6.11.2008 | 00:34
Samfylkingin getur ekki afneitað ábyrgð
Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn í 17 mánuði og skellt skollaeyrum við öllum aðvörunum um þá hættu sem yfir vofði og er nú orðinn að versta raunveruleika sem yfir þjóðina hefur dunið í seinni tima sögu hennar. Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð í fararbroddi var arkitektinn í brjálsemi útrásarinnar og sá um verkstjórnina. Sá um að draga að efnið í brennuna miklu og verndaði brennuvargana með skattaívilnunum. Eftir að Samfylkingin gekk til liðs hafa ráðherrar hennar haft stefnuna á inngöngu í EB að sínu eina markmiði ásamt því að formaðurinn hefur verið önnum kafinn við að eyða skattpeningum þjóðarinnar í þotuflug og veisluhöld með einræðisherrum og mannréttindaníðingum í því skyni að undirbúa setu í Öryggisráði S.Þ., snautlegustu birtingarmynd á vanmetakennd örþjóðar með stórmennskurembing. Af mörgu er að taka í verkum og þó heldur meðvitundarleysi þessa auma flokks með evru- og EB heikennið. Verst af öllu er þó að ráðherrar flokksins bera á því ábyrgð að halda ónýtri ríkisstjórn við völd í stað þess að slíta stjórnarsamstarfi svo forseti lýðveldisins geti skipað utanþingsstjórn með hæfu fólki og síðan verði gengið til kosninga þegar ráðrúm gefst.
Á þeim tíma gæti- ef vel tekst til með valið í þá stjórn- komið upp sú ólíklega staða að samfélag þjóða sæi von um að hér byggju ekki einvörðungu grátbroslegir rugludallar.
Burt með spillinguna og afneitunina!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er þér algjörlega sammála. Það er ótrúlegt hvað fólk breytist við það eitt að komast til valda. En það má ekki gleyma þætti Halldórs Ásgrímssonar í þessum hremmingum sem við erum að ganga í gegnum. Davíð og Halldór eru upphafsmenn af þessum hamförum, það er alveg klárt mál. En það sem svíður mest er að Samfylkingin skuli samþykkja aðgerðir þessara manna. Það á að slíta þessu stjórnarsamstarfi núna strax. Þetta er ekki að ganga upp
sterlends, 6.11.2008 kl. 08:16
Get ekki verið meira sammála! Utanþingsstjórn enda kassaafgreiðsluliðið gersamlega úr takt við tilveru okkar hinna.
Stjórnmál án stjórnmálamanna - venjulegt fólk á þing!
Ævar Rafn Kjartansson, 6.11.2008 kl. 14:25
Andra Snæ Magnason sem forsætisráðherra!
Ævar Rafn Kjartansson, 9.11.2008 kl. 22:39
Sterlings. Samfylkingin er bullandi meðsek og því miður loka allt of margir augunum fyrir því. Nú kvíði ég því mest að þeir sprengi stjórnina og kalli eftir kosningum áður en þjóðin áttar sig. Allar vísbendingar um kjörfylgi eru þeim í vil þessa stundina. Tímann fram að næstu kosningum þarf að nýta til þess að byggja upp nýtt stjórnmálaafl sem stefnir á ný og breytt gildimat til að byggja á viðreisn í breiðum skilningi.
Og ég sé fyrir mér Katrínu Fjeldsted sem vonarstjörnu við þá vinnu. Hún gæti átt fylgi nokkurs hóps úr Sjálfstæðisflokknum. Jafnframt býr hún að reynslu sem Alþingismaður og var ýtt út úr Flokknum vegna læknisfræðilegs "hreinlætis" sem fór í taugarnar á samtryggingaröflunum. Og hún er náttúruverndarsinni af heilum hug.
Ævar minn. Þetta er allt of góð hugmynd til að geta orðið að veruleika!
Árni Gunnarsson, 10.11.2008 kl. 00:43
Já sennilega verður þetta bara Animal Farm áfram með svínin í fremstu röð.
Ævar Rafn Kjartansson, 10.11.2008 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.