20.10.2008 | 01:23
Þessar leiðinda eftirá skýringar
Nú er Ingibjörg Sólrún komin heim og vonandi orðin heil eftir erfiða lífsreynslu þar sem svo mjög hefur reynt á þrek hennar og bjartsýni. Enginn þarf að draga í efa að þjóðin hefur sent henni hlýjar óskir um bata án viðhorfa til stjórnmálaskoðana. Það olli mér hinsvegar miklum vonbrigðum þegar hún svaraði spurningum fréttakonunnar frá Sjónvarpinu rétt fyrir brottförina að vestan. Aðspurð hvers vegna ekki hefði verið brugðist við aðvörunarorðum erlendra hagspekinga um að nú þyrfti að bregðast við yfirvofandi og bráðri hættu á hruni í hagkerfinu: "Þetta sáu nú engir fyrir og þetta eru nú svona eftirá skýringar." Og þetta eru næstum orðrétt svör Geirs forsætisráðherra við sömu spurningum!
Viðvaranir í þesa veru hafa hrannast upp allt frá áramótum og reyndar allnokkru fyrr hafa bæði íslenskir stjórnarandstöðuþingmenn, erlendir hagspekingar sem innlendir haft uppi jafnt í ræðu og riti harðar aðvaranir til stjórnvalda. Nú heita það eftirá skýringar! Er þatta boðlegt? Ég segi nei.
Ég skal nefna fáeina þingmenn úr stjórnarandstöðu: Jón Magnússon, Guðna Ágústsson, Ögmund Jónasson, Steingrím J. Sigfússon, Og fleiri voru þeir reyndar og margir harðorðir. Ég verð að nefna jafnframt hinn reynda og athugula fyrrverandi bankastjóra Ragnar Önundarson sem um nokkurra mánaða skeið hefur ritað margar greinar um þetta efni í Morgunblaðið.
Það er engu líkara en að tryggir flokksmenn beggja stjórnarflokkanna hafi misst ráð og rænu við þau vonbrigði að pólitískir leiðtogar þeirra horfðu á þetta gerast án þes að hreyfa legg né lið. Sjálfstæðismenn á fundi með formanni sínum í Valhöll klöppuðu svo að undir tók í Esjunni þegar Geir sagði þeim frá blómakörfunni sem konunni hans hafði verið send frá kvennadeild Flokksins sem þakklætisvottur fyrir að lána þeim hann Geir á þessum erfiðu tímum!
Núna í síðdeginu funduðu Samfylkingarmenn með fólki sínu og fóru yfir stöðuna. Þar fór ekki mikið fyrir gagnrýni á ráðherra flokksins. Einn aldraður kunningi minn og eðalkrati hringdi í mig nú í kvöld til að vitna. Fundurinn varð honum mikil opinberun, einkum þó að hafa fengið að hlýða á formanninn og svo hinn eilífa og ódauðlega leiðtoga Jón Baldvin. Ég spurði hann- þegar ég komst að- hvort þessir boðberar hins eina Evrópusannleiks hefðu nokkuð rætt um að ástæða væri til að biðjast afsökunar á andvaraleysinu gegn aðvörunarorðum stjórnarandstöðunnar. Hann spurði mig hvort ég væri galinn? Að einhver ætti að biðjast afsökunar á að hafa ekki tekið mark á Vinstri grænum!
Mér fannst ég vera að ræða við barn sem var nýkomið úr heimsókn frá ömmu og afa og hefði fengið að heyra nýjustu útgáfuna á sögunni um hana Búkollu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Árni: mér finnst ein hvern vegin eins og allir hafi verið að vonast eftir kraftaverki, eða ástandið hefur virst svo vonlaust að ekki væri hægt að aðhafast neitt, trúi varla að men hafi skellt skolaeyrum við öllu sem varað var við.
Magnús Jónsson, 20.10.2008 kl. 20:11
Það er alveg rétt hjá þér Árni það hefur engin talið neina ástæðu til að hlusta á öll þau aðvörunarmerki sem búið var að benda á. Það var hlegið af Ögmundi í koningabaráttunni. Því auðvitað vissu bæði Sjálfstæðimenn og samfylkingin betur. Núna er komið að skuldadögum og því miður bera þeir ekki ábyrgð sem að komu okkur í þessa stöðu...Annars er alltaf verið að sannfæra okkur um að háu launin sem margir hafa fengið væri vegna mikillar ábyrgðar...Nú sjáum við það, hver þessi mikla ábyrgð er.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 20.10.2008 kl. 21:23
Að segja í sífellu "það sá þetta enginn fyrir" merkir að sjálfsögðu enginn hjá fólki sem veður í villu og svima vegna eigin ágætis að þeirra mati. Áttaðu þig á því Árni að Vinstri grænir eru ekki taldir fullgildir til jafns við "okkur hin útvöldu". Þegar þú hefur fært svar Jóns Baldvins í þetta ljós er það mjög auðskilið. Hann er í raun að benda á þetta og gera lítið úr Samfó og Sjöllum fyrir vikið.
Í þessu ljósi má einnig skoða rembinginn í okkur Íslendingum svona general. Til dæmis umkvartanir okkar að við skildum ekki hafa verið teknir með þegar seðlabankar Norðurlanda voru að semja við Bandaríkin um daginn. Við vorum ferlega móðgaðir sem eitt merkilegasta ríki Norðurlanda. Mig dettur oft í hug þegar rembingurinn og stærilætin eru að fara með okkur, að alltaf þegar Norðurlöndin berast í tal, dettur okkur aldrei í hug að telja Færeyjar með... þær eru svo litlar og ómerkilegar... meira að segja sjávarútvegur þeirra er svo auðmerkilegur að mati stjórnvalda hér að í öllum samanburði eru þeir aldrei taldir með.
... ætli íslensk stjórnvöld hafi svo mikið sem hringt til Færeyja þegar bankakreppa herjaði á þá á sínum tíma... buðum við þeim kannski aðstoð.
Atli Hermannsson., 21.10.2008 kl. 21:52
Þakka ykkur innlit og athugasemdir. Í litlum samfélögum eins og því sem ég lifði mín þroskaár hafði fólk sterkar skoðanir hvert á öðru. Og þá heyrði maður talað um ómerkilegt fólk. Í þeim samanburði leyfi ég mér að telja flesta þá sem ég minntist á í færslu minni ómerkilegt fólk. Hafi ég rangt fyrir mér þá hefur allt það fólk sem lenti í neikvæðri umræðu í minni gömlu heimabyggð verið mikið úrvalsfólk.
En ég er áhyggjufyllur sem aldrei fyrr. Nú óttast ég að í stað þess að ráðamenn þjóðarinnar læri af mistökunum og endurskoði gjaldþrot þess gildismats sem endaði í stærsta fjöldaslysi Íslandssögunnar þá hefjist þeir nú handa á ný ótrauðir á sömu braut. Og nú verði-sem aldrei fyrr- verktakar með stórvirkan Caterpillar í hundraðavís og risavaxnar vinnubúðir í grennd við öll fallvötn þessa lands og fána markaðshyggjunnar við hún. Og svo verður öskrað:
Ætlið þið að þvælast fyrir uppbyggingunni og stærstu hagvaxtaraukningu þjóðarinnar í samanlagðri kristni? Ætlið þið að hafna kærleiksríkum orkukaupendum sem líta til okkar í náð og bjóðast til að reisa úr rústum mannlíf með hungruð börn, örbjarga gamalmenni og atvinnulausa heimilisfeður á reiðhjóli að tína upp flöskur eftir ferðamenn? Eruð þið á móti menningunni og fólkinu í ykkar eigin landi?
Árni Gunnarsson, 21.10.2008 kl. 23:57
Davíð, konungur Seðlabankans, hefur varað við ástandi bankamála í rúmt ár, ekki gleyma því gamli
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 10:49
Gunnar, eitthvað fóru aðvörunarorð Davíðs Oddssonar hljótt í samanburði við lofsöng hans um útrásarvíkingana. Sem og lofsöng hans helsta ráðgjafa, Hannesar Hólmsteins, um best heppnuðu frjálshyggjubyltingu veraldar.
Jens Guð, 24.10.2008 kl. 01:43
Gunnar minn: Seðlabankinn hefur önnur völd og meiri en að gefa út ábyrgðarlausar yfirlýsingar um mál sem eru á valdsviði ríkisstjórnarinnar. Ég ætla halda mig við þau rök sem Jón Daníelsson setti fram í Kastljósi að í þessu máli hefðu brugðist öll þau pólitísku stjórntæki sem að málinu komu. Og að þar hefði fyrst og fremst Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið átt að bregðast við í tíma og koma erlendri starfsemi bankanna út úr íslenskri ábyrgð þegar stærð þeirra var farin að ógna fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar.
Árni Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 11:55
Ég get alveg tekið undir þetta hjá þér Árni
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 17:31
'Arni minn, þú hittir naglann um það bil beint á hausinn, eins og oftar....
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.10.2008 kl. 21:50
Skot í mark enn og aftur.
Rannveig H, 27.10.2008 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.