Af áhyggjum og alvarlegum augum

Allt frá því framkvæmdir við Kárahnjúka hófust hefur þjóðin verið kölluð í tilfinningaleg uppþot á nokkurra mánaða fresti. Fyrir þessum uppþotum hafa staðið fréttablöðin ásamt Ríkissjónvarpinu. Ástæðurnar hefa verið fregnir af grófum mannréttindabrotum og jafnframt brotum á vinnulöggjöfinni frá A-Ö.

Í viðtöl hafa verið kvaddir allir þeir sem málið varða af hálfu eftirlitsstofnana þjóðarinnar og allir hafa þeir komið af fjöllum. Jafnt á það við um pólitíkusa, ráðherra, forystumenn launþegahreyfinga, Vinnumálastofnun og vinnueftirlit. Allir hafa náttúrlega komið af fjöllum, enda eru fjöll víðar á þessu landi en norður af Vatnajökli. 

Og auðvitað hafa viðbrögðin ævinlega verið á einn veg. Hinir ábyrgu embættismenn, pólitíkusar og formenn eftirlitsstofnana hafa lýst áhyggjum og líta málið alvarlegum augum "ef satt reynist."

Oll þjóðin hefur það fyrir satt að þarna setji atvinnurekendur, erlendir sem innlendir sér sín eigin lög og komist upp með það.

Nú síðast varð þarna fjöldaslys fyrir nokkrum dögum. Í ljós kom að stærstur hluti þeirra erlendu starfsmanna sem við sögu komu var óskráður!

Þegar framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar mætti í viðtal í beinni útsendingu minnti hann á skóladreng sem mætir ólesinn í munnlegt próf. Eitt kunni hann þó utanað. Hann hafði áhyggjur af málinu og leit það alvarlegum augum"ef satt reyndist."

Jóhanna félagsmála kom líka í viðtal og var mikið niðri fyrir eins og ævinlega. Hún sagði málið grafalvarlegt og hún hefði af því áhyggjur. Hún var ráðin í að skipa nefnd á næstu dögum til að fara ofaní þetta mjög svo alvarlega mál sem hún taldi það vera "ef rétt væri frá því skýrt."

Nú hygg ég að öllum væri fyrir bestu að þjóðin yrði látin í friði vegna mannréttindabrota á starfsmönnum við Kárahnjúka. Við vitum öll að þar verður engu breytt héðan af. Enda ekki til þess ætlast,  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Árni.

Samstaða verkafólks hér á landi hvaðan sem það er ættað eða upprunnið er eitthvað sem þarf og verður að skapa að mínu viti.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.8.2007 kl. 01:11

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Já viðurkennum bara þrælahald og að nokkrir réttindalausir erlendir verkamenn komnir undir græna torfu sé bara "ásættanlegur fórnarkostnaður" eins og Landsvirkjun orðar allar misfellur sem verða á röngu mati, eftirliti og tímasetningum sínum. Eyðilagt varp þúsunda gæsapara, óþekktur fjöldi innikróaðra dýra sem drukkna við gerð Hálslóns, land- og vatnsréttindi bænda ásamt náttúrunauðgun þessa skrímslis eru "ásættanlegur fórnarkostnaður" í ársskýrslum og svo er skálað fyrir vel heppnuðum framkvæmdum með mönnum sem hafa orðið uppvísir að ósvífnum viðskiptaháttum um allan hin siðmenntaða heim. En við tilheyrum honum hvort eð er ekki.

En ef satt reynist verður málið litið alvarlegum augum og sett í nefnd. Sem kemur saman í maíbyrjun árið  sem næstu kosningar verða.

Ævar Rafn Kjartansson, 30.8.2007 kl. 01:31

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þar mælir sá aldni nokkur sönn orð.

Sjálfsköpuð fáviskan í hinu opinbera batteríi, & dugleysi þeirra stéttarfélaga verkamanna sem að eiga að gæta hagsmuna sinna félagsmanna undanfarin ár eiginlega kristalast í þessari frétt, & færslu þinni Áddni minn.

Starfsmannaleigur eru einfalt þrælahald.

Við þykjumst vera betri.

Okkar þjóðfélag er aumt í dag, kosníngar munu fáu breyta.

S.

Steingrímur Helgason, 30.8.2007 kl. 03:03

4 Smámynd: Steinn Hafliðason

Hvað hefur verkalýðshreyfingin okkar gert í þessu máli?

Steinn Hafliðason, 30.8.2007 kl. 09:59

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Albert Örn Erlingsson ræðir um þessi mál við Gissur Pétursson í Blaðinu í dag; hvet ykkur til að lesa alla þá hörmung. Núna er ég að hlusta á Skúla Thoroddsen lögfræðing verkalýðshreyfingarinnar í spjalli við Sigurð G. á Útvarpi Sögu. Ekki batnar umhverfi erlendra starfsmanna í mínum huga við þá viðbót.

Hvað ætli að þurfi að gera bitastæðan starfslokasamning við þessa vörslumenn vinnusiðgæðis á Íslandi til að losna við þá?

Líklega þarf Baugur að koma einhvernveginn inn í mál þessa erlenda verkafólks til að málin teljist þurfa rennsókn.

Árni Gunnarsson, 30.8.2007 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband