23.3.2014 | 17:10
Landsfundur sjálfstæðismanna, Molbúi og blóðmörsspýta
Flestir af minni kynslóð muna líklega eftir Molbúasögunum. Fátt kann ég að segja af því umrædda fólki en Molbúasögur las ég sem krakki og hafði af þeim dágóða skemmtan án þess að velta fyrir mér uppruna sögupersónanna.
Þessar sögur koma stundum upp í hugann í tengslum við pólitíska umræðu á Íslandi og þó sérstaklega ein þeirra sem er dæmigerð fyrir það klúður sem stundum verður þegar ráðherrar fara að hafa tilburði við að slá í gegn með gildishlöðnum yfirlýsingum.
Molbúasagan umrædda segir frá því er Molbúi reri einsamall til fiskjar á báti sínum. Þetta var áður en það varð glæpur að veiða fisk nema að fengnu leyfi frá Fiskistofu. Ekki segir af aflabrögðum en skyndilega hvessti og karli leist ekki á blikuna þar sem hann barðist gegn rokinu og sóttist seint róðurinn. Datt honum þá í hug að áheit hefðu mörgum úr háska bjargað og fór að velta því fyrir sér hverju hann ætti að heita. Hann mundi að kona hans hafði verið að elda slátur þegar hann fór að heiman og engan mat visssi hann betri en heitan blóðmör. Og hann tók þá erfiðu ákvörðun að heita því að bragða aldrei framar blóðmör ef honum auðnaðist að sleppa lifandi úr þessum háska.
Ekki er að orðlengja að eins og hendi væri veifað lægði vind og gerði koppalogn.
Molbúinn rölti til bæjar eftir að hafa ráðið skipi sínu til hlunns og á móti honum tók eiginkonan himinglöð og slengdi hrokafullu fati af rjúkandi blóðmör á borðið. Molbúinn horfði hungruðum angistaraugum á blóðmörinn minnugur hins ægilega fyrirheits sem hann sá í sviphending að myndi fylgja honum til æviloka og ræna þessari dýrmætu ánægju.
Skyndilega datt honum snjallræði í hug. Og það fólst í því að heitið teldist uppfyllt þótt hann borðaði blóðmörinn ef hann borðaði ekki vömbina utan af keppnum. Hann tók glaður til matar síns og innan skamms hafði hann lokið við blóðmörskeppinn. Vömbin lá á diskinum ilmandi og það rifjaðist upp hversu mikið lostæti nýsoðin vömb væri.
Hann sá í hendi sér að einhvern veginn yrði hann að snúa ofan af þessari kvöð. Keppnum hafði eiginkonan lokað með því að þræða opið saman með mjórri spýtu. Og nú sagði hann við sjálfan sig að það væri áreiðanlega allt í lagi að éta blóðmörinn og vömbina með ef hann snerti ekki blóðmörsspýtuna. Og svo át hann vömbina með góðri lyst og enn betri samvisku.
Sjálfstæðismenn keppast við að sannfæra hver annan með því að landsfundur Flokksins sé æðri loforðum formannsins. Landsfundurinn hafi kveðið skýrt á um að ekki yrði haldið áfram með umsókn í ESB. Þess vegna skipti þau orð Bjarna formanns að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa fjandans umsókn engu máli. Landsfundurinn leyfi ekki atkvæðagreiðslu.
Þessi dýrmæta lausn bjargaði geðheilsu margra góðra Flokksmanna og málið er dautt.
Eða, eiginlega dautt, semsagt, eða þannig sko!
Landsfundarsamþykkt sjálfstæðismanna er ígildi blóðmörssspýtu Molbúans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ja ég gæti best trúað að Engeyjarbarnið æti blóðmörsspítuna einnig , já og það "vafningalaust" .
Ég er þér hjartanlega sammála og samlíkingin er góð .
Hörður B Hjartarson, 5.4.2014 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.