14.11.2008 | 15:43
Núna eru geysilega skemmtilegir og spennandi tímar framundan fyrir okkur sjálfstæðismenn!
Var að fylgjast með fréttamannafundi úr Valhöll í Sjóvarpinu. Þarna varð ég svo agndofa yfir þeirri veruleikafirringu hjá forystuliði Sjálfstæðisflokksins að mér brá alvarlega. Ég hafði búist við yfirlýsingu forsætisráherrans um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákveðið að segja ríkisstjórnarumboði Geirs lausu og fara þess á leit við forsetann að skipa faglega utanþingsstjórn sem tæki til starfa á mánudag.
En, nei! Geir forsætisráherra taldi ástæðu til að nota ríkisfjölmiðilinn til að beina athyglinni að innanbúðarstarfi íhaldsins á erfiðustu hörmungartímum þjóðarinnar eftir móðuharðindin í lok átjándu aldar. Formaður og varaformaður þessa ógæfuklúbbs þurftu að beina sviðsljósinu að Flokknum sem samkvæmt síðustu mælingum nýtur nú fylgis fámenns trúarbragðahóps til að greina þjóðinni frá eftirfarandi:
1. "Það eru geysilega spennandi og skemmtilegir tímar framundan fyrir okkur sjálstæðismenn!"
2. "Við erum lifandi stjórnmálaafl og erum fljótir að bregðast við!"
3. Eftir nærri tveggja mánaða efnahagskreppu af áður óþekktri stærð meðal vestrænna ríkja, hælir sitjandi forsætisráðherra sér af snöggum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar undir forystu sjálfstæðismanna. Og vill láta þjóðina vita að nú hafi verið ákveðið að skipa nefnd til að reyna að leysa pólitískan ágreining innan flokksins!
Eftir hverju er íslenskur almenningur að bíða hjá þessum pólitísku óbermum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þú segir nokkuð! Maður hlýtur að spyrja sig hvaða "skemmtilegu tímar" þetta séu? Ætli það eigi að stofna her á Íslandi? Einkavæða virkjanirnar? Það er víst hægt að græða svakla á svoless stöffi!
kv.
Ólafur Þórðarson, 14.11.2008 kl. 17:27
Góðar athugasemdir hjá þér Árni; sjaldan hefur verið jafn hræðilegt að horfa uppá, hlusta og upplifa þennan íhaldssama flokk... hugmyndasnauðan, firrtan og skelfilega duglítinn
Jón Þór Bjarnason, 14.11.2008 kl. 17:36
Var hann að koma skilaboðum til þeirra sem eru verndaðir af skjaldborginni. Eiga þeir skemmtilega tíma í vændum?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.11.2008 kl. 17:37
"Enginn er svo mikilvægur að flokkurinn sé ekki mikilvægari." Þetta sagða´nn og því samkvæmur sjálfum sér. En kannski er hann svona ringlaður eftir snúninginn með sætustu stelpunni á ballinu?
Auðun Gíslason, 14.11.2008 kl. 17:40
Sæll Árni, Endar þetta ekki með því að lýðurinn gerir byltingu? Ég spái að það verði í lok janúar eða byrjun febrúar, Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 14.11.2008 kl. 18:29
Sæll Árni, mikið er ég hjartanlega sammála þér. Allir áttu von á miklum tíðindum, eitthvað sem skipti máli í umræðu dagsins. Í staðin fengum við fréttatilkynningu sem venjulega er send með tölvupósti innan hóps þeirra.
Gunnar Skúli Ármannsson, 14.11.2008 kl. 18:30
Þeir pissa ekki bara í skóinn sinn heldur annarra líka,Og ekki tók betra við á fréttamannafundinum hjá þeim stjórnarhjúum Ingibjörgu og Geir. Ég held virkilega að fólk sé ekki að trúa á forsætisráðherra og hans liði í dag. Þau spila sömu rulluna og útrásarvikinnar við gerum allt rétt, og þetta er öðrum og öðru að kenna. Eins og Auðun seigir kannski er Geir ruglaður eftir snúninginn með ISG, því aldrei hefur nokkur manneskja brugðist jafnaðarflokki eins mikið og hún. En eitt er víst Árni það verður ekki þetta fólk sem þarf að vera í biðröð fyrir utan Fjölskylduhjálp eða Mæðrastyrksnefnd.
Rannveig H, 14.11.2008 kl. 18:33
Algjörlega sammála þér þarna Árni. Alveg mín upplifun af þessu innihaldslausa skrumi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2008 kl. 18:47
Sæll félagi.Góður pistill eins og vanalega.Tek undir með þér.Kvitta hér fyrir mörg innlit.Kært kvaddur
Ólafur Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 19:46
Það er rétt hjá Rannveigu, að þeir pissa í skóinn sinn og annarra en þeir míga líka yfir sjálfa sig og landsmenn alla.
Jóhann Elíasson, 14.11.2008 kl. 20:20
Heill og sæll; Árni, og aðrir skrifarar og lesendur !
Þakka þér; þessa þörfu ádrepu, Árni.
Þarna lýsir þú; í sjónhending, afglapahætti og sérgæzku frjálshyggjuliðanna, af þessum meið, hverjir hælazt um, og hlakka, yfir óförum heimilanna og fyrirtækjanna, hver eru; mörg hver, þegar afgengin, eða þá, á leið sinni til vanvirðu og tjóns, fyrir sakir óaldar flokka þeirra; margvíslegra, sem tekur marga mannsaldra, að afmá, þeirra illu verksummerki mörg.
Ég ætti kannski; að bíða, um hríð, með lýsingar mínar, á þeim Sýslumönnum - Tollheimtumönnum og þeirra uppboðanna liðsfólki, en, ....... komið gæti sá dagur, að ég hleypti bræði minni fram, miðað við það neyðarástand, hvert nú ríkir, hér á Fróni, gott fólk !!!
Með beztu kveðjum; spjallvinur góður, sem þið önnur, hver hér hafið viðkomu, á síðu hins mæta Árna Gunnarssonar /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 21:44
Hárrétt Árni,
ég var að velta þessu fyrir mér líka í minni færslu.
Sigurður Þórðarson, 14.11.2008 kl. 23:03
Já þetta var með ólíkindum að horfa uppá - og hreint út sagt misnotkun á RÚV að bjóða upp á þessa útsendingu. Siðleysið og Ábyrgðarleysið er algjört
Steinar Immanúel Sörensson, 14.11.2008 kl. 23:03
Þakka ykkur öllum innlitið og undirtektirnar ágæta fólk. Í því ástandi sem þjóðinni er boðið upp á þessa dagana er mikilvægt að fólk fylgist með því hvað ráðamenn okkar segja og þó ekki síður því sem þeir forðast að segja. Gleymum því ekki að þetta fólk starfar nú í afdráttarlausu umboði margra þeirra sem mest verða fyrir barðinu á mistökum þess. Að endurnýja það umboð er ófyrirgefanlegt öllum þeim sem til þess láta glepjast.
Næstu kosningar til Alþingis eru ein mikilvægasta örlagastund sem sum okkar eiga eftir að lifa. Gjaldþrot dómgreindar heillar þjóðar er skelfilegri atburður en gjaldþrot í venjulegri merkingu.
Bestu kveðjur til ykkar allra!
Árni Gunnarsson, 15.11.2008 kl. 00:32
Hárrétt....og ég er farinn að spyrja mig hversu lengi getur lýðræðislega kosinn stjórn með svona hrikalegt klúður á bakinu, setið lengi lagalega séð? Varla verður þetta svona það sem eftir er af kjörtímabilinu. Hvar á að draga mörkin? Þetta getur bara ekki staðist lög hvernig þessi ríkisstjórn hagar sér
sterlends, 15.11.2008 kl. 00:39
Þakka þér Árni fyrir þessa færslu.
Það er umhugsunarvert að forsætisráðherra skuli fá tíma í beinni útsendingu til að greina frá því að Flokkurinn ætli að setjast niður til að leysa sívaxandi innanhúságreining og fólksflótta. Ætli aðrir flokkar geti fengið slíka drottningarmeðferð?
Með kveðju og þakkir fyrir aðrar góðar færslur.
Valgeir Bjarnason, 15.11.2008 kl. 09:38
Firríngin er algjör...
Steingrímur Helgason, 15.11.2008 kl. 10:03
Sjálfstæðisflokkurinn kemur núna til með að hljóta sama dóm og Framsókn gerði í síðustu kosningum. Tími hans í íslenskum stjórnmálum er liðinn. Það á bara eftir að segja Geir það þannig að hann skilji. Ekki það að það sé ekki búið að segja honum þetta en maðurinn virðist vera sá veruleikafyrrtasti á landinu fyrir utan trúðinn í Seðlalausa bankanum.
Ævar Rafn Kjartansson, 15.11.2008 kl. 13:27
Árni. er ekki nokkuð gróft að líkja saman móðuharðindunum og núverandi ástandi, móðuharðindin feldu næstum 1/3 þjóðarinnar og gerði margan manninn landflótta.
Ástandið er ekki glæsilegt eins og flestir eru að átta sig á, en eru menn ekki að mála skrattann á veggin, eru ekki til eignir eins og Björgólfur segir fyrir meiripart þessara skulda, er það ekki staðreynd að þjóðin er ekki fátæk, hún á bara ekki mikið af peningum-gulli eða einhverju prjáli sem versla má með, er það ekki vandamálið.
Halda fullorðnir menn virkilega að öll okkar vandamal leysist ef ríkisstjórnin segir af sér ?, hvað tæki þá við, það er auðvelt að gagnrýna en örðugra að stjórna þá er ekki hægt að segja eftirá að að hefði verið betra að vera með rússneskar rúblur sem gjaldmiðil, því það er sá eini gjaldmiðill sem okkur hefði boðist að taka upp.
Ég ætla að vona að það verði skemmtilegir tíma í Íslenskri pólitík framundan, því við þurfum á því að halda, þeir okkar sem ætla að byggja upp Ísland, en ekki rífa það niður eins og allt of margir virðast hafa að sínu leiðarljósi.
Magnús Jónsson, 16.11.2008 kl. 01:06
Magnús: Það er rétt að "móðuharðindi af mannavöldum" er gildishlaðin ályktun og hvatvísleg. Hvatvísi er ekki endilega slæm og stundum nauðsynleg, enda hefur þessi samlíking verið notuð áður um aðrar aðstæður og um hana verið deilt.
Ég veit ekki um neinn sem því hefur haldið fram að öll vandamál leysist ef ríkisstjórnin segir af sér. Ég veit ekki heldur til þess að neinn trúi því að það sé ávísun á gott og friðsælt samfélag að dæma lífshættulega sakamenn í fangelsi. En ég held að það sé nokkuð góð sátt um það að fólk beri ábyrgð á gerðum sínum hver sem virðingarstaða þess er í samfélaginu. Ég er ófáanlegur til að fallast á að sú afstaða mín og nokkurs þorra þjóðarinnar að núverandi ríkisstjórn eigi að víkja - og jafnframt þær stofnanir aðrar sem brugðust með svo hrikalegum afleiðingum- sé ígildi niðurrifsafla.
Það viðhorf sem þið Þorgerður Katrín virðist eiga sameiginlegt að framundan séu spennandi tímar og skemmtilegir megið þið auðvitað hafa í friði.
Árni Gunnarsson, 17.11.2008 kl. 01:20
Óskar Arnórsson, 19.11.2008 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.