30.4.2008 | 13:24
Að afþíða smokkfisk
Eftir mínum málskilningi er ferlíkið ófrosið ef á að afþíða það. Þar með sýnist mér að vísindamennirnir ætli að frysta skepnuna til að geta skoðað hana betur!
En auðvitað er þetta útúrsnúningur hjá mér eða stríðni, því þessi vitleysa er orðin föst í málinu.
Svona ámóta og að fæst er núna þítt í versluninni eða ísskápnum heldur þiðið, sem er auðvitað málbrenglun. Og sumum verður þessi vileysa að yrkisefni eins og eftirfarandi saga greinir frá:
Hjálmar Freysteinsson læknir frá Vagnbrekku í Mývatnssveit er góður hagyrðingur og voðamaður ef hann beitir þeirri íþrótt af ógætni. Eitt sinn kom hann inn í matvörubúð og bað afgreiðslustúlkuna um frosið nautahakk. Stúlkan upplýsti hann um að frosið hakk væri ekki til því það væri allt orðið þiðið.
Innræti Þingeyskra hagyrðinga kemur alltaf best í ljós ef þeir geta beitt varnarlaust fólk þessum hæfileika sem auðvitað er jafn vandmeðfarinn og kvensemin. (Af henni eiga þeir nú reyndar líka nóg.) En Hjálmar kvaddi stúlkuna með eftirfarandi vísu:
Merkilegt er málfarssviðið,
má það teygja breitt og vítt.
Nautahakkið þitt er þiðið
og þér hefur sjálfsagt verið rítt.
Bloggari ritar vísuna eftir minni og ber ábyrgð á leturbreytingum.
Risasmokkfiskur affrystur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
leiðinleg málvilla og mér tekst iðulega að láta pirra mig þegar fólk talar um að afþíða eitthvað sem er þegar frosið
Brjánn Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 13:37
Oft hef ég spáð í þetta og eitt sinn spurði ég Íslenskukennara í stýrimannaskólanum að þessu (Helga Halldórsson heitinn) hans svar var: "Ef þú afþíðir eitthvað hlýtur þú að vera að frysta það"
Jóhann Elíasson, 30.4.2008 kl. 20:33
Árni: er verið að affrysta eða þíða skrímslið hver er hinn rétta fyrirsögn hérna ég er ekki alveg viss??
Magnús Jónsson, 30.4.2008 kl. 23:05
Já það er margt skrítið. Íslenskan er flókið tungumál.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 1.5.2008 kl. 01:09
Magnús. Það er verið að þíða/ affrysta skepnuna. Þess vegna hefði fyrirsögnin átt að vera eins og hún er núna eftir breytinguna.
Upphaflega var sagt: Risasmokkfiskur afþíddur, en eftir þessa athugasemd mína hefur rithættinum verið breytt og fyrirsögnin leiðrétt; meira að segja á minni bloggsíðu. Ef þú hefðir ekki borið fram þessa spurningu hefði ég ekki tekið eftir þessu og athugasemdin orðið kjánaleg.
En þetta er svosem ekki neitt stórslys. Mörg bjögun á daglegu máli er miklu ljótari og fáránlegri en þetta. Og sannarlega tel ég mig ekki vera syndlausan þarna í öllu efni.
Árni Gunnarsson, 1.5.2008 kl. 11:45
Hvað fáið þið mörg epli ef þið fáið helmingi fleiri en 10?
Steinn Hafliðason, 2.5.2008 kl. 01:17
Hehe, snilldarvísa. Takk fyrir þessa færzlu Árni.
Sigurjón, 2.5.2008 kl. 15:02
Einn orðheppinn frændi minn gekk inn í ísbúð fyrir mörgum árum síðan og bað um líter af ís. Afgreiðslustúlkan opnaði kistuna og spurði: Með hvaða bragði? Hann svaraði: Orðbragði. Hún leitaði einhverjar sekúndur, fattaði húmorinn og skellti kistulokinu aftur. Bað hann vinsamlegast um að koma sér út. Megininntakið? Það hafa ekki allir húmor fyrir íslensku.
Ævar Rafn Kjartansson, 3.5.2008 kl. 00:26
Ertu að gera at í okkur Steinn? Mér sýnist nú að talan 20 komi fyrst upp í hugann.
Árni Gunnarsson, 4.5.2008 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.