13.12.2007 | 00:23
Velferðarkerfið og viðbótarkerfið
Hingað hringdi í kvöld kona sem var að safna fyrir samtök til styrktar MND sjúklingum. Sjúkdómur þessi er einn skelfilegasti hrörnunarsjúkdómur sem við þekkjum og hefur mikið verið í umræðunni nú um nokkurra ára skeið.
Íslenska þjóðin hefur reynst örlát og skilningsrík þegar leitað hefur verið til hennar með erindi sem þetta og ekki efa ég að svo muni verða nú.
Þetta vekur mig svo til umhugsunar um velferðarkerfi okkar sem svo mjög er gumað af og þá ekki síst í pólitískri umræðu. Og þá vakna stundum hjá mér efasemdir.
Af hverju þarf þetta moldríka samfélag okkar að standa í svona löguðu? Er ekki gert ráð fyrir því að okkar sameiginlegu sjóðir sinni brýnum þörfum fólks sem er örbjarga vegna sjúkdóma eða slysa? Nú á dögunum fagnaði þjóðin úrræðum til handa mænusködduðu fólki. Frá hverjum komu þessi úrræði?- Jú það voru baráttusamtök aðstandenda þessa fólks sem með fádæma dugnaði hafði tekist að afla frjálsra framlaga.
Ég man eftir landssöfnun sem fór fram í Sjónvarpinu. Þar sat einn af ráðherrum þjóðarinnar við síma og tók á móti innhringdum framlögum. Þjóðin sat með tárin í augunum vegna þessa kærleiksríka ráðherra sem fórnaði dýrmætum tíma sínum í að sitja eins og hver annar óbreyttur borgari við síma og talaði við fólk um bágindi og líknarráð gegnum frjáls samskot!
Mörg eru hinsvegar þau verkefni samfélagsins þar sem aldrei skortir peninga.
Hefur þjóðinni borist ákall um frjáls framlög til að kosta framboð okkar í Öryggisráðið?
Ef svo er þá hefur það farið framhjá mér. Utanríkisráðherra sá ástæðu til að kynna fyrir þjóðinni bjartsýni um að okkur takist að ná þessu metnaðarfulla markmiði sem lauslega áætlað mun kosta milljarð. En auðvitað einn eða tvo í viðbót ef ógæfan eltir okkur og þessi brjálsemi fullnustast.
Þessi utanríkisráðherra er formaður Samfylkingarinnar sem kynnir sig sem flokk félagshyggju og jafnréttis. Þessi ráðherra er kona og heitir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Vill ekki einhver reikna það út fyrir mig hversu mörg brýn verkefni í velferðarmálum okkar væri auðvelt að leysa með fjármunum þeim sem pólitíkusarnir ausa í utanríkisþjónustuna til að setja plástur á vanmetakennd sína fyrir hönd okkar ágætu þjóðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Af því að þú þekktir Stefán afa minn á Hrafnhóli þá var ég að setja inn broslega færslu um hann sem jólabarn.
Jens Guð, 13.12.2007 kl. 00:48
Þetta var gott innlegg hjá þér. Það eru fleiri að hugsa á þessum nótum þótt þeir orði það ekki eins vel og þú, annaðhvort væri nú sem nafni afa þíns á Stóra-Hrauni að þú getir orðað hlutina! Það eiga fleiri merkilega afa en Jens frá Hrafnhóli! En ég var að sjá í "kommenti" þínu við afasögur Jens að þú varst að nefna þann merka sveitunga þinn og nafna, Árna í Hólkoti. Hjalti minnist lítillega á hann í Byggðasögunni, en mig uggir að þessum sérstæða manna hafi ekki verið gerð nein skil í rituðu máli. Ég myndi nú mælast til þess við þig að þú kæmir því sem þú átt í fórum þínum og helst meiru á stafrænt form, ekki efa ég að því yrði tekið fagnandi á safninu á Króknum.
Ellismellurinn (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 13:00
Búinn að reikna þetta, of mörg E með veldisvísi...
Steingrímur Helgason, 14.12.2007 kl. 00:03
Þetta er svo merkilegt. Hvar sem ég kem og við hverja sem ég tala þá eru þeir sammála um að þátttaka okkar í þessu öryggisráði er sú dýrvitlausasta hugmynd sem um getur af mörgum slæmum. Þó heldur hver flokkurinn á fætur öðrum áfram með þessa vitleysu. Já svo sannarlega eru mörg félagsleg verkefni brýn. Nokkur verða í tísku um tíma og fá allt sem þau þarfnast og svo er dauði og djöfull þar á milli. Ef það væri til dæmis ekki fyrir ötula baráttu Blindrafélagsins þá væri engin kennsla ætluð blindum í landinu í dag. Við vorum komin aftar en við vorum á sjöunda áratugnum. Nei við þurfum brinningarbúðir fyrir brennivínþyrsta stjórnmálamenn í útlöndum (öðru nafni sendiráð) mútustöðu hjá Sameinuðu þjóðunum. - Það er svo gott fyrir íslendinga á ákveða að senda aðra í stríð barasta ef við þurfum ekki að fara sjálf -
Jón Sigurgeirsson , 18.12.2007 kl. 02:20
sorglegt en satt
forgangsröðin er ekkert smá brengluð!
halkatla, 19.12.2007 kl. 16:01
Gleðileg jól Árni og kærar þakkir fyrir árið sem er að líða. Megi nýtt ár færa þér hamingju og gleði.
Jóhann Elíasson, 22.12.2007 kl. 16:45
Sæll Afi.. Viltist inná síðuna þína.. Ákvað að láta þig fá heimasíðuna hjá Alexander Erni syni mínum, nýjasta langafa barninu.. Jólakveðjur frá fjölskyldunni frá Sámsstöðum.
Eva Hrönn (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 17:56
Þegar LSH og fleiri batterý þurfa að horfa í hverja krónu sem þeir hafa ekki ráð á að eyða, þá finnst mér þetta ekki ótrúleg frétt
það er alveg ömulegt hvernig þetta RÍKA þjóðfélag getur ekki sinnt þeim sem þurfa aðstoð.
En gleðileg jól til þín og hafðu það gott yfir hátíðirnar
Kveðja,
Inga Lára Helgadóttir
Inga Lára Helgadóttir, 24.12.2007 kl. 01:36
Þakka þér kærlega fyrir innlitið Eva mín. Gaman að fá að vita af ykkur þarna fyrir norðan og fylgjast með þegar afkomendunum fjölgar.
Svo óska ég ykkur til hamingju með unga manninn og bið kærlega að heilsa honum.
Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfu og farsældar á nýju ári.
Ykkur bloggvinum mínum óska ég gleðilegra jóla og þakka fyrir samskiptin á árinu.
Árni Gunnarsson, 24.12.2007 kl. 15:09
Sæll Árni minn.
Oft lesið bloggið þitt. Alltaf þótt gaman af og oftast verið sammála, EN stundum ....ekki alveg.
Þá vantar mig "Grettisgötu- umræður/rökræður okkar... sakna þeirra mjög mikið.
En fyrir það fyrsta þá þökkum við hjónin mikið og vel fyrir okkur og börnin... og barnabarnið.
Knúsaðu kellu..., ég er nokkuð viss um að þú gerir það svona reglulega en...í þetta sinn frá okkur fjölskyldunni:) Gleðilega hátíð
Talandi um velferðarmál, þá hefur Karen Ösp lent í þvílíkum ævintýrum með sinn dásamlega Aron Dag og hans 'fötlun'.
Hún var búandi og vinnandi hér á Akureyri þegar hann fékk sína greiningu sem heyrnalaus, og eftir skriflegum staðfestingum Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands þá getur hann ekki búið nema í nálægð við þær höfuðstöðvar, verandi með kuðungsígræðslu (CI- á fræðimennsku) í öðru eyra og væntanlega aðgerð á hinu á árinu '08.
Það væri svo sem alveg nóg með það en... sveitarfélögin virðast ekki getað unnið saman um svona mál. Já, hún verður að flytja suður (sagt 30.04'07 af H.O.T.Í) en ef hún á að geta búið í Rvk. þá þurfa þeir þar í það minnsta að geta boðið henni húsaleigubætur. Hún á með lögum að geta fengið sérstakar húsaleigub. líka vegna aðstæðna, og langra biðlista í félagsíbúðir (en í þær eiga þau litlu skötuhjú rétt á að komast í)
En hvað fær hún, unga mamman, í hausinn "þú ert ekki búin að vera með fast lögheimili hér í Rvk. í þrjú ár, þannig að þú hefur engan rétt inní OKKAR kerfi með slíkar umsóknir. Þú VERÐUR að vera búin að búa hér í þrjú ár"
Það verður að segjast að fjölskyldudeild og skóladeild Akureyrarbæja hafa reynt það sem þeir geta til að tala máli þessarar litlu fjölsk. (aldrei þessu vant þá virðist sem eitthvað sé að virka hjá Ak.bæ) en því miður fyrir daufum eyrum Rvk. borgar.
Það er ótrúlegt að í okkar 'velferðarsamfélagi' skuli fólk skilið eftir með kjálkann niðri á höku í algjörri klemmu, vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir því, í einhverri reglugerð, að manneskjur búi úti á landi, ekki bara meme og mömö.
En elsku Árni minn, þetta átti nú ekki að verða að einhverri ritgerð (en varð það greynilega- biðst afsökunará því) en ég veit að ÞÚ veist að þetta liggur óneitanlega mínu hjarta næst, og ....... þú byrjaðir...!!!
Og... (já enn ekki búin) ...þá er ég fyllilega sammála þér. Af hverju þurfa styrktarsamtök að standa í stríðu við að safna saman krónum og aurum til að styrkja fólk sem á með öllum rétti að geta lifað í þessu 'yndislega VELferðarsamfélagi' sem við 'greynilega' búum í ???
Bestu kveðjur.
Þín tengdó í 'mumu-landi'
Inga lára Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 08:58
Gleðileg jól tengdadóttir og þakka innlitið!
Þetta mál þeirra mæðgina er eitt af mörgum vandræðamálum kerfisins sem er ætlað að vera vandræðamál. Þegar ég fyrst man eftir þá áttum við Íslendingar ekkert kerfi. Þá voru hér embættismenn og kontóristar. Embættismennirnir báru umtalsverða ábyrgð og studdust yfirleitt við lög og þröngar reglugerðir þegar þeir kváðu upp úrskurði sína. Kontóristarnir sátu með spekingssvip og blýant bak við eyrað og leystu erindi fólks eða synjuðu eftir atvikum. Ef til ágreinings dró var erindið borið undir embættismanninn sem kvað upp endanlegan úrskurð. Þá gat enginn setið með heimskulegan þvímiðursvip á galtómu andliti eins og nú tíðkast í opinberum stofnunum.
Á þessum árum var ekki sjálfgefið að börn væru send í framhaldsnám til að þjálfast í heimsku eins og nú þykir sjálfsagt.
Nú sitja kontóristarnir framan við tölvuna og beina til hennar erindum fólks. Einu gildir hvort tölvan er spurð einhverra skiljanlegra spurninga, svarið er ævinlega óskiljanlegt.
Á hverju ári er skipað í fjölmörg ný embætti í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Á hverju ári er nokkur fjöldi þessara ónytjunga hækkaður í launum vegna ábyrgðar í starfi!
Það eina sem fullvíst er í því efni er það að hvað sem upp kemur þá er enginn ábyrgur.
Núna, um þessi jól og áramót munu íslenskir útrásargeldingar bjóða starfsfólki sínu til galafagnaðar í ýmsum myndum til að halda upp á góðan árangur á -þrátt fyrir allt brúklegu hlutabréfaári.
Samanlögðu mun þessi risna kosta nokkur vistunarúrræði fyrir bandingja þvímiðurkerfisins á Íslandi.
Spurning í kristilegum anda jólanna! Hverjir kusu yfir okkur þessa djöf. geldinga í stjórnmálum, og bera þeir sem það gerðu barasta ekki alla ábyrgðina?
Skilaðu fallegri jólakveðju til allra í kringum þig frá okkur þessum gömlu hérna í Stórholtinu.
Gleðileg jól.
Árni Gunnarsson, 25.12.2007 kl. 15:05
Einmitt málið sem ég hef oft velt fyrir mér. Eins má nefna að mörg fyrirtæki gefa öryrkjum afslátt því að ríkið greiðir þeim ekki nóg og finnst það í skildu sinni. FÁRÁNLEGT. Vel mælt um góða, gjafmilda ráherrann sem sat við símann. Þvílík kaldhæðni. Að veikir, fatlaðir og fjölskyldur þeirra þurfi alltaf að standa í eilífri baráttu er gjörsamlega óþolandi. Þetta eru ekki einu sinni það miklir peningar sem þarf til að hafa þetta í lagi. Alla vega ekki í samanburði við margt annað sem þykir sjálfsagt. T.d. finnst menntamálaráherra sjálfsagt og tímabært að lengja nám kennara en það mun kosta okkur marga milljarða á komandi árum fyrir utan þann kennaraskort sem þetta mun verða samfélaginu (eins og hann sé ekki nægur fyrir).
Já,Það er æði misjafnt sem mönnum finnst mikilvægt.
Halla Rut , 26.12.2007 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.