25.4.2007 | 18:20
Alþingismaður flengdur á kosningaferðalagi um Vestfirði
Hefur einhver séð þessa frétt? Sennilega ekki og ekki hef ég séð hana ennþá. En oft hef ég leitað að henni vegna þess að mér finnst alltaf fyrir Alþingiskosningar að þessi frétt sé í sjónmáli.
Fyrir hverjar kosningar kemur hvert þingmannsóbermið öðru óburðugra í sjávarplássin vestur á fjörðum og boðar sókn til atvinnutækifæra með sértækum aðgerðum. Kjósendur hlýða á boðskapinn opnum munni og fer að líða betur. Af hverju geta þessir menn ævinlega sótt sér umboð fólksins sem þeir rændu og sviku í stað þess að ná sér í ærlega hýðingu? Mér er þetta alveg óskiljanlegt.
Mig rámar í gamla sögu af því þegar sýslumaðurinn á Ísafirði var settur af vegna meintra mistaka í erfiðu dómsmáli. Annar var skipaður í hans stað en í óþökk heimamanna sem vildu hafa sinn fyrri sýslumann, hann var þeirra maður. Og nú urðu þau fáheyrðu tíðindi á Ísafirði að nokkrir skapmenn sóttu hinn nýja sýslumann í hús á næturþeli, drógu hann út og flengdu. Sá hafði þó ekkert til saka unnið annað en að verða fórnarlamb heitra tilfinninga í erfiðri deilu skapmikilla sævikinga við kansellíið í Reykjavík. "Já, það er kjarkmaður Kolbeinn í Dal", sagði Magnús sýslumaður Torfason á Ísafirði í frægu barnsfaðernismáli snemma á síðustu öld.
Það er almenn skoðun að öðru jöfnu sé ósiður að berja menn. Ég er ekki viss um að þetta þurfi endilega að vera algilt viðhorf. Ég er nefnilega fastur á þeirri skoðun að það sé hverjum misheppnuðum alþingismanni hollt að vera flengdur af umbjóðendum sínum í kjördæminu svona í það minnsta einu sinni, -bara til reynslu og öðrum slíkum til viðvörunar
Eiga þeir enga afkomendur lengur fyrir vestan, þeir Kolbeinn í Unaðsdal og Alexander á Dynjanda? Aldrei held ég að þeir hefðu látið lögin um stjórn fiskveiða yfir sig ganga andmælalaust.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.