Skyldi Geir vera ennþá að pissa?

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að efnahagsástand þjóðarinnar og atvinnuhorfur eru í mestu óvissu en flest í óefni komið. Margir hafa lýst eftir húsbóndanum á þjóðarheimilinu til að bregðast við af myndugleik. Ýmsir óttuðust að hann væri dáinn en því trúði ég aldrei enda fréttast nú smærri tíðindi. Nú fyrir skemmstu birtist svo Geir húsbóndi í fréttum og lýsti yfir að kólnun í þenslunni væri orðin greinileg enda hefði það reynst happadrýgst að hafast ekki að við björgunaraðgerðir af neinu tagi. Þykir mönnum undur að enginn annar hefði komið auga á þessi snjöllu viðbrögð og þann áhrifamátt sem aðgerðarleysi er þegar vanda ber að höndum. Aðgerðarleysi er nefnilega stórlega vanmetinn galdur í stjórn efnahagsmála.

Þessi yfirlýsing Geirs Haarde minnir mig á speki frá afa mínum Árna prófasti Þórarinssyni á Stóra-Hrauni. Á einum stað í ævisögu sinni segir hann frá aðferð sem hann notaði ævinlega við að losa reiðhest sinn upp úr keldu. Í prestakalli hans á Snæfellsnesinu var mikið  um ótræðismýrar og fúakeldur sem torvelduðu reiðleiðir milli bæja. Algengt var að hestar lægju á kviði og festust í þessum keldum og brugðu þá knaparnir á hin ýmsu ráð til að hjálpa klárunum upp úr. Þetta þótti afa mínum óskaplega heimskulegt og hafði enga trú á að þessi vitleysa yrði til annars en að trufla hestinn við að komast upp úr af eigin rammleik. Þegar þetta henti þá hesta sem hann reið sagðist hann hafa stigið af baki í rólegheitum. Síðan seildist hann til tóbakspontunnar og fékk sér vel í nefið. "Að því búnu pissaði ég og þegar því lauk var hesturinn ævinlega kominn uppúr."

Og nú er það bara spurningin hversu lengi Geir verður að pissa?

Hann er áreiðanlega búinn að fá sér í nefið.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Hann er nú komin á aldurinn hann Geir, ég meina þá "blöðruhálskirtilsaldurinn" og kanski þar af leiðanid með þvagteppu.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 8.8.2008 kl. 19:05

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það væri leiðindamál og sannarlega vona ég að svo illa sé nú ekki komið fyrir honum. Annars er Geir ekki öfundsverður af ástandi sem hann ræður ekki við. Þegar svo er komið að stjórnvöld eru háð því að markaðslausnir og orkusala tryggi þjóðinni atvinnu og gjaldeyristekjur má lítið útaf bregða. Skýrt mörkuð atvinnustefna er vandasöm og þá er stutt í forræðishyggju. Mikilvægast er að tryggja umhverfi fyrir nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu og leysa úr læðingi þann kraft sem í fólkinu býr. Það er hinsvegar sjálfstæðismönnum framandi hugsun. Þeir trúa á afl auðmagns í fárra höndum. 

Árni Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 23:05

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Árni mér finnst aðal vandamál Geirs og það jaðrar við bilun að viðurkenna ekki að hann veldur þessu ekki frekar en Halldór á sínum tíma.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 9.8.2008 kl. 00:39

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún: Til þess að stjórnmálamðaður viðurkenni vanmátt sinn eða mistök þarf ákveðna pólitíska stærð. Geir Haarde skortir einfaldlega þessa stærð. Og fleira kemur þó til, m.a. þetta: Það er þegjandi samþykki fyrir því hjá íslenskum kjósendum að þrátt fyrir ýmsa pólitíska ágalla sé Sjálfstæðisflokkurinn eina sjórnmálaaflið sem trúandi sé fyrir efnahagsmálum þjóðarinnar.

Nú er þjóðfélagsástand og horfur í efnahagsmálum í mikilli kreppu og engin lausn í sjónmáli. Þetta ástand er afleiðing aulalegustu efnahagsstjórnar sem mitt langa minni nær til og Sjálfstæðisflokkurinn ber mesta ábyrgð þar. Í dag eiga sjálfstæðismenn engan stjórnmálamann sem þeir treysta til að taka við af Geir og flokkurinn er í mestu tilvistarkreppu sem elstu menn muna. Og ekki bætir svo úr skák að krakkavitleysingarnir í borgarstjórn eru búnir að hrista af Flokknum stóran hluta fylgisins.

Geir bjálfinn er ekki öfundsverður að þurfa að takast á við;- ekki einungis hina sterku samanburðaráru fyrirrennara síns- heldur líka öll vandamálin sem hann skildi eftir. Til þess er hann auðvitað enginn maður, enda engan veginn auðvelt ef allrar sanngirni er gætt.

Árni Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 13:29

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Sanngirni er ofmetin Árni, en sjallarnir skipta Bjarna Ben með Þorgerði Katrínu inná í næztu kosníngum, er mín trúa.  Vonargneiztarnir í Árna Sigfús, Birni Bjarna & Geirharði, eru slokknaðir innanflokkz sem utan.

Steingrímur Helgason, 9.8.2008 kl. 23:04

6 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

pissing  Icelander Prime Minister Geir Haarde pissing    

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 10.8.2008 kl. 04:41

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Steingrímur: Sanngirni er ofmetin og þó fyrst og fremst ástæðulaus í flestum tilfellum. Við gáfumennirnir verðum bara að minnast á hana svona við og við til að gera okkur trúverðuga.

Helga Guðrún: Ég meinti nú reyndar ekki svona áhrifaríkt þvaglát!

Árni Gunnarsson, 10.8.2008 kl. 14:36

8 identicon

Sammála Árna í athugasemd nr.5.

Ástandið núna er afleiðing efnahagsmistaka undanfarna ára. Svo vill til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað efnahagsmálum í nærri 2 áratugi, þannig að tæpast er hægt að benda á neinn annan. Framsókn á þó einhvern hlut að máli varðandi bankasöluna og útlánaþensluna.

Til að ávinna sér traust verða þeir alla vega að viðurkenna sín mistök. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð  á hinni hrikalegu skuldastöðu sem fólk og fyrirtæki er komið í.

Ef þeir taka ekki ábyrgð, þá hafa þeir ekkert traust.

Enn hafa þeir ekki viðurkennt neitt. 

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 22:12

9 identicon

Þarna átti að vera: Sammála Árna í athugasemd nr. 4.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband