Af reiðskapnum kennist hvar heldri menn fara

Fréttir bárust af dýrum og metnaðarfullum bílakosti nokkurra fjárfesta sem komu saman nú fyrir skemmstu.

Þetta minnir mig á samtal við mann nokkurn sem sagði mér frá því nýlega er hann þurfti að skjótast á skrifstofu uppi í einhverjum Höfðanum. Stórt flæmi bílastæða var upptekið af dýrustu gerðum glæsijeppa og öðrum ámóta verðmiklum farkostum af ýmsum gerðum.

Þegar honum hafði tekist að koma bíl sínum fyrir á grasflöt í grenndinni gekk hann inn á áfangastað og varð fyrst fyrir að spyrja um hvaða þjóðhöfðingjar hefðu helgað sér þessi bílastæði?

Honum var tjáð að þarna væru saman komnir á fundi helstu forsvarsmenn lífeyrissjóða okkar!

Mér kemur þetta í hug núna þegar fréttir berast af 5 milljarða fjárfestingu lífeyrissjóðanna í Fl. Group sem nú hefur orðið viðskila tæpa 200 milljarða á fáum dögum ef ég man rétt.

Gæti þetta verið ástæðan fyrir þeirri varkárni lífeyrissjóðanna sem birtist í skerðingu bóta hjá nokkrum hundruðum öryrkja?

Mikilvægast er nú samt að missa ekki sjónar á því hlutverki stjórnendanna að sjá til þess að þeir hafi á hverjum tíma þokkalega bíla til afnota þegar þeir koma saman til að ræða þau leiðinda óhöpp að hafa tapað milljörðum af eigum umbjóðendanna.

Reyndar er þarna um smáaura að ræða þegar þess er gætt að innstreymi í þessa sjóði er nærri milljarður á dag. Manni sýnist að mesta vinnan sé fólgin í því að passa vel upp á að þessir aurar komi ekki eigendunum til góða nema að ítrustu lágmörkum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Þetta er góður pistill hjá þér Árni og það mættu fleiri skrifa um þessa blessuðu lífeyrissjóði. Takk fyrir þetta innlegg í umræðuna.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 4.12.2007 kl. 23:29

2 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Góður sem ávallt.

Ólafur Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 06:55

3 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

money.jpg

Það er enginn dagblaðapappír á kamrinum hjá þessum greifum.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.12.2007 kl. 08:23

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er alltaf hættulegt þegar menn taka til við að áhættufjárfesta fyrir peninga sem þeir eiga ekkert í.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.12.2007 kl. 01:49

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta held ég að sé grundvallaratriði, Gunnar.

Mér finnst að svona vinnubrögð hafi náð að þróast hér svona einhvern veginn á hljóðlátan hátt. það er slæmt þegar samfélagið samþykkir með þögninni og þegar jafnframt virðist skorta skýrar reglur um svona lagað.

Mér finnst þetta alltof mikill galgopaháttur og vitað að ef óhöpp verða þá ber enginn ábyrgð.

Árni Gunnarsson, 7.12.2007 kl. 15:04

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Það var flottur bílakosturinn við Túngötuna í byrjun vikunnar þegar ég renndi upp frá Hjálpræðishernum á leið heim. Það var greinilegt að mikið lá við og ekki hirt um að leggja vandlega. En eins og þú kannast við Árni minn var það nú talinn kostur í okkar sveit að vera vel ríðandi. Kveðja.

Eyþór Árnason, 8.12.2007 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband