Ég er afi minn!

Málefni Orkuveitunnar og REI hafa verið fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni allt frá dögum Hallgríms Péturssonar ef mig misminnir ekki. Sumt hefur verið óljóst um efni þeirrar umræðu og reyndar flest ef mig misminnir ekki enn frekar. Sumir hafa gengið brott frá sameiningu þessara fyrirtækja og öðrum verið ýtt burtu.

Hverjir svo komu að því máli er ennþá dálítið á huldu og þó ekki síður það hverjir komu ekki að málinu. Ekki er á hreinu hversu margir meirihlutar verða búnir að ríkja í borgarstjórninni áður en málinu lýkur né heldur hversu margir borgarstjórar verða þá búnir að sitja fyrir hjá myndhöggvara Ráðhússins við Tjörnina. Skelegg ung kona úr borgarstjórninni gekk fram í því að láta semja skýrslu um allt ferli þessa voðalega máls. Skýrslan leit dagsins ljós og versnaði þá allur skilningur fólks til muna en ekki var þó þar á bætandi.

Stofnuð hafa verið mörg teymi áfallahjálpar vegna þessa máls og ýmsir hafa grátið í beinni. Upp kom sú grábölvaða staða að borgarstjóri sem hefur að vísu varamann hefur engan varamann og skilji nú allir sem geta. Varamaður borgarstjóra er að vísu í ábyrgðarmiklum launastörfum hjá umræddri borg en vill ekkert við sinn borgarstjóra kannast og segja menn þetta verra mál en olíuhnuplið í Grímsey. Allir eru löngu búnir að gleyma stráknum hans Davíðs og Árna Matt sem bjargaði lögformlegum framkvæmdum hýðinga á Norðurlandi eystra.

Nú heyrast þau tíðindi að setja þurfi REI nýjan stjórnarformann og tilgreindir menn sem fúsir séu til starfans. Þá er sagður uppi sá kvittur að Ólafur borgarstjóri krefjist embættisins fyrir hönd F listans.

F listinn í Reykjavíkurborg er merkilegt fyrirbæri eins og menn vita. Hann var borinn fram af Frjálslynda flokknum og óháðum. Óháðir eru séríslenskt pólitískt fyrirbæri og samkvæmt orðsifjabók sem er í smíðum merkir orðið "óháður" persónu sem hefur gefið yfirlýsinguna: "Mér er svosem fjandans sama þó þið setjið mig á þennan lista en í þennan andskotans flokk ykkar geng ég aldrei!" (tivitnun lýkur)

F listann í borginni við Sundin skipa í dag fulltrúar Frjálslynda flokksins og fulltrúar þeirra sem voru óháðir flokknum á þeim tíma. Síðan hafa bæzt við fulltrúar Íslandshreyfingarinnar og þeirra sem lýstu sig óháða þeim flokki. Þá eru á listanum þeir sem gengið hafa úr Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni ásamt þeim sem hafa gefist upp á að vera óháðir og gengið til lðs við aðra flokka.

Nú langar mig til að fá að vita hver heldur utan um hið mikilvæga "innra starf" F listans og úr hvaða líkamshluta þessa borgarmálaflokks nýr stjórnarformaður REI verður tilnefndur?

(Og eins og margir aðrir bíð ég núna spenntur eftir að sjá hvaða pólitíkus í borginni grætur næst í beinni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Góður þessi hjá þér .

Magnús Jónsson, 16.2.2008 kl. 15:16

2 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Sæll Árni,

Þessi færsla þín er alveg þrælmögnuð. Frábærust er skilgreiningin á "óháðum".

Með kveðju,

Valgeir Bjarnason, 16.2.2008 kl. 21:05

3 identicon

Merkilegt hvað hér birtast gjarnan góð efni í yrkingar.

Táraflóðið

Tárin flestum gera gott,
og grámans létta muna,
í pólitík nú finnst þeim flott,
að flæða vitleysuna.

Gaui (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 23:28

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Óháði flokkurinn er langstærsti flokkurinn á íslandi og er búinn að vera það lengi.Hann hefur aldrei boðið fram í eigin nafni heldur hafa liðsmenn hans bara kosið aðra flokka og sumir hafa verið á listum þar.Nú er kanski upp runnin sú stund að óháðir eigi að fara að huga að eigin málum og bjóða fram í eigin nafni til Alþingis. 

Sigurgeir Jónsson, 17.2.2008 kl. 22:59

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Góóóður...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.2.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband