14.5.2007 | 22:25
Þegar dómgreindin fellur úr hor
Undarleg þessi dómgreind sem allir tala um en fáir hafa kynnst að ráði. Sá fréttaþátt í Kastljósi áðan og duttu allar dauðar lýs úr höfði. Þetta var svona fréttasprengja lík því sem gerist þegar dópisti lemur mann. Konugarmur, sýnilega hálfgerður auli hafði vanrækt útigangshrossin sín og þetta hafði verið margítrekað fréttaefni í eina tvo daga. Sýndar voru myndir af stóðinu og rætt við eigandann.
Í stuttu máli var um að ræða mögur hross eins og hross voru venjulega í gróðurskiptum á Íslandi nema kannski í undantekningatilvikum. Slæmt að vísu og ekki verjandi nú á tímum þegar ástæðulaust er að fólki leyfist að eiga skepnur nema þeim sé sómasamlega sinnt. Þarna voru fylfullar hryssur sem ákveðið hafði verið af dýralækni að fella. Bráðabirgðalausn hafði náðst með því að nágranni konunnar bauðst til að taka hryssurnar til aðlynningar. Þennan mann þekki ég nokkuð og efast ekki um að honum takist að fylgja hryssunum eftir fram yfir köstun. Grinhoraðar voru þær ekki en áberandi aflagðar á hold. Það sem upp úr stendur er þetta: Dýralæknir úrskurðar að fella skuli hryssur sem komnar eru að köstun. Þessi ákvörðun er svo hræðileg og ómanneskjuleg að mig setti hljóðan við að hlýða á boðskapinn. Þarna liggja að minni hyggju þau rök ein að baki að bregðast við æsifréttum með aulahætti. Það þarf gildari átæður en myndir þessar sýndu til þess að framkvæma siðlaust athæfi hvort sem um ræðir menn eða dýr. Það þarf að stöðva akademiska embættismenn í að fella úrskurði í viðkvæmum málum eftir að dómgreind þeirra er fallin úr hor.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sá part af þessari frétt og merarnar voru ekki gæfulegar. Það er líka stórundarlegt hvernig allir virðast geta haldið dýr án alls eftirlits. En að fella þessar merar fylfullar þegar það virðist vera hægt að bragga þær er bara hrein mannvonska. Auðvitað á dýralæknir að setja einhver mörk eða eftirlit með skepnunum en þetta nær ekki nokkurri átt.
Og góðan bata...
Ævar Rafn Kjartansson, 14.5.2007 kl. 22:41
Ég er smmála þér Árni þetta var ekki efni sem þarf að hamra á aftur og aftur.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 14.5.2007 kl. 22:47
Hvaða bull er í gangi? Hafa menn ekki haldið útigangshross í gegnum aldir og fjandakornið hafa þeir ekki haft þau á húsi og fóðrum heima hjá sér. En svona er nútíminn. Mannúðin snýr að útigangshrossum og hvölunum í sjónum meðan mannskepnann drepst í nepjunni! Við getum þó glaðst yfir einu Árni. Vitringarnir eru hættir að tala um að fækka öryrkjum, enda fátt til ráða í málum þeim eftir að Auschwitz, og öðrum slíkum stöðum, var lokaði. Þar var jú eitthvað fengist við að fækka fólki eins og mér og þér...
Auðun Gíslason, 14.5.2007 kl. 23:50
Hvað með önnur grönn spendýr svo sem grindhoraðar kasólléttar konur? Á að farga þeim vegna holdafarsins og kalla það illa meðferð á þeim. Þessi sjónvarpsfrétt af ákvörðun misviturs dýralæknis ætti að segja allt um hversu fákunnandi einstaklingar geta verið þrátt fyrir að þeir kalli sig lækna.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 15.5.2007 kl. 15:40
Hallgrímur Thorsteinsson fráttamaður kemur holdskarpur undan þessum vetri. Væri ekki ráð að næringarfræðingar fengju lögregluheimild til að rannsaka matseðilinn hjá frúnni? Ég bara spyr si sona. En ég er fastur á þeirri skoðun að hvað sem þar kæmi í ljós legðist ég eindregið gegn því að manninum yrði fargað.
Árni Gunnarsson, 15.5.2007 kl. 16:34
Ha,ha, þú ert alveg óborganlegur Árni þegar þér tekst hvað best upp...takk..
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.5.2007 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.