20.4.2007 | 15:46
Ábyrgð kjósendanna I. hluti
Stundum finnst mér eins og umræðan í okkar ágæta þjóðfélagi sé dálítið þokukennd þegar kemur að illskunni út í stjórnvöld. Engum ætti að blandast hugur um að á hverjum tíma starfa stjórnvöld í umboði kjósenda sem því samkvæmt bera sjálfir mesta ábyrgð þegar upp er staðið. Þar ber þó þess að gæta að hér á landi eru ekki dæmi um annað en samsteypustjórnir þar sem flokkar semja um heildarstefnu í veigamiklum málum við stjórnarmyndun. Þess vegna er vandi kjósenda meiri en ella. Verst í þessu máli er þegar stjórnmálamönnum tekst að rugla kjósendur með því að segja þeim fyrir kosningar að þeir séu öðruvísi stjórnmálaafl en raun ber vitni. Þarna eru talnaleikir gjarnan settir upp ásamt vottun frá einhverjum "óháðum álitsgjöfum." Kjósendum er vorkunn þótt þeir verði svolítið ringlaðir af öllum þeim þulum.
Nú segir formaður Framsóknarflokksins að flokkur hans sé "þjóðhyggjuflokkur." Fyrir svona 40 árum hefði þetta nálgast að vera satt. Þetta vekur hjá mér spurningu um breyttan skilning á þessu annars auðskilda orði. Þjóðhyggjuflokkur þessi byggði undir gömul samfélagsgildi með því að ræna fólkið í sjávarplássunum réttinum til nýtingar þeirrar auðlindar sem hafði verið órofa hluti af sögu þess, menningararfi og auk þess helsta forsenda afkomunnar í beinum skilningi. Nú er svo komið að það fólk sem enn þraukar þarna situr í verðlausum og nánast óseljanlegum íbúðum en þeir sem við þessari auðlind tóku til nýtingar hafa fengið leyfi til að eigna sér allt dæmið og nú gengur það kaupum og sölum fyrir 20falt verðmæti afurðanna. Þjóðhyggjupostularnir gerðu sjávarbændur að viðskiptavinum fiskbúðanna því dauðamenn refsilöggjafarinnar eru þeir bændur sem sækja sér björg í bú frá lendingunni nema þeir hafi áður greitt svonefndum sægreifum skilvíslega fyrir áður, og sama er með rauðmagann og grásleppuna sem gapir úti í þaranum. Þjóðhyggja framsóknarmanna birtist í eiturspúandi álbræðslu sem á að sameina austfirskt vinnuafl í háðulegri eftirlíkingu af evrópskri verksmiðjuborg. Íslenskum bændum er meinað að slátra lambi og reykja það til að rækja vináttu við fjárlausa fjölskyldu í þéttbýlinu. Þess í stað var sauðfjárbændum gert að loka hið snarasta öllum litlu sláturhúsunum sem höfðu lífgað upp á mannlífið í hinum dreifðu byggðum haust hvert og skapað fólkinu þar góða atvinnu. Nú eiga fjárbændur að reka sláturlömbin sín upp á þriggja hæða flutningavagna að Ný sjálenskri og ástralskri fyrirmynd og senda þau 700-800 k.m. leið í nýtísku sláturhús vegna reglugerðar sem við undirgengumst af þeim góða skilningi að öll vor upphefð kemur að utan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.