15.11.2011 | 22:04
Allir fái veiðiheimildir
Ætlar þessi hringavitleysa í stjórnun fiskveiða að taka eina kollsteypuna í viðbót?
Nú verður þjarkað um þessa snilldaruppástungu í nokkra daga og kosin nefnd með fulltrúum "hagsmunaaðila" til að fara yfir delluna.
Hvenær birtist einhver fulltrúi þjóðarinnar í ræðustól Alþingis og spyr spurningar sem máli skiptir?
Sú spurning beinist að ráðherra sjávarútvegs og varðar aukningu á afla í þorski um svona 40-60 þúsund tonn. Líklega gæti LÍÚ bara verið til friðs í bili eftir þá ráðstöfun....eða hvað?
Síðan gæti sami ræðumaður (til að spara tíma) farið fram á það að handfæraveiðar yrðu gefnar frjálsar innan einhverra reglna um ganghraða fiskiskipa, stærð þeirra og hámark í tæknivæðingu. (Svona til að friða veiklundaða)
Svo er óhætt að Alþingi endurskoði alræði Hafró með hliðsjón af reynslu af sókninni í þorskinn í Barentshafi.
Þar er letruð skýrum stöfum falleinkunn fiskifræðinga Alþjóða hafrannsóknarstofnunarinnar.
Allir fái veiðiheimildir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flottur!
Aðalsteinn Agnarsson, 15.11.2011 kl. 23:54
Árni, fyrirgefðu að ég skuli vera að kommenta hér um allt annað en þetta, en ég sá að þú varst að setja inn athugasemd hjá manni sem heitir Þorsteinn H. Gunnarsson um vindrafstöðvar. Það hefur eitthvað sáralitlu af fróðleik um þessi merkilegu tæki verið skrásett að manni skilst og er það miður. Mig grunar, að þú vitir ýmislegt um vindrafstöðvarnar og reyndar líka um rafmagnsframleiðslu til sveita fyrir daga veiturafmagns. Mér þætti við hæfi að þú myndir nú skrá það sem þú veist, þótt ekki væri nema til að heiðra minningu karls föður þíns, sem mig grunar að hafi verið einn sárafárra bænda, sem eitthvað kunnu fyrir sér í rafmagnsfræðum. Hvernig líst þér á hugmyndina gamli vinur?
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.11.2011 kl. 17:12
Feginn tæki ég þetta að mér ef ég treysti mér til, en því fer víðs fjarri. Ein skemmtileg frásögn af frumkvöðlum þessarar tækni er skráð af Þórólfi Árnasyni rafmagnsverkfræðingi og fyrrv. borgarstjóra. Þessi frásögn er í bókinni "Dynskógar" Rit Vestur-Skaftfellinga og nefnist Rafvæðing í Vestur-Skaftafellssýslu. Undirtitill er: Þáttur hugvitsmanna í héraði. Þessa bók gaf Þórólfur móður minni sem var eins og þú líklega veist, ömmusystir hans og svo lenti bókin hjá mér.
Ég ræddi þessi tæknimál aldrei við föður minn sem vann reyndar eittthvað við að setja upp vatnsaflsstöðvar á bæjum fyrir austan. Meðal annars minnir mig að hann hafi sett upp slíka stöð á bænum Fossi á Síðu og ekki ólíklegt að túrbínan hafi verið smíðuð þar í héraði.
Faðir minn hafði lærdómsheitið raffræðingur eftir 3ja ára nám við Skiensfjordens Mekaniske Fagskole á Porsgrunn í Noregi.
Kv.
Árni Gunnarsson, 18.11.2011 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.