13.9.2008 | 19:12
Er ráðgjöf Hafró 269 þorska virði?
September 1774
Í sumar hefur íslensk skúta, eign Thodals stiftamtmanns og Ólafs Stefánssonar amtmanns, stundað veiðar hér við land. Hefur aflinn verið settur á land í Hafnarfirði og Grundarfirði, en aflinn reynst ærið rýr.........Veiðin var alls 269 þorskar..... Skúta þessi er sjötíu rúmlestir að stærð, aðeins fárra ára og smíðuð úr eik.
Ofanritað er tekið orðrétt úr bókinni Öldin átjánda og er ein af mörgum álíka fréttum um afla íslenskra sjómanna í fiskileysisárum sem voru mörg á þessari tíð. Eitt árið var hlutur vertíðarmanna við Suðurland 15 fiskar. Á milli komu síðan ár þar sem landburður af þorski er fréttaefni okkar óborganlegu annálaritara. Fræðimenn Hafró trúa því að þeir geti stjórnað fiskigengd og geymt fiskinn þangað til stofninn hefur náð eðlilegum styrk; nokkuð sem engum fiskifræðingum hefur tekist allt til þessa. Í dag berst þjóðin við efnahagsvanda sem mun leggja í rúst margar fjölskyldur og skilja fjölmörg börn eftir á samfélagslegum vergangi. Ekki hef ég heyrt marga pólitíkusa hafa af því miklar áhyggjur. Þeirra áhyggjur beinast helst að fjármálastofnunum og verktökum.
Í morgunspjalli Rásar 1 nefndi Sigurjón Þórðarson þá leið að nýta fiskimið okkar sem í dag sýna meiri þorskgengd en oftast áður til sóknaraukningar, og leysa stóran hluta efnahagsvandans með því einfaldlega að nýta þá auðlind sem bjargað hefur þessari þjóð frá hungursneyð allt frá landnámi. Þessari hugmynd hrinti Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir útaf borðinu með eftirfarandi ályktun: "Við förum ekki að ganga gegn ráðgjöf vísindanna." Og hún komst upp með það- málið var dautt.
Nú spyr ég mig: Hvernig hefði líf þessara þjóðar þróast ef hún hefði átt sína Hafró árið 1774 og stjórnmálamenn álíka þeim sauðnautum sem nú rölta meðvitundarlaus í gráa húsinu við Austurvöll,- og starfað í umboði fólks með raungreind Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur?
Svarið er einfalt. Þjóðin hefði mestan partinn veslast upp af hungri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Athugasemdir
Árni, Fyrir um það bil 20 árum hitti ég aldraðan skipstjóra í Þorlákshöfn sem sagði mér svipaða sögu og þú varst að segja. Þá hafði hann sem ungur maður farið á vertíð til Hornafjarðar. Þetta var stuttu eftir aldamótin 1900. Hann sagði mér að þeir hafi verið fyrir austan á að giska í tvo mánuði og það hafi fimm fiskar komið í hans hlut.
Síðan þá veit ég að allir þeir sem tala um stöðugleika og jafnvægi í náttúrunni vita ekkert um vistfræði.
Atli Hermannsson., 14.9.2008 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.