á umræðuna, svo ekki sé minnst á það hvað stóriðjusinnar hafa farið með miklu ofbeldi gagnvart bæði náttúru og fólki. Eða má kannski bráðum fara að tala um fólkið sem má ekki lengur koma austur á firði, því það hafði rangar skoðanir? Hvenær má fara að ræða það að hér á landi tíðkist það og líðist að umræðan sé manipuleruð það rosalega að saklaust fólk sé gert að "óvinum" heilu byggðarlaganna?
Svavar Knútur (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 04:54
Svavar Knútur: Mér finnst síðasta setningin í athugasemdinni þinni mikillar umhugsunar verð. Getum við ekki orðið sammála um að nú þegar séum við komin þangað sem við heyrum heiftaröskrin frá ármönnum tortímingarkirkjunnar? Er ekki búið að stimpla hópinn "sem stendur í vegi fyrir allri uppbyggingu á svæðinu, öllum framförum byggðarlagsins og hagsmunum þeirra þúsunda sem þar búa?"
Jú, svo sannarlega.
Ég horfði á Draumalandið í sjónvarpinu í gærkvöld. Ég hafði séð þessa mynd í Háskólabíói dgainn eftir að hún var frumsýnd.
Það er mikil reynsla að horfa á þessa birtingarmynd heimsku og tortímingar sem fjárhagslegir aflsmunir græðginnar komast upp með að láta vanþróuð samfélög sæta enn í dag á ábyrgð eigin stjórnvalda. Ábyrgð sem enginn mun né geta axlað og aðeins dómur sögunnar mun fella á þá sem hlut áttu að máli.
Og það var mikil reynsla að fylgjast með því þegar útlendur maður lýsti þeirri pólitísku áróðurstækni sem tortímingaröflin nýta sér og hvernig þetta fléttaðist inn jafnharðan og atburðarásinni vatt fram.
Konan mín horfði á þessa mynd í fyrsta sinn. Ég fylgdist með viðbrögðunum. Hún sat sem lömuð frá byrjun til enda. Einu sinni heyrði ég hana segja lágum rómi:
"Þetta er viðbjóður!"
Þakka þér fyrir komuna Svavar Knútur.
Árni Gunnarsson, 16.9.2010 kl. 08:24
Ef ætti að finna eitthvert heimildagildi í áróðursmynd Andra Snæs, "Draumalandinu", þá væri það helst að hún er heimild um "skoðanir" höfundarins. Hann þurfti reyndar ekki að gera kvikmynd til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri.
Reyndar finnst mér fyrsta korterið eða svo í myndinni, vera athyglisvert, annað er að mestu óraunhæfir draumórar rithöfundar sem lifað hefur umvafinn bómul allt sitt líf.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.9.2010 kl. 14:42
Gunnar Th. Líður þér betur eftir Þessa sjálfslýsingu? Myndin er ein samfelld heimild og mikið listaverk unnið af tveim þekktum og virtum listamönnum. Og auðvitað er það sárt að hlusta á þennan Perkins segja frá vinnubrögðum álrisanna og hvernig þeir vefja stjórnvöldum og svetarstjórnum vanþóaðra ríkja um fingur sér. Og enn sárara fyrir náttúruböðlana að sjá hvernig þessi lýsing kristallaðist í næstu myndskeiðum.
Ekki held ég að það verði skemmtilegt fyrir börn Guðmundar Bjarnasonar fyrrv. sveitarstjóra uppkomin að fylgjast með myndskeiðinu þar sem Perkins lýsir því hvernig sveitastjórar og aðri lykilmenn byggðarlaganna eru leiddir til hlýðni eins og rollur sem búið er að venja á brauð og elta eigendur sína ef þeir finna lykt af brauði.
Guðmundur brosti út á axlir þegar hann lýsti því hvað nú tæki við hjá honum: vel launað starf hjá Alcoa! Hann ljómaði eins og fátækt barn sem sér jólatré í fyrsta sinn.
"Og þetta kalla ég byggðastefnu!" sagði ungi alþingismaðurinnúr ræðustól Alþingis. Hann er nú orðinn varaformaður stjórnmálaflokks. Og svo vel hafa mál þróast fyrir Alcoa að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er maki íslenska framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Gunnar: Sagan mun dæma þessa framkvæmd. myndina Draumalandið, bókina sem byggt var á og alla þá dökku og raunalegu mynd sem íslensk stjórnvöld teiknuðu af menningarástandi þjóðarinnar í lok tuttugustu aldar.
Söguritarar munu eiga aðgang að mjög miklum sjóði upplýsinga um samfélagsleg átök og svo þjóðarumræðuna á hinum margvíslega vettvangi auk pólitískra ákvarðana. Ég tel mig vita að þessa dóms verður ekki langt að bíða því viðfangsefnið er svo ljóst og auðlesið.
En ég er kannski svolítið reiður Andra Snæ fyrir hönd hinnar grónu þingeysku menningar sem þarna var niðurlægð og dregin niður á plan háðungar.
Reyndar léku heimamenn ótilneyddir aðalhlutverkin öll með stolti og - ja, eigum við kannski að kalla það reisn?
Árni Gunnarsson, 16.9.2010 kl. 23:18
Myndin og bókin er til vitnis um hvernig hægt er leiða áfram einfeldninga með bulli og ímyndunum vinsæls rithöfundar. Perkins er reyndar rithöfundur líka og lifir á því að skrifa glæpasögur með pólitísku ívafi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.9.2010 kl. 16:01
Ég vitna óljóst í einhvern speking- einn af mörgum og man andskotann ekkert hvað hann heitir eða hét.
Og í framhaldinu þá snýst sú ívitnun um að óhugsandi sé krefjast þess af nokkurum manni að hann skilji það sem hann af einhverri óljósri ástæðu neitar að skilja.
Gunnar minn Th. Ég hef að sjálfsögðu ekki undirgengist neina skyldu í þá veru að sannfæra þig um eitt eða neitt og vil að þú vitir að við það sætti ég mig bara við. Þú hefur tekið þá afstöðu í afdrifaríku máli pólitísks eðlis sem gengur þvert á mína sannfæringu. Þetta er algengasti hlutur í heimi eins og oft er sagt og flestir telja það hið eðlilegasta mál.
Þú fannst hjá þér hvöt til að andmæla þeim viðhorfum sem ég birti af nokkrum þunga í þessum pistli. Hann er á vettvangi sem er öllum opinn til að tjá sínar skoðanir og að sjálfsögðu fagna ég því að þú eins og aðrir geri það. Ég hef óhikað haft sama háttinn á í mínum heimsóknum á þína bloggsíðu. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að tíminn leiði bara í ljós hvor okkar hafði rétt fyrir sér og að það verðum við að sætta okkur við.
Þetta er oft orðað svo að "hver éti sitt"
Kv.
Árni Gunnarsson, 17.9.2010 kl. 18:51
Vel mælt, Árni.
Svavar; "Þótt fyrr hefði verið mátti umhverfið eiga sér málsvara á stóli Umhverfisráðherra. Næga átti stóriðjan málsvara í öðrum hornum"
Þú, og reyndar margir úr röðum "umhverfisverndarsinna", talið alltaf eins og það sé "allt eða ekkert". Það hlýtur að vera hægt að hafa áhuga á því að nýta auðlindir landsins, án þess að vilja leggja allt í rúst. En ykkar málflutningur gengur út á ýkjur og misskilning í besta falli.... og lygabull í versta falli.
Umhverfisráðherra hefur skyldum að gegna, en ekki bara gagnvart náttúrunni og ófæddum kynslóðum mannkyns, eins og hún gumar oft af, heldur gagnvart núlifandi Íslendingum. Fólkinu sem vill lifa sómasamlegu lífi... í þessu lífi.
Það er ólíklegt að þessi vinstristjórn fái annað tækifæri til þess að sitja ein að völdum í landinu. Þess vegna reynir hún að koma sem flestu í verk, en flan er sjaldan til fagnaðar og öfgasjónarmið hafa tilhneigingu til að verða hallærisleg með tímanum.
Ég get bent á fjölmörg dæmi um ótrúverðugan og beinlínis rangan málflutning þeirra sem hafa barist gegn Kárahnjúkavirkjun. Bendið mér á eina lygi í Landsvirkjun.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.