13.5.2007 | 20:42
Hvað varðar kjósendurna um þetta?
Úrslit kosninganna eru ljós hvað þingstyrk flokkanna varðar. Jafnframt kosningunum fjölgaði stjórnmálafræðingum á Íslandi umtalsvert svo sem venja er. Þar taka margir til máls og túlkar hver fyrir sig en þó flestir fyrir þjóðina alla sem væri mikill kostur og tímasparnaður ef ekki væru erfiðar misvísanir í þeim úrlausnum. Það, útaf fyrir sig er slæmt því allir segja að úrslitin séu skýr skilaboð um vilja þjóðarinnar. Ég tel mér skylt að upplýsa að ég er einn af þessum nýju spekingum og var nú kominn tími til að ég fengi vitrun eins og aðrir.
Stjórnin hélt velli með eins litlum meirihluta og orðið getur. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins lýstu góðum stuðningi við meirihlutasamstarfið og vænta þess nú að á þessu kjörtímabili takist þeim að ná til sín því sem eftir er af fylgi samstarfsflokksins í framlengdu samstarfi. Þetta er í senn göfugt markmið og metnaðarfullt. Enginn vafi á því heldur að þetta muni þeim takast haldi samstarfið áfram.
Stór hluti kjósenda Framsókarflokksins sendi þau skilaboð til forystunnar að nóg væri komið og pólitiskar áherslur hans væru þeim langt frá því hugnanlegar. Fulltrúar hinna gömlu gilda flokksins skipuðu efstu sæti flokksins á Suðurlandi og náðu því að halda sínum hlut sem telja má tíðindi í mesta fylgishruni flokksins í allri sögu hans. Þetta eru nokkuð skýr skilaboð um að flokkurinn hafi tekið stefnu sem fylgjendur hans mótmæla og kannast ekki við. Hin harða og óbilgjana fjármagnshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins hefur skipt þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar gagnkvæmrar óvildar og hér er mikið sagt. Flokkurinn lítur á auðlindir þjóðarinnar sem bráð til að hremma og hefur tekist það með atbeina þeirra afla innan samstarfsflokksins sem nærst hafa á sömu hugsjónum. Ekkert er undanskilið í því efni og þetta er öllum ljóst.
Nú er gullið tækifæri til að breyta um þær pólitísku áherslur sem skipta sköpum um ásýnd lands og þjóðar. Verði ekki samkomulag um það hjá stjórnarandstöðunni og þeim Framsóknarmönnum sem eru sama sinnis að snúa bökum saman og sýna pólitískan þroska nú í byrjun næstu viku er það tækifæri gengið þjóðinni úr greipum í eitt skipti fyrir öll.
Nú er ekki annað í boði en það að slíðra sverðin og binda saman fjögra flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks. Það er blátt áfram skylda við land og þjóð og undan henni má enginn víkjast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Veit nú ekki með Guðna í þessum skrifum þínum en Bjarni Harðarson er greinilega talsmaður samvinnuhugsjónarinnar. Vonum bara að hann komi til með að hafa meira vægi en S-hópurinn.
Ævar Rafn Kjartansson, 13.5.2007 kl. 22:12
Væri ekki best að þessir herramenn reyndu sig við að stjórna við þessar aðstæður (allir með neitunarvald). Nú þurfa þeir að kljást við ýmis kreppueinkenni sem skjóta upp kollinum í hagkerfinu. Ætli þeir kolsigldu sig ekki fljótlega við það. Ég er á móti því að stjórnarandstaðan taki á sig að slökkva eldana sem þessi stjórn hefur kveikt fyrst ekki tókst að fella hana. Lítur ekki vel út til skammstíma en til lengri tíma litið er það betra held ég. Þessir flokkar tveir eru að verða einsog SÍS-óværan og kolkrabbavargurinn, nánast ómögulegt að losna við þá. Látum þá hengja sig í sinni eigin snöru!
Sjálfskipaður álitsgjafi í öllu sem mér kemur við og hinu líka!
Auðun Gíslason, 13.5.2007 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.