Þráhyggja Spaugstofunnar

Umfjöllun Spaugstofunnar um heilsufar borgarstjórans síðasta laugardag fór misvel í fólk og mjög að vonum. Nú í kvöld tóku þeir til þar sem frá var horfið og þó undir öðrum formerkjum. Maður hefur það á tilfinningunni að þessir ágætu menn hafi verið að gera tilraun í þá veru að storka áhorfendum, knúðir áfram af viðhorfinu: "Við látum engan segja okkur fyrir verkum!"

Hafi ég rétt fyrir mér þá má velta því fyrir sér hvort þjóðin eigi að greiða viðfangsmönnum sínum laun umfram það sem hún neyðist til að borga pólitíkusunum og þeirra uppáhaldsbörnum.

Fyrir miðja síðustu öld var Jónas Jónsson frá Hriflu öflugasti og jafnframt umdeildasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Andstæðingar hans í pólitík reyndu að beita hann því vopni að hann væri geðveikur og fengu það staðfest með áliti læknis. Til er saga af því að á pólitískum fundi hafi Jónas verið truflaður með frammíköllum manns sem ítrekað æpti að honum áburð um geðveiki. Jónas gerði hlé á ræðunni og benti manninum á að geðveiki væri sjúkdómur sem oft mætti lækna. "En,(bætti hann við) heimska er ólæknandi!"

Jónas var baráttumaður fyrir menntun alþýðufólks og svarinn andstæðingur heimskunnar. Eitt sinn hafði hann það á orði á fundi í Borgarfirði að hann hefði aldrei fyrirhitt heimskan Húnvetning.

Um þetta leyti var snilldarhagyrðingurinn Höskuldur Einarsson frá Vatnshorni í Skorradal nýfluttur norður að Mosfelli í Svínadal til sonar síns Einars og konu hans Bryndísar Júlíusdóttur. Höskuldur var háðskældinn og gerði sér oft að leik að beita nágranna sína hrekkjum með þessari list, þó lítil alvara fylgdi að sjálfsögðu. En þessi ummæli Jónasar um Húnvetninga urðu Höskuldi efni til yrkingar:

Ég í Húnaþingi þekki

þrjátíu,-eða hér um bil,

sem Hriflu-Jónas hafði ekki

hugmynd um að væru til.

(Vona að ég hafi farið rétt með þetta.)

Nú eru það tilmæli mín að Spaugstofan snúi sér að heimsku íslenskra stjórnmálamanna því þar er efnið næstum óþrjótandi.

Hugsum okkur bara ráðherrana!  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta er bara þeirra stíll, að svara fyrir sig þegar hart er sótt að þeim samanber páskaþátturinn góði hér um árið sem þeir voru kærðir fyrir.

Gísli Sigurðsson, 3.2.2008 kl. 00:17

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér líkar Spaugstofan, þátturinn var ágætis skemmtun.

En mér finnst gaman að þú rifjir upp söguna um það þegar Kleppsforstjórinn þáverandi lýsti því yfir opinberlega að að Jónas frá Hriflu væri vissulega geðveikur.

Renni nú grun til að þú hafir heyrt það fyrr, en ég ætla að bæta í aðeins.

Helgi Ragnhildarfaðir geðlæknir var mikill skátahöfðíngií frístundum á sinni tíð, fyrir utan að raflosta vonda menn & pólitíska geðsjúklínga í vinnunni, enda mikill sjálfstæðismaður, sem & dóttla hans varð.

Hann átti til dæmis jörðina Úlfljótsvatn & í krafti sinna áhrifa, lét hann hana Skátahreyfíngunni eftir, sem 'gjöf'  í léttum makaskiptum við Hagavík við Þingvallavatn frá ríkinu.

 Afkomendur hans, hafa líka leikið þann gráa leik síðan, að reka þá sumarbústaðaeigendur þar út af jörðinni, þegar lóðarsamnínguinn útrann, & eignast marga fína bústaði fyrir óuppboðna krít á matvirði.  Til dæmis einn af þremur sem að Thor Thorson reisti samtímis & eitt skip þurfti til að flytja inn byggingarefnið í.

Bætur fyrir 230 fermetra steinsteyptann bústað, harðviðarklæddann að innan, á besta stað við Þingvallarvatn með bryggju & bátanausti voru metnar á 900 þúsund af dómara Selfossþings.

Bara ein sjallasaga til þín, minn hávirti ven ...

Steingrímur Helgason, 3.2.2008 kl. 00:37

3 Smámynd: Steini Thorst

Ég ætla að taka undir þetta með þráhyggjuna. Þeir eru búnir að vera alla vikuna að útskýra síðasta þátt með því að þetta sé þeirra hlutverk, að setja fréttir vikunnar fram á skoplegan hátt. Er þetta þá eina frétt síðustu tveggja vikna?

Stundum finnst mér Spaugstofan fyndin en því miður finnst mér hún það sjaldnar og sjaldnar. En persónulega þá hundleiðist mér Spaugstofan þegar hún fer út í það að gera stuttmyndir eins og síðustu tvær helgar. Þeir bara kunna það ekki.

Steini Thorst, 3.2.2008 kl. 00:52

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vísan er frábær!

Jón Valur Jensson, 3.2.2008 kl. 00:58

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég held að ég sé ekkert fordómafyllri eða siðavandaðaðri en gerist og gengur. Og auðvitað ber ég það ekki af mér að hafa brosað dálítið að ýmsum skotum Spaugstofunnar. Svo má ekki gleyma því að smekkur fólks er ólíkur í þessu sem öðru. Ég er svolítið gjarn á að fara í fýlu ef mér sýnist ofleikið og/eða hangið lengi í sömu atriðum.

Mér fannst tímabært að taka starfslokasamningana til umfjöllunar og þá ekki síst að oftar en ekki fá menn þessa samninga ef þeir hafa reynst óhæfir í starfi.

Ekki man ég eftir feitari starfslokasamningi en þeim sem Þórarinn Viðar Þórarinsson fékk þegar hann hvarf frá Símanum og þá vegna þess að hann var orðinn til slíkra vandræða þar að við því varð að bregðast.

Þarna miða ég við þær upphæðir sem þá þekktust við starfslok.

En hann tók við fegins hendi og tók nú til við að dytta að skýlinu sínu við Þingvallavatn,- komst billega frá ýmsu þar.

Já, Steingrímur: Þeir eru margir stórurriðarnir í Þingvallavatni og líka á bökkum þess.

Árni Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 11:44

6 Smámynd: Halla Rut

Góð vísa.

Halla Rut , 3.2.2008 kl. 21:58

7 Smámynd: Eggert Karlsson

Vísan er góð reyndar heyrt hana áður enda er ég Húnvetningur. Ef að  menn eru viðkvæmir fyrir skopi Spaugstofunnar finnst mér að þeir ættu að setja upp önnur gleraugu til að rýna í gegnum því það var ekki spaugstofan sem hóf þennan geðveikislega pólutíska leik heldur borgarfulltrúar Sjallana þó aðalega Villi og Kjartan   Ég dreg það ekki í efa að Ólafur F sé heill á geði. Ég efast mikið meira um geðheilsu þeirra sem mest hafa andskotast út í Spaugstofuna. Árni þú segir að Spaugstofan eigi snúi sér að heimsku íslenskra stjórnmálamanna því þar er efnið næstum óþrjótandi. Telur þú ekki borgarfulltrúa stjórnmálamenn?

Eggert Karlsson, 3.2.2008 kl. 23:48

8 Smámynd: Jens Guð

  Snilldar vísa!

Jens Guð, 4.2.2008 kl. 01:31

9 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Þetta var mjög flott færsla hjá þér. Mér þótti Spaugstofan vera mjög góð, þó ég hefði viljað að þeir hefðu fundið þetta svona út í bláinn en ekki af veikindum borgarstjóra okkar. Þeir gengu nú líka harkalega að Birni Inga, ég gat ekki séð betur en að hann hafði alveg vel verið tekinn í gegn þarna.

En mér fannst góður pistill þinn um HrifluJónas,

Kveðja,

Inga Lára 

Inga Lára Helgadóttir, 5.2.2008 kl. 21:46

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka góðar undirtektir. Þú spyrð mig Eggert hvort ég telji ekki borgarfulltrúana vera stjórnmálamenn?

Líklega er ætlast til þess, en mér gengur afar illa að koma auga á þá. Samt hefur nú Spaugstofan ekki gleymt þeim.

Annars finnst mér nú einhver smjörklípusvipur á þessum hrókeringum í borginni. Umræðan kaffærði alveg úrskurð Mannréttindanefndarinnar og dómaraklúðrið hans nafna míns.

En nú beinast augu mín að þingmönnum Samfylkingarinnar þegar hitnar í kolunum vegna kvótaumræðunnar sem Guðni hóf máls á.

Mikið var hann Guðni lengi að skilja það að hann var kosinn á þing af fólki en ekki hlutabréfum í útgerðarfyrirtækjum.

Árni Gunnarsson, 5.2.2008 kl. 23:35

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mætti leggja Spaugstofuna niður fyrir mér... finnst einhvern veginn alltaf sömu brandararnir þar! ..

Aftur á móti er góð vísa aldrei of oft kveðin.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.2.2008 kl. 16:43

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þórbergur Þórðarson var talinn heimskur þegar hann var að alast upp í Suðursveitinni.Og lýginn.Eftir að hafa velst um í strætunum í R.vík. í nokkur ár, var hann talinn snillingur af Reykvíkingum.Einstaka maður taldi jafnvel að hann væri svo mikill snillingur, að það jaðraði við geðveiki.Sjálfur taldi Þórbegur sig ofvita.En eitt er víst að sá maður sem veit um vanþekkingu sína er ekki heimskur.Maður sem efast um andlegt heilbrigði sitt og andlegan styrk og leitar læknis, er betur settur en þeir menn sem leitast við að niðurlægja fólk vegna vegna pólitiskra skoðana.Spaugstofan er rándýr og hana á að leggja niður sem fyrst.Þeir eru í mörg ár búnir að vera í pílitiskri herför og nota til þess auðvirðileg meðul sem hafa þann eina tilgang að hann helgi meðalið.Þeir hafa starfað í skjóli menntamálaráðherra sem ber fulla ábyrgð á þeim. 

Sigurgeir Jónsson, 10.2.2008 kl. 14:01

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sigurgeir! Ég held að Þórbergur og Ólafur F. hafi átt fátt sameiginlegt. Sá fyrrnefndi bar sjálfan sig á torg frammi fyrir alþjóð og skopaðist að sjálfum sér með því að ræða um leyndustu hneigðir sínar og jafnvel því að gera sig afbrigðilegan. Ólafur vildi forðast að tímabundinn sjúkleiki hans kæmist í hámæli. Þennan sjúkleika hefur samfélag okkar viðurkennt og í dag er ekki ástæða til að fyrirverða sig vegna hans fremur en þó fólk fái magasár.

Mér finnst ósmekklegasta aðförin að Ólafi vera krafan um læknisvottorðið og ástæða til að opna það mál svo þar liggi engir ósekju undir grun. Því má svo bæta við að kannski væri bara ástæða til að krefja alla borgarfulltrúa um læknisvottorð eins og nú er komið.

Spaugstofumenn hafa leyft sér að skopast að helgustu gildum kristindóms og hlotið bágt fyrir af mörgum. Þeim er líklega fátt heilagt.

Ég er þér og ýmsum öðrum hjartanlega sammála um það að þessir ágætu listamenn séu búnir að lifa sjálfa sig í þessu hlutverki og þeim fjármunum sem í Spaugstofuna fara væri betur varið í annað.

En um pólitíska herför og auðvirðileg meðul gegnir öðru máli. Það er lífsnauðsyn að koma skoplegum aulahætti stjórnmálamanna í þann farveg sem þar hæfir.

Árni Gunnarsson, 10.2.2008 kl. 22:26

14 Smámynd: Halla Rut

Ég man eftir brandara sem sonur minn sagði mér reglulega í tvö ár þegar hann var lítill. Eins og litli snáðinn þá átta sumir sig illa á hvenær hlutirnir hætta að vera fyndnir.

Annars fannst mér aðalþátturinn með Ólafi sá besti sem ég hef séð lengi þrátt fyrir dónaskapinn í þeim. En það er svona með húmorinn það er alltaf fyndnast þegar einhver dettur. 

Halla Rut , 11.2.2008 kl. 17:58

15 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Vísan er ansi góð. Ég man eftir þessari sögu, pabbi sagði mér hana..mörgum sinnum.

Rúna Guðfinnsdóttir, 12.2.2008 kl. 00:18

16 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Það er alltaf svolítið viðkvæmt að gera grín að fólki - sé það veikt eða þjáist af einhverjum sjúkdómi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða aðra.  Einn stjórnmálamaður sem hefur alveg fengið að finna fyrir gríni er Gunnar I. Birgisson.  Nú er hann víst með sjúkdóm sem veldur dýpt raddarinnar og fleiri aukaverkunum.  Samt er grínið gert!  Kannski eru menn/konur misjafnlega viðkvæmir - hvað veit ég.   En ég tel samt betra að gera grín af heimsku manna - en heimska flokkast líklegast seint sem sjúkdómur!  Af nógu er að taka af heimsku!!

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 12.2.2008 kl. 14:09

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú segir nokkuð Ingibjörg?

Á slæmum degi finnst mér nú eiginlega heimskan vera þjóðarsjúkdómur hér á Íslandi!

Árni Gunnarsson, 12.2.2008 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband