17.3.2011 | 13:07
Eiga íbúar á Akureyri allt í einu svona mikið undir hraðari samgöngum til Reykjavíkur?
Það er fréttaefni í dag að nú þurfi bæjarstjórn Akureyrar að eiga mikilvægan fund með forráðamönnum tveggja hreppa í Húnaþingi. Annað eins hefur heyrst. En efni þessa fundar er undarlegt í mínum huga. Nú stendur það nefnilega til að flytja Þjóðveg 1 frá Blönduósi og stytta þar með leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um fáeina kílómetra.
Þegar þjóðvegur milli Norður- og Suðurlands var lagður gegndi þorpið Blönduós mikilvægu hlutverki hvað margþætta þjónustu við fólk og farartæki áhrærði. Margir komu þreyttir á Hótel Blönduós eftir langa hrakninga í illviðrum vetrar og þáðu kærkomna aðhlynningu. Nú er þetta breytt.
Nú eru nýir tímar og það er í tísku að segja: "Við gerum þá kröfu!"
Kannski er Ísland bara reikningsdæmi sem gera skal upp að kvöldi hvers dags og án allrar tengingar við fólkið í landinu.
En nú er talað um að hagvöxtur okkar sé neðan við öll viðunandi mörk og hann þurfi að auka hið bráðasta. Og nú lesum við um styrkingu japönsku myntarinnar vegna þess að uppbygging eftir hamfarirnar 11. mars muni auka hagvöxtinn svo gífurlega í því hrjáða samfélagi.
Ég legg til að við höldum Blönduósi í byggð áfram og tryggjum þjóðinni í bráð og lengd áfram þann hagvöxt sem það skapar að aka örlítið lengri leið frá Reykjavík til Akureyrar.
Og vel á minnst: Skammist ykkar þið þarna bæjarfulltrúar á Akureyri og farið að gera eitthvað af viti!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Ég legg til að við höldum Blönduósi í byggð áfram..."
-Merkilegt þegar fullorðnir menn gefa það í skyn að byggð leggist af á Blönduósi þegar þjóðvegur 1 verður færður.
Blönduós verður áfram í jafngóðu vegasambandi og áður, vegurinn verður ruddur daglega en líklega verður utanverður Langidalur ruddur sjaldnar en nú er.
Í e-h tilfellum mun því ökuleið Blönduósinga lengjast e-h þegar þeir aka til Akureyra að vetri. Sú lenging er þó ekki nema helmingur þess króks sem öllum vegfarendum er nú gert að taka til norðurs á núverandi þjóðvegi.
stormur (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 14:25
Blönduós á mikið undir þeirri umferð sem fylgir þjóðvegi 1. Þessi hugsjón um nýja leið er sprottin frá verktökum vestan af fjörðum sem vantaði verkefni og fengu einhverja vitrun eða hugljómun á ferð um Norðurland. Þessi stytting vegarins er svo nauðalítil að hún skiptir ekki nokkurn mann máli. Það er aftur á móti ljóst að nái þetta fram að ganga mun aukast viðhald vegum sem þessum kafla nemur. Ég legg til að þessi framkvæmd verði hlegin út af borðinu og það vegafé sem þá sparast verði sett í vegi á Vestfjörðum.
Fáránlegt að heyra þennan bæjarstjóratitt tala um að kalla saman sveitarstjórnir í öðrum sýslum eins og hann hafi boðvald í málinu!
Árni Gunnarsson, 17.3.2011 kl. 15:47
Stormurinn áttar sig greinilega ekki á því á hverju Blönduósingar lifa, svo hangir Skagaströnd líka á spýtunni.
Ég sé fyrir mér svipinn á Akureyringum kæmi sú krafa frá Þingeyingum að vegurinn verði tekinn þaðan sem hann kemur út úr Hörgárdal í göngum undir Eyjafjörð og hinumegin beint í Vaðlaheiðargöngin. Ef Þingeyingar losnuðu við krókinn inn fyrir Akureyri, svo ekki sé talað um að þurfa að fara þar í gegn, ná þeir meiri styttingu á leiðinni til Reykjavíkur en nemur Svínavatnshugmyndinni. Ég hygg að þá fengi bæjarstjórnin á Akureyri nokkurn skilning á afstöðu Blönduósinga.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.3.2011 kl. 13:48
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Akureyrarkeisara að ......
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.3.2011 kl. 13:52
Já, það væri ásæða til þess fyrir íbúa Akureyrar að íhuga þessa hugmynd um göng undir Eyjafjörðinn. Merkilegast finnst mér þó hversu mikla athygli þessi tillaga Vestfirðinganna vakti hjá Akureyringum. Það mætti halda að þessi spotti sem sparast við Húnavallaleiðina hefði getað bjargað meirihlutanum á Akureyri.
Árni Gunnarsson, 18.3.2011 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.