Enn um ánna og brúnna

Er til of mikils mælst að þeir sem skrifa fréttir kunni að fallbeygja algengustu orð? Það má teljast öruggt að í hverjum fréttatíma öskra hinar ýmsu ambögur á hlustendur. Ærin og kýrin heita oftar en ekki áin og kúin og endalaust er talað um ánna, kúnna, tánna, og brúnna svo eitthvað sé nú nefnt af allri þessari dauðans vitleysu. Ekki batnar ástandið þegar fréttamenn fara að nota gömul orð og máltæki án þess að botna nokkuð í merkingunni. "Hann er nú talinn einn helsti vonarpeningur okkar", heyri ég oft þegar um sérlega álitlegan einstakling er rætt. Vonarpeningur er gamalt orð úr bændamenningu okkar og merkir grip sem er kominn af fótum fram, annaðhvort af megurð eða elli.

Það setti að mér hlátur í gærkvöld þegar þulur Sjónvarpsins greindi frá endurkomu Kryddpíanna ensku. Það hafði margt drifið á daga stúlknanna frá því þær tóku sér hvíld frá skemmtanaiðnaðinum. "Sem nú eiga sjö börn sín á milli!" Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig þær fóru að því að eiga þessi börn sín á milli!


mbl.is Maður í sjálfheldu eftir að hafa fallið fram af klettum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ágætur málfarspistill hjá þér, félagi.

Jón Valur Jensson, 29.6.2007 kl. 20:26

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég held að þú sért að verða okkar helsti "vonarpeningur"í íslensku málfari.Ágætur pistill hjá þér eins og endra nær.Svona málfar var ekki viðhaft í okkar sveit á Reykjaströndinni.

Kær kveðja

Kristján Pétursson, 29.6.2007 kl. 21:31

3 identicon

Gott hjá þér Árni, það veitir sannarlega ekki af.

Ásgeir Ásgeirsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 23:15

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þetta er nú ljótt af þér. Nú lenda flestir verðandi Laxnesar þjóðarinnar í tilvistar- og ritvinnslustíflu yfir þessu enda starfandi sem blaðamenn á óprófarkalesnum blöðum nútímans með það eitt í laun að vera "blaðamenn" og færir um að fjalla um Bauginn illa og endur húsdýragarðsins. Mörg meistaraverk þessara manna og kvenna verða nú óbirt vegna vægðarlausrar gagnrýni þinnar og þjóðin bókmenntalega fátækari fyrir vikið.

Ekki vildi ég þurfa að bera þá sök sem á herðum þér hvílir!

Og kryddpíurnar náttúrulega deildu bara sæði Edda Murphys sín á milli og hann á von á sjöfaldri meðlagsgreiðsu. Er það eitthvað flókið? 

Ævar Rafn Kjartansson, 30.6.2007 kl. 01:43

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er engin hætta á ferðum Ævar minn. Flestir þessir blaðamenn eru svo heimskir að þeim er fyrirmunað að skilja svona athugasemdir. Annars er þetta nú reyndar grafalvarlegt mál vegna þess að margir íslenskukennarar er ekki neitt skárri. Fyrir alllöngu lenti ég í þeim vanda norður á Krók að eitt barna okkar fékk aðkomukennara, unga konu nýkomna með kennsluréttindi.

Ég hafði ekki áhyggjur af barninu sem var með afar góða málkennd og hafði sannað sig fyrir mér með óvenju góðri stafsetningu miðað við aldur.

Eitt sinn opnaði ég af rælni æfingabók stafsetningar. Ég rak upp öskur. Allar síðurnar voru útataðar í rauðum "leiðréttingum." Þarna hafði kennaradruslan breytt rétt rituðum orðum í glórulaust bull. Auðvitað ærðist ég og óð til skólastjórans með fréttirnar. Niðurstaðan varð sú að ég fékk barnið flutt til annars kennara en konukindin hélt starfinu til vors.

Það er nefnilega ekki við góðu að búast í dag í þessu efni.

Árni Gunnarsson, 30.6.2007 kl. 13:04

6 Smámynd: Jens Guð

  Vegna Kryddpíanna sem eiga börn sín á milli rifjaðist upp fyrir mér að á dögunum hitti ég á bar fullorðinn kunningja.  Hann var alveg á skallanum.  Dómgreindin fokin út um glugga vegna öldrykkju.  Hann var á spjalli við ókunnugan mann.  Sá ókunnugi spurði hvað kunninginn ætti mörg börn.  Þá sló út í fyrir þeim fulla og hann svaraði drafandi röddu:  "Ég á 4 börn með 7 konum."  Hið rétta er að hann á 7 börn með 4 konum.   

Jens Guð, 2.7.2007 kl. 23:52

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég hefði nú haldið að meðlagsstofnun héldi að honum fjöldanum.

Árni: Konukindin er örugglega ennþá kennari en vonandi búin að læra sjálf meira.  Ég hef lent í því að hjálpa heilum bekk að skilja konuna við töfluna og túlka orð hennar af því að ALVÖRU KENNARI hafði notað stærðfræði eldri bekkja til að halda mér við efnið í grunnskóla.

Ég hef upplifað æðislega, nothæfa, skelfilega og heimska kennara. Þegar enskukennarinn minn í Fjölbraut gaf mér B í ensku vildi ég yfirfara prófið. Ég þurfti 3 stig í viðbót í A. Það voru 8 LEIÐRÉTTINGAR VITLAUSAR HJÁ HONUM!

Vænst þykir mér um fræðimennina þó þeir hafi ekki alltaf verið góðir kennarara.  

Ævar Rafn Kjartansson, 4.7.2007 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband