23.7.2008 | 16:42
Pólitísk vitrun ungra frjálshyggjumanna opinberast í viðtali
´"Markaðurinn" er nafnið á kálfinum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Þar eru birtar hinar margvíslegu fréttir um ástand makaðsmála og jafnframt stöðuna í dag í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar er meðal annars viðtal Björns Inga Hrafnssonar við tvo unga þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þá Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson. Margt er þarna auðvitað athyglivert eins og gefur að skilja þar sem þarna eru í viðtali þeir tveir fulltrúar markaðshyggjunnar sem flestra sjónir beinast að sem álitsgjafa um hinn eina sannleika í fjármálapólitík. Ekki nennti ég að leggjast yfir þetta spjall en las nóg til að sjá að þeir viðurkenndu þá bitru staðreynd að hagstjórnarmistökum væri um að kenna hvernig komið væri. Ekki nennti ég að lesa nógu langt í þessum pistli til að sannfærast um að þessi hagstjórnarmistök væru Vinstri grænum og/eða Frjálslynda flokknum að kenna. Minni bara á það hér að þingmenn beggja þessara flokka vöruðu margsinnis við því á Alþingi hvaða hætta væri yfirvofandi. Þessar viðvaranir byggðust ekki á vitrunum heldur skynsamlegu mati á ástandi. Öllu þessu höfnuðu þeir Illugi og Bjarni með alvörusvip. Nú bíð ég þess að flokksbræður þessara pilta taki til máls og mæri þá fyrir ábyrgan málflutning í blaði markaðsins!
Líkt og venjulega munu þeir einir sem engan þátt áttu í þessum "mistökum" verða að bera þungann af þeim í versnandi lífskjörum og fjöldagjalþrotum heimila.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hann Illugi Gunnarsson, virðist hafa fengið "hagfræði heimskunnar" beint í æð þegar hann var við nám í USA og algjörlega "kokgleypt" allt það rugl sem hægt var að verða sér úti um þarna og ekki bætti úr skák "frjálshyggjuruglið" sem hann varð sér líka úti um, þannig að Milton Friedman varð eins og kórdrengur við hliðina á honum. Bjarni Benediktsson, aftur á móti lét sér "nægja" lögfræðina í Háskóla Íslands og ánetjaðist frjálshyggjunni líka, báðir tilheyra þeir "stuttbuxnagengi" Sjálfstæðisflokksins og hvorugur þeirra veit hvað peningar eru eða hvað það er að þurfa að vinna fyrir sér og sínum. Er von að eitthvað bitastætt komi frá svona mönnum?
Jóhann Elíasson, 25.7.2008 kl. 01:44
Nei Jóhann, það er nefnilega engin von til þess að neitt af viti komi frá þessum piltum. Og ástæðan er einfaldlega sú sem þú nefndir.
Versta slys í hagstjórn sem getur hent er hagstjórn byggð á bóklærdómi.
Árni Gunnarsson, 25.7.2008 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.