27.10.2008 | 23:37
Er það svona fréttaflutningur sem við megum eiga von á næstu dagana?
Það vekur furðu mína að fyrstu fréttir Morgunblaðsins af fundinum í Iðnó skuli vera hálfsannleikur og þó öllu fremur ósannindi. Í meðfylgjandi frétt var sagt frá því að á fundinum hafi verið 10-12 þingmenn og fundargestir hafi púað á þá! Nú vill svo til að ég var á þessum fundi og í hljóðnema tóku til máls: Illugi Gunnarsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon og Bjarni Harðarson. (man ekki fyrir víst hvort hvort þeir voru fleiri) Þar að auki talaði Mörður Árnason, mættur fyrir Samfylkinguna. Púað var hávært á þá Pétur Bl. og Sigurð Kára og nokkuð á Illuga einnig. Fyrir Jóni Magnússyni var klappað ákaft og af þrótti og mest þó er hann greindi frá tillögu þeirri sem hann og tveir aðrir þingmenn Frjálslyndra munu leggja fyrir Alþingi á morgun og þar sem lagt er til að allri stjórn Seðlabankans verði sagt upp störfum og einn seðalabankastjóri með hagfræðiþekkingu ráðinn í staðinn. Jafnframt var klappað ákaft fyrir væntanlegri tillögu sömu manna um innköllun kvótans illræmda. Þá fékk Ögmundur Jónasson einnig afar góðar viðtökur fundarins.
Hverra hagsmunum þjónar það skrökva því upp að púað hafi verið á þá Alþingismenn sem hlutu lófatak og fagnaðarviðbrögð við sínum orðum?
Það er afar varasamt að birta rangar fréttir af fjöldasamkomum, einkum þó þegar þær eru tæpast afstaðnar.
Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hitafundur? Þekki einn sem fór þarna og saga hans er ekki lík þinni. Sá segir að móttökur flestra hafi verið svipaðar. Annars eru Frjálslyndir tækifærissinnar og reyna að nýta sér þær hörmulegu aðstæður sem nú eru komnar upp. Íslenskir kjósendur eiga að skila auðu næst þegar kosið verður, sömu sauðir í öllum flokkum. VG og Frjálslyndir bera sig á brjóst nú og þykjast kunna allt og geta þegar staðreyndin er sú að ekkert íslenskt stjórnmálaafl er trúverðugt. Skila auðu og gefa skít í þessa menn.
Baldur (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:44
Heill og sæll; Árni og aðrir skrifarar og lesendur !
Jú; rétt er það, Árni. Hafa skal það, sem sannara reynist, í frásögu allri, þótt svo í hlut eigi, meðlimir niðurrifsstofnunarinnar Alþingis.
En; hvenær, sérð þú fyrir þér, Árni minn, að þingmenn beiti sér; persónulega, fyrir björgunaraðgerðum, í þágu fjölskyldna og heimila ?
Með beztu kveðjum, sem oftar /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:54
Ég er sérlega ánægð með þær tilögur sem FF er að setja fram, og held að í þeim felist lausn sem við þurfum nauðsynlega á að halda.
Rannveig H, 27.10.2008 kl. 23:56
http://video.google.ca/videoplay?docid=7382297202053077236
H G, 28.10.2008 kl. 00:07
Það er ekki rétt hjá vini Baldurs að móttökur flestra hafi verið svipaðar.
Ögmundur fékk t.d. mikið klapp á meðan þingmenn sjálfstæðisflokks fengu verri móttökur og Illugi var næstum púaður af sviðinu.
Að segja eitthvað annað er bara helber lygi.
Geimveran, 28.10.2008 kl. 00:31
Óskar: Rétt er það að nú reynir á sem aldrei fyrr hverjir af þessu liði meina það sem þeir segja. Mér sýnist nú ekki björguleg byrjunin þegar hver ráðherrann gengur undir annars hönd og blaðrar í glórulausri afneitun um allan aðdraganda fjöldagjaldþrota, atvinnuleysis, upplausnar heimila og fjölskyldna. Allt þetta að hafa verið ófyrirséð og ekki orð um allar aðvaranir erlendra sem innlendra hagspekinga og fulltrúa stjórnarandstöðu. Og innihaldið í stuttu máli það, að ef allt hefði nú farið á besta veg hefði bara ekkert verið athugavert við allt sukkið, afmælisveislurnar og einkaþoturnar sem í ljós kom að þjóðin hafði verið ómeðvituð í ábyrgð fyrir.
Óábyrgur málflutningur ábyrgðarlausra glópa og ómerkinga. Og svo tala þeir ofan í kaupið niður til okkar daglega eins og krakkanna á leikskólunum. Segja okkur að vera bara góð hvert við annað og að láta þá í friði á meðan þeir séu að redda þessu fyrir okkur með aðstoð hjálparstofnana!
Rannveig: Já nú reynir á Alþingi hvort þessar tillögur verða samþykktar eða hvort þeim verður drepið á dreif með orðhengilshætti. Ég er langt frá bjartsýnn því það ætti öllum að vera orðið ljóst að sá stjórnmálaflokkur sem þar ræður mestu er skipaður fulltrúum sem hafa fyrst og fremst skyldur við þá umbjóðendur sem styrkt hafa Flokkinn til áhrifa.
H.G. Þessi síða reynist vera með villum og opnast ekki.
Við þig Baldur hef ég ekkert að segja. Það er alkunna að sumt fólk heyrir það sem það vill heyra, en það stoðar lítið þegar um fjöldasamkomur er að ræða að túlka þá heyrn eins og manni þóknast sjálfum.
Árni Gunnarsson, 28.10.2008 kl. 00:55
Hafþór: Vegna þess að mér virðist það koma í ljós í þinni athugasemd að þú hafir búið lengi erlendis og einhversstaðar þar sem símasamband hefur skort og aðrar tengingar við umheiminn: Tveir þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem þarna töluðu, Ögmundur Jónasson Og Jón Magnússon höfðu flutt margar ræður á Alþingi undanfarin ár og varað við ábyrgðarlausri skuldasöfnun þjóðarinnar umfram þjóðarframleiðslu. Og margir, margir fleiri úr þeim hópi.
Það er auðvitað spurning hvað við höfum að gera með svona menn, eða hvað?
Árni Gunnarsson, 2.11.2008 kl. 13:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.